Á milli landa

 

Málstofan fjallar um Íslendinga sem settust að í BNA og Kanada á síðustu áratugum 19. aldar og í byrjun 20. aldar og afkomendur þeirra og tengsl við gamla landið. Hún tengist verkefni sem RANNÍS styrkti um íslensku sem erfðamál fyrir vestan og námskeiði sem boðið var upp á við HÍ á haustmisseri 2015 um vestur-íslensk fræði. Fyrirlestrarnir fjalla bæði um mál og menningu. Lokafyrirlesturinn fjallar hins vegar um örlög frumbyggja Ameríku eftir að Evrópumenn tóku að streyma þangað í leit að betra lífi.

 

 

Málstofustjóri: Úlfar Bragason

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 10-12 (stofa 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Höskuldur Þráinsson og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emeritus í íslensku og prófessor í annarsmálsfræðum: Leitið og þér munuð finna: Um íslensku í Vesturheimi á 21. öld
  • Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, doktorsnemi í íslensku: Merkingarflokkar í tveim heimsálfum: Samanburður á íslensku og vesturíslensku
  • Alda B. Möller, MA-nemi í íslensku: „Þarf eg skjaldnast að kvarta yfir vinnu leisinu“: Tveir íslenskir athafnamenn í Vesturheimi og móðurmálið í meðförum þeirra
  • Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Án tengsla við upprunann er maður „týndur“: Táknrænt gildi íslenskunnar í Vesturheimi

Laugardagur 12. mars kl. 13.00-14.30 (stofa 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í enskum bókmenntum: Norður eða niður?
  • Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Bréfavinátta
  • Linda B. Gray, prófessor í sagnfræði við Union Institute & University, Vermont, BNA, og Fulbright gestaprófessor: Native American Studies: Compromise and Controversy

​Fundarstjóri: Úlfar Bragason rannsóknarprófessor

​Útdrættir:

Höskuldur Þráinsson og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emeritus í íslensku og prófessor í  annarsmálsfræðum:  Leitið og þér munuð finna: Um íslensku í Vesturheimi á 21. öld

Í rannsóknaverkefninu „Mál, málbreytingar og menningarleg sjálfsmynd“, sem Birna Arnbjörnsdóttir og Höskuldur Þráinsson hafa stýrt, var safnað miklu nýju efni um vestur-íslensku, einkum með viðtölum við um 120 íslenskumælandi einstaklinga í Kanada og Bandaríkjunum og könnunum sem þeir tóku þátt í. Í þessum fyrirlestri verður sagt frá þeim aðferðum sem voru notaðar við efnissöfnunina, gerð grein fyrir nokkrum niðurstöðum um einkenni vestur-íslensku á okkar tímum og þau borin saman við eldri heimildir um málið. Í þeim samanburði verður því m.a. lýst hvernig sérstakar aðstæður við máltöku (máltileinkun) geta haft áhrif á erfðarmál (e. heritage languages) eins og vestur-íslensku og að hvaða marki má greina slík áhrif frá þeim einkennum sem stafa af takmörkuðum tækifærum til að nota málið við fjölbreyttar aðstæður. Í þeim samanburði munu hugtökin „ófullkomin máltaka“ og „málhrörnun“ koma við sögu.

Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, doktorsnemi í íslensku: Merkingarflokkar í tveim heimsálfum: Samanburður á íslensku og vesturíslensku

Verkefnið „Evolution of Semantic Systems“ skoðaði fjóra merkingarflokka; ílát, staðsetningar, líkamshluta og liti, í öllum indóevrópsku málunum, til þess að sjá hvernig merking breytist og þróast. Síðar var rannsóknarefnið svo nýtt til að afla gagna í vestur-íslensku og Kanada-ensku.

Fyrri rannsóknir á hugtakamerkimiðum hafa lagt áherslu á breytingu á merkingu stakra orða, og reiða sig þá á merkingu sem hægt er að fá fram úr textum. EoSS skoðar hvernig orð eru notuð til þess að skilgreina hluti. Með því að nota sama rannsóknarefnið, er hægt að sjá hvað er sameiginleg/mismunandi.

Í athugununum kom fram ákveðið stigveldi, þó líkamshlutarnir hefðu þá sérstöðu að hver hluti á ákveðið nafn. Skiptingin á milli líkamshluta virtist nokkuð skýr og samræmi á milli skiptinga vesturíslenskumælandi og Íslendinga.

Litirnir eru umdeildur merkingarflokkur sem mikið hefur verið skrifað um. Fyrstu próf í íslensku bentu til þess að grunnlitir væru ellefu, en að tvö síðustu heitin, fjólublár og appelsínugulur, væru að einhverju leiti afbrigðileg. Ef þau eru grunnlitaheiti í íslensku eru þau mjög nýlega orðin slík þar sem þau eru svo gott sem óþekkt í vestur-íslensku.

Alda B. Möller, MA-nemi í íslensku: „Þarf eg skjaldnast að kvarta yfir vinnu leisinu“: Tveir íslenskir athafnamenn í Vesturheimi og móðurmálið í meðförum þeirra

Um og rétt eftir miðja síðustu öld var enn að finna fólk í Bandaríkjunum og Kanada sem flust hafði þangað eða fæðst þar á fyrstu árum landnáms Íslendinga í Vesturheimi. Þeirra á meðal voru íslenskir menn sem mestalla ævi sína höfðu stundað viðskipti við þarlent fólk, lifað og hrærst í ensku málumhverfi og sem virðast hafa haft lítil samskipti við landa sína í byggðum Íslendinga. Forvitnilegt þótti að hnýsast í gögn um málfar tveggja slíkra manna ekki síst vegna þess að þau reyndust fjölbreytt og voru lítt þekkt áður. Annar þeirra var Helgi Einarsson, fiskimaður í Narrows í Kanada (1870–1961), en hinn Jósef Jónsson Myres, stórbóndi í Norður-Dakóta (1879–1974).

Í erindinu verður reynt að benda á athyglisverð áhrif frá ensku málumhverfi í þessum gögnum en ekki síður það sem vitnar um föst tök þessara manna á móðurmálinu eftir áratuga dvöl vestra.

Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Án tengsla við upprunann er maður „týndur: Táknrænt gildi íslenskunnar í Vesturheimi

Árið 2013 fór af stað víðáttumikið rannsóknaverkefni um „Mál, málbreytingar og menningarlega sjálfsmynd“, stýrt af Birnu Arnbjörnsdóttur og Höskuldi Þráinssyni, þar sem þróun og hlutverk íslenskunnar í Vesturheimi er skoðað. Innan þessa verkefnis hef ég verið að kanna samspil máls og menningar í vestur-íslensku samhengi, meðal annars með því að taka viðtöl við Kanadamenn og Bandaríkjumenn af íslenskum uppruna, með það að markmiði að komast að því hvaða hlutverki íslenska gegnir í því að þróa og viðhalda menningarlegri sjálfsmynd. Í erindi mínu ætla ég að gera grein fyrir fyrstu niðurstöðum úr þessum viðtölum með hliðsjón af kenningum um upprunamál og sjálfsmynd (e. heritage language and identity).

Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í enskum bókmenntum: Norður eða niður?

Það má segja að Stephan G. Stephansson hafi orðið Norðanmaður af hugsjón þrátt fyrir að hann stefndi upphaflega suður á bóginn þegar hann fluttist til Vesturheims með fjölskyldu sinni til Wiscounsin árið 1873. Á árunum 1874 til 1880 bjó Stephan ásamt fjölskyldu sinni í Shawano sýslu, sem er heilum 20 breiddargráðum sunnar en Skagafjörður. Þegar Páll Þorláksson hafði fundið íslenskum landnemum búsetukost „sunnan línu“ í Norður Dakóta fór Stephan þangað ásamt fjölskyldu sinni og tók þátt í uppbyggingu íslenska samfélagsins þar á árunum 1880-1889. Enn fluttist Stephansson-fjölskyldan í norður árið 1889, en í þetta sinn „norður fyrir línu“ og endanlega, til Markerville í Alberta. Það er því ekki að ástæðulausu að Viðar Hreinsson nefnir Stephan „Landnemann mikla“ í fyrra hefti rómaðrar ævisögu sinnar um skáldið.

Í erindinu mun ég bregða upp svipmyndum úr skrifum Stephans sem gefa til kynna af hverju hann vildi heldur fara norður en niður.

Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Bréfavinátta

Í bréfasafni Benedikts Jónssonar á Auðnum (1846–1939), sem varðveitt er á Landsbókasafni-Háskólabókasafni, safnmark Lbs. 4415 – 4419, 4to, eru 44 bréf frá Jóni Halldórssyni (1838–1919) sem kenndi sig við Stóruvelli í Bárðardal en var upprunninn á Grímsstöðum við Mývatn. Flest bréfanna eru skrifuð eftir að Jón Halldórsson flutti vestur um haf snemmsumars 1872 eða 34 bréf. Eru þau frá árunum 1873 til 1914, þar af 28 bréf fram til 1889 en þá var Benedikt hættur að svara bréfum Jóns vegna missættis þeirra. Benedikt virðist hafa haldið til haga öllum bréfum frá Jóni, meira að segja þeim persónulegustu, – nema því sem missættið varð út af, – hvort sem hann hefur gert það af samhaldssemi bókamannsins eða virðingu við fornvininn.

Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir (bréfa)vináttu þeirra Benedikts og Jóns eða samræðutengslum þeirra, skilningi milli þeirra og leitt getum að hvað hafi valdið misskilningum milli þeirra sem Jóni tókst aldrei að leiðrétta þrátt fyrir tilraunir til þess.

Linda B. Gray, prófessor í sagnfræði við Union Institute & University, Vermont, BNA, og Fulbright gestaprófessor: Native American Studies: Compromise and Controversy

An estimated five million Native Americans lived in the land, which was to become the continental United States before European settlers arrived.  By 1900, that number dwindled to 237,000.  What caused the population decline of Native Americans? This paper will survey a bird’s eye view of demographics of the region. We will also look at struggles, resistance and survival in Native American communities Finally the paper will examine a few examples of compromise and controversy concerning Native Americans.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is