Ásýnd lands, menning og markalínur

Föstudagur 9. mars kl. 13-14.30
Stofa 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Ásýnd landsins virðist skipta Íslendinga miklu máli, eins og ýmis álitaefni í samfélagsumræðu undanfarinna ára hafa leitt í ljós. Hvar er í lagi að reisa raforkuver, leggja veg, rækta skóg? Hvað er rétt að vernda af náttúru, landslagi og menningarminjum, og hvernig ber að meðhöndla það sem verndað er? Í orðræðunni um ásýnd landsins mætast menning og náttúra. Gjarnan koma fram í slíkri orðræðu ólík viðhorf til sambands menningar og náttúru, átök um samfélagsleg gildi og mismunandi sýn á tengsl milli hins staðbundna og hins hnattræna. Oft má greina ákveðna tilhneigingu til að draga skýrar markalínur milli þess sem talið er æskilegt og óæskilegt; línur sem stundum virðast vera dregnar á helst til einfölduðum forsendum en auðvelda engu að síður stjórnsýslulegar ákvarðanir í þessum efnum.

Í lotunni verður fjallað um þrjár hliðar þessara mála. Edda R. H. Waage kynnir niðurstöður rannsóknar sinnar á merkingu íslenska landslagshugtaksins í huga almennings og ber þær saman við nýtilkomna lagaskilgreiningu hugtaksins. Birna Lárusdóttir fjallar um mannvistarleifar, hlutdeild þeirra í landslagi og ólíka sýn varðandi skilgreiningu á þeim, verndun þeirra og stöðugleika. Að endingu tekur Karl Benediktsson fyrir þrætur um uppruna tegundanna í íslenskri náttúru, en mikil umræða hefur verið um „ágengar, framandi tegundir“ á undanförnum misserum.

Fyrirlesarar:

  • Edda R.H. Waage, doktorsnemi í landfræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands: Óþægur ljár í þúfu: Af merkingu landslags og skilgreiningu þess
  • Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur, Fornleifastofnun Íslands: Vörtur fjallkonunnar: Af misæskilegum minjum
  • Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands: Plantae non gratae: Um markalínur í náttúruvernd

Málstofustjóri: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki

Útdrættir:

Edda R.H. Waage, doktorsnemi í landfræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Óþægur ljár í þúfu: Af merkingu landslags og skilgreiningu þess

Síðla árs 2010 birtist í fyrsta sinn skilgreining á hugtakinu landslag í íslenskum lögum. Aðdragandinn teygir sig aftur til aldamótaársins 2000, en þá var evrópski landslagssáttmálinn undirritaður í Flórens af 18 Evrópuþjóðum, þó ekki Íslandi. Hér á landi var um svipað leyti farið að beita landslagshugtakinu með markvissum hætti við skipulagsvinnu á náttúrusvæðum. Þær tilraunir opnuðu augu margra fyrir nauðsyn þess skilgreina hugtakið, þannig að beiting þess skilaði tilætluðum árangri. Hvatinn að hinni lagalegu skilgreiningu er því tilkominn vegna reynslu hérlendis. Aftur á móti er skilgreiningin sjálf byggð á evrópska landslagssáttmálanum.

Hin lagalega skilgreining er vissulega skref í rétta átt. Þó vekur hún upp ýmsar spurningar, t.d. hvort efnislegt innihald hennar samrýmist þeirri merkingu sem almennt er lögð í hugtakið landslag hér á landi. Til að svara þessu verða í erindinu kynntar niðurstöður fyrirbærafræðilegrar rannsóknar sem miðaði að því að grafast fyrir um merkingu landslagshugtaksins meðal íslensks almennings. Í framhaldinu er velt upp þeirri spurningu hvort lagaskilgreiningin standi undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar.

 

Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur, Fornleifastofnun Íslands
Vörtur fjallkonunnar: Af misæskilegum minjum

Minjar, gamlar og nýjar, setja alls staðar mark sitt á landslag. Rústir, gamlir troðningar, huldufólksbústaðir og örnefni eru meðal þess sem telja má til minja samkvæmt víðustu skilgreiningu hugtaksins. Allar fornleifar, þ.e. mannvistarleifar sem eru 100 ára og eldri, eru friðaðar samkvæmt lögum og sömuleiðis er almennt vilji til að varðveita örnefni. Þrátt fyrir þetta má víða greina í orðræðu og jafnvel lagasetningu/stjórnsýslu tilhneigingu til að flokka minjar eftir mikilvægi. Sumt þykir æskilegra en annað.  Í þessum hugleiðingum verður leitast við að varpa ljósi á hvar mörkin liggja milli þess sem telst æskilegt og miður æskilegt.  Skoðað verður hvernig þættir eins og aldur minja, uppruni og efniviður hafa áhrif á gildismat og sömuleiðis verður velt upp spurningum um umgengni við minjar og viðhald á þeim. Nefnd verða dæmi um hvernig minjar verða til í samtímanum og hvernig því er stýrt, bæði af yfirvöldum og almenningi. Ennfremur er fjallað um hvernig minjar eru afmáðar, stundum í nafni fegrunar þótt undir niðri kunni aðrar ástæður að liggja að baki.

Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Plantae non gratae: Um markalínur í náttúruvernd

Tilraunir til að auðga hið tiltölulega fábreytta lífríki Íslands með nýjum tegundum plantna og dýra hafa verið samofnar þjóðarsögunni um langa hríð. Slíkar tilraunir hafa verið runnar undan rifjum nytjahyggju og gerðar bæði til að efla þjóðarhag og græða þau sár sem mannvist fyrri alda hafði valdið. Vaxandi efasemda hefur hins vegar gætt um réttmæti þessa. Á síðari árum hefur sýn náttúruvísindanna, einkum verndarlíffræði, haft mikil áhrif. Skýrt vitni um það ber nýleg áætlun umhverfisráðuneytis um að koma böndum á útbreiðslu tveggja „ágengra, framandi tegunda“, alaskalúpínu og skógarkerfils, í íslensku landslagi. En í slíku starfi felast ýmsar óyrtar forsendur, sem margir fræðimenn hafa orðið til að gagnrýna. Í erindinu er fjallað um nauðsyn þess að opin og hreinskiptin samræða fari fram um forsendur fyrir verndun landslags og lífríkis. Þar geta hug- og félagsvísindi lagt ýmislegt mikilvægt til.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is