Ættartölur og aðrar tölur

 

Flutt verða tvö erindi þar sem rýnt er í þekkta fornritatexta, annars vegar ættartölur í Landnámabók og hins vegar töluna átta í Íslendingasögum.

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 13.15-14.15 (stofa 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Auður Ingvarsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur: Kynferðir sannar. Um ættartölur í Landnámabók
  • Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði við Menntavísindasvið: „Einn við átta“. Talan átta sem táknrænn fjöldi hinna vanmáttugu í Íslendingasögum
Útdrættir:

Auður Ingvarsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur: Kynferðir sannar. Um ættartölur í Landnámabók

Ætlunin er að spjalla um ættartölur og ættarfróðleik í Landnámu. Eru ættartölur upprunalegar í Landnámu eða var þeim bætt við af síðari tíma Landnámuriturum?  Áhersla á göfgi og ætt má sjá í öllum gerðum Landnámu. Segir það eitthvað um tilgang með ritun Landnámu? Er hægt að sjá mun á ættartölum eftir gerðum Landnámu og getur þessi munur gefið vísbendingar um upphaflega gerð? Tilgangur ritunar Landnámu var samkvæmt eftirmála Þórðarbókar meðal annars „at rekja ættartölur“ – er eitthvað að marka það?

Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði við Menntavísindasvið: „Einn við átta“. Talan átta sem táknrænn fjöldi hinna vanmáttugu í Íslendingasögum

Talan „átta“ er ekki algeng í Íslendingasögum, minnst notuð af töluorðunum sex til tíu. En virðist stundum valin öðrum tölum fremur þegar söguhetjan er borin saman við hóp hversdagsmanna.

Skýrast er þetta í Grettlu. Þar bar Grettir svo af öðrum við austur að „átta jusu þeir við hann áður en lauk“. Átta húskarlar í Háramarsey urðu Gretti að engu liði þegar hann sigraðist einn á berserkjum og fylgdarliði þeirra. Hann vann sér til frægðar að „drepa einn dýrið það er vér höfum frá gengið átta“. Dauður hélt hann svo fast saxinu að „átta tóku þeir til áður en lauk og fengu eigi að gert að heldur.“ Svo má áfram telja, ein sjö dæmi af þeim tólf þar sem talan átta kemur fyrir í sögunni. Það er of hátt hlutfall til að vera hending ein.

Úr því að talan átta hefur þessa undirmerkingu í Grettlu er það varla heldur tilviljun í Njálu að menn sáust „ríða ofan með Markarfljóti átta saman“ áður en Gunnar á Hlíðarenda lagði til atlögu við þá einn síns liðs, eða að á Markarfljótsaurum „stóðu þeir átta fyrir og fékk engi þeirra fang á mér,“ eins og Skarphéðinn sagði. Fleiri dæmi eru þessum lík, bæði í Njálu og fleiri sögum, t.d. þar sem Egill „barðist einn við átta“. Eða í Bandamannasögu þar sem talan átta kemur fyrir fimm sinnum, ævinlega um höfðingjana átta sem bragðarefurinn Ófeigur vafði um fingur sér.

Dæmin eru ekki bundin við Íslendingasögur. Það er í Ketils sögu hængs sem söguhetjan „ekur heyi til garðs og gengur að svo rösklega að átta urðu undan að hlaða um síðir,“ og er það of áþekkt austri Grettis til að ekki séu einhver hugmyndatengsl á milli.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is