Á fortíðin erindi við nútímann?

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Sameiningarþráður þessara erinda er söguhyggja – eða umræða um það viðhorf að skýringa og skilnings sé að leita í sögunni. Jafnframt fjalla erindin öll um íslenskan menningararf og gildi hans.

Flutt verða erindi um texta tveggja skálda, Gríms Thomsen frá 19. öld og Guðfinnu Þorsteinsdóttur „Erlu“ frá 20. öld. Eitt erindi snýst um íslenska bragsögu, með sérstöku tilliti til sálmakveðskapar.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Þórður Helgason, dósent: „Hvers vegna er mestallur gamli sálmaskáldskapurinn okkar uppsölumeðal og óæti hverri sál?“ Nokkur orð um sálma og skáldskap
  • Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor: Maddama Ólöf og Aumingja Rósa. Konur í sagnaþáttum Guðfinnu Þorsteinsdóttur
  • Kristján Jóhann Jónsson, dósent: Þjóðerni, skáldskapur, þversagnir og vald, - eða er sagan alltaf sama sagan

Málstofustjóri: Helgi Skúli Kjartansson, prófessor við Menntavísindasvið

Útdrættir:

Þórður Helgason, dósent: „Hvers vegna er mestallur gamli sálmaskáldskapurinn okkar uppsölumeðal og óæti hverri sál?“ Nokkur orð um sálma og skáldskap

Nítjánda öldin var tími mikilla sviptinga í bókmenntum. Nýjar hugmyndir um skáldskap urðu til þess að kynslóðaskipti urðu í bókmenntum Íslendinga, ekki síst í ljóðagerð og nýr smekkur varð til. Það varð sífellt augljósara öllum að hinar nýju hugmyndir fóru hjá garði í sálmakveðskap landsmanna. Þar sat allt við hið sama gamla.

Áhugamenn um góðan skáldskap, lærðir jafnt sem leikir, létu til sín taka í ræðu og riti um niðurlægingu hins andlega skáldskapar og spurðu knýjandi spurninga: Geta sálmar orðið eiginlegur skáldskapur að hætti nýrra viðhorfa? Er í rauninni brýnt að sálmar elti annan skáldskap? Þurfa sálmar að fara að bragreglum? Hvað með klassíkina, t.d. Hallgrím Pétursson og fleiri höfunda sem þjóðin hafði vanist við? Er ástæða til að lagfæra sálma þeirra? Hvar er nýr Hallgrímur? Og svo fannst hann!

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor: Maddama Ólöf og Aumingja Rósa. Konur í sagnaþáttum Guðfinnu Þorsteinsdóttur

Skáldkonan Guðfinna Þorsteinsdóttir (Erla) gaf út tvær bækur með þjóðlegum sagnaþáttum, Völuskjóðu (1957) og Vogrek (1959) og lét auk þess eftir sig mikið efni í lausu máli. Eins og aðrir alþýðlegir sagnaritarar, sem flestir voru karlar, skrifaði hún þætti af förumönnum og kynlegum kvistum sem og hefðbundar hrakningasögur af Austurlandi. Guðfinna skrifaði hins vegar meira um konur en aðrir sagnaritar gerðu og er alla jafna mun persónulegri og sýnilegri í frásögnum sínum en þeir. Konurnar í þáttum Guðfinnu eru af öllum stigum þótt mest fari fyrir vinnukonum og konum sem minna mega sín. Sagnaritarinn Guðfinna og konurnar hennar verða í brennidepli í þessum fyrirlestri.

Kristján Jóhann Jónsson, dósent: Þjóðerni, skáldskapur, þversagnir og vald, - eða er sagan alltaf sama sagan

Rætt verður um nýsöguhyggju. Skáldið og fagurfræðingurinn Grímur Thomsen varð athyglisvert söguefni samlanda sinna. Í ýmsu af því sem sagt hefur verið af Grími, og kennt sem bókmenntasaga,  hefur þörfin fyrir litríkar frásagnir ráðið för, frekar en smámunasemi í heimildanotkun og tengsl við menningarsögu og umhverfi.

Sjálfur endursagði Grímur Íslendingasögur og gaf út í Danmörku í frásagnaþáttum og sagði margar sögur úr íslenskum miðaldabókmenntum í kvæðum sínum og hallaðist þá einmitt að litríkum frásögnum frekar en smámunasemi í heimildanotkun. Í þeim sögum sem sagðar voru af Grími og þeim sögum sem hann sagði af íslenskri menningu birtist sterk þörf til þess að horfa á söguna í ljósi samtímans en það er einmitt einn af hornsteinum nýsöguhyggjunnar.   

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is