Andmælendur

Andmælendur skulu vera alþjóðlega viðurkenndir sérfræðingar á fræðasviði doktorsritgerðarinnar. Einungis þeir sem hafa lokið doktorsprófi eða áunnið sér jafngildi þess geta verið andmælendur við doktorsvarnir hjá deildum Hugvísindasviðs. Þegar þess er kostur skal að minnsta kosti annar andmælenda vera kennari eða sérfræðingur við annan háskóla eða rannsóknastofnun. Ekki er heimilt að andmælendur við doktorsvörn hafi átt sæti í doktorsnefnd.

Andmælendur fá skipunarbréf með upplýsingum um doktorsnám við Háskóla Íslands og leiðbeiningum um mat ritgerðar og vörn frá formanni doktorsnámsnefndar eigi síðar en með eintaki af ritgerð sem þeir fá til mats. Þeir eru beðnir um að leggja alhliða mat á ritgerðina þar sem þeir segja skoðun sína á því hvort í ritgerðinni felist nýsköpun þekkingar, hvort efni ritgerðarinnar sé birtingarhæft á viðurkenndum ritrýndum vettvangi og hvort framsetning og frágangur ritgerðarinnar, þar með talið meðferð heimilda og framsetning heimildaskrár, séu með viðunandi hætti.

Ritgerðin er send andmælendum í trúnaði. Andmælandi skal ekki undir neinum kringumstæðum ræða ritgerðina eða aðra þætti matsferilsins við þriðja aðila nema að fengnu samþykki doktorsnámsnefndar. Doktorsnemi og doktorsnefndarmenn skulu ekki vera í beinum samskiptum við andmælendur um doktorsritgerðina.

Komist andmælendur ekki að samkomulagi um hvort ritgerð sé tæk til varnar er doktorsnámsnefnd heimilt, í samráði við námsbraut og Miðstöð framhaldsnáms, að skipa nýja andmælendur.

Endanleg gerð ritgerðar skal send andmælendum eigi síðar en tveimur vikum áður en vörn fer fram og skal hún jafnframt liggja frammi á skrifstofu Hugvísindasviðs fram að vörn. Ekki er heimilt að gera efnislegar breytingar á ritgerðinni eftir að hún hefur verið metin tæk til varnar.

Sjá nánar í 12. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is