Af nýyrðum í íslensku

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Það er viðtekin skoðun að meðal helstu sérkenna íslenskrar málmenningar sé rík áhersla á myndun nýrra orða úr innlendu fremur en erlendu efni. Þessi málstofa fjallar um nýyrði í íslensku, m.a. um nýyrði meðal íðorða í sérgreinum. Hugað verður að merkingu hugtaksins ‘nýyrði’ og sambandi þess við hugtakið ‘íðorð’ og við hugtök á borð við ‘tökuorð’, ‘aðkomuorð’, ‘nýmerkingar’, ‘tökumerkingar’, ‘tökuþýðingar’ og fleiri slík sem eru notuð til að lýsa endurnýjun orðaforðans og breytingum á honum. Í því sambandi verður m.a. hugað að málpólitískri þýðingu hugtakanna. Fjallað er um mismunandi gerðir nýyrða, um tökuþýðingar, lærða og virka orðmyndun o.fl. Rætt verður hvernig ný orð, einkum íðorð, verða til, komast í notkun og breiðast út í íslensku.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Ágústa Þorbergsdóttir málfræðingur, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:  Lærð eða virk orðmyndun? Athugun á nýyrðum sem eru jafnframt íðorð
  • Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:  Um hugtakið nýyrði og málpólitíska þýðingu þess
  • Jóhannes B. Sigtryggsson málfræðingur, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Nýyrði í sérgreinum í Stafsetningarorðabókinni

Málstofustjóri: Magnús Snædal prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands

Útdrættir:

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Lærð eða virk orðmyndun? Athugun á nýyrðum sem eru jafnframt íðorð

Til þess að íslenska sé nothæf í vísindum og fræðum þarf hún að búa yfir nauðsynlegum orðaforða. Grundvöllur undir faglega orðræðu á íslensku er að til séu á íslensku viðurkennd orð og orðasambönd í tilteknum greinum. Orð, sem notuð eru í sérfræðilegri umræðu, kallast íðorð og stór hluti íslenskra nýyrða er íðorð. Orðanefndir vinna mikið verk við að auðga tunguna að nýyrðum í ýmsum sérgreinum og eru orðanefndarmenn oft afkastamiklir nýyrðasmiðir.

Í fyrirlestrinum verður litið á hversu mikið svokallaðri lærðri orðmyndun er beitt við gerð íðorða. Í því sambandi er athuguð orðmyndun í sex íðorðasöfnum í mismunandi greinum og kannað hvort greina megi mismun á íðorðasöfnunum hvað varðar þær orðmyndunaraðferðir sem eru einkum notaðar.

Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Um hugtakið nýyrði og málpólitíska þýðingu þess

Hugtakið nýyrði kemur óhjákvæmilega við sögu þegar rætt er um endurnýjun orðaforðans í íslensku og það hefur verið nefnt nýyrðastefna að vilja mynda og nota ný orð úr innlendum efniðviði fremur en orðstofna úr öðrum málum. Á Íslandi hefur gjarna verið litið á nýyrði sem smíðisgripi frá hendi tiltekinna hugkvæmra orðasmiða (sbr. hreyfill, samúð, tölva o.s.frv.) og er stundum stillt upp andspænis því að orð úr innlendum eða erlendum efniviði bætist við tungumálið á einhvern annan hátt. Í fyrirlestrinum verður litið á mismunandi leiðir sem farnar hafa verið eða fara má til að afmarka hugtakið nýyrði í íslensku, m.a. með tilliti til tökuþýðinga, tökumerkinga og tökuorða. Einnig verður rætt um beitingu hugtaksins nýyrði í málpólitískri orðræðu.

Jóhannes B. Sigtryggsson, málfræðingur, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Nýyrði í sérgreinum í Stafsetningarorðabókinni

Í Stafsetningarorðabókinni (1. útg. 2006) eru um 65.000 uppflettiorð og þar af fjölmörg orð úr sérgreinum, til dæmis armfætlingur, lækjasilmý, þjótaug og fenýlalanín. Við endurskoðun orðabókarinnar hefur sú spurning vaknað hversu brýnt erindi slík sérfræðiorð eiga í almenna orðabók. Eiga þau eingöngu heima í sérfræðiorðasöfnum og íðorðalistum eða eru almennar orðabækur eins og Stafsetningarorðabókin og Íslensk orðabók góður vettvangur til að koma þeim á framfæri við almenning? Ef svo er hvernig á þá að velja sérfræðiorð í almennar orðabækur? Við hvað á að miða? 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is