Ábyrgð, réttlæti og frelsi. Málstofa um Iris Marion Young og siðfræðilegar kenningar hennar

Laugardagurinn 14. mars kl. 15.00-16.30.

Arfleifð bandarísku fræðikonunnar Iris Marion Young (1949 – 2006) er í brennidepli þessarar málstofu. Young sem var meðal áhrifamestu og frjóustu fræðimanna síns tíma á sviði stjórnmálaheimspeki fjallaði um margvísleg efni sem flest hverfðust á einn eða annan hátt um réttlæti, lýðræði, frelsi og ábyrgð. Andstæða alls þessa eru kúgun og drottnun. Young skilur kúgun sem stofnanaleg, kerfisbundin ferli sem hindra fólk í því að nýta hæfileika sína í samfélagslegu samhengi. Kúgun getur tekið á sig ýmsar birtingarmyndir, svo sem arðrán, jöðrun, áhrifaleysi, menningarbundin yfirráð og ekki síst ofbeldi. Drottnun felst hins vegar í stofnanalegum aðstæðum sem hindra fólk í samfélagslegri þátttöku, beint eða óbeint. Andstæða drottnunar er félagslegt og pólítískt lýðræði. 

Í þremur erindum þessarar málstofu verður leitast við að varpa ljósi á framlag Young til umræðu um mikilvæg samfélagsleg málefni dagsins í dag. Í fyrsta erindinu er spurt að hvaða marki ábyrgðarskilningur Young geti gagnast mannkyni í leit að leiðum til lausna á siðferðilegum vandamálum sem tengjast loftlagsbreytingum. Í erindi tvö liggur áherslan á mannskilningi Young og þá einkum sýn hennar á frelsi og getu einstaklinga sem hópa. Í þriðja erindinu er sjónum beint að breiðvirkri nálgun Young að réttlætishugtakinu og hvernig má tengja það umræðu um tækifæri og vald einstaklinga og hópa.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði: Loftslagsbreytingar, samstaða og siðferðileg ábyrgð. Framlag Iris Marion Young til skilnings á ábyrgðarhugtakinu
  • Ingibjörg María Gísladóttir, doktorsnemi í guðfræðilegri siðfræði: Frelsi og geta í mannskilningi Iris Marion Young
  • Bjarni Karlsson, doktorsnemi í guðfræðilegri siðfræði: Getur hagsmunagæslan dekkað réttlætiskröfuna? Áskorun Iris Marion Young um útvíkkun réttlætishugtaksins í vestrænni menningu

Málstofustjóri: Sigurvin Lárusson, MA í guðfræði

Útdrættir:

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði: Loftslagsbreytingar, samstaða og siðferðileg ábyrgð. Framlag Iris Marion Young til skilnings á ábyrgðarhugtakinu

Ber manneskja ábyrgð vegna þess eins að hún er samfélagsvera og ef svo er, hvað merkir það þá? Hver er munurinn á persónulegri ábyrgð og sameiginlegri ábyrgð?  Er rétt að aðgreina tal um ábyrgð frá tali um sekt? Þessar spurningar eru kunnuglegar flestum þeim sem láta sig varða um heimspeki og siðfræði. Í þessum fyrirlestri verður sjónum beint að fræðilegum hugleiðingum bandaríska heimspekingsins Iris Marion Young um ábyrgðarhugtakið með sérstakri áherslu á „ábyrgðar- og- tengslalíkan“ hennar (e. the social connection model of responsibility). Meginspurningin fjallar um að hvaða marki ábyrgðarskilningur Iris Marion Young geti gagnast mannkyni í leit að leiðum til lausnar á siðferðilegum vandamálum sem tengjast loftlagsbreytingum?

Ingibjörg María Gísladóttir, doktorsnemi í guðfræðilegri siðfræði: Frelsi og geta í mannskilningi Iris Marion Young

Eitt af lykilhugtökum í verkum Iris Marion Young er kerfisbundið ranglæti (e. structural inequality). Þar vísar hún til þess hvernig mismunun er inngreipt inn í hin fjölmörgu regluverk samfélagsins og tengist ýmsum þáttum s.s. þjóðerni, kynþætti, efnahag, kyni, kyngervi, trúarbrögðum. Við skilgreinum stöðu fólks eftir því hvaða samfélagshópi við teljum að það tilheyri og göngum þá út frá þeim eiginleikum sem þeim hópi hafa verið eignaðir. Sú skilgreining ræður því hvaða væntingar við höfum til viðkomandi einstaklings og hvaða merkingu við leggjum í orð hans og athafnir. Það fer svo eftir samfélagslegri stöðu þess hóps sem einstaklingum er skipað í hvort hún er hamlandi eða styrkir fólk í að móta lífsstefnu sína og ná markmiðum sínum. Hér kvikna áleitnar spurningar um persónulegt frelsi og getu einstaklinga. Í erindi mínu mun ég beina sjónum að mannskilningi Young og hvernig hún skilgreinir hópa og stöðu einstaklingsins innan þeirra.

Bjarni Karlsson, doktorsnemi í guðfræðilegri siðfræði: Getur hagsmunagæslan dekkað réttlætiskröfuna? Áskorun Iris Marion Young um útvíkkun réttlætishugtaksins í vestrænni menningu

Eitt af einkennum nútíma samfélagsumræðu er hugmyndin um hagsmunina. Allir eiga hagsmuni sem tengjast aðgengi að tilteknum gæðum og við lítum flest svo á að fólk hljóti að fylgja hagsmunum sínum eftir. Er réttlæti í þjóðfélagi fullnægt að því marki sem okkur auðnast að vera sanngjörn er kemur að dreifingu gæða? Iris Marion Young telur veruleikann flóknari en svo að unnt sé að uppfylla réttlætiskröfuna með dreifingu gæða en mælir fram með mun breiðvirkari nálgun að réttlæti í mannlegu félagi. Um leið og réttlæti varði vissulega ýmis mælanleg gæði þá telur hún að eigi réttlæti að standa undir nafni verði það einnig að fela í sér tækifæri fólks til að þróa getu sína og tjá reynslu sína og vald til þess að taka þátt í að ákvarða gjörðir sínar og aðstæður. Þannig skorar hún hagsmunahópavæðingu nútímasamfélagsins á hólm og andæfir því sem hún telur vera forsendu hennar: hugmyndinni um hið hlutlausa ríkisvald. Í stað meints hlutleysis, sem ekkert geri annað en að jaðarsetja hinn almenna mann með þeim sérkennum sem honum fylgja og gera fólk tortryggið og framandi hvað öðru, mælir hún fram með „pólitík fjölbreytileikans“ (e. the politics of difference). Í erindinu verður leitast við að draga fram þætti sem hugsanlega gætu nýst íslensku samfélagi í viðleitni þess til þess að draga úr misskiptingu og efla lýðræði.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is