RÍMfræði - málstofa á vegum Rannsóknastofu í máltileinkun

Föstudagur 9. mars kl. 13-14.30
Stofa 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Orðaforði og málfræði eru veigamiklir þættir í tileinkun annars máls og á þeim stoðum hvíla færniþættirnir fjórir. Í þessari málstofu verður litið á orðaforða og málfræði út frá mismunandi sjónarhorni; í fyrsta lagi verður fjallað um hvernig orðaforði byggist upp á fyrstu stigum máltileinkunarinnar, í öðru lagi hvernig nota má orðaforða sem brú milli grannmála og í þriðja lagi verður fjallað um fallatileinkun í íslensku millimáli út frá orðasafnsdrifinni kenningu um tileinkun annars máls.

Fyrirlesarar:

  • Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Séð og heyrt. Um tileinkun orðaforða í íslensku sem öðru máli
  • Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku: Brú milli mála
  • María Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli: Fall í ljósi úrvinnslukenningarinnar

Málstofustjóri: Jón Gíslason stundakennari

Útdrættir:

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli
Séð og heyrt. Um tileinkun orðaforða í íslensku sem öðru máli

„Mér finnst best að læra nýtt orð ef ég get séð og heyrt samtímis“. Þessi ummæli nema í íslensku sem öðru máli við HÍ gefa innsýn í mikilvægan þátt við uppbyggingu orðaforða. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókn á því hvernig málnemar í íslensku sem öðru máli byggja upp orðaforða sinn. Kostir hinnar eigindlegu rannsóknaraðferðar voru nýttir til að nálgast tileinkunarferlið út frá daglegu lífi og reynslu málnemanna. Niðurstöðurnar sýna m.a. mikilvægi raunverulegra aðstæðna og samhengis í tileinkunarferlinu. Í þessu sambandi verður jafnframt vikið að nýju þróunar- og rannsóknarverkefni, Íslenskuþorpinu, en megintilgangur þess er að skapa aðstæður fyrir nema í íslensku sem öðru máli til að nota nýja málið við daglegar aðstæður.

Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku
Brú milli mála

Ensk máláhrif í íslensku samfélagi eru mikil og flestum er augljós tilgangurinn með því að læra ensku. Ungu fólki er ekki endilega ljóst hvaða gagn má hafa af því að læra fleiri tungumál þannig að áhugahvöt (e. motivation) þarf að byggjast á öðru.

Oft má heyra nemendur á  grunn- og framhaldsskólastigi kvarta yfir því hvað danska sé leiðinleg eða erfið. Þó að slíkar kvartanir risti ekki alltaf djúpt er þörf á að breyta ímynd námsgreinarinnar/tungumálsins.

Stór hluti af grunnorðaforða („kerneord“)  í dönsku á sér samsvörun í íslensku – þ.e. orðin eru samstofna eða eðlislík (e. cognates). Viðfang þessa fyrirlestrar er að skoða hvort mögulegt sé að nota þá staðreynd til að auðvelda byrjendakennslu í dönsku með því að leggja áherslu á tileinkun skyldra orða.

 

María Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli
Fall í ljósi úrvinnslukenningarinnar

María og Sigríður hafa undanfarin ár horft til algilda stigveldis úrvinnslukenningarinnar (processability theory) til að spá fyrir um hvernig málkerfi byggist upp í íslensku millimáli. Í þessum fyrirlestri beina þær sjónum sínum að fallakerfi í íslensku millimáli og setja fyrst fram spá um fallatileinkun byggða á rannsókn Kristof Batens (2011) á tileinkun falla í þýsku sem öðru máli sem gerð var á grundvelli úrvinnslukenningarinnar og þeirri fallaumræðu sem hefur skapast hér á landi innan hlutverkamálfræðinnar. Þá segja þær frá rannsókn sinni á tileinkun falla í íslensku millimáli og líta á niðurstöður hennar með hliðsjón af áðurnefndri spá.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is