Aðkomumenn, þjóðarvitund og minningar: Horft til Færeyja og Íslands

Laugardaginn 15. mars kl. 10.00-12.00 í stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Á málstofunni er sjónum beint að þeim margháttuðu áhrifum sem ferðir erlendra manna, einstaklinga og hópa, til Færeyja og Íslands hafa haft á undanförnum fjórum öldum. Fjallað verður um hvers konar minningar og vitnisburði einstakir ferðalangarnir hafa skilið eftir sig og rætt hvernig koma þeirra hefur sett mark sitt á sjálfsvitund heimamanna. Athygli verður beint að þeim hugmyndafræðilegu og fagurfræðilegu þáttum sem mótað hafa ferðalýsingar á ólíkum tímum og kannað hvernig eyþjóðirnar tvær hafa speglað sig og (endur)skilgreint í ljósi þessara vitjana og frásagna af þeim.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Þorsteinn Helgason, dósent í sagnfræði og sögukennslu: Erlendar innrásir í minningu heimamanna.
  • Sumarliði Ísleifsson, doktorsnemi í sagnfræði og ritstjóri: Ferðalýsingar frá Íslandi fyrir 1750 – fimm frásagnir. Hvað segja þær okkur, hver eru helstu einkenni þeirra?
  • Kim Simonsen, nýdoktor við SPIN í Amsterdam: Dreamscapes and National Identity: The use of the Pastoral in 19th Century Travel Writing.
  • Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku sem öðru máli: Danskur pílagrímur á enskum Land Rover: Tilraun Paul Vads um Hrafnkels sögu.

Málstofustjóri: Emily Lethbridge, nýdoktorsstyrkþegi hjá miðaldastofu

Útdrættir:

Þorsteinn Helgason, dósent í sagnfræði og sögukennslu: Erlendar innrásir í minningu heimamanna

Í rúmlega þúsund ára sögu Íslands hefur þjóðin staðið frammi fyrir innrásarherjum þrisvar sinnum með nokkurra alda millibili. Þessar innrásir eiga lítið sameiginlegt og minningin um þær hefur tekið á sig ólíkar myndir. Hernámið í seinni heimsstyrjöldinni er enn í „samskiptaminni“ (e. communicative memory,  J. Assmann) en hernámsárin eru jafnframt viðfangsefni fræðimanna; það var þá sem nútíminn kom til landsins með óþjóðlegri spillingu eða alþjóðlegri menningu eftir því hver minnist tímans. Hertöku Noregskonungs á Grímsey var afstýrt með ræðumennsku Einars Þveræings með viðkomu í fjöðurstaf Snorra Sturlusonar og í eftirminningu andstæðinga NATO og ESB. Á milli stendur hið fjölþjóðlega Tyrkjarán undir fána norðurafrískra borga. Það varðveittist og umbreyttist í menningarminni þjóðar og minni hópa sem skrifaðar frásagnir, örnefni og þjóðsögur, skáldskapur og sannsögur. Nýjar skjalarannsóknir eru meðteknar í sameiginlega minnið og í framtíðinni munu viðhorf erlendis frá og þarfir ferðamennskunnar hugsanlega hagga því og breyta. Óvirkjaðar „geymsluminningar“ (þ. Speichergedächtnis, A. Assmann) á borð við altaristöfluna á Krossi í Landeyjum munu  virkjast og fá nýtt líf. Lærdómur minninga og sögu Tyrkjaránsins mun áfram vera á marga lund eins og verið hefur hingað til því ekkert samkomulag ríkir um túlkunina.

Sumarliði Ísleifsson, doktorsnemi í sagnfræði og ritstjóri: Ferðalýsingar frá Íslandi fyrir 1750 – sex frásagnir: Hvað segja þær okkur, hver eru helstu einkenni þeirra?

Í erindinu verður fjallað um ferðabækur sem tengjast Íslandi á tímabilinu 1550 til 1750 en einungis sex slík rit eru til frá þessu tímaskeiði. Rætt verður um hvers eðlis þessi rit eru og fjallað um þau sem dæmi þess mikla fjölbreytileika sem ferðabækur eru. Jafnframt verður vikið að myndskreytingum sem birtast í þessum bókum og kannað hvað þær hafa fram að færa. Þá verður gerð grein fyrir hvernig megi nýta þessi verk í sagnfræðirannsóknum og getið um þá hefð sem hefur verið ráðandi í þessu samhengi hérlendis. Samhliða verður bent á aðra möguleika. Meginatriðið er þó að greina þann boðskap sem birtist í þessum verkum. Hvers eðlis er hann? Hvers konar svæði er Ísland með tilliti til ferðalýsinganna; hluti af hvaða veröld er landið og íbúar þess? Eru þær ímyndir sem birtast í þessum verkum  svipaðar eða ólíkar? Hvaða samlíkingar eru helst notaðar, hverjum eru Íslendingar helst taldir líkjast? Loks verður rætt um viðtökur á þessum verkum hérlendis og hver hefur orðið merking þeirra í samtímanum.

Kim Simonsen, nýdoktor við SPIN í Amsterdam: Dreamscapes and National Identity: The use of the Pastoral in 19th Century Travel Writing

19th Century travel literature found its theoretical underpinnings in accounts of the beautiful, the sublime, the pastoral and the picturesque; these modes were notably deeply connected to landscapes. The tradition of national Romantic art, and especially the genre of landscapes in painting and in literature, is obsessed with historicism, memory and national memorials.  In this historicist era of romantic nationalism cultural memory formed a part of the public sphere in a new way involving, which is not very well understood.  The theoretical background to this paper is found in cultural nationalism studies, cultural transfer studies and cultural memory studies. Cultural transfer does not only take place between national entities, but these entities themselves take shape and are articulated as self-images and the cultural memory of a nation as a result of transferral processes between societies. In this paper, national identity is not seen as primordial or natural but as determined by exchange and recognition. Instead of focusing on influence and reception, transferral processes must be examined in more detail. Furthermore, how can scholars account for the remarkable simultaneity between culture-national activities at various points of the European map? The paper explores how landscape images created national identity by connecting imagery of landscapes to the nationalisation of nature. My interest in is to explore the interplay between the ideology of landscapes and memory as seen in the imagined landscapes, utopian ideas and in the use of pastorals in 19th century. Also how pastorals deal with time and rural retreat but also romanticized images of both nature and culture, connecting memory with landscape- and identity-formation. Therefore, pastorals are somewhat escapist, highly selective reflections on past country life, in which old values are ‘rescued’. In this sense, I will make an argument for seeing the pastoral as both a genre of memory and also a requiem for a lost world, as well as part of a larger ideology of cultural nationalism in Europe.

Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku sem öðru máli: Danskur pílagrímur á enskum Land Rover: Tilraun Paul Vad um Hrafnkels sögu

Árið 1994 kom út í Danmörku ferðabók rithöfundarins og listgagnrýnandans Paul Vad, Nord for Vatnajøkel. Ferðabók, að nafninu til, en um leið er ástæða til að setja fyrirvara við það hugtak. Kveikja textans er vissulega heimsókn höfundar til Íslands árið 1970 og sagt er frá einu og öðru sem á vegi hans varð á leiðinni en höfuðtilgangur virðist samt vera sá að búa lesandann undir að lesa Hrafnkels sögu Freysgoða, enda er hún prentuð í heild sinni sem viðauki við bókina. Einstakir kaflar Vads eru helgaðir útlistun á söguþræðinum, greiningu á höfuðpersónum hennar og samanburði á sögunni og sumum þekktari verk heimsbókmenntanna, svo sem Don Kikóta eftir Cervantes og Furstann eftir Machiavelli. Einn kaflinn rekur útgáfusögu Hrafnkötlu í Danmörku, annar hefur að geyma hugmyndirVads um hvernig hægt væri að kvikmynda söguna, til dæmis í anda ítalsks spaghettí-vestra eða japanskrar samúræjamynda. Síðast en ekki síst á Vad í virkri samræðu við danska Íslandsferðabókahefð og veltir þar vöngum  yfir því hvort heimsókn á sögusvið Íslendingasagnanna sé yfirleitt til þess fallið að auka skilning „pílagrímsins“ á viðkomandi verki. Í fyrirlestrinum verður rætt um það hvernig Vad reyndir að forðast vissar gryfjur sem fyrirrennarar hans hafa fallið í en fellur um leið í sumar aðrar.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is