Að gefa nafn: Ný örnefni á 20. og 21. öld

 

Örnefni viðhalda minningum og jafnvel ákveðinni söguskoðun eða sýn á fortíð og landslag. Oftast er litið á þau sem fortíðarfyrirbæri eða „frosinn“ menningararf en þó eru þau kvikari en margur myndi ætla og ný örnefni eru alltaf að verða til þótt nafngiftaferlið sé sjaldnast skráð. Bestar upplýsingar höfum við um bæjanöfn og nöfn á nýjum náttúrufyrirbærum, t.d. þeim sem verða til í eldsumbrotum. Í málstofunni verður fjallað um hugmyndir manna um slík nöfn á 20. og 21. öld. Skoðað verður hvernig nöfnin geta tengst sjálfsmynd einstaklinga en einnig hvernig togstreita getur skapast í nafngiftaferlinu, m.a. vegna afskipta ríkisvaldsins af nafngiftum.

Málstofustjóri: Birna Lárusdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda: 

Laugardagur 12. mars kl. 10.30-12.00 (stofa 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands: Hugmyndir um ný bæjanöfn á 21. öld
  • Hallgrímur J. ÁmundasonStofustjóri Nafnfræðisviðs ÁrnastofnunarEldfjöll og örnefni
  • Hjördís Erna Sigurðardóttir, sagnfræðingur og verkefnisstjóri á Nafnfræðisviði Árnastofnunar: Kot eða höfuðból: Um breytingar á gömlum bæjanöfnum á 20. öld

Fundarstjóri: Svavar Sigmundsson, professor emeritus, nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar

Útdrættir:

Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands: Hugmyndir um ný bæjanöfn á 21. öld

Menningarsagan er letruð í landslagið með margvíslegum hætti og út frá ólíkum sjónarhornum. Áþreifanlegar minjar er hægt að rannsaka, t.d. með því að grafa í fornleifar, en örnefni eru að sumu leyti erfiðari viðureignar og erfitt getur verið að ráða í uppruna þeirra, aldur og merkingu, að ekki sé minnst á táknrænt gildi sem sum þeirra kunna að búa yfir. Góðar upplýsingar eru þó til um suma flokka yngri nafna og sennilega hvergi jafngóðar og um ný bæjanöfn á 21. öld. Þessi gögn gefa okkur sjaldgæfa sýn á fólkið bakvið nöfnin og færi gefst á að kanna nafngiftaferlið í smáatriðum, hvaða gildi liggja að baki nöfnum og sömuleiðis hvaða hlutverki nöfn geta gegnt í sjálfsmyndarsköpun og sköpun staðarímyndar í landslagi.

Hallgrímur J. ÁmundasonStofustjóri Nafnfræðisviðs ÁrnastofnunarEldfjöll og örnefni

Á síðustu áratugum hafa eldgos sett allt þjóðfélagið á hliðina með ójöfnu millibili. Ekki bara vegna áhrifa á samgöngur og efnahag heldur ekki síst vegna umræðu sem siglir í kjölfarið og varðar heiti á nýjum fyrirbærum í landslaginu. Nylegt dæmi er eldgos í Holuhrauni þar sem mánuðum saman var tekist á um hvað hraunið skyldi heita. Sömu sögu er að segja um Surtseyjargosið sem hófst 1963 og olli miklum deilum. Eldgos geta því verið hitamál í bæði nafnfræðilegum og jarðfræðilegum skilningi. Í mars 2010 hófst hraungos á Fimmvörðuhálsi sem á endanum skildi eftir sig tvo umtalsverða gíga, auk hraunfláka og hraunfossa. Mikil umræða varð í þjóðfélaginu um hvaða nöfn hæfðu best þessum nýju fyrirbærum. Málið var tekið upp í útvarpi og sjónvarpi, í dagblöðunum og á bloggi og Facebook. Nafnasamkeppni fór af stað hingað og þangað, bæði í fjölmiðlum og í heimasveit. Á endanum höfðu um 150 tillögur að heitum verið nefndar og ekki augljóst hvernig skyldi standa að valinu. Ráðherra hjó á hnútinn og skipaði nefnd í málið sem réð málinu til lykta. Nafngiftarmálið verður rakið stuttlega en sjónum síðan beint að nöfnunum sjálfum og hvaða hugmyndir þær höfðu að geyma. Skoðað verður m.a. hvernig þjóðfélagsástand samtímans endurspeglaðist rækilega nafnatillögunum.

Hjördís Erna Sigurðardóttir, sagnfræðingur og verkefnisstjóri á Nafnfræðisviði Árnastofnunar: Kot eða höfuðból: Um breytingar á gömlum bæjanöfnum á 20. öld

Bæjanöfn eru kennileiti ferðalangsins, náttúrulýsing náttúruunnandans, saga söguáhugamannsins og minjar um horfna menningu. Bæjanöfn er að finna í okkar elstu heimildum og hafa fylgt Íslendingum allt frá því land byggðist. Ýmsar ástæður hafa verið fyrir því að fólk hefur óskað eftir því að láta breyta bæjarnafni sínu. Nafnið hefur þá verið talið óþægilegt og niðrandi, óþjált, óskiljanlegt eða hreinlega ljótt. Mörg bæjanöfn eiga sér langa sögu og hefur Örnefnanefnd komið að úrskurðum í þessum málum frá því hún var sett á fót á fjórða áratug síðustu aldar. Farið verður yfir breytingar á bæjanöfnum og þær skoðaðar í menningarsögulegu ljósi.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is