Að lifa af andlega: Orðræður um loftslagsbreytingar

 

Í þessari málstofu verða flutt fræðileg erindi um loftslagsbreytingar á forsendum hug- og félagsvísinda, auk þess sem nokkur ljóðskáld flytja frumsamin ljóð sem nálgast þetta viðfangsefni frá ýmsum hliðum og sjónarhornum.

Segja má að mannkynið standi á hverjum tíma andspænis glötun og dauða, bæði sem einstaklingar og hópar, og flest okkar hugmyndakerfi og athafnir eru tilraunir til að fresta, milda eða stjórna á einhvern hátt þessum endanleika tilverunnar. Hann getur falist í yfirvofandi stríði, árekstri loftsteins við jörðina, sjúkdómsfaröldrum eða þeirri staðreynd að öll munum við á endandum deyja. Tilraunir fólks til að aðlagast yfirvofandi vá felast einnig oft í að ýta vitundinni um hana frá sér, fresta því að takast á við hana eða jafnvel afneita henni alveg. Þetta virðist vera sú aðferð sem flestir hafa gripið til, nú þegar við horfumst í augu við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra, því þótt ekki sé útséð um að þær eyði öllu mannlífi og næsta víst að mannkyninu verði ekki svo auðveldlega útrýmt, reyna fáir meðvitað að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að snúa loftslagsbreytingum af mannavöldum við. Þótt óbilandi trú á tæknilausnir virðist enn vera hálmstrá margra til lausnar vandanum eru það margir sem segja að slíkt dugi alls ekki heldur þurfi grundvallar hugarfars- og hegðunarbreytingu allra til, já jafnvel andlega vakningu, byggða á trúarlegri opinberun eða að minnsta kosti eitthvað í líkingu við slíka umpólun hugans. 

Málstofustjórar: Guðni Elísson og Helga Ögmundardóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars 13.15-14.45 (stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Guðni Elísson, prófessor í bókmenntum: Veðurfar og hugarfar. Eru bókmenntir einhvers megnugar í umræðunni um loftslagsbreytingar?    
  • Helga Ögmundardóttir, lektor í mannfræði: Úr fórum mannfræðinnar um loftslagsbreytingar sem félags- og menningarlegt ferli
  • Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræði: Trú og loftslagsbreytingar. Yfirlýsingar trúarleiðtoga og trúarsamtaka í aðdraganda COP21

Ljóðskáld flytja frumsamin ljóð sem tengjast viðfangsefninu: Alda Björk Valdimarsdóttir, Anton Helgi Jónsson, Gerður Kristný, Guðrún HannesdóttirSigurbjörg Þrastardóttir og Sjón

Fundarstjóri: Guðni Elísson prófessor

Útdrættir:

Guðni Elísson, prófessor í bókmenntum: Veðurfar og hugarfar. Eru bókmenntir einhvers megnugar í umræðunni um loftslagsbreytingar?

Í inngangi að bók sinni um endalokakvikmyndir, Visions of the Apocalypse, varpar Wheeler Winston Dixon fram þeirri spurningu hvort okkur „þyrsti í endalokin“, hvort einhvers konar hugfró búi í hugmyndum um algjöra útþurrkun, um yfirvofandi endi alls? Þá yrði loks fullkomnu jafnvægi komið á í hreyfingarleysi dauðans.

Mannkyn hefur ávallt haft áhuga á endalokum sínum, en á undanförnum áratugum hafa endalokafrásagnir orðið sífellt þýðingarmeiri í samtímaumræðunni. Skýringanna er ekki síst að leita í því að skilningur mannsins á stöðu sinni í veröldinni hefur dýpkað, hann sér lengra aftur í tímann og hefur fundið ýmis merki um hamfaraskeið í sögu jarðar. Á sama tíma hefur hann öðlast næga þekkingu til að tortíma sjálfum sér á ótal vegu. Þetta endurspeglast í hinum mikla fjölda ólandsfrásagna sem gefinn hefur verið út á síðustu áratugum þar sem stórum hluta mannkyns er ógnað af loftsteinum, kjarnorkustríðum, efnavopna- og sýklahernaði, ýmis konar farsóttum, notkun eiturefna, hormóna og erfðatækni í landbúnaði, af líftækni-iðnaðinum og byltingum í framþróun gervigreindar, svo ekki sé minnst á hrun vistkerfa af völdum loftslagsbreytinga.

Í fyrirlestrinum verður ljósi varpað á endalokafrásagnir, helstu einkenni bókmenntagreinarinnar og samfélagið sem hún sprettur úr.

Helga Ögmundardóttir, lektor í mannfræði: Úr fórum mannfræðinnar um loftslagsbreytingar sem félags- og menningarlegt ferli

Í rannsóknum mínum á samspili manns og náttúru og kennslu um félags- og menningarlegar hliðar umhverfis- og auðlindamála undanfarin 17 ár hafa loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra tekið æ meira pláss. Fyrir utan uppsöfnun þekkingar á málinu sem vex hraðar en nokkur fræðimaður á möguleika á að fylgjast vel með er það hinn mannlegi þáttur sem fær sífellt meiri athygli og er það vel en það er hinn sálfélagslegi – eiginlega tilvistarlegi – þáttur sem athygli mín hefur beinst að af vaxandi þunga. Þetta kemur ekki síst fram í viðhorfum og sjálfsmynd viðmælenda í rannsóknarverkefnum mínum og nemendanna sem ég er svo lánsöm að fá hvaðan æva að úr heiminum. Í þessum fyrirlestri mun ég rekja ýmsa þræði þessara viðfangsefna og viðra hugmyndir mínar um hvað sé á seyði og hvaða afleiðingar það geti haft fyrir okkur – frá einstaklingum til heilla samfélaga.

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræði: Trú og loftslagsbreytingar. Yfirlýsingar trúarleiðtoga og trúarsamtaka í aðdraganda COP21

Í um tuttugu ár hafa trúarsamfélög víðsvegar um heiminn beint sjónum að loftslagsbreytingum af mannavöldum og afleiðingum þeirra. Aðkoma trúaðs fólks að ýmiskonar umhverfisvandamálum og náttúruvernd á sér þó lengri sögu. Þar ber hæst starf Alkirkjuráðsins (e. World Council of Churches) sem ýtt var úr vör á heimþingi samtakanna í Vancouver 1983. Hápunkturinn í starfi Alkirkjuráðsins var heimsráðstefnan í Seoul í Suður Kóreu árið 1990 þar sem þátttakendur samþykktu táknrænan sáttmála og sameinuðust um stefnu til framtíðar. Nýlegar áskoranir og ályktanir um alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga sem þekkt kristin trúar- og kirkjusamtök sendu frá sér í aðdraganda tuttugustu og fyrstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í París 30. nóvember – 11. desember 2015 verður að skoða í ljósi þessarar sögu. Í erindi mínu beini ég sjónum að umburðarbréfi Frans páfa (2015) ásamt nýlegu efni frá Lútherska heimssambandinu (2009). Í erindinu verður fjallað um siðferðilegar áherslur þessa efnis, um hugsjónir þess, gagnrýni og gildi.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is