Af misheitri samlíðan

Laugardagurinn 14. mars kl. 15.00-16.30.

Málstofan er hluti af þverfaglega RANNÍS-verkefninu „Samlíðan: mál, bókmenntir, samfélag“ og snýst um samlíðan (e. empathy) og skyld fyrirbæri. Í henni ræða sálfræðingar, bókmenntafræðingar og málfræðingur um rannsóknir sínar á samlíðan, segja frá eigindlegum og megindlegum könnunum jafnt sem bókmenntagreiningu. Meðal þess sem ber á góma eru kvarðar sem unnt er að nota til að mæla samlíðan; tengsl samlíðanar, bóklesturs og stjórnmálaskoðana; samspil tónlistar, valds og samlíðanar í tiltekinni skáldsögu, svo ekki sé minnst á samspil viðtakna og menningar, og hvort kyn og/eða aldur skipti miklu um samlíðunarviðbrögð.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: „Og mundu að tónlistin er alls staðar“. Um samspil tónlistar, valds og ímyndunarafls í Þögninni eftir Vigdísi Grímsdóttur
  • Hulda Þórisdóttir, sálfræðingur og lektor í stjórnmálafræði og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, MA-nemi í sálfræði: „Ég las það úr augunum þínum“. Er til hlutlægur mælikvarði á samlíðan og hverju tengist hann?
  • Sigurrós Eiðsdóttir framhaldsskólakennari og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: Brynhildur, ekki Angantýr. Elín Thorarensen, lýsingar hennar á ástarsambandinu við Jóhann Jónsson, og afstaða ungs fólks til þeirra lýsinga nú 

Málstofustjóri: Auður Einarsdóttir meistaranemi

Útdrættir:

Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: „Og mundu að tónlistin er alls staðar“. Um samspil tónlistar, valds og ímyndunarafls í Þögninni eftir Vigdísi Grímsdóttur

Í fyrirlestrinum verður fjallað um skáldsöguna Þögnina eftir Vigdísi Grímsdóttur. Í sögunni leika tónlist Tchaikovsky, vald og ímyndunarafl stórt hlutverk en samspil þessara þátta verður kannað með tilliti til aðalpersónanna, Lindu litlu og ömmu hennar. Samband kvennanna byggist á valdamisvægi þar sem amman hefur yfirhöndina. Þrátt fyrir að vera mállaus gagnvart umheiminum notar hún óspart tungumálið í samskiptum við barnabarn sitt en með ímyndunaraflið og frásögnina að vopni hefur hún kynnt fyrir Lindu veröld þar sem tónlistin ræður ríkjum og önnur lögmál gilda en í raunveruleikanum. Í einkaheimi ömmu sinnar þarf Linda að lúta valdi hennar, boðum og bönnum hvort sem henni líkar betur eða verr. Linda má sín lítils gagnvart frásögn ömmu en í þögninni á hún sér þó leyndarmál þar sem hennar eigið ímyndunarafl ræður ríkjum. Í erindinu verður einkum skoðað í hverju valdbeiting ömmu felst og hvaða áhrif hún hefur á Lindu.

Hulda Þórisdóttir, sálfræðingur og lektor í stjórnmálafræði og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, MA-nemi í sálfræði: „Ég las það úr augunum þínum“. Er til hlutlægur mælikvarði á samlíðan og hverju tengist hann?

Flest fólk getur gengið út frá því að vandræðalaust veiti það og taki á móti samlíðan í samskiptum sínum við annað fólk. Erfitt hefur á hinn bóginn reynst að skilgreina og þar með mæla samlíðan með áreiðanlegum og réttmætum hætti. Lengst af hafa mælingar á samlíðan einkum byggst á sjálfsmati en margir annmarkar eru á því. Reading the mind in the eyes (RME) prófið (Baron-Cohen, Wheelwright, Raste & Plumb, 2001) metur vitsmunalega samlíðan, það er getu fólks til að lesa í tilfinningu, hugsun eða ætlun út frá augnsvip fólks. Í fyrirlestrinum verður greint frá þýðingu og forprófun RME prófsins ásamt rannsóknum á tengslum niðurstaðna við stjórnmálaskoðanir og lestrarvenjur. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð tengsl skáldsagnalesturs og samlíðunar eða hugarkenningu, enda líkja skáldsögur eftir raunveruleikanum og lesandinn þarf að setja sig inn í heim sögupersónanna til að skilja tilfinningar þeirra og gjörðir. Það er því til samræmis við fyrri rannsóknir að niðurstöður rannsóknar okkar gefa vísbendingar um að þeir sem lesa meira en annað fólk á sama aldri mælist hærri í vitsmunalegri samlíðan en þeir sem lesa minna. Aftur á móti er óvænt sú niðurstaða að þeir sem hlusta meira á hljóðbækur en annað fólk á sama aldri mælast lægri á prófinu en þeir sem hlusta minna. Við veltum upp hugsanlegum skýringum á þessum óvæntu áhrifum í tengslum við nýjar rannsóknir á lesblindu og áframhaldandi skrefum rannsóknarverkefnisins.

Sigurrós Eiðsdóttir framhaldsskólakennari og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: Brynhildur, ekki Angantýr. Elín Thorarensen, lýsingar hennar á ástarsambandinu við Jóhann Jónsson, og afstaða ungs fólks til þeirra lýsinga nú

Árið 1946 kom út bókin Angantýr sem vakti tölverða athygli hérlendis þó ekki væru allir ánægðir með hana. Ýmsum þótti efni hennar ósæmilegt og ekki eiga heima á prenti enda segir kona, komin á sjötugsaldur, Elín Thorarensen, þar frá ástarsambandi sem hún átti við ungan pilt, Jóhann Jónsson skáld, þrjátíu árum fyrr. Aldurhnigin leitast Elín við að lýsa sambandinu af einlægni og lesandi fær innsýn í upplifun og hugarheim hennar, tilfinningar og stöðu í samfélaginu sem hún lifir í. En textinn er rómantískur og ber merki tíma þegar fólk las aðstæður sínar að ævintýralegum sögum og ljóðum, m.a. til að bregða birtu á aðstæður sem einatt voru nöturlegar.

En hvaða áhrif hefur slíkur texti þegar fram líða stundir, aðstæður í samfélaginu breytast og viðhorf sömuleiðis? Í fyrirlestrinum verður greint frá niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir tvo hópa nemenda Sigurrósar á dögunum – en hún er afkomandi Elínar Thorarensen. Ungmennin lásu textabrot úr Angantý, svöruðu spurningum sem tengdust brotunum og ræddu að því loknu afstöðu sína við kennarann. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is