Á traustum grunni óræðninnar

 

Málstofan mun skoða íronískar athafnir og afstöður til veraldarinnar eins og hún birtist í sjálfsíhugun, leit að skilningi á eigin reynslu og samstöðu með öðrum manneskjum. Fjallað verður um ögranir og andstöðu við orðræðu skynseminnar og aðferð vísinda að skilja sýnd frá reynd. Drepið verður niður í íslenskri samfélagsumræðu og snert á sjálfsmynd og þjóðerni, list, menningararfi, heimspeki, trúarlífi og stjórnmálum.

Málstofan byggir óbeint á íroníuhefti Ritsins (1/2015)

 

 

Málstofustjóri: Jón Ólafsson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 15.00-16.30 (stofa 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Kristinn Schram lektor: Á traustum grunni óræðninnar
  • Jón Ólafsson prófessor: Rorty og frjálslyndi íronistinn
  • Eva HafsteinsdóttirM.A. í menningarfræðiÍronía, pólitík og Besti flokkurinn
Útdrættir:

Kristinn Schram lektor: Á traustum grunni óræðninnar

Íronía gegnsýrir mannleg samskipti og samfélög en býður upp á ótal áskoranir sem fræðilegt viðgangsefni. Ein slík áskorun er hlutverk óræðni og íroníu í sjálfskilningi fólks og þjóðernislegri sjálfsmynd.  Í því samhengi má horfa til alþýðuhefða og ímynda tengdum „þjóðmenningu“ en ekki síður þverþjóðlegra samskipta. Í fyrirlestrinum verður rýnt í ólíkar hugmyndir um íronískar afstöður og athafnir t.d. þegar einstaklingar og jafnvel menningarhópar bregðast við ólíkindum í heimsmynd sinni og orðræðu. Borið verður niður í íslenskar rannsóknir á tímum íslenskrar „útrásar,“ „eftirhrunsára“ og „norðurslóðasóknar“.

Jón Ólafsson prófessor: Rorty og frjálslyndi íronistinn

Í grein sinni um íroníu og frjálslyndi (fjórða kafla í bók hans Irony, Contingency and Solidarity) gerir Richard Rorty greinarmun á íronískri og einlægri afstöðu til viðhorfa, gilda, menningarlegs umhverfis og sjálfsmyndar. Á þeim tæplega þremur áratugum sem liðnir eru síðan greinin birtist hefur hún haft umtalsverð áhrif á skilning á íroníu auk þess sem mannskilningur íronismans hefur orði tilefni gagnrýni, heimspekilegrar sem pólitískrar. Í fyrirlestrinum verður leitast við að skýra forsendur og sjónarmið Rortys og mannskilningur íronismans settur í pólitískt samhengi „eftir-krísu-áranna“.

Eva HafsteinsdóttirÍronía, pólitík og Besti flokkurinn

Íronía og háð geta virkað sem öflug vopn í meðför minnihlutahópa sem berjast fyrir samfélagslegum úrbótum, enda tilvalin til að draga athygli að meinum samfélagsins. Í fyrirlestrinum verður rýnt í virkni og hlutverk íroníu í samfélagslegu samhengi út frá pólitíska sviðinu. Lögð verður áhersla á framboð Besta flokksins til borgarstjórnarkosninga vorið 2010 og eftirleikurinn skoðaður. Íronískt viðhorf og íronískar nálganir hafa verið gagnrýnd fyrir útilokun samfélagslegrar virkni og gefið að sök að vera óeinlæg og jafnvel vinna gegn lýðræðislegum háttum í samfélaginu. Með greiningu á framkomu Besta flokksins verður skoðað hvernig íronía getur falið í sér einlægni og heiðarleika, ásamt því að vera nýtt til að draga fram og afhjúpa ágalla ríkjandi stjórnmálafyrirkomulags og sýna einlægan vilja til breytinga. Það er ekki síst afhjúpunin og endurskilgreiningin sem felst í hinu íroníska viðhorfi sem bera með sér möguleika á raunverulegri breytingu, en svo má skoða hversu djúp áhrif Besti flokkurinn hafði þegar upp var staðið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is