Allir útdrættir: Fyrirlesarar í stafrófsröð

Upplýsingar um tíma og staðsetningu í stofum (pfd)

 

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur
Málamiðlun á ljóðaslóð

Stundum er því haldið fram að það sé nánast ógjörningur að miðla bókmenntum, ekki síst ljóðum, óbrengluðum af einu tungumáli á annað. Í erindi sínu fjallar Aðalsteinn Ásberg um þessi alkunnu vandkvæði og leggur til grundvallar þýðingar sínar á ljóðum úr hjaltlensku. Undir yfirborði textans leynast margir ósýnilegir þræðir sem tengja saman tungumál og hugsun.

Aldís Guðmundsdóttir, sálfræðingur og íslenskufræðingur
Yrsa og óttinn: tilfinningaþrunginn frásagnarstíll nýjustu bókar Yrsu Sigurðardóttur

Fyrirlesari veltir fyrir sér að hvaða leyti aðferðir Yrsu Sigurðardóttur, í bókinni Ég man þig, eru frábrugðnar þeim aðferðum sem „höfundar“ Íslendingasagna nota við að skapa spennu með lesendum eða við að lýsa tilfinningalegu ástandi sögupersónanna.

Angelos Parigoris, doktorsnemi í fornleifafræði
Nationalism, Archaeology and the Politics of the Past

This presentation is based on the premise that all archaeological traditions were originally nationalistic, either operating in the context of nationalism by itself, or in combination with imperialism and colonialism. Archaeology therefore, is not a value-free neutral social science as previously presumed. In this framework, being trained in the subtleties of stratigraphy and typology does not provide archaeologists with the necessary tools to confront the history of their own discipline and its relation to the strings of power. For a correct understanding of the intricate relationship of archaeology with nationalism, colonialism and imperialism, it is essential to evaluate the impact of the framework in which it developed. This presentation is a preliminary discussion of this relationship.

Anna Lea Friðriksdóttir, MA-nemi í íslenskum bókmenntum
Maður og kind – hugleiðingar um erótík og annað smálegt í Svari við bréfi Helgu

Hvað geta hugræn fræði sagt um erótík, losta og hið pólítískt kórrétta? Nýjasta skáldsaga Bergsveins Birgissonar, Svar við bréfi Helgu, verður skoðuð út frá kenningum hugfræðinga (t.d. blöndun og myndhverfingum).

Anna Jeeves, doktorsnemi og aðjunkt í ensku
The „English Self“ of young Icelanders today

The research as a whole explores the perceived needs and relevance of English and English studies to the lives of young Icelanders, with respect to study, employment, and everyday life. Through qualitative data from interviews with school and university students and employees, young Icelanders' use of English as a „lingua franca“ in the changing linguistic environment of Iceland today is being mapped out.

The proposed talk focuses on young Icelanders’ self-image as users of English within the context of Iceland. The „English Self“ is concerned with participants‘ perceptions of English as essential to their lives, and with the belief expressed by some that not knowing English would limit their participation in Icelandic society.

Anna Jóhannsdóttir, myndlistarmaður og stundakennari í listfræði við HÍ
Vatn í veðrum og myndum

Á 19. öld gætti nýrra viðhorfa í landslagsmálun og myndmál verka mótaðist í auknum mæli af huglægri skynreynslu af náttúrunni. Slík reynsla varpaði ljósi á síbreytilega og hverfula ásýnd hlutanna og listamenn hófu að leggja áherslu á að sýna náttúruna sem síkvikt ferli. Sýnd verða nokkur dæmi um 19. aldar myndverk þar sem samband (lista)manns og náttúru er í fyrirrúmi. Í seinni hluta fyrirlestrarins verður hugað að birtingarmyndum huglægra og skynrænna þátta í náttúrutengdri myndlist samtímans. Bandaríski listamaðurinn Roni Horn á gjarnan í samræðu við náttúruna, ekki síst á ferðalögum um Ísland, í verkum sem fela í sér sjálfskönnun og vangaveltur um mismunandi rými, huglæg sem hlutlæg. Vatn og veður koma við sögu í verkunum sem verða til umfjöllunar og tengjast Snæfellsnesi og Thames-ánni í London.

Anna Björk Nikulásdóttir, doktorsnemi í málvísindum
Íslenskur merkingarbrunnur – tölvutækt merkingarnet

Vinna við Íslenskan merkingarbrunn fyrir íslenska tungutækni, þ.e. gagnagrunn með merkingarupplýsingum um íslensk orð á formi sem nýtist við hugbúnaðargerð, hófst árið 2009. Mismunandi algrím til þess að greina sjálfvirkt merkingarupplýsingar úr textum voru keyrð á stóru textasafni og m.a. ný aðferð við greiningu merkingarvensla þróuð. Merkingarbrunnurinn inniheldur nú yfir 100.000 nafnorð og lýsingarorð ásamt u.þ.b. einni milljón merkingartengla. Opinber útgáfa er þó ekki tilbúin en í kringum áramótin 2011/2012 er stefnt að því að hægt verði að fá aðgang að gagnagrunninum til hugbúnaðarþróunar eða annars konar verkefna, t.d. málfræðirannsókna. Í fyrirlestrinum verða aðferðir til greiningar merkingarupplýsinga úr textum kynntar, sem og dæmi úr merkingarbrunninum eins og staða hans er nú.  

Anton Karl Ingason, meistaranemi í íslenskri málfræði og Laurel MacKenzie, doktorsnemi við Háskólann í Pensilvaníu
Þyngd

Staða setningaliða er stundum skýrð með vísun í svokallaða þyngd þeirra. Þannig er þungum liðum gjarna eðlilegra að koma aftar í setningu en samsvarandi léttir liðir. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um eðli þyngdar. Færð verða rök fyrir því að þyngd sé ekki tvígild breyta heldur sé hún mælanleg á kvarða. Stuðst verður við megindlega athugun á frestun tilvísunarsetninga í trjábönkum fyrir íslensku og ensku. Þá verður bent á galla á hugmyndum um þyngd sem byggjast á upplýsingaformgerð og rök færð fyrir því að mælieining þyngdar sé hrynræns eðlis. Loks verður rætt um almennar afleiðingar þessarar niðurstöðu fyrir ólík kenningakerfi í málfræði og hugmyndir um rót tilbrigða.

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í samstæðilegri guðfræði með áherslu á kvennaguðfræði
Að rísa upp gegn óréttlætinu: Imitatio Christi og ofbeldislaust andóf

Að feta í fótspor Krists (Imitatio Christi) hefur frá upphafi gegnt mikilvægu hlutverki í kristinni trú. Í fyrirlestrinum verður fjallað um merkingu Imitatio Christi í aðstæðum sem einkennast af óréttlæti og ofbeldi. Á meðan sumir hafa bent á skilyrðislausa kröfu Krists um að bjóða „hina kinnina“ hafa aðrir haldið fram nauðsyn þess að stöðva framgang ranglætisins. Sömuleiðis hafa verið deildar meiningar um hvort það sé undir einhverjum kringumstæðum réttlætanlegt að hvetja fólk til að leggja líf sitt að veði í baráttunni fyrir réttlætinu. Notuð verða dæmi um hópa sem beitt hafa ofbeldislausu andófi, m.a. þau sem börðust gegn kynþáttafordómum í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar og mæðurnar sem söfnuðust saman á Plaza de Mayo í Buenos Aires í kringum 1980 til þess að mótmæla hvarfi barna sinna.

Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku
Máltæki og frasar á dönsku og íslensku

Að ná tökum á orðaforða er forsenda þess að geta tjáð sig á erlendu máli. Orðaforðinn tekur bæði til einstakra orða og ólíkra tegunda fastra orðasambanda eða frasa svo sem orðtaka, orðastæða, samlíkinga og algengra samskiptafrasa. Það einkennir margar tegundir fastra orðasambanda að samsetning þeirra er ekki fyrirsjáanleg og því verður að læra þau sem heildir. Þegar merking orðasambanda er ekki bein getur merking þeirra verið torskilin.

Þegar í hlut eiga skyld tungumál, eins og t.d. danska og íslenska, eru orðasamböndin oft sláandi lík, en í öðrum tilvikum eru þau fjarska ólík. Stundum er yfirborðsmerking þeirra eins eða svipuð en merkingin eigi að síður ólík. Þessir þættir skipta miklu máli fyrir dönskunámið.

Fjallað verður um samanburðarrannsókn á orðtökum og samskiptafrösum á dönsku og íslensku og varpað ljósi á ólíka þætti sem geta valdið íslenskum nemendum erfiðleikum í dönskunámi. Einnig verður máltækið www.frasar.net kynnt og gerð grein fyrir hvernig það getur auðveldað íslenskum nemendum að skilja og nota föst orðasambönd á dönsku. Þá verður gerð grein fyrir hvernig fyrirhugað er að þróa máltækið enn frekar og notkunarmöguleikum þess.

Áki G. Karlsson, þjóðfræðingur
Hagnýt(t) og ónýt(t) fræði: Hvernig þjóðfræðin bjó til menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi

Í fyrirlestrinum fjalla ég um það hvernig hugmyndir um tengsl háskóla og atvinnulífs hafa leitt til stofnunar nýrra hagnýt(t)ra fræðasviða til hliðar við meint „hrein“ akademísk fög og hvernig þetta skapar falska aðgreiningu milli hagnýtra og óhagnýtra fræðigreina. Ég ræði sérstaklega um tengsl akademískra fræða við þróun menningartengdrar ferðaþjónustu síðustu tuttugu ár og held því fram að starfandi virkir fræðimenn hafi verið bæði hugmyndafræðingar og framkvæmdaraðilar þeirrar stefnu sem unnið hefur verið eftir í þessum geira ferðaþjónustunnar á Íslandi.

Ásbjörg Benediktsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði
Það var hrint mér aftur

Hinn setningafræðilegi hluti RAUN felst í því að kanna hvort einstaklingar sem tóku þátt í rannsókn SS&JM á nýju þolmyndinni laust fyrir síðustu aldamót hafa þetta málfarseinkenni ennþá í sínu máli. Í því skyni verður úrtak úr þessum hópi „prófað“ á sambærilegan hátt og fyrir rúmum áratug. Meginástæðan er sú að nýja þolmyndin er stundum talin unglingamál og flestir þátttakendur í rannsókn SS&JM voru á unglingsaldri þegar rannsóknin fór fram. Fyrirlesari er meðal þátttakenda í RAUN og mun greina frá fyrstu niðurstöðum úr rannsókn á því hvort nýja þolmyndin lætur undan síga þegar málnotendur eldast og þroskast eða hvort hún er „komin til að vera“.

Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum
Að þýða úr frönsku og fornfrönsku: Perceval eða Sagan um Gralinn

Lifandi tungumál eru í stöðugri þróun og þýðandi þarf sífellt að setja sig inn í málvenjur og merkingu orða á ritunartíma þess verks sem hann ætlar sé að þýða. Það er þó stórt stökk að færa sig aftur um ein 850 ár þegar franska á í hlut. Frönsk tunga hefur tekið það miklum breytingum í gegnum aldirnar að umtalsverða þjálfun þarf til að verða læs á það mál sem fyrstu riddarasögurnar voru samdar á upp úr miðri 12. öld. Hér verður fjallað um nýlega þýðingu á riddarasögunni Perceval eða Sagan um gralinn eftir Chrétien de Troyes og þær spurningar sem vakna við þýðingu á svo gömlu verki. Til hliðsjónar verður litið til þýðingar á sama verki sem talið er að sé frá miðri 13. öld eða síðari hluta hennar.

Ásrún Jóhannsdóttir, doktorsnemi í ensku
The L2 External Influence Model: 4th grade English Users in Iceland

The focus of this study is to explore 4th grade students’ attitude towards English and the contributing factors that affect their motivation and vocabulary attainment at the beginning of formal instruction. In this lecture, I will present the final stages and results from a survey of their motivation and attitude. The results will be examined with a “L2 External Influence Model” designed by the author. The model focuses on five external factors (peer, family, media and school influence plus current and future needs). These factors are explored through the three different stages of motivation (the ideal self, ought-to-self and the L2 environment) presented by Dörnyei (2005) in his “The L2 Motivational Self System”.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Í leit að andlegum vini. Þura í Garði og æviminningar Vestur-Íslendingsins Sigurðar Jóhannssonar

Frá 1926 til 1933 fóru reglulega bréf á milli Vestur-Íslendingsins Sigurðar Jóhannssonar og Þuru Árnadóttur í Garði í Mývatnssveit. Þau hittust aldrei en með þeim tókst einlæg vinátta sem hélst allt þar til Sigurður lést árið 1933. Árið 1959 ákvað Þura að púsla saman bútum úr bréfum Sigurðar og setja saman ævisögu hans, sem er nú varðveitt í handskrifuðu handriti á Héraðsskjalasafni Þingeyinga á Húsavík. Það eintak er þó ekki með rithönd Þuru heldur bróður hennar, Arnþórs Árnasonar, sem skrifaði handritið upp og batt inn í bók ásamt ljóðum Sigurðar.

Æviminningarnar er skrifaðar í 1. persónu og Þura segist hafa notað óbreytt orðalag úr bréfum Sigurðar. Um uppruna orðanna verður þó varla dæmt þar sem Þura brenndi bréfin en bæði hún og Arnþór líta á textann sem sjálfsævisögu. Aftur á móti er erfitt að líta framhjá þætti þeirra systkina í samsetningu verksins.

Fjallað verður um handritið út frá hugmyndum hugrænna fræða um sjálfsævisögur. Flókið samband höfundar, sögumanns og sögupersónu í handritinu verður til umfjöllunar, sem og tengslin milli sjálfsævisagna sem bókmenntagreinar annars vegar, og hins vegar þeirra sagna sem við segjum öll um okkur sjálf á hverjum degi.

Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntum og forseti Hugvísindasviðs
Snæfellsjökull í garðinum

„Í ótal myndum er innri sjón / mannsins bundin / Útsýni hafsins og landsins“. Svo segir í ljóði Jóhannesar Kjarvals „Snæfellsjökull“. Í þessu málþingserindi verður fjallað um Snæfellsjökul sem stað og mynd er birst hefur með ýmsu móti, allt frá fornu fari til samtímans, í textum, hugmyndum, ímyndun og myndverkum. Hann hefur verið ráðandi landslagsþáttur í sínum fjórðungi og sem náttúruvætti hefur hann teygt sig langt út fyrir það svæði. Hugað verður að tilraunum til samræðna við Snæfellsjökul, og því táknræna gildi sem honum er léð í ýmsum menningarmyndum, sérstaklega í bókmenntaverkum, t.d. Bárðar sögu Snæfellsáss og skáldverkum eftir Jules Verne, Halldór Laxness, Steinunni Sigurðardóttur, Ísak Harðarson og fleiri.

Benedikt Hjartarson, aðjunkt í almennri bókmenntafræði og menningarfræði
Frá fornöld til forhúðar. Hugrenningar um þróun og stöðu menningarsagnfræði

Í erindinu verður litið yfir sögu menningarsagnfræði og reynt að varpa ljósi á stöðu fræðasviðsins í samtímanum. Með hliðsjón af nokkrum nýlegum yfirlitsritum, sem birst hafa á síðustu árum, verður tekist á við spurningar sem snúa að því hvernig saga og þróun fræðasviðsins er rakin á ólíkan hátt. Ólíkar myndir af sögu fræðasviðsins gegna jafnan því hlutverki að gera menningarsagnfræði að mikilvægum vettvangi fræðilegrar og sögulegrar endurskoðunar, þar sem ríkjandi söguskoðun er skoruð á hólm. Sameiginlegan þráð í þeim ritum sem felld eru undir hefð menningarsagnfræði, allt frá klassískri menningarsögu 19. aldar til nýlegra rita þar sem m.a. er fjallað um menningarsögu reðursins, fretsins og gaddavírsins, virðist helst að finna í uppgjöri menningarsagnfræðinnar við ríkjandi aðferðafræði í söguritun á hverjum tíma.

Bergljót Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum
Tourette og ljóðlistin

Í erindinu verður sagt frá nýlegum skrifum um tengsl tourette-syndrómsins og ljóðlistar og sýnt með dæmum hvernig nýta mætti þau við greiningu ýmissa texta.

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum
English and Icelandic in Academia: A Matter of Language Policy 

The use of English in academia throughout the world has increased during the last few decades. One manifestation of this is the increased pressure on researchers to publish in competitive journals. This usually means publishing in English. The same applies to researchers at the University of Iceland where advancement depends on, and more research points are awarded for, publications in international journals. Until now the extent of scholarly writing in English by Icelandic researchers has not been readily available, nor their views on their preparation and actual use of English. In this talk, the results of surveys of faculty and students at the University of Iceland will be presented. The surveys examined participants‘ view about their English preparation and use in teaching, learning and scholarship. This will be followed by a discussion on the general status of English as an academic language at the University of Iceland, and finally, its affect on the status of Icelandic as a language of science.

Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands
Náttúran, raunin og veran

Í Hugleiðingum við Öskju dregur Páll Skúlason upp mynd af náttúrunni sem framandi, yfirþyrmandi og máttugri stærð sem mannverur reyna sífellt að ná tökum á, og ljá merkingu, með táknum sínum og tækni. Þessi viðleitni manna er að sögn Páls því aðeins möguleg að þeir standi allt frá upphafi í ákveðnu trúnaðarsambandi við náttúruna, og í raun er náttúran ekki einungis ytri veruleiki andspænis innra lífi manna, heldur fléttast hið innra og hið ytra saman í djúpum skilningi. Í erindinu verður þessi greining Páls á sambandi manns og náttúru tengd við samsvarandi kenningar Hegels, Freuds, Lacans og Deleuze um samband merkingar, mannveru og hins raunverulega.

Bragi Þorgrímur Ólafsson, doktorsnemi í sagnfræði
Dýrgripur Ragnheiðar Finnsdóttur. Sagan á bak við JS 251 4to

Í handritasafni Landsbókasafns Íslands eru varðveitt um fimmtán þúsund handrit. Stærstur hluti þeirra er frá síðari öldum og hafa þau mörg hver verið í fórum fjölda manns áður en þau komust í eigu Landsbókasafns. Meðal fyrri eigenda er alþýðufólk sem hefur skilið eftir sig takmarkaðar heimildir á opinberum vettvangi. Í erindinu verður varpað fram nokkrum spurningum um það hvernig handritin gætu nýst við að varpa félagssögulegu ljósi á bókmenningu þessa hóps og tekið dæmi af handritinu JS 251 4to, en þar má finna örstutt textabrot sem gæti nýst við slíkar rannsóknir.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður og prófessor í myndlist
Innan ramma myndlistarinnar: Samtöl manna og dýra í landslaginu

Erindi þetta byggir á listaverkum Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Marks Wilson, sem vinna með samband manna og dýra. Aðaláherslan að þessu sinni er á verkefni þeirra um selinn, sem hefur verið sýnt á alþjóðavettvangi sem rýmisverk undir heitinu between you and me. Selurinn hefur verið við strendur Íslands í gegnum árin og hefur samband mannsins við hann breyst töluvert á undanförnum árum. Til er fólk sem hefur gengið í gegnum allt ferlið og man selinn sem matfang, sem réttdræpt meindýr, og nú sem fagurfræðilega veru sem hluta af landslagi sjávar og fjöru. Myndlistin vinnur með myndlíkingar og í tengslum við dýr eftirlíkingar sem oft eru látnar flytja vafasaman boðskap um eðli og eiginleika raunverulegrar fyrirmyndar. Í verkum sínum vinna Bryndís og Mark út frá samfélagslegu sjónarmiði þar sem leitast er við að skapa tengsl milli þess sem unnið er með og þess sem er að gerast í þjóðfélaginu. Hvað breytist í túlkunarferlinu þegar umhverfið eða landslagið er hluti af verkinu og þar af leiðandi heildarmyndinni?

Carine Defoort, K.U. Leuven
How China Names?

One important and often overlooked aspect in the question of “What China Thinks?” is "How China Names?" or, more specifically, what is its sensitivity to the power of words. The fact that we can do many more things with words that merely describe reality has been a major conviction in the Chinese intellectual history from its earliest philosophers till today.

The philosophical texts of the 5th till 3rd century B.C., the formative period of Chinese thought, abound with verbs or expressions meaning “to name”, “to refer to”, “to be called” (wei , yue 曰). In Western translations, these expressions often lose their importance or inadvertedly disappear to be replaced by the verb “to be”. Similarly, Westerners sometimes fail to catch the importance of fixed expressions, labels and slogans that have a crucial function in contemporary China. Using the distinction between the “emotive power” of terms and their “descriptive content”, I will analyse three naming techniques at work in the ancient texts--persuasive definitions, re-labelling reality, and insisting on the term—and show examples of their contemporary relevance in China.

Christina Folke Ax, sjálfstætt starfandi fræðimaður, og Íris Ellenberger, doktorsnemi í sagnfræði
Aðlögun að íslensku samfélagi 6.-8. áratugar 20. aldar í minni danskra innflytjenda í samtímanum

Í erindinu verður fjallað um viðtalsrannsókn sem framkvæmd var á rúmlega 30 Dönum af elstu kynslóð þeirra sem nú eru lifandi. Þar kemur fram hvernig viðmælendur tala um aðlögun sína að íslensku samfélagi, hvaða þættir liggi að baki aðlöguninni og hvaða skilyrði þeir þurfi að uppfylla til að teljast gjaldgengir í íslensku samfélagi. Fjallað verður um þá möguleika og annmarka á að reiða sig á minni viðmælenda við sagnfræðilegar rannsóknir á aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi fyrr á tímum. Ein af þeim spurningum sem tekist verður á við í erindinu lýtur að því hvort vitnisburður viðmælendanna um aðlögun sé lýsandi fyrir 6.-8. áratug 20. aldar eða hvort hann endurspegli fyrst og fremst umræðuna um innflytjendur í samtímanum.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum
Barn að eilífu

Eitt eigum við öll sameiginlegt: við munum ekkert frá fyrstu árum ævinnar. Fyrstu bernskuárin eru ekki skrásett í minningunum (segjum við) og þó vitum við oft hvað ætti að vera þar. „Bernska okkar“ er fyllt af tungumáli, tilfinningum og sögum sem gjarna eru sagðar í barnabókunum sem haldið er að okkur. Frægasta barnabók allra tíma er sagan af barninu eilífa, Pétri Pan. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig upprunagoðsagnir um sakleysi, sannleika og gleði bernskunnar byggjast á harðhentri ritskoðun og gleymsku.

Daisy Neijmann, dósent í íslensku, University College London
Skilningslaus, hlutlaus, getulaus. Gluggað í minningar Páls Jónssonar blaðamanns

Í þessu erindi verður kannað hvernig skáldsögurnar Gangvirkið og Seiður og hélog (Páls saga) eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson fjalla um afleiðingar sektarkenndar og tráma í kjölfar þeirra djúptæku breytinga sem áttu sér stað í íslensku samfélagi á árum síðari heimsstyrjaldar. Sérstaklega verður athugað, út frá kenningum minnisfræða, hvort túlka mætti persónuleika Páls sem tákn um ‚fjarveru‘ frá sögulegum atburðum og endurminningaformið sem tilraun til að fást við beyg, sektarkennd og ‚minniskreppuna‘ svokölluðu, sem minnisfræðingar telja fylgifisk nútímans.

Davíð Ólafsson, sagnfræðingur
Heimsmenning í handritum. Af óprentuðum þýðingum á nítjándu öld

Um jólaleytið árið 1870 sat kotbóndi norður í Bjarnafirði fast við með pennastöng, blek og pappír og skrifaði upp íslenska þýðingu á einu af lykilritum trúarbragðasögunnar, Gyðingasögu Flavius Josephus. Þessi frásögn og ýmis önnur dæmi frá nítjándu öld sýna að þýðingar af ýmsu tagi voru hluti af þeirri heild sem kalla má textaheim íslenskrar alþýðu, ekkert síður en Íslendingasögur og rímur. Í erindinu verður vikið að nokkrum slíkum dæmum og fjallað um hvaða áhrif það hefur á mynd okkar af íslenskri hugmynda- og bókmenntasögu að gefa þeim aukinn gaum.

Edda R.H. Waage, doktorsnemi í landfræði
Fyrirbærið landslag

Í þessu erindi verður íslenska hugtakið landslag tekið til gagnrýninnar skoðunar. Leitast er við að skilja verufræði landslags út frá kenningum um tengslanet og fyrirbærafræði Maurice Merleau-Pontys. Í stað þess að líta á landslag sem hlutbundinn veruleika er það skilgreint sem rými sem verður til við tengsl manns og náttúru af ákveðnu tagi, þ.e. tengsl sem myndast gegnum sjónræna skynjun mannsins á formum náttúrunnar og þá fagurfræðilegu upplifun sem af henni getur hlotist. Af þessu leiðir að rétt eins og náttúran er maðurinn órjúfanlegur hluti landslagsins, sem og fegurðin.

Einar Freyr Sigurðsson, meistaranemi í íslenskri málfræði
Uppruni nýju þolmyndarinnar

Nýja þolmyndin (Sigríður Sigurjónsdóttir og Maling 2001) hefur rutt sér til rúms í íslensku á mjög skömmum tíma að því er virðist. Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um uppruna hennar en þó hefur ekki tekist að sýna fram á hver hann er. Hvað veldur því að nýja þolmyndin er tæk í íslensku og pólsku en ekki í nágrannamálunum? Í fyrirlestrinum verður rætt um breytingar í sögu íslensku sem kunna að hafa ýtt undir breytinguna. Þá verður fjallað um þætti sem virðast ekki hafa breyst, svo sem hlutfallslega tíðni af-liða í þolmynd.

Eiríkur Kristjánsson, fornfræðingur
Formúlur í norrænum kveðskap?

Formúlur hafa verið snar þáttur í rannsóknum og skilningi á Hómerskviðum frá því Milman Parry umbylti þeim fræðum á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þótt formúlur komi ekki fyrir í norrænum kveðskap er hugsanlegt að hægt sé að varpa ljósi á eðli skáldamálsins með hugtökum og aðferðum fengnum að láni frá Hómersfræðum. Í þessum fyrirlestri verður lítið skref stigið í þá átt með því að skoða notkun og dreifingu á fáeinum orðum (sérstaklega hliðarmyndum eins og héðra, þaðra og þvísa) í Eddukvæðum, dróttkvæðum og rímum.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði
META-NORD og META-NET – brýr milli tungumála

Í erindinu verður sagt frá verkefninu META-NORD sem Norðurlöndin fimm og Eystrasaltslöndin þrjú standa að. Það er eitt þriggja systurverkefna (í Norður-, Austur- og Suður-Evrópu) sem eru útvíkkun á verkefninu META-NET og hafa að markmiði að efla málleg gagnasöfn (s.s. textasöfn og orðasöfn af ýmsu tagi) sem nýst geti í margvíslegum máltækniverkefnum. Ekki er ætlunin að byggja slík söfn frá grunni, heldur ljúka við söfn sem eru í vinnslu, staðla þau og gera aðgengileg. Megintilgangur verkefnisins er að skapa tæknilegar forsendur fyrir margmála upplýsingasamfélagi í Evrópu þar sem allir geti notað móðurmál sitt við öflun og úrvinnslu hvers kyns upplýsinga. Máltæknifyrirtækið Tilde í Riga í Lettlandi leiðir verkefnið sem hófst 1. febrúar sl. og stendur í tvö ár. Af Íslands hálfu tekur Máltæknisetur þátt í verkefninu, en það er samstarfsvettvangur Málvísindastofnunar Háskóla Íslands, tölvunarfræði­deildar Háskólans í Reykjavík og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Eiríkur Smári Sigurðarson, heimspekingur og rannsóknastjóri Hugvísindasviðs
Svefn er flogakast

Litlu náttúrufræðiritin (Parva naturalia) eru að flestra mati í hópi síðustu verka Aristótelesar. Í þeim fæst hann við vandamál sem tengjast líkama og sál sameiginlega, svo sem skynjun og minni; svefn, vöku og drauma; forspá af draumum; langt og stutt líf; æsku og elli, líf og dauða, og andardrátt. Hér byggir hann á kenningu sinni um sálina og eigin rannsóknum á dýraríkinu. Við sjáum í þessum verkum kenningu sem hefur að fullu brotist undan hugmyndum Platons um sjálfstæða tilvist sálarinnar, sem Aristóteles aðhylltist áður, og sér sál og líkama sem tvo óaðskiljanlega hluta eða tvær hliðar á sama hlut. – Í fyrirlestrinum verður fjallað um kenningu Aristótelesar um svefn, hvernig kenningaramminn um orsakirnar fjórar virkar í skýringum á svefni, og hvernig hið sameiginlega skynfæri virkar – eða virkar ekki – í tilfelli svefns og drauma. Gengið verður út frá ritinu De somno (Um svefn) en einnig vísað til De anima (Um sálina) og náttúrufræðiritanna.

Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir, meistaranemi í almennum málvísindum
Staða HVER og HVAÐ auk annarra spurnarorða í hv-spurningum í íslenska táknmálinu

Fram til ársins 2010 hafði staða spurnarorða í hv-spurningum í íslenska táknmálinu (ÍTM) aldrei verið rannsökuð. Í ársbyrjun 2010 fékkst þó þriggja ára styrkur frá RANNÍS fyrir verkefninu Málfræðilegar formdeildir og hlutverksliðir með hliðsjón af miðlunarhætti. Einn hluti þessa verkefnis er t.a.m. að skoða hv-spurningar í íslenska táknmálinu. Í fyrirlestrinum verður rætt um þær athuganir á hv-spurningum sem gerðar hafa verið í verkefninu og niðurstöður þeirra ræddar. Helstu niðurstöður eru líklega þær að spurnarfærsla virðist ekki vera skyldubundin en þó möguleg í ÍTM. Ef færsla á sér stað er hún þó líklega frekar til hægri en til vinstri, ólíkt því sem vaninn er að sjá t.d. í raddmálum.

Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku
„[…] og sigler nú Kólúmbús med sÿn tvö skip og föruneÿte ä stad […]“. Landafundirnir og Nýi heimurinn í íslenskum handritum

Fréttir af landafundum Spánverja í nýjum heimi bárust fyrst til Spánar í munnlegum frásögnum sæfara og því næst í bréfum, kronikum og ýmsum öðrum ritum. Þessi skrif bárust fljótlega ýmist á spænsku eða latínu til annarra landa í Gamla heiminum þar sem þau voru jafnvel þýdd á þjóðtungur viðkomandi landa. Þessar þýðingar fóru landa á milli og sumar bárust til Íslands. Hér er ætlunin að fjalla um nokkur íslensk handrit frá 17., 18. og 19. öld sem hafa að geyma þýðingar um landafundina og Nýja heiminn.

Erla Hulda Halldórsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði
Sjálfsmynd í bréfi

Í fyrirlestrinum verður rætt um sköpun sjálfsmyndar í bréfasamböndum út frá kenningum um „mikilvægan hinn“ en einnig hvernig sú sjálfsmynd sem lesa má úr sendibréfum kvenna kemur heim og saman við þann „veruleika“ sem þær lifðu í.

Eyja M. Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands
Að skoða náttúru til að skoða náttúru

Frumspeki er samkvæmt skilgreiningu rannsókn á því sem er handan reynslu okkar. Meðal þess sem hún fæst við er eðli hlutanna, eða „náttúra“. Hugmyndin er þá sú að hlutir séu á einhvern tiltekinn hátt í eðli sínu, að það sé eitthvað sem gerir viðkomandi hlut að því sem hann er. Þetta fellur undir þá gerð frumspeki sem kölluð er verufræði. Eins og við vitum er orðið ‚náttúra‘ margrætt en oft er það notað um það sem umlykur okkur og við höfum ekki skapað. Það er út frá þessum skilningi sem talað er um náttúruvísindi og í þeim er gjarnan notast við reynslu, enda náttúruvísindi líka kölluð reynsluvísindi eða raunvísindi. Í þessum fyrirlestri velti ég því fyrir mér hvort hægt sé að nota gögn úr reynslubundnum rannsóknum í sálfræði til að varpa ljósi á verufræðilegt eðli. Annars vegar skoða ég hvort rannsóknir á hegðun og afstöðu fólks til peninga geti gefið okkur vísbendingar um eðli peninga og hins vegar hvort rannsóknir á skynjun fólks á formi geti sagt okkur eitthvað um form sem eiginleika.

Eysteinn Þorvaldsson, prófessor emeritus á Menntavísindasviði
Um íslenskan kveðskap í Vesturheimi

Kveðskapur var lengi vel helsti þátturinn í menningarlífi Vestur-Íslendinga enda eina listgreinin sem fyrstu landnemakynslóðirnar höfðu vald á. Kveðskapur þeirra er mikill að vöxtum og kvæðin varpa sérstöku ljósi á líf, störf og viðhorf Vestur-Íslendinga meðan íslenska var töluð og ort var á íslensku þar vestra. Athyglisvert er einnig hve mörg þessi skáld voru. Íslensk skáld fluttust ekki til Ameríku, nema fáein tímabundið, en ótrúlega margir urðu skáld þegar vestur var komið. Yrkingar voru m.a. þáttur í löngun þeirra og viðleitni að halda tengslum við uppruna sinn og sýna fornri menningararfleifð ræktarsemi.

Það er einnig athyglisvert að önnur kynslóð Vestur-Íslendinga, þ.e. börn fyrstu landnemanna og þeir sem fluttust vestur á barnsaldri, höfðu sömu afstöðu til íslenska menningararfsins. Flest þeirra ortu á íslensku eins og hinir eldri, t.d. Guttormur Guttormsson, Jakobína Johnson og Jóhann Magnús Bjarnason. Þessi kynslóð var reyndar tvítyngd og sumir þessara uppalninga Ameríku ortu á ensku, t.d. Guðmundur J. Gíslason, Skúli Johnsen og Vilhjálmur Stefánsson.

Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði
Miðlun heimsins bókmennta: er hún upprunnin á Íslandi?

Hugmyndin um heimsbókmenntir er oft talin vera komin frá þýska skáldinu Goethe, en í þessu erindi verða borin fram ný sönnunargögn þar sem fram kemur að svo er alls ekki og raunar tengist hugmyndin sterklega íslenskum bókmenntum. Hér verður farið yfir heimsbókmenntahugtakið, meinta tilurð þess og raunverulega.

Gavin Lucas, dósent í fornleifafræði
Ruin-nation: reflections on the Icelandic ruin

In this talk, I will explore the nature of ruins in the Icelandic imaginary, in particular the tensions between ruin gazing and ruin razing. The latter – that is, the intentional destruction of ruins, will then be linked into a more general consideration of the processes of ruination and how these connect up to a multi-sited archaeology. This will be illustrated through a brief examination of the abandonment of the fishing village on Viðey in the mid 20th century which forms part of a wider study by the author on modern Icelandic ruins. Ultimately, it will be argued, ruination helps us to re-think the centrality and importance of the material world to history.

Geir Þórarinn Þórarinsson, doktorsnemi við Princeton-háskóla og stundakennari við HÍ
Hamingja, dygð og mannlegt eðli

Flestir heimspekiskólar fornaldar höfðu kenningar um mannlegt eðli, misvel útfærðar að vísu. Í sumum tilvikum byggðist siðfræði heimspekinganna beinlínis á kenningum þeirra um manneðlið. Stóuspekingar höfðu kenningu um eðlishvatir og viðfang þeirra (gr. oikeiosis) sem gegndi ákveðnu hlutverki í siðfræði þeirra. Aristótelískir heimspekingar gældu ekki við slíkar hugmyndir fyrr en á fyrstu öldunum eftir okkar tímatal. Hvaða not höfðu þeir fyrir þær? Undir lok annarrar aldar eftir okkar tímatal teflir Alexander frá Afrodisías fram aristótelískri kenningu um eðlishvatir og viðfang þeirra til þess að andmæla kenningu Stóumanna um að dygð sé nægjanleg forsenda hamingjunnar. Þannig er aukin áhersla lögð á náttúruhyggju í aristótelískri siðfræði en hún er í senn mikilvæg þáttur siðfræðinnar og aðlaðandi.

Gottskálk Jensson, prófessor í almennri bókmenntafræði
Visiones Gunnlaugs Leifssonar, enn eitt glatað íslenskt latínurit frá miðöldum

Skömmu fyrir 1200, um það leyti sem Þorlákur Þórhallsson (1133 - 23. des. 1193) var tekinn í tölu heilagra manna, skrásetti Gunnlaugur Leifsson, munkur á Þingeyrum, Visiones (Vitranir) fólks sem hafði dreymt eða að öðru leyti upplifað Þorlák framliðinn. Að sögn B-gerðar Þorláks sögu á norrænu, sem bróðir Bergur Sokkason tók saman um 1350, réðst Gunnlaugur í skrifin að undirlagi Guðmundar Arasonar, síðar biskups, og samdi ritið á latínu. Í erindinu verður safnað saman úr ýmsum áttum því efni sem virðist eiga uppruna í riti Gunnlaugs og þess freistað að lýsa þessum glataða íslenska latínutexta, innihaldi hans og tilgangi.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki
Landslag, fegurð og fagurfræði

Landslagshugtakið hefur verið túlkað á marga mismunandi vegu í gegnum tíðina, en hversdagslegur skilningur á hugtakinu bæði á íslensku og ensku gefur til kynna sterk tengsl þess við fegurðarhugtakið og hið fagurfræðilega. Til þess að skilja merkingu landslags er því nauðsynlegt að byrja á því að kryfja fegurðarhugtakið og það hvernig skilningur á því hvað er fagurfræðilegt grundvallast á fegurðarhugtakinu. Hin hefðbundna hugmynd um fegurð gerir ráð fyrir að upplifun af fegurð sé hagsmunalaus

(e. disinterested) og fjarlæg reynsla vitundar af aðskildu viðfangi. Þessi hugmynd leiðir til ákveðinnar tvíhyggju um fegurð, hið fagurfræðilega og landslag, þar sem fegurð er rakin annaðhvort til hlutbundinna eiginleika viðfangsins eða til huglægrar reynslu vitundarinnar. Hér verður fjallað um fyrirbærafræðilegar túlkanir á fegurðarhugtakinu og landslagshugtakinu þar sem gert er ráð fyrir að fagurfræðileg merking og gildi landslags sé hvorki bundin einungis við hlutbundna eiginleika viðfangsins eða huglæga reynslu vitundarinnar heldur verði merkingin til handan huglægni og hlutlægni, í tengslum á milli vitundar og viðfangs. 

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði
Þegar neyslugleðin var við völd

Hugmyndir okkar um neyslugleðina miklu sem ríkti á „góðæristímanum“  byggjast aðallega á sögum af ævintýralegum  dellum „þotuliðsins“ og æði almennings í ákveðnar lúxusvörur. Í erindinu er reynt að festa betur hendur á neyslubólunni með því að rýna í neyslukannanir og gögn um einkaneyslu. Hvaða skilyrði skópu neyslubóluna og hvaða mynd hún tók á sig? Neyttu Íslendingar bara meira af því sama eða urðu markverðar breytingar á neysluháttum? Og hvaða áhrif hafði Hrunið á neyslu landsmanna?

Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði
Dómsdagsklukkan tifar: Upplýsing og afneitun í ljósi loftslagsvísinda

Í fyrirlestrinum fjallar Guðni Elísson um það hvers vegna almenningur á Vesturlöndum bregst ekki við af meiri festu, þegar hrakspár um loftslagsbreytingar varða jafnvel framtíð mannsins á jörðinni? Í afneitunarferlinu má iðulega greina afstöðu sem skilgreind hefur verið sem „harmleikur almenningsins“ (e. tragedy of the commons). Þá endurtaka svo margir sama hegðunarmynstur sem þjónar skammtíma­hagsmunum einstaklingsins hverju sinni, en ekki heildarhagsmunum, að niðurstaðan verður hörmuleg fyrir alla heildina. Loftslagsafneitunin tekur á sig ýmsar myndir sem allar snúast um að seinka því að takast á við vandann og fresta sársaukafullum aðhaldsaðgerðum. Réttlætingarnar sem settar eru fram má flokka á ýmsa vegu og eru oft svo margbrotnar að ógjörningur er að skilgreina þær á einfaldan hátt. Hér verða nokkrar þeirra raktar og tengsl þeirra við hagvaxtarkröfuna dregnar fram, en það flækir auðvitað málin ef ekki er hægt að breyta atferli almennings með fræðslu. Að sama skapi veikist forvarnargildi spálíkana ef hagvaxtarkrafa Vesturlandabúa er tengd djúpstæðri fíkn og ávanabindingu.

Guðný Hallgrímsdóttir, sagnfræðingur
„ ... því guð gaf mér málið eins og honum.“ Um handrit kvenna í meðförum karla

Sjálfsævisaga Guðrúnar Ketilsdóttur er hugsanlega elsta sjálfsævisaga íslenskrar alþýðukonu sem varðveitt er á handritadeild Landsbókasafnsins. Heimildir sem þessar, þar sem kona tjáir sig á jafn opin og einlægan hátt um eigið líf, eru einstakar og varpa mikilvægu ljósi á daglegt líf kvenna fyrr á tímum. Sjálfsævisaga Guðrúnar er líka ágætt dæmi um hvernig staðið var að skráningu á handritum kvenna. Sjálfsævisögu hennar skráði Páll Eggert í handritaskrár Landsbókasafnsins sem kímnisögur af kerlingarflóni og skipaði henni í flokk með álfa- og draugasögum. Við það „hvarf“ handritið í raun í handritaskránum, komst í flokk með efni sem ólíklegt væri að fræðimenn leituðu í, aðrir en þeir sem áhuga hefðu á álfa- og draugasögum. Viðfangsefni mitt er sjálfsævisaga Guðrúnar og hvernig karlarnir sem um hana fóru höndum, lifandi og dauða, réðu ráðum sínum.

Guðrún Guðsteinsdóttir, dósent í ensku
Hverjir eru „við“ í skáldsögunni Baldur's Song eftir David Arnason?

Laura Goodman Salverson gat alhæft margvíslega um eðli, atgervi og siðvenjur Íslendinga í samanburði við önnur þjóðarbrot í skáldsögunni The Viking Heart (1923), þar sem hún rekur afdrif íslenskra innflytjenda til Nýja-Íslands. Það virðist nær óhugsandi að póstmódernískur höfundur eins og David Arnason láti freistast til að vera með slíkar alhæfingar um sitt eigið þjóðarbrot eða annarra. Alhæfingar um forfeðurna eru þó samt sem áður helsta uppspretta húmors í bráðskemmtilegum upphafsköflum nýútkominnar skáldsögu Davids, Baldur's Song, sem rekur þessa þjóðflutninga að verulegu leyti eftir hans eigin ættboga. Í erindinu mun ég athuga nánar frásagnartæknina sem David beitir þegar hann dregur upp mynd af „okkur“.

Guðrún Ingólfsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Hún fékk bók! Handrit í eigu kvenna

Engar formlegar athuganir hafa verið gerðar á handritaeign kvenna á síðari öldum. Í tengslum við doktorsritgerð mína, þar sem ég m.a. fjalla um handrit skrifað fyrir 18. aldar konu, gerði ég yfirlit yfir handritaeign kvenna eins og hún blasir við í handritaskrá Landsbókasafns Íslands. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar og fjallað um þau vandamál sem bíða þess er leggur í slíkan leiðangur.

Guðrún Kvaran, prófessor og stofustjóri orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Kleyfsi og orðmyndun Jóns Árnasonar biskups

Árið 1738 gaf Jón Árnason biskup út latnesk-íslenska orðabók, Nucleus latinitatis, sem allt frá dögum Jóns hefur gengið undir heitinu Kleyfsi. Fyrirmynd Jóns var samnefnd bók eftir Hans Gram, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Íslenskur orðaforði í bókinni er mikill að vöxtum og fjölda íslenskra orða hefur Jón sett saman sjálfur sem eru stakdæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Í fyrirlestrinum er ætlunin að bera valin orð að orðabók Grams með það fyrir augum að skoða aðferðir Jóns við orðmyndun, hvort hann þýddi beint eftir Gram eða fór sínar eigin leiðir.

Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Greinarmerkjasetning í handritum

Í erindinu verður rætt um greinamerkjasetningu í handritum og þá sérstaklega í uppskriftum dróttkveðinna vísna. Skoðað verður hvort punktar geti verið einhvers konar hrynmerki, og þá gefið vísbendingu um hvernig kvæðin voru flutt. Tekin verða dæmi úr Guðmundar sögum og Sturlungu.

Guðrún Steinþórsdóttir, MA-nemi í íslenskum bókmenntum
„En mér finnst mannakjöt bara svo gott.“ 

Í fyrirlestrinum verður skáldsagan Leyndarmálið hans pabba eftir Þórarin Leifsson til umfjöllunar. Efni bókarinnar verður tengt við hugræn fræði og í því sambandi fjallað um blöndunar- og rammakenningar þar sem megináhersla verður lögð á húmor og ótta.

Guðrún Theodórsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli
Aðferðir erlendra íslenskunema til að fá að taka þátt í samræðum á íslensku

Það er ekki víst að þeir sem eru að læra íslensku sem annað mál fái tækifæri til að tala íslensku við Íslendinga utan kennslustofunnar. Erlendir stúdentar í íslenskunámi við HÍ hafa lengi kvartað yfir því að Íslendingar vilji tala ensku við þá. Nýjar rannsóknir (Guðrún Theodórsdóttir, 2010) sýna að það eru íslenskunemarnir sjálfir sem bera ábyrgð á því að íslenska sé notuð í samskiptum við þá. Í þessu erindi verða sýnd nokkur dæmi um þær aðferðir sem erlendur nemi notar til að fá að tala íslensku við Íslendinga.

Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslenskri málfræði
Áhrifsbreytingar í sögu sterkra sagna

Beyging íslenskra sagna hefur breyst á ýmsa vegu í tímans rás, og m.a. hafa einstakar sagnir skipt um beygingarflokk. Ef til vill hefði mátt búast við að sterkar sagnir flykktust yfir í virkasta flokkinn, þ.e. flokk veikra sagna af gerðinni kalla — þt. kallaði. Það kom að vísu fyrir nokkrar sagnir, t.d. bjarga — þt. barg, sem tók upp þátíðina bjargaði, en einnig tóku sagnir upp sjaldgæfari veika beygingu, t.d. rísta — þt. reist, sem varð rista — þt. risti, eða nýja sterka beygingu, t.d. fela — þt. fal, sem fékk þátíðina fól. Í fyrirlestrinum verður rýnt í eðli slíkra áhrifsbreytinga og tekin dæmi úr sögu íslenskra sterkra sagna.

Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki
Orð og gjörðir: Rök laganna í Krítóni og hlutverk þeirra

Í samræðunni Kríton eftir Platon, þar sem fram kemur eitt fyrsta dæmið um sáttmálakenningu um samfélagið, er til umfjöllunar sú spurning hvort rétt sé að brjóta lögin ef mikið liggur við. Kríton vill að Sókrates geri það með því að flýja úr fangelsinu sem honum er haldið í en Sókrates hafnar því á þeim forsendum að það sé rangt, m.a. vegna þess að þar með væri hann að rjúfa sáttmála sinn við lög Aþenuborgar. Eitt þekktasta atriðið í samræðunni er ræða þar sem Lögin taka sjálf til máls og halda þrumuræðu yfir Sókratesi því skyni að fá hann ofan af því að bregðast þeim. Spurningin sem hér verður rædd er sú hvers vegna Sókrates virðist láta sannfærast af ræðu Laganna, sem er frekar í anda sófískrar ræðumennsku en sókratískrar samræðu.

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins 
„Til einskis hef ég haldið hjarta mínu hreinu.“ Jobsbók og Sálmur 73

73. sálmur Saltarans sýnir ýmiss konar skyldleika við Jobsbók sem girnilegt er að gaumgæfa. Jobsbók fjallar um þjáningu hins réttláta manns, 73. sálmurinn fjallar um „velgengni hinna guðlausu“ (v. 3). Í báðum tilfellum er verið að bregðast við hefðbundinni kenningu spekistefnunnar, endurgjaldskenningunni, um að menn uppskeri eins og þeir sái. Job deilir um efnið við vini sína. Höfundur 73. sálms bregst við hliðstæðum staðhæfingum úr 1. sálmi. Í erindinu verður 73. sálmur borinn saman við Jobsbók.

Gunnlaugur Ingólfsson, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Fyrstu prentuðu íslensku orðabækurnar

Um miðja 17. öld voru samdar tvær orðabækur um íslenskt mál sem á prent komust. Hin eldri er að stofni til frá 1635 og var prentuð í Kaupmannahöfn árið 1650 undir heitinu Specimen Lexici Runici (Sýnishorn rúnaorðabókar). Hún var samin af séra Magnúsi Ólafssyni í Laufási (1573–1636). Orðaforðinn nær fyrst og fremst yfir forníslensk rit, einkum Íslendingasögur, konungasögur og gamlan kveðskap sem ekki var til á prenti þegar orðabókin var gerð en þó er nokkuð um einstök orð, orðtök og málshætti úr samtíma höfundar. Hin yngri var samin á árunum 1650–54 en komst ekki á prent fyrr en árið 1683. Höfundur hennar var Guðmundur Andrésson sem á þessum árum var innritaður við háskólann í Kaupmannahöfn en sinnti jafnframt ýmsum fræðistörfum fyrir Ole Worm og hefur líklega hafið orðabókarverkið að undirlagi hans. Guðmundur og Worm létust í pest sem geisaði í Kaupmannahöfn sumarið 1654. Handritið að orðabók Guðmundar komst síðar í eigu P.H. Resens sem kom verkinu á prent undir heitinu Lexicon Islandicum …. Verk Guðmundar er sýnu meira að vöxtum en Specimen … sr. Magnúsar og miklu meira er þar af orðafari úr samtímamáli en í Specimen …, svo og kveðskaparbrot bæði rímna kyns og úr danskvæðum. Í erindinu verður þessum verkum lýst nánar og þess freistað að bera þau saman.

Gunnvör S. Karlsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Ölmusur í hringiðu valdabaráttu

Í Guðmundar sögum Arasonar greinir frá því að fátækir hafi dáð hann fyrir ölmusugæði en valdastéttin sett þau fyrir sig. Á prestsárunum framfleytti Guðmundur að jafnaði sjö manns. Það þótti fásinna og hlutast var til um að skipt væri þingum við hann „og skyldi hann þau hafa, er féminnst voru. En enginn fékk hnekkt örlæti hans.“ Í prestssöguhluta A-gerðarinnar frá 14. öld eru þó engar frekari frásagnir af ölmusum og aðeins ein jarteinasaga sem fallið getur undir ölmusujarteinir. Þær koma fyrst fram að marki eftir að Guðmundur hefur tekið við biskupsembætti. Ölmusuhugtakið hefur djúpa guðfræðilega merkingu en í sögum Guðmundar leikur það á jaðri trúarhugsjóna og stjórnmála. Dýrlingshelgi fylgdi himneskt vald til kraftaverka en fékk það annað hlutverk á biskupsferli Guðmundar í höndum sagnaritaranna.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði
Gleymskan í minninu: um sérstakt hugtakasamband

Í erindinu verður rætt um tengsl hugtakanna minnis og gleymsku. Oft hefur verið bent á að gleymska er ekki andheiti eða andstæða minnis, heldur einmitt að samband þessara fyrirbæra sé mun nánara en svo; gleymska sé alltaf þáttur í hverri minningu. Fræðimenn hafa stungið upp á öðrum hugtökum til að lýsa andstæðu minnisins, eins og ‚þögn‘ eða ‚desmemoria‘. Orðin ‚óminni‘ og ‚algleymi‘ geta einnig varpað ljósi á þetta sérstaka samband. Hér verður skoðað hvernig þessi hugtakanotkun varpar ljósi á margar hliðar minnis og gleymsku, til dæmis varðandi heilastarfsemi, pólitík minnisins, viljandi gleymsku, bældar minningar og tráma. 

Hannes Högni Vilhjálmsson, dósent í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík
Samskipti í sýndarrými

Þegar horft er á sögu mannkyns, þá hafa samskipti okkar lengst af þróast augliti til auglitis. Það er ekki fyrr en á allra síðustu misserum sögunnar sem samskipti án okkar eiginlegra líkama verða möguleg. Líkamleg tjáning er því þétt ofin inn í okkar eðlilega samskiptamynstur, jafnvel þótt líkaminn þurfi ekki að vera til staðar. Sýndarrými eru grafísk rými þar sem fólk kemur meðal annars saman í netheimum. Í slíku rými birtist líkaminn sem stafrænn holdgervingur, eða avatar. Hvaða hlutverki þjónar þessi holdgervingur í samskiptum okkar í sýndarrýminu? Verða slík samskipti nokkurn tíma svipuð samskiptum okkar augliti til auglitis?

Haukur Þorgeirsson, doktorsnemi
Forliður í fornyrðislagi?

Fjallað verður um vísuorð sem virðast hafa forlið í Eddukvæðum undir fornyrðislagi, þ.e.a.s. vísuorð sem líkjast venjulegum vísuorðum en hafa að auki áherslulausa upphafsbragstöðu. Nýleg kenning Seiichis Suzuki um að þetta fyrirbæri sé „reglubundið og hluti af bragkerfinu“ verður skoðuð á gagnrýninn hátt og borin saman við eldri viðhorf. Forliður er ótvírætt hluti af íslenska bragkerfinu um miðja 14. öld og verður notkun hans í elstu rímum borin saman við notkunina í kvæðum undir fornum bragarháttum.

Heiða Jóhannsdóttir, doktorsnemi í kvikmyndafræði
Rótað í kvikmyndaarkífunum: Heimsvaldadraumar í kvikmyndum Cadbury-fyrirtækisins 

Frá því í árdaga kvikmyndalistarinnar hafa stofnanir og fyrirtæki nýtt sér möguleika miðilsins til hugmyndafræðilegrar mótunar, auglýsinga og áróðurs. Á undanförnum árum hafa kvikmynda- og sagnfræðingar í auknum mæli beint sjónum að iðnaðarkvikmyndinni og þætti hennar í framrás og mótun kapitalísks hagkerfis nútímans. Í fyrirlestrinum verður hugað að iðnaðarkvikmyndum í samhengi við víðtækan arf kvikmynda sem urðu til innan hugmyndafræðilegra og stofnanalegra vébanda breska heimsveldisins, en markviss söfnun og skráning á slíkum kvikmyndum hefur farið fram að undanförnu á vegum safnaverkefnsins Lifandi myndir breska heimsveldisins (Colonial Film: Moving Images of the British Empire). Rýnt verður í auglýsingakvikmyndir sem framleiddar voru á vegum stórfyrirtækisins Cadbury á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar, en þá sótti fyrirtækið stærstan hluta hráefnis síns til nýlendna Breta í Vestur-Afríku. Fjallað verður um heimsvaldahugmyndir sem setja mark sitt á kvikmyndirnar og þær settar í samhengi við umbrotaása nútímavæðingarinnar á sviði vinnustjórnunar, tæknivæðingar og neyslumenningar.

Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Fíkjutré og frjáls vilji: Um trúskipti í Nonnabókum Jóns Sveinssonar

Nonnabækurnar tólf eru bernskuminningar og ferðabækur höfundarins Jóns Sveinssonar (1857-1944) sem ólst upp frá tólf ára aldri meðal kaþólikka og jesúíta. Sjálfur snerist hann til kaþólskrar trúar og gerðist jesúíti. Í fyrirlestrinum verður fjallað um trúskipti Nonna í Nonnabókunum út frá kenningum táknfræðingsins Massimos Leone (2004) sem lítur á trúskipti sem sögu sem trúskiptingar segja hvað eftir annað til að styrkja eigin sjálfsmynd og eyða allri tilfinningu fyrir andlegu ójafnvægi. Hvaða hlutverki gegnir saga trúskiptanna í Nonnabókunum fyrir þá mynd sem Jón Sveinsson dregur upp af sjálfum sér? Er trúskiptum hans lýst sem brotthvarfi frá syndugu líferni og upphafi nýs og betra lífs eða sem einhverju öðru?

Helga Kress, prófessor emeritus
Sú hin mikla mynd: Um jöklasýn í íslenskum bókmenntum

Stiklað verður á jöklum í landslagi íslenskra bókmennta og hugað að hlutverki þeirra og táknrænni merkingu í tengslum við sjónarhorn og byggingu, sviðsetningu og myndmál, þjóðerni og kyn. Þá verður staldrað við jökulinn í dramatískum sögulokum Fegurðar himinsins (fjórða og síðasta bindis Heimsljóss, 1940) eftir Halldór Laxness og Sólskinshests (2005) eftir Steinunni Sigurðardóttur og hvernig áhugaverð textatengsl þeirra kjarnast í sýninni, minningunni, ferðalaginu, ástinni og dauðanum – ásamt því að ljúka verki.

Helga Ögmundardóttir, mannfræðingur og stundakennari
Fjallferðir, afréttir og umhverfismenning

Deilan um Þjórsárver og Norðlingaölduveitu hefur staðið í meira en fjóra áratugi og þótt nú hafi orðið hlé er henni ekki lokið. Á henni eru ýmis sjónarhorn og mun hér fjallað um eitt þeirra, þ.e. sjónarhorn staðarsamfélagsins; sveitarinnar, sem á sér félagslegar og menningarlegar hliðstæður um allan heim, t.d. meðal hinna ýmsu frumbyggjasamfélaga. Menning hvers svæðis er einstök og mikilvægi þess að hlúa að slíkum menningarkimum eykst með alheimsvæðingu hugmynda, tækni og viðskipta.

Í erindinu verður kannað hvernig sauðfjár- og afréttarmenning Gnúpverjahrepps hefur mótað afstöðuna til afréttarins sem Þjórsárver heyra til og umgengnina við hann og hvernig þessi staðbundni menningarkimi kallast á við umhverfismálavettvang heimsins. Sauðfjármenning hreppsins er í brennidepli, sett í umgjörð virkjana­menningar þjóðríkisins, harðnandi umhverfisverndarbaráttu á heimsvísu og heimsvæðingar hugmynda um réttindi frumbyggja, staðarmenningar og náttúru.

Helgi Björnsson, vísindamaður
Jöklafræði í íslenskum bókmenntum fyrr á tíð

Af gömlum íslenskum ritum, örnefnum og landakortum má ráða að til loka 18. aldar hafi þekking á jöklum á margan hátt verið meiri á Íslandi en í öðrum löndum. Íslenskar bókmenntir fjalla um jökla, útbreiðslu, stærð og hreyfingu þeirra, viðbrögð við loftslagsbreytingum og margs konar umbrot svo sem jökulhlaup, framhlaup og eldvirkni. Þar er skyggnst inn í hugarheim genginna kynslóða Íslendinga sem sennilega lifðu í nánara sambýli við jökla en aðrir jarðarbúar ef frá eru taldir inúítar á Grænlandi. Þessi ritaði fróðleikur nýtist við rannsóknir á sögu vísinda, loftslags- og jöklabreytinga, en einnig getur lesandi með nútímaþekkingu aukið skilning sinn á eðli jökla og atburðum sem núlifandi kynslóð hefur ekki upplifað.

Henry Alexander Henrysson, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands
Natura docet: Náttúruhugleiðingar á nýöld

Hugmyndin um að við lærum fyrst og fremst af reynslunni er að vissu leyti sprottin úr hinni fornu hugmynd um náttúruna sem kennara. Á sautjándu og átjándu öld áttu margir heimspekingar erfitt með að aðlaga þá hugmynd nýrri heimsmynd. Raunhyggjumenn gátu vissulega skipt út ,náttúru‘ fyrir ,reynslu‘, en heimspekingar sem flokkaðir eru til rökhyggju urðu að nýta náttúruhugtakið á meira skapandi hátt. Í þessu erindi verða dregin fram nokkur rök fyrir því hvers vegna hið gildishlaðna náttúrhugtak lék þrátt fyrir allt svo stórt hlutverk við upphaf heimsmyndar nútímans og hvernig hugmyndin um náttúru sem kennara getur átt erindi við samtímann.

Henry Rosemont, Jr., Brown University
The 'New Confucianism' in China Today

This lecture is a survey of the several and varied patterns of thought in contemporary China that are usually described collectively as “The New Confucianism.” These patterns encompass religion, philosophy, political organization, and the conduct of foreign policy as China is assuming an economic and political  place as a global power. The potential significance of these intellectual currents is not, however, confined solely to China itself, for Confucianism is being seen by increasing numbers of people inside and outside the country as having cross-cultural philosophical applicability on a par with Western philosophy.

Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu
Samband ríkis og kirkju í fortíð, nútíð og framtíð

Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á söguleg tengsl ríkis og kirkju í Evrópu. Í því sambandi verður varpað fram nokkrum grundvallarspurningum um þessi tengsl, svo sem: Hvernig hafa tengsl ríkis og kirkju þróast í aldanna rás? Hvernig eru þau hér á landi nú á dögum? Hvaða kostir eru í boði nú þegar heildarendurskoðun stjórnarskrár stendur vonandi fyrir dyrum? Er þörf á að marka trúmálapólitíska stefnu á Íslandi við upphaf 21. aldar? Hvaða sjónarmið er nauðsynlegt að leggja til grundvallar við mörkun slíkrar stefnu?

Hjalti Snær Ægisson, MA í almennri bókmenntafræði
Breytt í lútersku. Um latínuþýðingar Helga Hálfdanarsonar, lektors

Helgi Hálfdánarson, lektor, sendi frá sér kver með sálmaþýðingum árið 1873. Þar er að finna sex þýðingar latneskra miðaldasálma, en í formála verksins tekur Helgi fram að honum hafi ekki alltaf verið það sérstakt kappsmál að þýða sem nákvæmast: „Suma af sálmum þessum hef jeg leitazt við að út leggja sem næst frumsálmunum, aðra hef jeg þar á móti, jafnvel með vilja, út lagt fjær orðum, og fremur haldið mjer við aðalhugsunina.“ Um einn sálminn segir Helgi: „Hinum katólsku hugsunum frumsálmsins er hjer breytt í lúterskar.“ Í fyrirlestrinum verða þessar latínuþýðingar Helga skoðaðar og reynt að álykta um aðferð hans við að þýða úr einni trú í aðra.

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku
Listin að þýða heimsálfur: „Trú á friðsamlegt samband“

Umfang bókmenntaþýðinga úr spænsku á íslensku hefur ekki verið fyrirliggjandi fyrr en um þessar mundir. Í fyrirlestrinum verða sögu ljóðaþýðinga frá spænskumælandi löndum Rómönsku Ameríku á íslensku gerð skil. Sjónum verður sérstaklega beint að áhrifum þýðinga á ímyndarsköpun álfunnar og fjallað um þrjá tiltekna efnisflokka, umfang þeirra og tímabil. Í fyrsta lagi verða til umræðu svokölluð „intimista ljóð“ eða persónuleg ljóð, sem alla jafna fjalla um einstaklingsbundna reynslu ljóðmælandans. Því næst verða pólitískum baráttuljóðum frá ýmsum löndum gerð skil, en þar ber mikið á ljóðum frá sjötta og sjöunda áratugnum. Að síðustu verður fjallað um ljóð eftir skáld sem öðlast hafa viðurkenningu á alþjóðavettvangi og íslenskir þýðendur hafa talið eiga sérstakt erindi við íslenska lesendur. Má þar nefna þýðingar á ljóðum Jorges Luis Borgesar og Pablos Neruda.

Hrafn Loftsson, lektor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík
Mörkun og leiðrétting íslenskrar staðalmálheildar

Í þessu erindi verður fjallað um þróun nýrrar markaðrar málheildar sem inniheldur rúmlega eina milljón lesmálsorða. Markmiðið er m.a. að nota málheildina sem nýja staðalmálheild (e. gold standard) fyrir þjálfun og prófun á mörkurum fyrir íslenskan texta. Í erindinu verður einstökum hlutum ferlisins lýst, þ.m.t. textavali, tilreiðingu, mörkun með sameiningaraðferð, villugreiningu og villuleiðréttingu. Niðurstaðan sýnir að villugreiningarforritin eru markvirk og að mörkun með sameiningaraðferð skiptir sköpum til að minnka umfang þeirrar handleiðréttingar sem nú stendur yfir. Gert er ráð fyrir að aðferðirnar, sem beitt hefur verið í þessu verkefni, geti nýst öðrum aðilum sem vilja þróa sambærilegar málheildir fyrir önnur tungumál.

Hulda Kristín Jónsdóttir, doktorsnemi í ensku
To what extent do Icelanders believe that their English proficiency meets their daily communication needs within the business environment? 

A self efficacy/usage questionnaire has been made available to a number of Icelandic corporations with the intention of gathering data on English usage, confidence levels in English usage, current trends in English usage in the business environment and in order to gain more insight as to the current climate in the Icelandic business environment as a whole. The research questions focus primarily on business communication and the survey requests information at both a ‘personal’ and ‘institutional’ level so that the data may be utilised for both my doctoral thesis and as part of the larger project “English as a Lingua Franca in Iceland.” The survey hopes to include 300 NNS participants from various fields within the Icelandic labour market, specifically within industry, banking, medical, the travel industry, academia, ICT and energy. The extended survey would represent a 0.18% proportion of the working population in Iceland and I would like to present the data gathered so far.

Höskuldur Þráinsson, prófessor í íslenskri málfræði
Málbreytingar í sýndartíma og rauntíma

Í fyrirlestrinum er fyrst fjallað almennt um hugtökin málbreytingar í sýndartíma og málbreytingar í rauntíma. Síðan er því lýst á hvern hátt nokkrar viðamiklar rannsóknir á íslenskum mállýskum og tilbrigðum í máli hafa gefið vísbendingar um málbreytingar í sýndartíma og vakið spurningar um málbreytingar í rauntíma. Hér er í fyrsta lagi um að ræða „Rannsókn á íslensku nútímamáli“ (RÍN) á 9. áratug síðustu aldar og samanburð á niðurstöðum úr henni við niðurstöður úr framburðarrannsókn Björns Guðfinnssonar (BG) 40 árum áður. Í öðru lagi má bera niðurstöður rannsóknarinnar „Tilbrigði í íslenskri setningagerð“ fyrir fáeinum árum saman við niðurstöður úr viðamikilli rannsókn sem Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling (SS&JM) gerðu á nýju þolmyndinni svokölluðu (t.d. Það var hrint mér), en sá samanburður vekur spurningar um eðli málbreytinga og varanleika þeirra.

Ida Busk Pedersen, lektor í dönsku
Sondringer i dansk litteraturforskning omkring år 2000

Formålet med dette oplæg er at give et indblik i tendenser i samtidens danske litteraturforskning. Op gennem 90’erne og ind i 00’erne stod der modernismedebat på dagsordenen i Danmark. Modernismekonstruktionen blev kritiseret og Kolding-skolen bød ind med en ny konstruktion, Det Formelle Gennembrud. Spørgsmålet er hvilken betydning denne debat om modernismebegrebet har haft på litteraturforskningen og de historier denne fortæller om dansk litteratur? Hvad optager dansk litteraturforskning i disse år og er modernismedebatten død?

Irma Erlingsdóttir, lektor í frönsku og forstöðumaður EDDU – öndvegisseturs
Tungumál útlegðar. Um skrif alsírska rithöfundarins Assiu Djebar

„Milli-tveggja-tungna“ (fr. l´entre-deux-langues) er meginhugtak í skáldskaparlist alsírska rithöfundarins Assiu Djebar. Hugtakið tjáir millirýmið sem tengir frönsku og arabísku. Assia Djebar hefur fjallað um flókin tengsl þess sem hún nefnir „málsnið útlegðarinnar“ og „tungumál hins ósmættanlega“ í fræðigreinum en þessi tengsl eru einnig efniviður skáldverka hennar. Móðurmál Assiu Djebar er arabíska. Djebar hlaut hins vegar menntun sína í franska skólakerfinu. Djebar hefur sagt að til þess að slíta af sér fjötra frönskunnar sé nauðsynlegt að beita hana ofbeldi, einkum með að tvítyngja hana, menga hana arabísku talmáli og marka hana þannig sporum þjóðar sinnar.

„Tungumál hins ósmættanlega“ stendur fyrir minningarnar sem Djebar skráir í tungumálið; hún fyllir frönskuna arabískum tungum, alsírskri menningu og sögu − þannig verður franskan „hennar“. Til þess að greina frá þessum minningum, segir Djebar nauðsynlegt að hrista af franskri tungu vafasamt ryk landvinninga, ofbeldis og blóðsúthellinga. Tungumál hins ósmættanlega er einnig „nei“ andstöðu, mótspyrnu og uppreisnar gegn þöggun á alsírskri sögu, menningu og arfleifð og ekki síst gegn ósýnileika alsírskra kvenna í sögunni og menningunni.

Höfð verður hliðsjón af hugtaki marokkóska rithöfundarins Abdelkebir Khatibi „tví-tunga“ (fr. bi-langue). Hann tengir þetta hugtak þýðingarhugtakinu og líkir starfi rithöfunda við starf þýðenda. Khatibi skrifar á frönsku en móðurmál hans er arabíska. Hann segir móðurmálið vera að verki í hinu erlenda máli og að á milli þessara tungumála eigi sér stað stöðug þýðing.

Janis Mitchell, doktorsnemi í fornleifafræði
Artefacts in burial from Viking Age Iceland

This paper will focus on the burial assemblage from Viking Age Iceland. The visual analysis of artefacts from burial provide a source of material evidence of how a society treated their dead and in particular this enables a means to identify the selection processes for including grave goods in burial. A purposefully archaeological approach and the consideration of how objects might have been selected to represent and/or construct identity in death and how this relates to ways death was experienced and perceived within society during the Viking Age in Iceland is discussed.

Joel Wallenberg, nýdoktor við Málvísindastofnu
Towards A Field of Comparative Quantitative Information Structure

While there has long been an intuition that the subject position is “topical” or “(back)ground” (cf. Vallduvi 1992), there is little precise comparative data on the syntax-information-structure interface across languages. This paper brings a quantitative crosslinguistic perspective to this question, and investigates how the passive is used to manipulate the information structure by promoting an internal argument to subject. Using three syntactically parsed corpora which contain parallel texts (Penn-Helsinki Parsed Corpus of Early Modern English (PPCEME), the Parsed Corpus of Early New High German, and the Icelandic Parsed Historical Corpus (IcePaHC)), I show that English uses passivization at a significantly higher frequency than two closely related languages, Icelandic and German. I argue that V2 languages use the passive at a lower frequency because they can accomplish the same information structural goals using other methods (e.g. scrambling, A'-movement). Finally, data from the York-Toronto-Helsinki Corpus of Old English Prose provides evidence that Old English is more like Icelandic and German than it is like modern English in its use of passivization, showing that languages can change in how they fit syntax to information structure.

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, nýdoktor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Þróun Hrólfs sögu Gautrekssonar: ný gerð – ný hugmyndafræði?

Hrólfs saga Gautrekssonar er margslungið bókmenntaverk sem er flokkað sem fornaldarsaga; hún var vinsæl og áhrifamikil á síðmiðöldum en hefur ekki hlotið mikinn áhuga fræðimanna. Styttri gerð sögunnar hefur varðveist í handritum frá lokum 13. aldar en önnur lengri og töluvert breytt gerð birtist fyrst í handriti um öld síðar. Erindið mun varpa ljósi á handrita- og bókmenningu á Íslandi á síðmiðöldum og kanna hvernig bókmenntatexti breytist í handritum á tímabilinu. Markmiðið er að staðsetja Hrólfs sögu innan fjölþættrar bókmenntahefðar og tengja hana við menningarstrauma á Íslandi á síðmiðöldum, einkum áhrif riddarabókmennta og þeirrar hugmyndafræði sem þær boðuðu, t.d. varðandi konungsvald, hlutverk kynjanna, félagsleg samskipti (einkum milli karla) og æskilega samfélagslega hegðun. Sagan og umbreyting hennar verður skoðuð sem hluti af orðræðu valdastéttar á síðmiðöldum á Íslandi þar sem ný hirðleg hugmyndafræði og nýtt valdakerfi ruddu sér til rúms.

Jóhannes Gísli Jónsson, aðjunkt í íslenskri málfræði
Að elska, sárna og gleðja: Um stöðu skynjandans í tilfinningasögnum

Sagnir sem tákna tilfinningar hafa lengi valdið málfræðingum hugarangri, ekki síst spurningin um tengsl merkingarhlutverksins skynjandi (e. experiencer) annars vegar og málfræðihlutverka og fallmörkunar hins vegar. Hvernig stendur t.d. á því að í sumum tilfinningasögnum í ensku birtist skynjandinn (þ.e. sá sem upplifir tilfinninguna) sem frumlag, sbr. (1a), en með öðrum sögnum sem andlag, sbr. (1b)? 

(1a)      I like music
(1b)     Music pleases me

Í íslensku tekur þetta vandamál á sig enn flóknari mynd því þar getur skynjandinn verið frumlag í nefnifalli, þolfalli eða þágufalli, sbr. (2a-c), og andlag í þolfalli eða þágufalli, sbr. (3a-b):

(2a)      Sveinn elskar Maríu
(2b)     Mig langar að fara til Rómar
(2c)      Henni sárnaði þessi athugasemd
(3a)      Þessar fréttir glöddu alla viðstadda
(3b)     Svona bréf koma manni í vont skap

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um stöðu skynjandans í tilfinningasögnum, bæði í íslensku og öðrum málum, og rætt um hugsanlegar leiðir til að skýra hana á viðunandi hátt.

Jóhannes Bjarni Sigtryggsson, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Frá Bandle til Jóns Steingrímssonar: hljóð- og beygingarbreytingar frá 16. til 18. aldar

Margt er óljóst um sögu íslenskrar tungu á síðari öldum. Í doktorsverkefni mínu kanna ég framburð og beygingar í sjálfsævisögu Jóns Steingrímssonar, sem rituð er seint á 18. öld, og hugsanleg áhrif málhreinsunar á málið á henni. Ævisagan var rituð fyrir dætur Jóns og „án nokkurrar stílunarviðhafnar“ og hentar því vel til málrannsókna. Í erindinu greini ég frá nokkrum forvitnilegum niðurstöðum úr mállýsingunni og ber þær saman við mállýsingar 16. aldar rita og nútímamál. Meðal annars verður fjallað um miðmynd sagna, kringingu sérhljóða og beygingu frændsemisorða. 

Jón Ma. Ásgeirsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum
Trúarleg stef upplýsingarinnar í veraldlegum bókmenntum 19. aldar á Íslandi

Í þessu erindi verður sérstaklega fjallað um áhrif upplýsingarinnar á umbreytingu hinnar kristnu mýtu og þá sérstaklega mýtunnar um krossinn sem Hallgrímur Pétursson (1614-1674) hóf til hæstra hæða í anda lúterska rétttrúnaðarins. Áhrif frjálslyndu guðfræðinnar verða hér skoðuð, einkum í verkum eftir Jón Espólín (1769-1836) og Jón Thoroddsen (1818-1868). Ólíkar guðfræðilegar áherslur í þessum stefnum verða skoðaðar frá sjónarhóli nútímakenninga í mannfræði og félagsvísindum.

Jón G. Friðjónsson, prófessor í íslensku
Tengsl Guðbrandsbiblíu og Stjórnar

Leitast verður við að varpa ljósi á tengsl Stjórnar (elsta samfellda biblíuþýðingin) og Guðbrandsbiblíu með beinum samanburði. Teflt verður fram dæmum úr Guðbrandsbiblíu sem virðast eiga rætur sínar að rekja til Stjórnar og reynt að festa hendur á því sem textunum er sameiginlegt. Enn fremur verður leitast við að sýna fram á með dæmum að elstu biblíuþýðingar séu um margt ólíkar þýðingum siðaskiptamanna. Í fyrra tilvikinu virðist megináhersla lögð á það mál sem þýtt er á (íslensku) og af því leiðir að oft er naumast unnt að sjá að um þýðingu er að ræða. Þýðingar siðaskiptamanna bera það hins vegar með sér að þýðendur leituðust jafnan við að vera eins trúir frumtextanum og kostur var enda má oft sjá hatta fyrir frumtextanum.

Jón Gíslason, stundakennari í íslensku sem öðru máli
Framburðargildrur

Þeir sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og vilja fræðast um framburð íslenskra orða geta flett upp framburði í Blöndalsorðabók (frá 1920-24) og í Íslensk-rússneskri orðabók (frá 1962) þar sem uppflettiorð eru öll hljóðrituð. Nemendur nota þó fyrrnefndar orðabækur tæplega mikið, nema helst rússneskumælandi nemar þá íslensk-rússnesku og hjálpar til að hún er aðgengileg á netinu, þar að vísu án hljóðritunar.

Í þessu erindi ætla ég að fjalla um í hvaða orðum framburður er ekki fyrirsegjanlegur þeim sem læra íslensku sem annað mál. Í framhaldi af því vaknar sú spurning hvort ekki væri gagnlegt að fleiri orðabækur sýndu framburð orða. Samantekt um slík orð myndi einnig nýtast þeim sem fást við að kenna íslensku sem annað mál.

Jón Axel Harðarson, prófessor í íslenskri málfræði
Forsaga og þróun sagna eins og slöngva og slengja, þröngva og þrengja í íslenzku

Þeir sem einhverja þekkingu hafa á íslenzku fornmáli vita að fjölmargar sagnir sem í eldra máli höfðu oftast nafnháttarendinguna ‑va enda í nútímamáli yfirleitt á ‑ja, sbr. físl. byggva, hryggva, syngva og víkva (ýkva) andspænis nísl. byggja, hryggja, syngja og víkja. Í sumum tilvikum hafa tvímyndir orðið til eins og slöngva og slengja, þröngva og þrengja, sem auk formmunar beygjast á ólíkan hátt. Í fyrirlestrinum verður leitað skýringa á því hvers vegna hliðarmyndir með endingunni ‑ja voru til og hvers vegna þær leystu myndir sem enduðu á ‑va yfirleitt af hólmi.

Jón Karl Helgason, dósent í íslensku
Dularfulla fánastangamálið. Átökin í kringum aldarminningu Jónasar Hallgrímssonar

Að morgni hins 16. nóvember 1907, þegar menn hugðust draga upp fána í tilefni af aldarafmæli Jónasar Hallgrímssonar, komust þeir að því að búið var að skera á bönd fjölmargra fánastanga í miðbæ Reykjavíkur. Í fyrirlestrinum verður þessi dularfulli „glæpur“ tekinn til rannsóknar og tengdur væntanlegri afhjúpun á styttu Jónasar síðar þennan sama dag, sem og flokkadráttum í íslenskum stjórnmálum á fyrstu árum heimastjórnarinnar.

Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða
Rótað í framtíðinni: Gæðaþróun og samvinna

Skapandi greinum hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu árin, rétt eins og ferðaþjónustu sem verður sífellt mikilvægari atvinnugrein hér á landi. Í mörgum verkefnum á þessum sviðum er horft til sögu og þjóðmenningar og efniviður úr þeim sjálfbæra nægtabrunni nýttur til atvinnusköpunar og gerður að söluvöru. Margt hefur tekist afbragðsvel en annað miður, eins og gengur. Samvinna ólíkra aðila til að tryggja gæðin mætti að ósekju vera meiri á stundum, fræðimanna, ferðaþjóna og listafólks, og er margt sem hefur þar áhrif. Eftir stendur að það er undir hverjum hóp komið að gera sig gildandi og sýna og sanna að þeir hafi eitthvað marktækt til málanna að leggja. Hlutirnir hafa gerst hratt, ef litið er 20 ár aftur í tímann má kalla uppbyggingu á menningartengdri ferðaþjónustu hér á landi byltingu. Engin ástæða er til að ætla að breytingarnar verði minni næstu 20 ár.

Jón Hilmar Jónsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Að fanga orðaforðann: Orðanet í þágu orðabókar

Í þeim orðabókum sem að hefðbundnum hætti birta almenna lýsingu á orðaforðanum eru orðin hvert um sig sjálfstætt og afmarkað viðfangsefni, þar sem merkingarlegur breytileiki ræður mestu um efnisskipan. Af því leiðir að orðaforðinn sem slíkur og innra samhengi hans er ekki í brennidepli. Í Íslensku orðaneti er leitast við að lýsa orðaforðanum sem heild með því að greina og rekja innbyrðis vensl orðanna þar sem merkingarvensl og merkingarflokkun er í fyrirrúmi. Með því að láta greininguna og flokkunina ná til merkingarbærra orðasambanda auk stakra orða skerpist og stækkar myndin af orðaforðanum verulega. Jafnframt er mótuð framsetning og efnisskipan sem tryggir virka stöðu orðasambanda af ólíku tagi í orðabókarlýsingunni.

Jón Ásgeir Kalmansson, doktorsnemi í heimspeki
Athygli, náttúra og verðmæti

Algengt er að siðfræðilegar umræður um náttúruna fjalli um spurningar á borð við þá hvaða eiginleika fyrirbæri þurfi að hafa til að hafa eigið gildi eða siðferðilega stöðu. Skynsemi, skynhæfni og meðvitund eru dæmi um þá almennu eiginleika sem nefndir eru til sögunnar í þessu sambandi og sýnist sitt hverjum um það hver þeirra sé grundvöllur þegnréttar í siðferðilegu samfélagi. Í fyrirlestrinum verða færð fyrir því rök að athyglishugtakið geti varpað gagnlegu ljósi á slíkar umræður. Í stuttu máli verður því haldið fram að siðfræði af þessu tagi missi marks, að minnsta kosti ef það er ekki viðurkennt að hve miklu leyti siðferðislífið er fólgið í þeirri tegund athygli sem fólk veitir hlutunum.

Jón Ásgeir Sigurvinsson, doktorsnemi í guðfræði
Dauðinn í Jobsbók. Hugmyndir Jobsbókar um dauðann og dauðraríkið í samhengi annarra texta Gamla testamentisins

Í Jobsbók takast hinn helsjúki Job og vinir hans þrír á um réttmæti þjáningar Jobs sem heldur fram sakleysi sínu og flekklausu líferni. Vinirnir eru hins vegar fulltrúar fyrir hugmyndina um makleg málagjöld og leggja að Job að gangast við syndum sínum. Orð beggja aðila um dauðann eru oft samhljóma og bera vitni um hugmyndir manna í Ísrael til forna um tengsl syndar og dauða sem finna endurhljóm víða annars staðar í Gamla testamentinu. Í erindinu verður fjallað um þessar hugmyndir, sem og hugmyndir manna almennt um dauðann og tilveruna eftir dauðann eins og þær birtast í Jobsbók og öðrum textum Gamla testamentisins.

Karl Benediktsson, prófessor í landfræði
Kindarlegt og mannlegt landslag tákna og tjáningar

Landslagsfræði, a.m.k. af félags- og hugvísindalegum toga, hafa oftast hverfst um mannskepnuna, skynjun hennar á landslagi og þá menningarlegu merkingu sem í það er lögð. Öðrum skepnum hefur verið veitt fremur lítil athygli. En unnt er að líta á landslag sem annað og meira en menningarlega smíð. Hugtak Jakobs von Uexküll, Umwelt, beinir athyglinni að hinum sérstaka sjálfmiðaða heimi sérhverrar lífveru – sem vettvangi tákna og tjáskipta milli hennar sjálfrar, annarra lífvera og efnislegs umhverfis. Í landslagsfræðum getur nálgun af þessu tagi verið gott og þarft mótvægi við hina mannhverfu hefð. Eða hvað? Í erindinu er gerð grein fyrir þessum hugmyndum, með dæmi af sauðfé og fólki í íslensku landslagi.

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli
Hvenær beygir maður orð og hvenær beygir maður ekki orð?

Í íslensku er misjafnt eftir orðflokkum hvort orð beygjast. Svokölluð fallorð (nafnorð, lýsingarorð, fornöfn) beygjast til dæmis í föllum, eins og heiti þeirra ber með sér — að minnsta kosti oftast nær. Frá því eru þó undantekingar. Þannig eru t.d. mánaðaheiti fallorð en þó virðast þau ekki beygjast í nútímamáli. (Auðvitað kann að vera að þessi orð beygist en þau séu af einhverjum ástæðum eins í öllum föllum.) Í fyrirlestrinum verður litið á nokkrar slíkar undantekningar frá beygingu og giskað á ástæður þess að orðin hegða sér ekki eins og búast mætti við.

Katrín Jakobsdóttir, íslenskufræðingur og mennta- og menningarmálaráðherra
Menning og atvinna – andstæður eða samstæður?

Er menning raunveruleg atvinnugrein? Hvaða áhrif mun það hafa til lengri tíma að líta á menningu sem atvinnugrein? Verður þá menningin „bara“ atvinnugrein? Hvernig má tengja betur saman fræðileg sjónarmið, sköpun og atvinnu? Þessu og mörgu öðru mun Katrín Jakobsdóttir velta upp í sínu erindi.

Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði
Samræður við landslag

Heimspekingurinn Hans-Georg Gadamer hefur bent á að einlægar samræður eru aldrei þær sem við einsetjum okkur að eiga, heldur frekar þær sem við „lendum í“ eða verðum þátttakendur í. Góðar samræður flétta saman mörgum mismunandi þráðum, sem gera þær margslungnar, ófyrirsjáanlegar og óendanlegar. Þær opna fyrir frekari skilning og nýja sýn. Einnig má halda því fram að landslag, á þann hátt sem fræðimenn hafa nálgast hugtakið, sé að mörgu leyti gætt sömu eiginleikum. Það er síbreytilegt, ótamið og óendanleg uppspretta samræðna. Í þessu erindi mun ég fjalla um mismunandi tjáningarform landslags. Hvernig talar landslagið til okkar? Er það háð mismunandi stað og tíma hverju sinni? Hvaða aðstæður skapa „samræður við landslag“ og hvers konar skilning geta þær samræður opnað?

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli
Aðferðir málnema til að byggja upp orðaforða í íslensku sem öðru máli 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókn á því hvernig málnemar í íslensku sem öðru máli byggja upp orðaforða sinn. Þar var þess freistað að fá þátttakendur til að skoða meðvitað eigin skynjun og aðferðir við tileinkun nýja tungumálsins. Kostir hinnar eigindlegu rannsóknar­aðferðar voru þannig nýttir til að nálgast tileinkunarferlið út frá daglegu lífi og reynslu málnemanna. Niðurstöðurnar sýna m.a. fram á að þeir hafa ríka þörf fyrir og leita markvisst leiða til að æfa íslenskuna utan kennslustofunnar og gera sér far um að komast í samband við innfædda til að auka færni sína og byggja upp sjálfstraust til að nota málið.

Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla og stundakennari við HÍ
Merking og markmið Jobsbókar

Í erindi þessu verður fjallað um ólíkar bókmenntagreinar í Jobsbók Gamla testamentisins. Uppbygging bókarinnar verður skoðuð út frá niðurröðun efnisins, einkum sambandi frásagnarhlutans og ljóðanna. Leitast verður við að svara eftirtöldum spurningum: Voru þetta upphaflega tveir óháðir textar eða var bókin skrifuð út frá sjónarmiði margræðni? Ef tveimur ólíkum textum var skeytt saman hvert er þá eiginlegt markmið bókarinnar sem heildar?

Kristín Bjarnadóttir, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Stafastrengur á milli bila. Málleg gagnasöfn um orðmyndir og máltæknitól

Í erindinu verður sagt frá gagnasöfnum um orðmyndir og notkun þeirra í máltækni. Stærst af þessum söfnum er Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN, 270 þús. beygingardæmi) sem nær einungis til nútímamáls. Með því að tengja lista um orðmyndir frá eldri málstigum við nútímamálið opnast leið til ýmiss konar greiningar og úrvinnslu. Sagt verður frá tilraun til að nota slíkar vörpunartöflur til að breyta stafsetningu eldri texta til nútímamáls. Aðferðin er einföld: Orðmynd er „stafastrengur á milli bila“ sem skipt er út fyrir nútímamálsorðmynd, þ.e. annan stafastreng. Breytingin á stafsetningunni gerir m.a. auðveldara að beita máltæknitólum sem gerð hafa verið fyrir nútímamálið til greiningar á eldri textum. Þá má einnig nota vörpunartöflurnar sem stoðgögn í leitarvélar til þess að auka notagildið, eins og sést af afbrigðum af orðinu fjórðungur frá ýmsum tímum: fiorþongr, fiordungur, fiórdungr og fjórðúngr. 

Kristín Bragadóttir, doktorsnemi í sagnfræði
Söfnun Willards Fiskes á íslenskum ritum

Cornell-háskóli í Íþöku í Bandaríkjunum hýsir merkilegt safn íslenskra rita, hið næststærsta utan Íslands. Þar liggur ævistarf Bandaríkjamannsins Willards Fiskes. Hann kom til Íslands 1879 og kynntist þá fjölmörgum Íslendingum sem síðar reyndust óþreytandi við að útvega honum íslenskan ritakost. Það voru einkum skólapiltar Lærða skólans sem lögðu hönd þar á plóg, bæði hér heima og í Kaupmannahöfn. Í safninu eru margar fágætar og dýrmætar bækur en einnig hvers konar smáprent eins og boðsbréf og grafskriftir því Fiske stundaði þaulsöfnun. Örlög íslensku bókanna voru að ferðast frá Íslandi eða Kaupmannahöfn til Ítalíu og þaðan til Bandaríkja Norður-Ameríku þar sem safnið er vel varðveitt og til gagns og gamans fyrir fræðimenn í norrænum fræðum.

Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku
Þórhallur Þorgilsson. Gleymdur þýðandi og fræðimaður  

Í erindinu verður fjallað um þýðingar og fræðastörf Þórhalls Þorgilssonar (1903-1958) sem má telja fyrsta menntaða rómanista á Íslandi. Þegar hann kom heim að námi loknu frá Frakklandi, Spáni og Ítalíu á fjórða áratug 20. aldar hófst hann handa við að kynna bókmennta- og menningararf þjóða á rómönskum málsvæðum, bæði í Evrópu og Ameríku. Eftir hann liggur mikið verk: greinar, kennslubækur og þýðingar. Hann var til að mynda helsti þýðandi úr spænsku á 4. og 5. áratug 20. aldar, en hann þýddi einnig úr frönsku og ítölsku. Verk hans hafa fallið í gleymsku og eru mönnum nú á dögum að miklu leyti óþekkt. Tilgangur erindisins er að draga verk hans fram í dagsljósið og fara skipulega yfir þau.

Kristín Lena Þorvaldsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði
Venjulegar sagnir, áttbeygðar sagnir og próformasagnir í táknmálum

Venjulegar sagnir, áttbeygðar sagnir og próformasagnir kallast þær þrjár tegundir sagna sem fyrirfinnast í flestöllum táknmálum heimsins. Þessar þrjár tegundir sagna hafa allar ólíka formgerð og eru sagnir sömu merkingar oft og tíðum sömu tegundar í ólíkum táknmálum. Svo virðist sem merking sagnanna geti haft þau áhrif að miðlunarháttur og formgerð þeirra breytist með tímanum. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir þessum ólíku tegundum sagna og fjallað verður um yfirstandandi rannsókn á þeim og þróun þeirra í íslenska táknmálinu.

Kristján Árnason, prófessor í íslenskri málfræði
Um flokkun línugerða í eddukvæðum

Alþekkt er flokkun Eduards Sievers á eddulínum og öðrum forngermönskum línum í fimm grunngerðir. Þótt þessi kenning hafi lengi notið almennrar hylli, mætti hún snemma gagnrýni manna eins og Andreasar Heuslers, sem taldi að hún lýsti að vísu textanum, en útskýrði lítt eðli formsins. Ég hef sjálfur ýjað að því að líta á langlínu í eddukveðskap sem einfalda fjögurra risa línu sem telja orð (ólíkt því að atkvæði eru talin t.d. í rímnaháttum). Ég hyggst fylgja þessari hugmynd eftir í erindi mínu og kanna með dæmum muninn á skýringargildi og „spádómum“ hinna ólíku greiningaraðferða. Hvað er það sem Sievers-greiningin getur skýrt en hrynkenningin ekki, og hvað skýrir hrynkenningin sem Sievers-kenningingin getur ekki skýrt?

Kristján Mímisson, doktorsnemi í fornleifafræði
Frumímynd kotungsins. Um uppruna persónuímyndar og persónusköpunar í fræðum og listum

Á ofanverðri 17. öld bjó maður nokkur að nafni Þorkell á ýmsum stöðum efst í uppsveitum Árnessýslu, fjarri öðrum mannabústöðum, á afréttarmörkum, í útjaðri hins byggilega lands. Kotungurinn er nefndur í ritheimildum en að öðru leyti er harla lítið vitað um persónu hans. Síðustu ár ævi sinnar bjó Þorkell þessi á Búðarárbakka við afréttarmörk Hrunamanna. Fornleifauppgröftur á þeim efnisleifum sem hann skildi eftir sig þar miðaði að því að rannsaka persónu Þorkels, hlutskipti hans og örlög, athafnir og viðurværi, hans innri persónulegu og ytri félagslegu vitund.

En hvaðan er sú kotungsímynd ættuð sem efnisleifarnar á Búðarárbakka miðla? Eru fornleifarnar aðeins óvirkar afurðir fortíðarinnar sem nú eru undirorpnar túlkunarfræðilegum kennisetningum nútímans eða búa þær yfir eðlislægum kjarna sem streitist gegn margræðnum túlkunum fræðanna? Hvernig tengjast persónuímyndir og persónusköpun í fræðum og listum – og á hvaða hátt þær ólíkar? Hvað er holdlegt við skáldskaparpersónuna og hversu skáldlegar eru veraldlegar persónur? Í fyrirlestrinum verður reynt að varpa nýju ljósi á þessar spurningar út frá hugmyndum um stundar- og efnisveruleika (e. temporality / materiality) og endurheimt (e. re-membering) hennar í efnismenningunni.

Lára Magnúsardóttir, forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Norðurlandi vestra
Þegar menning er atvinnulíf

Í erindinu ræðir Lára á hvaða hátt hugvísindi geti stutt við fyrirtæki og stofnanir menningartengdrar ferðaþjónustu í landinu með þeirri sérþekkingu sem þau hafa á efniviðnum sem þar er unnið með. Hún veltir fyrir sér hlutverki akademíunnar þegar samfélagsbreytingar standa fyrir dyrum, fjallar um stöðu lítilla fyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni – flókið eignarhald, stjórnsýslu og styrkjakerfi – og loðna hugtakanotkun. Geta hugvísindi stuðlað að arðbærari rekstri og betra (atvinnu)lífi?

Magnús Sveinn Helgason, doktorsnemi í sagnfræði
Flatskjáir og fellihýsi í aðdraganda hrunsins.
Skilningur Íslendinga á „óþarfa“ og „lúxus“ frá góðæri til hruns

Bankahrunið og kreppan sem því fylgdi hafa kallað fram nýja umræðu um hvað telst eðlileg neysla og hvað lúxus; siðferðislegir dómar hafa verið felldir jafnt um neyslu almennings sem útrásarvíkinga í góðærinu. Um leið hefur knappari fjárhagur flestra heimila neytt fólk til að endurskoða hvað telst til óþarfa og hvað telst til nauðsynja. Rætt er um þetta siðferðilega uppgjör Íslendinga við neyslu góðærisins, einkum eins og  það birtist í viðtölum við tugi Íslendinga í rannsóknarverkefninu Kreppusögur. Hefur fólk endurskoðað neyslu sína í góðærinu? Hvaða breytingar hafa orðið á viðhorfum fólks til óþarfa og nauðsynja?  Má merkja einhverjar breytingar á viðhorfum Íslendinga til neyslusamfélagsins?

Magnús Þór Þorbergsson, lektor í leiklistarfræðum við leiklistar- og dansdeild LHÍ

„Vér erum búnir að fá leikhús”: Fyrsta Shakespeare-sýningin og vonin um þjóðleikhús

Vorið 1926 var í fyrsta sinn sett upp verk eftir William Shakespeare á íslensku leiksviði þegar Leikfélag Reykjavíkur setti á svið gamanleikinn Þrettándakvöld. Sýningin þótti þá þegar merkur viðburður og mikilsverður áfangi í sögu íslenskrar leiklistar og þótti hún jafnvel til marks um að allar forsendur væru til staðar til að þjóðleikhús gæti hafið starfsemi, en þremur árum áður hafði Alþingi samþykkt að leggja fé til byggingar þjóðleikhúss. Vonin um þjóðleikhús er áberandi í umræðu um sýninguna, en um leið veltir hún upp spurningum um hlutverk og markmið þjóðleikhúss, sem og um sjálfstæði og fagmennsku íslenskrar leiklistar og samanburð við evrópskar leiklistarhefðir.

Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Höfðingsjómfrú eignast handrit

Fjallað verður um nokkur handrit sem skrifuð voru handa ungum gjafvaxta dætrum embættismanna á Hólum og í Skálholti á sautjándu og átjándu öld. Reynt verður að svara eftirfarandi spurningum: Hver voru tengsl skrifarans við verðandi eiganda í hverju tilfelli, hvert er efni handritanna, hver valdi efnið og hvernig endurspeglar það sjálfsmynd og áhugamál þessara ungu kvenna?

Margrét Guðmundsdóttir, málfræðingur og verkefnastjóri hjá Hugvísindastofnun
Af framburði og flugnaskít

Í þessum fyrirlestri verður greint frá því að meðal hinna 2900 þátttakenda í RÍN voru um 400 sem Björn Guðfinnsson hafði rætt við á sínum tíma. Nú stendur yfir rannsókn þar sem m.a. er reynt að hafa uppi á sem flestum í þessum hópi í þriðja sinn (RAUN). Fyrirlesari er meðal þátttakenda í verkefninu og ræðir um það hvaða ljósi gögnin úr þessum þremur rannsóknum (BG, RÍN, RAUN) geta varpað á breytingar sem mál fólks tekur á lífsleiðinni, m.a. hvaða áhrif það getur haft að flytja milli mállýskusvæða og hvort slík áhrif kunni að vera misjöfn eftir því hvaða framburðarmállýskur eiga í hlut. Í erindinu verður sagt frá gögnunum, þeim miklu möguleikum til rannsókna sem í þeim felast og hvernig hugmyndin er að nýta þau. Flugnaskítur kemur einnig lítillega við sögu.

Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku sem öðru máli
Veika sögnin sem varð sterk: sögnin kvíða

Sögnin kvíða er veik í nútíð eintölu, annars sterk. Hún var veik í fornu máli og heimildir eru um veika þátíð allt fram á 18. öld; frá sama tíma eru líka elstu dæmi um sterka þátíð. Í fyrirlestrinum verður fjallað um kvíða frá nokkrum sjónarhornum. Í fyrsta lagi verður gerð stutt grein fyrir uppruna sagnarinnar. M.a. verða skoðuð verða skyld orð í málinu. Í öðru lagi verður beygingarsaga hennar rakin og í því skyni verða dæmasöfn könnuð. Þau leiða ýmislegt í ljós, m.a. forvitnilega setningafræði og að veika beygingin hefur verið af tvennum toga. Langflest dæmanna sýna beyginguna kvíða – kvíddi – kvítt en dæmi er um lh.þt. kvíðað. Í þriðja lagi verður reynt að skýra út hvers vegna veik sögn varð sterk. Í fjórða lagi verður það að sögnin skyldi verða sterk skoðað ásamt fleiri óvæntum málbreytingum frá svipuðum tíma.

María Anna Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli
Tengsl stíls og málfræðilegrar færni í íslensku millimáli

Flestir málnemar þekkja þær aðstæður í námi sínu þar sem þeim finnst þeir tala hálfgert barnamál og finna fyrir óþolinmæði gagnvart því að geta ekki tjáð sig á jafn flóknu máli og þeir gera í móðurmáli sínu. Sumir málnemar virðast yfirvinna þessar aðstæður með því að láta vaða og nota mál sem er komið fram úr málfræðilegri hæfni. Í máli annarra virðist þetta fylgjast betur að; málfræðileg hæfni og textagerð haldast í hendur. Þriðji hópurinn er svo málnemar sem eru varkárari og taka enga áhættu og nota mál sem endurspeglar ekki málfræðilega hæfni þeirra. Í þessum fyrirlestri verða skoðuð tengsl málfræðilegrar hæfni annars vegar og þess hversu flókna textagerð málnemar nota hins vegar. Til þess að mæla málfræðilega hæfni er notast við mælikvarða úrvinnslukenningar Pienemanns (1998). Til að mæla textagerðina verða eftirfarandi atriði skoðuð: lengd setninga, fjöldi undirskipaðra setninga og notkun orðflokka.

Matthew Whelpton, dósent í ensku
From dictionaries to databases – trying to pin down words

Dictionaries are designed for the human user; lexical databases (databases of words) are often designed with computers in mind: to represent information about the form, use and meaning of words which will allow computers to process human language efficiently, to extract information from language input and to reason over the information extracted. Where a human user can be assumed to know a great deal by either common sense or common cultural knowledge, a computer knows nothing in advance. This paper will look at some of the typical information concerning lexical semantics (word meaning) that has been included in resources like WordNet (for English) and DanNet (for Danish), as well as some radically different kinds of resources, such as SALDO (for Swedish).

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði
Bókaeign alþýðu 1820-1860

Eftirlátnar eigur fólks voru samviskusamlega færðar til bókar alla nítjándu öldina, fyrst við skráningu dánarbúa og eftir það ýmist í skiptabækur eða uppboðsbækur. Fjallað verður um þær upplýsingar sem þessi gögn veita um prentaðar bækur á heimilum landsmanna og gaumgæft hvort mikill munur var á konum og körlum, jafnt meðal húsbænda sem vinnufólks. Einnig verður spurt hvort niðurstöðurnar leyfi ályktanir um menningarsöguleg atriði á borð við læsi, hugarfar og þekkingu eða skilning á umheiminum.

Ninna Sif Svavarsdóttir, doktorsnemi í guðfræði
Eiginkona Jobs

Í þessu erindi er ætlunin að beina athyglinni að eiginkonu Jobs, sem gjarnan er nefnd Dína eða Rahmat í midrash-hefð gyðinga. Hún hefur ekki mikið rými í frásögninni af eiginmanni sínum, þótt örlög þeirra séu vissulega samtvinnuð, heldur talar hún aðeins einu sinni. Orð hennar eru þó allrar athygli verð, enda meitluð mjög. Í erindinu verður fjallað um hlutverk eiginkonu Jobs í frásögninni og merkingu orða hennar, enda túlkunarmöguleikar ýmsir. Jafnframt verður gaumur gefinn að túlkunum á henni í síðari tíma heimildum.

Njörður P. Njarðvík, skáld og prófessor emeritus
Tengsl ríkisvalds og trúfélaga

Í fyrirlestrinum verður fengist við spurningar á borð við þessar: Hver eiga tengsl ríkis og trúfélaga að vera á 21. öld? Samrýmast trúfrelsi og sú skipan að eitt trúfélag njóti sérstakra forréttinda og sérstakrar aðstöðu umfram önnur? Nægir að endurskoða þjóðkirkjuskipanina eða ber okkur að rjúfa öll tengsl ríkis og trúfélaga við væntanlega endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins? Gerð verður grein fyrir grundvallar­sjónarmiðum sem hafa ber í huga í umræðum um slík álitamál sem ekki mega ráðast af þeim vandamálum sem þjóðkirkjan glímir við á líðandi stundu.

Ola Knutsson, lektor við Institutionen för data-och systemvetenskap, Stokkhólmsháskóla, og Robert Östling, doktorsnemi við Institutionen för lingvistik, Stokkhólmsháskóla
Språkteknologi som verktyg för att utveckla ämnesspråk

Skrivandet och läsandet som bas för lärande har radikalt förändrats för elever och studenter i den digitala tidsåldern. Nya publiceringskanaler, skrivsamarbetsverktyg, sociala verktyg och flera nya textbaserade kommunikationsmedel förändrar verkligheten, inte minst för unga människor som snabbt tar till sig ny teknik. De verktyg som har utvecklats har haft ett stort genomslag genom sin enkelhet och tillgänglighet via en vanlig webbläsare, slående exempel är Facebook, bloggar och Wikipedia.

WIDE-projektet (http://wideproject.wordpress.com/) ägnar sig åt detta område genom att utforska tre forskningsfrågor med målgrupper bestående av sistaårsstudenter på gymnasiet och förstaårsstudenter på universitet. Den första forskningsfrågan handlar om att studera hur de digitala verktygen medierar unga vuxnas skrivande genom att studera praktiskt hur verktygen används, och vilket språk som används när elever skriver i dessa miljöer. Den andra frågan handlar om att ta reda på hur elever och studenter använder digitala verktyg för att utveckla vokabulär, grammatik, idiomatiska uttryck och argumentationsstrategier. Den sista forskningsfrågan handlar om hur framtidens digitala verktyg för användning i skolan och på universitet skall utformas för att stödja elevernas progressiva utveckling både när det gäller språk, ämneskunskaper, argumentation och berättande med hjälp av text, samt hur en mer ändamålsenlig design av verktygen kan öka förståelsen av själva verktygen.

Användningen av språkteknologi kommer att utforskas i projektet framförallt genom ett samarbete med Robert Östling. Östlings arbete går ut på att skapa ett datorprogram som letar efter olika typer av språkliga konstruktioner baserade på idiom-principen (Sinclair, 2004) i en korpus, utforskar deras användning, och skapar en egen "frasordbok". Med statistik och mycket text kan vi komma en bit på vägen mot verktyg som hjälper studenter att utveckla nya register.

Oscar Aldred, doktorsnemi í fornleifafræði
1.e4 e5 2.Nf3 Nf6*: materialised movements and archaeological interventions

Landscape archaeology has been drifting towards a different kind of practice in recent years; from representing a static history of things done to landscapes towards a situated perspective with landscapes that are on-the-move. In this paper, I examine the productive tensions that underlie this movement-in-thought/practice by challenging the kind of representational/situated ‘space’ that archaeology tends to occupy. In doing so, I am not reverting to old battle lines between scientific method against experiential practice, but rather following materials as they are transformed through which both representation and intervention emerge victorious. Drawing on data derived from fieldwork in Iceland, I begin by asserting this new ordering by aligning movements with the material nature of archaeological practices.

* The Russian Game

Ólafur Rastrick, doktorsnemi í sagnfræði
Um postulínshunda og verkefni íslenskrar menningarsagnfræði annó 1930

Í erindinu verður tekinn útgangspunktur í hugmyndum sagnfræðingsins Þorkels Jóhannessonar um þau verkefni sem hann taldi að sinna þyrfti á sviði þjóðmenningarsögu og listasögu Íslands á árunum í kringum 1930. Einkum verður horft til þess félagslega hlutverks sem slíkar rannsóknir áttu að hafa og hvernig þær tengdust viðteknum umbótahugmyndum í íslensku samfélagi þessara ára um menningu, listir og framtíð íslensku þjóðarinnar og jafnframt hvaða hlutverki postulínshundar gegndu í því sambandi.

Peter Juel Henrichsen, lektor við Handelshøjskolen í Kaupmannahöfn
"Løse forbindelser" og andre faste forbindelser

"En nyttig idiot" er en fast ordforbindelse i dansk, og det samme er "et blakket ry". Derimod er "en blakket idiot" og "et nyttigt ry" bare tilfældige sammenrend af adjektiv og substantiv uden karakter af idiom. For at beherske et sprog er det ikke nok at kunne ordenes grundbetydninger, man må også kende til stil og ordvalg, vide hvilke vendinger der er typiske for det uhøjtidelige talesprog, for det formelle skriftsprog, og for alle stillejerne derimellem. Den islandsk-danske sproghjælp Frasar.net har særligt fokus på idiomer og faste ordforbindelser, til støtte for den professionelle sprogarbejder og til inspiration for enhver med sprogglæde.

Pétur Knútsson, dósent í ensku máli
Ordination and sentence accent: a reappraisal

In my paper on ‘Ordination and sentence accent’ at Hugvísindaþing 2010 I suggested a connection between Icelandic appositive ‘en’ and Icelandic reaccenting, but my formulation was in some ways unsatisfactory. I now suggest that by taking intonation as a primitive, and assuming that subordination occurs in the intonation pattern prior to its realisation in syntax, we can explain English deaccenting, Icelandic reaccenting, appositive Icelandic ‘en’, Icelandic comma splicing, and possibly other peculiarities of Icelandic English, all in one foul swoop.

Pétur Pétursson, prófessor í praktískri guðfræði
Ný öld eða eldur? Um túlkun Sveinbjarnar Egilssonar á Völuspá 55,5-8

Í Lexicon Poeticum (1860) segir Sveinbjörn Egilsson að orðið 'aldurnari' í fimmtugasta og fimmta erindi Völuspár merki eldur. Þar stendur: „Geisar eimi / við aldurnara, / leikur hár hiti / við himin sjálfan.“ Allir síðari tíma útgefendur og þýðendur kvæðisins fylgja í fótspor hans, nema Gísli Sigurðsson (1998) sem telur orðið merkja ask yggdrasils. Í fyrirlestrinum er því haldið fram að Sveinbjörn fari yfir lækinn til að sækja vatnið þegar hann útskýrir orðið með tilvísan í arameísku og arabísku. Völuspá tilheyrir kvæðahefð spákvenna (sibyllur) fornaldar um komu voldugs dómara af himni í mikilli styrjöld við endalok heims. Þessi hefð rann síðar saman við kristnar bókmenntir. Auk þess endurspeglar margt í Völuspá biblíulegt myndmál um hina síðustu tíma og því er mun nærtækara að 'aldurnari' sé frumleg norræn Kristskenning. Í því menningarpólitíska og trúarlega umhverfi sem Sveinbjörn lifði og hrærðist í var það aftur á móti ekki til siðs að blanda saman stefjum úr kristnum og heiðnum bókmenntum eins og tíðkast hafði mörgum öldum fyrr. Sveinbjörn Egilsson var vandur að virðingu sinni sem konunglegur embættismaður enda bar hann ábyrgð á guðfræðimenntuninni í landinu.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Rýnt í stuðlun með sérhljóðum

Í stuðlasetningarreglum, gömlum sem nýjum, er hefð fyrir því að allir sérhljóðar myndi einn jafngildisflokk. Þessi staðreynd hefur valdið töluverðum heilabrotum meðal fræðimanna. Deilt hefur verið um ástæður þess að sérhljóðarnir geti stuðlað hver við annan og hafa verið settar fram fjórar kenningar þar að lútandi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar kenningar og þær skýrðar í örstuttu máli og eftir það verður skoðuð rannsókn sem gerð var á stuðlasetningu í íslenskum kveðskap (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2010) og kenningarnar bornar saman við niðurstöður úr rannsókninni. Þá verður skoðað hve oft er stuðlað með sömu sérhljóðum og þær tölur bornar saman við aðrar niðurstöður úr gagnasafninu; einnig verður litið til þess hvaða sérhljóðar koma oftast fyrir í stuðluninni.

Ralph Weber, URPP Asia and Europe, University of Zürich
The Politics of ‘Chinese Philosophy’

Philosophy and politics may seem worlds apart, but that appearance often is and in principle always can be deceptive. For that reason alone, given the powerful implications that politics has, the relation between philosophy and politics deserves to be scrutinized over and over again. As talk about ‘the rise of China’ continues to either benumb or thrill our ears, it might be particularly apposite critically to examine ways how ‘Chinese philosophy’ and politics are being related in scholarly and other practices. In my talk, I discuss four fields where such relations are to my mind detectable: (1) scholarship on ‘Chinese political philosophy’ (e.g. Confucian democracy), (2) uses of philosophy for political ends (e.g. of Confucianism in the People’s Republic), (3) subtle ways of politicization of ‘China’ in philosophical writings (as is the case, I argue, in François Jullien’s writings), and (4) representations of ‘Chinese philosophy’ in what purports to be straightforward policy-oriented work. These four fields, I shall argue, are entangled and co-implicative in so many ways that nobody writing on ‘Chinese philosophy’ can afford not to make explicit one’s own commitments in this regard.

Randi Benedikte Brodersen, lektor í dönsku máli
Hvad kendetegner islændinges udtale af dansk, og hvordan kan islændinge blive endnu bedre til dansk?

Er nogle udtaletræk vigtigere at lære end andre? Hvilke islandske træk smitter af på islændinges udtale af dansk, og hvilke andre faktorer påvirker udtaletilegnelsen? Og hvordan kan vi effektivisere udtaletilegnelsen og udtaleundervisningen? Disse spørgsmål giver jeg svar på i mit indlæg.

Indlægget består af tre dele: a) islændinges udtale af dansk, b) påvirkningsfaktorer i udtaletilegnelsen og c) effektiv udtaletilegnelse og udtaleundervisning. Jeg præsenterer først mine resultater fra en undersøgelse og observationer af islændinges udtale af dansk. Jeg omtaler så nogle sproglige, personlige og pædagogiske faktorer som har betydning for tilegnelsen, og til sidst foreslår jeg veje til effektiv udtale- og danskundervisning. 

Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði
Er gagn af gögnum? Gagnasöfnun og skráning í táknmálsrannsóknum

Þegar um sjónrænt mál er að ræða sem að auki á sér ekki ritmál er ekki alltaf hægt að byggja á hefðbundnum leiðum í gagnasöfnun. Í erindinu verður fjallað um nokkrar leiðir til söfnunar táknmálsgagna og litið á kosti þeirra og galla. Rætt verður um þær leiðir sem farnar hafa verið í gagnasöfnun í nokkrum íslenskum rannsóknum. Einnig verður rætt um söfnun máldæma fyrir íslenskt táknmál (corpus) sem og skráningu gagnanna.

Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku
Vopnlaus í nýjum texta 

Í erindinu verður fjallað um hvernig sögur rússnesku rithöfundanna Ljúdmílu Úlitskaju og Ljúdmílu Petrúshevskaju rekast með nokkuð afgerandi hætti á hugmyndir hins íslenska lesanda um pólitíska rétthugsun og siðferðileg viðmið. Leitast verður við að gera grein fyrir í hverju þetta felst og hvernig lesandinn styrkist við hvern játaðan ósigur.

Roger T. Ames, University of Hawaii
Confucian China in a Changing World Order

The Book of Changes—the first among the Chinese classics—defines  the human experience in terms of change and persistence: 變 通. One change that has occurred is that the 21st century has ushered in a new age of global interdependence. The increasingly complex problems that face human beings as a species are no longer issues of national interest alone. Problems such global warming, the imminent threat of pandemics, increasing air and water pollution, religious extremism, diminishing energy reserves, environmental degradation, retreating fresh water resources, and so on, do not respect national boundaries. We either solve these challenges together, or we all sink together.

There is a second major development that is immediately relevant to our increased need to think globally. With China rising over the past three decades, a dramatic sea change has occurred in the economic and political world order that affects us all in an age of global interdependence. Since the founding of Asia-Pacific Economic Cooperation in 1989, the growth of trade in this region has increased by 400% and GDP has tripled. In September 2009, the G20 replaced the G8 as the main economic council of the world’s wealthy nations. Several weeks ago Forbes Magazine listed Hu Jintao as the most powerful person in the world, now one place ahead of Barack Obama.

The global impact of China’s economic and political growth is easy to track. But what about its culture? What does Confucianism have on offer? Under these rapidly evolving conditions, will the family-centered Confucian values of China precipitate a new cultural world order?

Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki
Að rækta garðinn sinn: Nietzsche um Stóumenn og epikúringa

Margir hugsuðir nítjándu aldar litu til fornaldar til að skerpa heimspekilega sýn sína og greina hana frá hinum kristna tíðaranda. Í erindinu verður skoðað eitt athyglisvert augnablik í ritum Nietzsches þar sem hann ræðir um Stóumenn og epikúringa og virðist staðhæfa að andans menn (þeir sem sinna andlegum verkum) ættu umfram allt að forðast að tileinka sér aðferð Stóumanna en gera þess í stað epikúrískar ráðstafanir.

Róbert Jack, doktornemi í heimspeki
Mælistika Platons á mannlegan þroska

Heimspeki Platons er sjaldan skoðuð út frá mannlegum þroska, en fyrirlesturinn fjallar um þessa hlið heimspeki hans. Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum: Hvað telst mannlegur þroski hjá Platoni? Og hvernig lýsir Platon þroskaferli einstaklingsins? – Til grundvallar liggja samræðurnar Samdrykkjan og Ríkið.

Rósa Þorsteinsdóttir, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Ævintýrakonur: viðhorf og væntingar kvenna sem segja ævintýri

Það er viðtekin skoðun í þjóðsagnafræðum að ævintýri séu sagnagrein þeirra fátækustu og lægst settu í samfélaginu vegna þess að þau eigi auðvelt með að samsama sig söguhetjunum, sem þurfi að eiga við ýmsa erfiðleika og óvini, sem auðvelt sé að líkja við það sem fólkið þarf sjálft að fást við í raunverulegu lífi. Ég hef aftur á móti rekið mig á að a.m.k. nokkrar konur sem segja ævintýri inn á segulband tilheyra alls ekki þessum hópi fólks. Með þetta í huga langar mig að skoða ævintýri kvenna, jafnvel bæði hljóðrituð og skrifuð, og athuga hvort ástæðan fyrir því að þessar sagnakonur velja að segja ævintýri geti verið einhver allt önnur.

Rúnar Helgi Vignisson, lektor í ritlist
Það sem sannara reynist – Matreiðsla á sannsögulegu efni

Hvernig miðlar maður sannleikanum í rituðu máli og heldur lesandanum um leið við efnið? Í leit sinni að svari mun Rúnar Helgi m.a. leggja út af bókunum Færeyskur dansur eftir Huldar Breiðfjörð og Mynd af Ragnari í Smára eftir Jón Karl Helgason. Báðir fara höfundarnir í ferðalag með lesandann og í báðum tilfellum er óljóst hvort eða að hve miklu leyti ferðin var farin. Spurt verður hve mikið skáldaleyfi höfundur getur tekið sér, hvar mörk lífs og listar liggja og hvað sannara reynist þegar upp er staðið.

Samuel Lefever, dósent við Menntavísindasvið
Transition from primary to secondary level – student’s attitudes towards ELT

The aims of this study were to identify classroom practices and other factors that contribute to effective teaching and learning of English from the perspectives of the learners and whether there is a mismatch between teaching objectives and students’ perceived needs. Students in their final year of compulsory school from 20 schools across the nation were given a questionnaire which surveyed their attitudes towards the teaching and learning methods and materials used in English instruction. Students were also asked to comment on their use of English outside of school. The study is part of a larger research study which is investigating the changing status of English in Icelandic society.

Sif Ríkharðsdóttir, stundakennari við Íslensku- og menningardeild
Sviptingar í meykóngahefðinni: Kvennaofbeldi, valdatafl og innra líf         

Meykóngasögurnar markast jafnan af valdatafli milli kvenpersónanna (meykónganna) og karlpersónanna (biðlanna) sem einkennast gjarnan af ofbeldi, þá bæði af hálfu kvenna og gegn konum. Erfitt er að meta hvort um ákveðna bókmenntahefð var að ræða eða einangrað minni sem verður vinsælt á fjórtándu öldinni og hvaða tilgangi það hefur þá þjónað fyrir höfunda og lesendur (eða áheyrendur). Í fyrirlestri þessum verður fjallað um hlutverk ofbeldis í sögunum, þá sérstaklega hvað varðar kynbundið ofbeldi, og tengsl þess við hugmyndir um kvenleika, karlmennsku og mótun sjálfsvitundar innan sagnanna.

Sigfinnur Þorleifsson, lektor í guðfræði og sjúkrahúsprestur
Jobsbók og sálgæslan

Jobsbók er dýrmæt heimild um flest þau meginviðfangsefni sem sálgæslan fæst við. Þar takast á kenningin og reynslan, innri baráttan og almenna viðhorfið. Sálusorgarararnir, vinir Jobs, meta tileinkun fræðanna meira en mannskilninginn, svörin eru sett ofar spurningunum, skjólgarðurinn um Guð er reistur á kostnað mannsins sem þjáist. Job biður um skilning fremur en skýringar og það ákall er sístætt. Sálgæslan reiðir ekki fram á silfurfati svör við erfiðustu spurningum sem upp koma í merkingarleit manneskjunnar. Hún leitast hins vegar við að hjálpa þeim sem leita og spyrja að dýpka sín eigin svör og skilning.

Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur og stundakennari
Græna tréð: Náttúruníðsla og kristsfræði

Í grein sinni „Timburhús“ frá 1993 ræðir vistfemínistinn Stephanie Kaza um tvöfalda krossfestingu Jesú og hins höggna trés sem bar hann uppi á Hauskúpuhæð. Fyrir Kaza táknar tréð jarðtengingu Jesú og jafnframt tengsl við umhverfisvá nútímans. Vistfemínistinn Mary Daly gagnrýndi forðum kristsfræði fyrir „kristgoðadýrkun“ (Christolatry) og taldi að dauðaþrá slíkrar dýrkunar leiddi til kúgunar kvenna og níðslu alls lífs. Í fyrirlestrinum er því haldið fram að myndir eins og sú sem Kaza dregur upp af hinum græna krossi geti skapað mótvægi við nekrófílískar hneigðir kristinnar guðfræði og vakið upp trúarlegt myndmál sem nýst getur til umhverfisbaráttu. Í kristinni hefð er Kristur krossfestur stundum táknaður sem grænt tré, t.d. hjá Hallgrími og Bónaventúra. Verður þessarar lífrænu krosshefðar vitjað í fyrirlestrinum og mat lagt á græna gagnsemi hennar.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði
Þegar leikhúsið segir satt en veruleikinn blekkir: Þjóðfélagsádeila í leikhúsi stjórnmálanna

Fjallað verður um hið leikræna í kosningabaráttu Besta flokksins og hvernig sú notkun leiklistarinnar afhjúpaði og undirstrikaði leikhúsið í hefðbundinni kosningabaráttu. Skoðaðir verða eiginleikar hins pólitíska leikhúss á mörkum hins leikræna, sem og staða þess, möguleikar og merking í samtímanum.

Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki
Hver erum „við“ sem innblásin af íslenskri náttúru?

„Samræður við landslag“ („Conversations with Landscape“) er titill nýútgefins greinasafns um íslenskt landslag. Samræður við landslag geta ekki verið annað en samræður við okkur sjálf um náttúruna, tengsl okkar við landslag og reynslu okkar af því vegna þess að allar staðhæfingar um náttúruna eru mannasetningar. Við getum heldur aldrei höndlað hið óræða sem náttúran býr yfir en skynjum það þó í djúpri fagurfræðilegri reynslu af henni sem við eigum ekki annað orð yfir til að lýsa en sem „frumspekilegri“ reynslu. Við teljum frumspekilega reynslu tjá hinstu rök um grundvallarskilyrði mennskrar tilvistar, um hver við erum í víðu samhengi, hvort sem það er í tengslum við ættjörðina, hnöttinn eða alheiminn. Það er athyglisvert í því samhengi að greina frumspekilegar hugmyndir um íslenska náttúru sem kjarna sjálfsvitundar íslenskrar þjóðar, eins og þjóðarsjálfsvitundin hefur verið skilgreind í ýmsum landkynningar-, ímyndar-, auglýsinga- og markaðsherferðum á undanförnum árum. Hvers kyns og hvers eðlis eru þær frumspekilegu hugmyndir um náttúruna sem þar birtast?

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Hvað skilur hún í því? Um samlíðan og smásögur Halldórs Stefánssonar

Hvers vegna finnum við til samlíðunar með skálduðum persónum sem við lesum um? Í fyrirlestrinum verður fjallað um valdar sögur Halldórs Stefánssonar með hliðsjón af skrifum hugfræðinga um samlíðun lesenda með persónum í skáldskap.

Sigrún Helgadóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Mörkuð íslensk málheild – ný leið til þess að skoða málfar 21. aldarinnar

Í erindinu verður sagt frá gerð markaðrar íslenskrar málheildar. Málheildin er safn fjölbreytilegra texta frá þessari öld. Í málheildinni verða um 25 milljónir lesmálsorða og hverju orði fylgir greiningarstrengur (mark) sem sýnir orðflokk og oft líka málfræðileg atriði eins og fall, tölu og kyn fallorða og persónu, tölu og tíð sagna. Auk þess fylgir nefnimynd (lemma) með hverri orðmynd, t.d. nefnifall í eintölu fyrir fallorð og nafnháttur sagna. Hverjum texta í málheildinni fylgja jafnframt bókfræðilegar upplýsingar um verkið sem textinn er úr. Sagt verður frá textaöflun fyrir málheildina og hvers konar textar eru í henni. Jafnframt verður sagt frá leitarkerfi fyrir málheildina sem nú er á tilraunastigi. Leitarkerfið nýtir nefnimyndir og málfræðilegar upplýsingar í markinu til þess að leitin geti orðið ítarlegri en unnt er með venjulegri textaleit. Í leitarkerfinu eru núna aðgengileg til leitar ríflega 14 milljónir lesmálsorða.

Sigrún Óskarsdóttir, prestur í Árbæjarkirkju
Þjóðkirkja og almannaheill

Í fyrirlestrinum verður fengist við ýmsar spurningar er varða tengsl ríkis, þjóðar og kirkju: Hvaða skyldur við almenning leggur þjóðkirkjuskipanin á þjóðkirkjuna? Er ásættanlegt að létta þeim skyldum af kirkjunni? Hver mun taka við hlutverkum hennar? Er ríkisvaldið í stakk búið að taka yfir þau hlutverk sem þjóðkirkjan gegnir nú á dögum og lúta að almannaheill? Getur þjóðkirkjan sagt skilið við þjóðina án afleiðinga fyrir almannaheill? Helstu þættir þjóðkirkjufyrirkomulagsins verða greindir, sem og þær breytingar á tengslum ríkis og kirkju sem urðu með gildistöku þjóðkirkjulaganna frá 1997.

Sigrún Sigurðardóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði
Afgerandi augnablik

Í erindi sínu mun Sigrún Sigurðardóttir fjalla um hugmyndina um afgerandi augnablik í ljósi skrifa fræðimanna um trámatískar minningar og úrvinnslu þeirra. Fjallað verður um sjónrænar birtingarmyndir hins trámatíska, hugmyndina um hið afmarkaða augnablik í flæði tímans og samruna fortíðar og nútíðar í ljósi skrifa fræðimanna (m.a. Walters Benjamin, Pauls Ricoeur og Cathy Caruth) og verka listamanna sem unnið hafa með minningar í verkum sínum. Kvikmyndin Antíkristur eftir danska leikstjórann Lars von Trier verður skoðuð sérstaklega í þessu samhengi.

Sigurður Pétursson, lektor í grísku og latínu
Rímur af Aeneasi sterka

Margir hafa í tímanna rás fengist við að þýða klassísk verk bæði hér á landi og erlendis. Þýðingar þessar hafa verið margs konar og vitanlega misjafnar að gæðum enda hefur margt glatast eða fallið í gleymskunnar dá þótt einnig sé mikið varðveitt bæði á prenti og í handritum. Á handritadeild Landsbókasafns Íslands er eitt og annað að finna á íslensku bæði í bundnu og lausu máli sem fyrri tíðar menn skildu eftir sig í þessum efnisflokki. Sem dæmi má nefna handritið Lbs 188 8vo sem hefur að geyma þýðingu af fyrstu bók Eneasarkviðu eftir rómverska skáldið Vergilius sem höfundur nefnir Rímur af Aeneasi sterka. Verk þetta er að ýmsu leyti forvitnilegt. Athugað verður hvernig þýðanda, sem líklega var uppi á fyrri hluta 19. aldar, tókst að færa efni á milli tveggja menningarheima og að hverju hann stefndi með þessu verki sínu.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson, lektor í safnafræði
Torfsteypa

Íslendingar gerðu sér opinberlega far um að útrýma byggingarefninu torfi við upphaf 20. aldar og þar með byggingarsögu landsins. Var torfið talið sérstaklega óhentugt til bygginganotkunar og því eignaðir sérstakir eiginleikar sem þóttu ekki eftirsóknar­verðir í samanburði við önnur efni. Steinsteypan var kynnt til sögunnar sem lausn á þeim vandamálum í húsbyggingum sem torfið var talið hafa skapað. Í þessu erindi verður sjónum beint að þessum þáttum og spurt hvort að þeir eiginleikar sem torfinu voru eignaðir hafi við upphaf 20. aldar haft áhrif á sögulega sýn Íslendinga. Sérstaklega verður hugað að þessu með tilliti til framlags fornleifafræðinnar á sviði efnismenningar og Landnámssýningarinnar „Reykjavík 871 ± 2“.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson, lektor í safnafræði
Heimili höfundarins

Á undanförnum áratugum hefur færst í vöxt að gera ævi og verkum rithöfunda skil með sýningum og opnun sérstakra safna í þeirra nafni. Oft eru þessar sýningar og söfn að finna á stöðum sem sagðir eru heimili höfundanna. Í þessu erindi verður sjónum beint að þeirri spurningu hvað hugmyndin um heimili þýðir og grennslast fyrir um menningarpólitískar rætur þeirrar áherslu. Lagt verður út af spurningunni með skoðun á nokkrum rithöfundasöfnum á Íslandi.

Sigurrós Eiðsdóttir, MA-nemi í íslenskum fræðum
Ertu að grínast, eða?

Oft er litið á íróníu sem bragð/trópa í máli, þar sem merkingin er gagnstæð því sem sagt er. Síðustu áratugi hafa fræðimenn úr ólíkum áttum, t.d. sálfræðingar, málvísindamenn og heimspekingar, komið fram með kenningar til skýringar á notkun og skilningi á íróníu. Þessar kenningar hafa einblínt á mismunandi/ólík viðhorf til hugrænna, málvísindalegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á íróníska málnotkun. Litið er til þess sem talar eða sendanda og viðmælanda/viðtakanda.

Innan fræðanna hefur oft verið litið svo á að viðtakandi dragi aðeins ályktun af því sem er sagt eða því sem er gefið í skyn. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt fram á það að svörun við því sem er sagt eða því sem er gefið skyn sé fremur háð aðstæðum og samhengi og að viðtakendur átti sig á því gapi sem verður á milli þessara beggja þátta, en bregðist ólíkt við eftir því hvað aðstæður leyfa.

Hér er ætlunin að fjalla um ólík viðbrögð fólks við sama texta og verða dæmi tekin úr íslenskum fjölmiðlum, það samhengi sem textinn birtist í og við hvaða aðstæður viðbrögðin verða.

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði
Mín „fyrsta“ minning ...

Margir höfundar sjálfsæviskrifa hefja frásögn af ævi sinni með því að lýsa sinni fyrstu minningu. Stundum reynist þeim reyndar erfitt að negla „fyrstu“ minninguna niður og nefna til sögunnar fleiri en eina „fyrstu“ minningu. Í erindinu verða rædd nokkur dæmi úr íslenskum og erlendum bókmenntum sem snúast um lýsingu á „fyrstu“ minningu og velt vöngum yfir þeim vanda sem menn standa frammi fyrir þegar þeir reyna að nálgast minningar sem eiga rætur að rekja til upphafsára ævinnar.

Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði
Hlutverk trúarlegra röksemda í opinberri orðræðu

Hvaða hlutverki eiga trúarleg rök að gegna í opinberri orðræðu í samfélaginu – er yfirleitt mögulegt að tefla fram trúarlegum rökum í samfélagslegum málefnum sem varða alla, óháð trúarskoðunum þeirra? Í erindi mínu leitast ég við að svara þessum spurningum með því að a) vísa til nýlegrar orðræðu í íslensku samfélagi sem átti sér stað kringum lögleiðingu einna hjúskaparlaga fyrir um ári síðar og b) með því að vísa til heimspekilegra/siðfræðilegra og guðfræðilegra hugmynda Jürgens Habermas, Jeffreys Stout og Pamelu Dickey Young.

Sólveig Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar
Friðargæslusveit UNESCO og upphefðin að utan

Í erindinu verður fjallað um landslag menningarminja á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna frá íslensku sjónarhorni. Hver voru upphafleg markmið SÞ með stofnun heimsminja­skrárinnar, hvernig hafa áherslurnar breyst eftir því sem stöðum hefur fjölgað á heimsminjaskránni og hvað geta vörslumenn íslensks menningararfs lært af samskiptum UNESCO og aðildarríkjanna? Reifuð verða nokkur dæmi og vöngum velt um markmið, tilgang og mismunandi hagsmunaaðila í merkilega flóknum dansi.

Stefán Einar Stefánsson, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags og stundakennari
Vetrarferðin

Ólafur Gunnarsson rithöfundur hefur sent frá sér margar bækur sem fjalla um tilvistarspurningar mannsins. Vetrarferðin er ein þriggja bóka í þríleik hans þar sem hann tekur sérstaklega á trúarlegum stefjum. Hefur höfundurinn viðurkennt að Vetrarferðin sé hans „útgáfa“ af Jobsbók. Þar virðist höfundurinn setjast niður við það verkefni að færa tilvistarspurningar Jobs í samhengi íslenskrar konu sem lifir örlagatíma um miðbik síðustu aldar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessi tengsl og helstu birtingarmyndir þeirra. Sérstaklega verður sjónum beint að meðferð Ólafs á hugmyndinni um sekt og syndleysi.

Steinunn J. Kristjánsdóttir, dósent í fornleifafræði
Banvænar örvar Amors. Um sárasótt á Skriðuklaustri á 16. öld

Níu tilfelli af sárasótt hafa verið greind í mannabeinasafninu frá Skriðuklaustri í Fljótsdal en í því eru nú tæplega 200 beinagrindur. Að mestum líkindum eru tilfellin öll frá tímum klaustursins sjálfs en blómaskeið þess stóð fyrstu áratugi 16. aldar. Áður en greiningarnar lágu fyrir var ekki talið að sárasótt hefði borist til Íslands á meðan veikin varð að faraldri um heim allan seint á 15. öld og á fyrri hluta þeirrar sextándu. Fjöldi tilfella af sárasótt hefur þess vegna fundist við fornleifarannsóknir í öllum nágrannalöndum Íslands. Ritaðar heimildir geta um veru þýskra bartskera hérlendis á fyrri hluta 16. aldar og voru þeir samkvæmt heimildum beinlínis fengnir hingað til lands af kirkjunnar mönnum til þess að sporna gegn veikinni. Hafa þessar heimildir engu að síður verið rengdar og talið að þarna hafi sárasóttinni verið ruglað saman við holdsveiki. Þau níu tilfelli sárasóttar í beinasafni sem í eru 200 beinagrindur benda hins vegar til þess að um faraldur hafi verið að ræða hér, rétt eins og annars staðar, enda var Ísland án efa félags- og menningarlega hluti af Vestur-Evrópu á miðöldum þrátt fyrir landfræðilega afmörkun.

Svavar Steinarr Guðmundsson, MA-nemi í íslenskum bókmenntum
„Almenningsrithöfundurinn býður sig hvaða helvítis skríl og illþýði sem er [...]“ Um höfund(a) handrits

Mennt er máttur; Tilraunir með dramb og hroka er handrit eignað Þórði Sigtryggssyni lífskúnstner. Þórður fékk hins vegar hjálp hjá Elíasi Mar rithöfundi og góðum vini við skrásetningu þess. Rætt verður um langt og flókið ferli handritsins áður en það nær endanlegri mynd, en Elías rekur síðasta stafinn á ritvél sína 7 árum eftir andlát Þórðar og 11 árum eftir að vinirnir hófu þetta undarlega samstarf. Einnig verður hugað að samstarfi þeirra félaga, „sögumanni“ og „höfundi“, með hliðsjón af nýlegum skrifum í hugrænum fræðum og drepið á einkenni textans sem verks er seint verður talið pólitískt kórrétt á þeim tíma sem það var samið.

Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki
Hvers konar manneskja er efahyggjumaðurinn?

Efahyggjumaður nútímans hefur áhyggjur af þekkingunni, hvort maður geti vitað nokkuð fyrir víst, svo að hafið sé yfir allan vafa. Efahyggjumaður fornaldar hafði einnig þessar áhyggjur, en gekk þó lengra, því ekki einasta var vafasamt hvort hægt væri að höndla þekkingu, heldur hvort réttmætt væri að hafa skoðanir. En ef maður hefur engar skoðanir, var spurt, hvernig getur maður gert nokkuð eða ákveðið hvað skuli gera. Sextos Empeirikos, róttækur efahyggjumaður frá 2. öld e.Kr., sagðist fylgja því sem honum virtist vera raunin. En útlegging hans á því sem honum virðist vera raunin bendir til þess að líf hans sé svo fátæklegt að varla sé um mannlegt líf að ræða. Þessi vandi róttækrar efahyggju er viðfangsefni fyrirlestursins.

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum
Fagurfræði íssins: Jöklar og háleit orðræða

Í fyrirlestrinum verður fjallað um jökla í bókmenntum í ljósi hugmyndarinnar um hið háleita (e. sublime). Á 18. og 19. öld urðu óvistleg náttúrufyrirbæri af þessu tagi þáttur í skilgreiningu fagurfræðinga á ægifegurð norðurslóða og fóru að standa fyrir þjóðleg gildi í ættjarðarljóðum. En skáldleg merking jökla er margræð, enda eru þeir ekki allir þar sem þeir eru séðir. Tekin verða dæmi um tákngildi jökla og tilhöfðun þeirra til skilningarvitanna. Þeir geti tengst dauða og kyrrstöðu en einnig verið til marks um hægvirk breytingaröfl og hið mikilfenglega sem verði vart með orðum lýst.

Særún Magnea Samúelsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Pílagrímaferðir á söguslóðir: Arfleifðarfræðilegar vangaveltur um nýtingu Íslendingasagna í ferðaþjónustu

Arfleifðarfræði er þverfaglegt fræðasvið sem beinir athyglinni að miðlun hvers kyns menningararfs. Fræðigreinin snýst að mörgu leyti um hvaða þætti fortíðarinnar er kosið að nýta í þágu samtímans. Í fyrirlestrinum mun ég fjalla um nýtingu Íslendingasagna í ferða­þjónustu í fortíð og nútíð. Skoðuð verða valin dæmi um hvernig Íslendingasögum var miðlað til ferðamanna á 19. öld og einnig hvernig sögurnar eru nýttar nú á dögum í þágu sögutengdrar ferðaþjónustu. Þá verður gefinn gaumur að þeim órum sem reka fólk á sögu­slóðir Íslendingasagna og hvernig órarnir geta viðhaldið blætisdýrkun söguslóðanna.

Tong Shijun, Shanghai Academy of Social Sciences
Two Paths of Reason: Overcoming the Dilemma between Reason-dogmatism and Reason-skepticism

For many years the “crisis of reason” has been a key phrase of the academic as well as public discourses. This is the case not only in the West, but also in China. This is more the case when China is very successful in economic development in the last decades than when it was not so successful thirty years ago.

It should be admitted that reason-skeptics do have good reasons. Historically speaking, both Chinese and Western culture can be characterized by the core ideas of Reason (logos) or Li 理 (Dao 道). And both were understood as a kind of transcendental substance behind or above particular things on the earth or under the heaven. With the advent of modern age, however, Reason in this sense can less and less be supported by scientific research and secular-minded thinking. Nor can Reason as something whose interpretation is monopolized by the Western culture be sustained with the proceeding of the decolonization movement. Therefore the idea of Reason as transcendental substance is more and more replaced by the idea of rationality as empirically manageable attributes of things, or as culturally trustable ideas of communities. And this idea of rationality in turn can, in many cases, be associated with the idea of reasons as arguments that people provide for their claims for something being rational or not. The point is that real people provide their reasons in real situations, and real situations vary not only from scientific communities to scientific communities, but also or much more so, from cultural communities to cultural communities.

It is, therefore, somehow natural that the disintegration of Reason into reasons would have turned the whole modern intellectual world more or less away from something unified, objective and transcendental as the guide of our public as well as private life, towards something plural, subjective and community-specific. It is because of this tendency that at the international level, talks of conflicts or even clashes among civilizations have been quite fashionable in the last twenty years or so.

Fortunately, in human history or in history of human cultures there is not only a descending path from Reason through rationality down to reasons, there is also an ascending path from reasons through argumentation up to reasonableness: people dealing with reasons in particular fields should and can share the same attitude of reasonableness, for example, being willing to yield to the power of reasons rather than the power of forces; being able to tell the difference between reasons valid in different fields and contexts; being ready to be convinced by others as well as to convince others; and being open to reasons that are unknown now but will possibly be brought up in the future, especially to those that will be brought up by others, and so on.

It is important to raise the level of reasonableness or to reduce the level of unreasonableness by philosophical argumentations, but a mere philosophical approach is far from being enough for the simple reason that the propositions meant to be justified by philosophical argumentation are very often the ones it has already presupposed. What is of equal importance, if not of higher importance, is to overcome the dilemma by actual cultural dialogues, through which we can personally experience how people from surprisingly different communities share a surprisingly large amount of things, and how they can also learn a surprisingly large amount of things totally unknown before from other people or other peoples. It is through dialogues of this kind that people learn to be reasonable as part of their experiences of socialization.

It might be true that while Western culture, especially in its modern form, has a strong tradition associated with the idea of rationality, Chinese culture has a strong tradition associated with the idea of reasonableness, as the Chinese philosopher Liang Shuming and the British philosopher Bertrand Russell remarked almost at the same time in the early 1920s. As a kind of self-critical review, however, we as people from China should admit that the Chinese idea of reasonableness needs to be developed with the help of something with a higher level of discursive rationality in a Habermasian sense and to be realized with the help of something with a higher level of instrumental rationality in a Weberian sense.

Trausti Ólafsson, stundakennari í bókmenntafræði/leiklistarfræði
Íslandsklukkan og Þjóðleikhúsið

Fjallað verður um leikhús og leiksýningar sem samfélagslegan viðburð og sviðsetningar Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness allt frá vígsluvorinu 1950 séðar í slíku ljósi. Athyglinni er beint sérstaklega að leikstjórn Benedikts Erlingssonar á Íslandsklukkunni vorið 2010 og greint hvernig sviðsetning hans er römmuð inn í Þjóðleikhúsið sem stefnumótsstað þjóðar og listar. Leidd verða að því rök að þessi leikstjórnaraðferð undirstriki mikilvægi leikhússins sem listforms í samfélagi manna og tengi þannig verk Halldórs og listamanna Þjóðleikhússins við veruleika sem er utan þess sjálfs.

Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands
Menningarminjar og menningartengd ferðaþjónusta

Hvernig er hægt að haga málum þannig að menningarminjar styðji við ferðaþjónustu og ferðaþjónusta við menningarminjar? Hvar eru brúarsmiðirnir?

Unnur Birna Karlsdóttir, sagnfræðingur, verkefnisstjóri á Þjóðskjalasafni Íslands
Visthverfing hugarfarsins? Um umræðu um náttúruvernd og umhverfismál á Íslandi 2007-2011

Íslendingar deildu hart um náttúru- og umhverfismál um síðustu aldamót og fyrstu ár 21. aldar einkenndust áfram af djúpum ágreiningi um þau mál. Á meðan vatn safnaðist í Hálslón fyrir Kárahnjúkavirkjun, nánar tiltekið eftir kosningar vorið 2007, voru gefin pólitísk fyrirheit um að losa ætti þjóðina úr neti átaka nýtingarstefnu og náttúruverndar. Sumir vonuðu þess vegna að ráðrúm gæfist til að móta umhverfisvænni stefnu um sambúð lands og þjóðar en áður hefði átt upp á pallborðið. Umræða síðustu ára hefur hins vegar leitt tvennt í ljós: Í fyrsta lagi er deilum um landtöku í þágu orkuöflunar langt frá því að vera lokið. Í öðru lagi sýna viðbrögðin við nýju frumvarpi til laga um náttúruvernd að ágreiningur um með hvaða hætti landsmenn umgangast náttúru landsins snýr ekki aðeins að viðhorfum til virkjana heldur að mun fleiri þáttum í sambúð lands og þjóðar. Spurningin sem velt verður upp í fyrirlestrinum er hvort nýjar áherslur hafi rutt sér til rúms í íslenskri náttúrusýn nú í upphafi nýrrar aldar að því marki að tala megi um tímamót. Eru blikur á lofti eða situr þjóðin í upphafi nýrrar aldar föst í þrátefli þeirrar síðustu?

Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Dagbók Vesturfara

Jón Halldórsson frá Stóruvöllum í Bárðardal (1838–1919) var meðal fyrstu vesturfaranna. Hann skrifaði dagbók frá því hann lét úr höfn á Akureyri í maílok 1872 þar til um mitt ár 1877 þegar hann var orðinn bóndi í Nebraska. Í fyrirlestrinum verður fjallað um efni þessarar dagbókar. Einnig verður hún borin saman við allmörg bréf frá Jóni, sem varðveist hafa, og eru frá þessu fimm ára tímabili sem hann hélt dagbókina. Bréfin eru að flestu leyti fyllri heimildir en dagbókin er nákvæmari um tíma atburða og nefnir menn og málefni sem varðveittu bréfin geta ekki um.

Vala B. Garðarsdóttir, doktorsnemi í fornleifafræði
Frá upphafi landnáms í Reykjavík. Saga án sögu

Þær fornleifar sem komu í ljós við uppgröft á Alþingisreitnum svokallaða, árin 2008-2010, gáfu til kynna að á því svæði sem við köllum í dag Kvosina, í miðbæ Reykjavíkur, hafi verið búseta allt frá miðri 9. öld. Það er í sjálfu sér ekki ný vitneskja, en það sem uppgröfturinn leiddi m.a. í ljós og telst mikilvægt í sögulegu samhengi og sér í lagi fræðilegu samhengi er hversu umfangsmikið landnámið var og, að því er virðist, margbrotið.

Þegar rýnt er í umfjöllun Landnámu um landnám Ingólfs Arnarsonar og hans niðja hér í Reykjavík segir sagan lítið um umfang og eðli búskapar hans, enda getur verið að þegar sagan er rituð þá hafi hver lifandi maður vitað hvernig stórbóndi hagaði sér og sínum og engu við það bætandi, enda koma slíkar upptalningar ekki til sögunnar fyrr en síðar, þ.e. á fyrsta hnignunarskeiði okkar Íslendingar, skv. rituðum heimildum!

En hvernig geta þær minjar sem eftir sitja í Kvosinni útskýrt samfélag sem löngu er horfið og hvergi er skrifað um í neinni sögu og hefur engan samanburð? Geta fræðin tekist á við þennan lúxus? Nýjar upplýsingar sem þessar gefa okkur tækifæri til þess að takast á við fortíðina eins og henni ber, með hlutleysi og æðruleysi og síðast en ekki síst án fyrirfram ákveðinna hugmynda. En hvernig þessi hugmyndafræði hagar sér í framkvæmd, er vert að skoða ofan í kjölinn áður en hafist er handa.

Valdimar Tryggvi Hafstein, dósent í þjóðfræði
Höfundur er óþekktur. Fjölsköpun, alþýðuhefðir og höfundaréttur

Hver eru þessi „höf. ók.“ og „trad. arr.“ sem svo víða virðast hafa stungið niður penna? Hvaða tilkall eiga þau til sinna verka? Hver á alþýðuhefðir og hvernig eignast menn þær? Í fyrirlestrinum kynni ég rannsóknarverkefni um hinn ókunna höfund sem beinir einkum sjónum að gráum svæðum á milli höfundarverka og hefðar. Rannsóknin skírskotar til sögu þessara hugtaka, þeirrar skipanar orðræðunnar sem þau tilheyra og höfundaréttarins sem bindur þá skipan í lög. Ég hef sérstakan áhuga á misræminu á milli margvíslegrar sköpunar sem við verðum vitni að allt í kringum okkur og svo þess tungumáls sem við höfum til að tala um þessa sköpun – ósamræminu milli orða og athafna. Markmiðin með rannsókninni eru að varpa ljósi á þverstæðukennt samband alþýðuhefða og höfundaréttar, auka skilning á því hvernig sköpunarkrafti er stýrt og miðlað í gegnum höfundarétt og skylda orðræðuskipan og bregða birtu á hvernig alþýðuhefðir draga mörk höfundargildisins og eiga þannig drjúgan þátt í merkingu þess.

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki
Lýðræði að hætti Platons

Platon er þekktur fyrir gagnrýni sína á lýðræði en sjaldnar er hugað að því hvað læra má af heimspeki hans til að bæta lýðræðislega stjórnarhætti og stjórnskipan. Í þessu erindi verða dregin fram helstu rök Platons gegn lýðræði og sýnt fram á að þau eigi að nokkru leyti enn við. Jafnframt verða kynnt og metin sjónarmið fræðimanna sem sjá í textum Platons vísa að kenningu um rökræðulýðræði. Í ljósi þessa verður hugað að því hvort hugmyndir Platons geti verið okkur til leiðsagnar í því verkefni að treysta lýðræðislega innviði íslensks samfélags.

Wang Keping, Beijing International Studies University, Chinese Academy of Social Sciences
A Harmonious Society in the Harmony-conscious Culture

Ever since 2004 in China, the first priority has been given to the experimental construction of a harmonious society. According to the blueprint concerned, a harmonious society is imagined to bear such primary features as democracy, rule of law, equity, justice, trustworthiness, friendliness, dynamics, stability, orderliness, and harmonious correlation between human and nature. These factors are determinate in their respective degrees, and involving almost all the domains of a modern society. In other words, the experimental construction appears to be a comprehensive project associated with politics, law, economics, human relations and environmental ethics and the like. It is in fact proposed in contrast to the social reality saturated with potentially disharmonious phenomena. Such phenomena allude to certain contradictions that are largely originated from the widening gap between the rich and the poor, gap that is said to be chiefly resulted from societal inequity, distributional injustice and institutionalized corruption in essence. They have thus become conducive to the formation of disproportionate interest division, grouping and discrepancy owing to resource and market monopoly mixed up with power deals, which is working to upset and even undermine the conventional social structure and national mentality as well. All this tends to bring into jeopardy social stability and order that serve to secure the apparent prospect of social development and economic growth altogether.

As is observed from the foregoing blueprint and its problems involved, the building of the harmonious society is often treated as either a political aspiration or a social enterprise by nature. But in my observation, it could also be conceived of as a cultural expectation as regards the Chinese social setting in particular. By “cultural expectation” herein is meant that the harmonious society in question is partly expected from the cultural ideal of harmony (he 和). For the ideal of harmony is deep-rooted and constantly stressed in the Chinese cultural heritage, especially in the Confucianist thought. It serves in principle as the inherent basis on which the harmonious society could be built, basis that partly lies in the ethos of zhonghe wenhua 中和文化 qua harmony-conscious culture peculiar to Confucianism proper.

This paper is intended to look into the four aspects as follows:

  1. The Importance of Harmony
  2. The Distinction between Harmony and Uniformity
  3. The Dialectic in Harmony versus Conflict
  4. A Harmonious Society as a Process

Þorsteinn Surmeli, MA-nemi í íslenskum bókmenntum
„[...] að dreyma heiminn sem hús“ – Um líkingar og rými í ljóðum Þorsteins frá Hamri

Fjallað verður um valin ljóð Þorsteins frá Hamri og sýnt hvernig ákveðnar kenningar hugfræða geta aukið skilning á þeim og aðferðum höfundar. Í brennidepli verða hugtakslíkingar.

Þorvarður Árnason, forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði
Landslag – þar sem maður og náttúra mætast?

Landslag er eitt af lykilhugtökum náttúruverndar og því hefur, a.m.k. til skamms tíma, verið undarlega hljótt um það bæði í almennri og fræðilegri umræðu á Íslandi. Verndun landslags sem slíks hefur jafnframt mjög takmarkaða lagastoð hérlendis. Átök um landslag á einstökum svæðum hafa víða verið mjög sýnileg á Íslandi, ekki síst í virkjanadeilum. Undir niðri blundar síðan margvíslegur en mun minna áberandi ágreiningur um grunnskilning manna á landslagi og mikilvægi þess, hvort heldur fyrir náttúru eða mannlíf. Þessi ágreiningur hefur sett mark sitt á fræðaheiminn ekki síður en á hagsmunatengdan eða pólitískan ágreining um landslag. Í erindinu verður fjallað um ofangreind átök á Íslandi í ljósi Evrópska landslagssáttmálans og þeirri spurningu varpað fram hvort hann geti orðið grunnur að sameiginlegum, þverfræðilegum kenningaheimi um íslenskt landslag.

Þórhallur Eyþórsson, sérfræðingur hjá Málvísindastofnun
„Höfuð höggva ek mun þér hálsi af“. Samspil bragfræði og málfræði í eddukvæðum

Undanfarin ár hefur hópur innlendra og erlendra fræðimanna unnið að viðamikilli rannsókn á samspili bragkerfis, hljóðkerfis og setningagerðar í kveðskapartextum, einkum í eddukvæðum og dróttkvæðum en líka í kveðskap frá seinni öldum, m.a. rímum. Rannsóknin er komin vel á veg og mikilvæg afurð hennar er tölvutækur gagnagrunur, Greinir skáldskapar, sem hefur að geyma bragfræðilega og málfræðilega greinda texta. Í þessu erindi verður sýnt með völdum dæmum hvernig unnt er að nota grunninn til að kalla fram samþættar upplýsingar um bragfræðileg og málfræðileg atriði í kveðskapnum.

Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku
Þróun málbeitingarhæfni á einu ári – Athugun á ritun dönskunema við HÍ

Í þessu erindi verða borin saman verkefni tveggja nýnema í dönsku við HÍ og athugað hvernig ólíkur bakgrunnur þeirra varðandi tungumálið birtist í ritunarverkefnum þeirra. Litið verður til lengdar verkefna, umfangs orðaforða, tíðniflokka orðaforðans, setningagerðar, notkun fastra orðasambanda og einstakra orðflokka. Skoðaðar verða framfarir nemanna á einu ári og þær greindar. Loks verður athugað hvort lesa megi úr niðurstöðum vísbendingar um hvort og hvernig ganga megi markvissar til verks í kennslu og þjálfun í málnotkun ritaðs máls.

Þórunn Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur
Harmljóð Halldóru Guðbrandsdóttur, huggunarsálmur og eftirlangan til eilífs lífs. Umbreyting bókmenntagreinar í handritamenningu árnýaldar

Í handritamenningu fyrri alda þótti það ekki athugavert þótt textum væri breytt með ýmsum hætti, erindaröð kvæða umbylt, köflum sleppt eða orðum skipt út fyrir önnur sem skrifaran­um hugnaðist betur. Samkvæmt nýju textafræðinni (e. material philology) voru slíkir textar miklu fremur hluti af samfélagslegri orðræðu en endanleg afurð eins listamanns. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig kvæði sem ort var af ákveðnu tilefni árið 1627 breyttist í meðförum skrifara á 17. og 18. öld. Færð verða rök fyrir því að sumar breytingarnar hafi verið gerðar beinlínis með það að markmiði að kvæðið glataði upprunalegri merkingu sinni en öðlaðist nýja merkingu annarrar bókmenntagreinar.

Þröstur Helgason, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði
Vaka og Vaki, upprisa og uppreisn – „svo náskyld orð“

Árið 1927 stofnaði hópur borgaralegra menntamanna tímaritið Vöku sem hafði það að markmiði að vekja þjóðina til vitundar um málstað sinn í sjálfstæðisbaráttunni. Flestir í þessum hópi voru áhrifmenn í samfélaginu en mest áberandi var Sigurður Nordal sem talaði fyrir þjóðernislega íhaldssamri menningarstefnu í tímaritinu. Réttum aldarfjórðungi seinna stofnuðu þrír ungir menn tímaritið Vaka sem var eins konar andsvar við menningarstefnu Nordals. Í erindinu verður ólík og að vissu leyti þversagnarkennd virkni þessara tímarita í íslensku menningarlífi skoðuð, meðal annars í ljósi hugtakanna „upprisa“ og „uppreisn“ sem Nordal sagði svo náskyld.

Örn Daníel Jónsson, prófessor í nýsköpunarfræðum við Viðskiptafræðideild
Ekki hegða okkur svona aftur! Raunhæfar leiðir til ábyrgrar nýsköpunar

Fjallað verður um þá breyttu lífshætti sem bólutíminn fól í sér og þá þversögn sem Juliet Schor benti á þegar á sjöunda áratug síðustu aldar. Hún taldi að aukin velmegun fæli í sér aukna skuldsetningu og lengri vinnutíma, vítahring sem erfitt hefur reynst að losna út úr.

Spurt er hvort yfirstandandi þrengingar og aðhald í neyslu séu aðeins sambland af eftirsjá og samviskubiti eða hvort þær leiði til varanlegra breytinga á lífsháttum.  Ríkjandi viðmið, “grænt ef það kostar ekki of mikið”, er staðreynd sem taka verður alvarlega og snúa þarf kröfunni  um breytt siðferði í tækifæri til nýsköpunar. Þegar er farið að vinna út frá þessu í þekkingarsamfélaginu víðsvegar um heiminn.

 

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is