Atbeini Íslendinga í Kaupmannahöfn á 19. öld

 

Kannað verður og rætt hvað íslenskar konur og karlar höfðust að í hversdagsleikanum út frá yfirlýstum markmiðum þeirra með utanför og dvöl erlendis, hvort heldur það var við nám, tekjuöflun eða tómstundir, þá miðað við eigin hvatir eða áhugamál, jafnvel persónuleikabresti. Veglegt rit um Íslendinga í Kaupmannahöfn er nýkomið út og verður stuðst við það um heildarsýn og samhengi, en í erindunum verður farið í smáatriðin um það hvernig íslenskir innflytjendur, ef svo má segja, tókust á við aðstæður sínar.

Málstofustjóri: Már Jónsson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 10-12 (stofa 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Erla Dóris Halldórsdóttir doktorsnemi: Íslenskar konur við ljósmæðranám í Kaupmannahöfn á 19. öld
  • Bragi Þorgrímur Ólafsson doktorsnemi: Jón Sigurðsson stendur í ströngu
  • Kristín Bragadóttir doktorsnemi: Skólapiltar safna bókum fyrir Willard Fiske
  • Már Jónsson, prófessor í sagnfræði: Jón Thoroddsen á Garði
​Útdrættir:

Erla Dóris Halldórsdóttir doktorsnemi: Íslenskar konur við ljósmæðranám í Kaupmannahöfn á 19. öld

Fjallað verður um 19 íslenskar konur sem stunduðu ljósmæðranám við Fødselsstiftelssen í Kaupmannahöfn á árunum 1833-1872. Ýmsir erfiðleikar hafa verið því samfara að læra ljósmóðurfræði í Kaupmannahöfn og á dönsku. Ósagt skal látið hvor þessar konur hafi kunnað dönsku áður en þeir sigldu út en árið 1843 þótti yfirstjórn Fødselsstiftelsen ástæða til að skrifa amtmönnum á Íslandi og fara fram á það að ljósmæðranemar kæmu betur undirbúnir í dönsku.

Bragi Þorgrímur Ólafsson doktorsnemi: Jón Sigurðsson stendur í ströngu

Hafnar-Íslendingar þurftu oft að sinna ýmsum erindum fyrir landa sína á nítjándu öld, sennilega þó enginn meira en Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir. Erindin voru af ýmsum toga og stundum valt mikið á því að þau væru leyst vel af hendi. Í erindinu verður greint frá því þegar Jón Sigurðsson eitt sinn var beðinn um þann vinargreiða að breyta texta Stjórnartíðindanna (Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands).

Kristín Bragadóttir doktorsnemi: Skólapiltar safna bókum fyrir Willard Fiske

Sagt verður frá íslenskum skólapiltum í Kaupmannahöfn sem öfluðu sér tekna með því að safna íslensku prentefni fyrir Bandaríkjamanninn Willard Fiske (1831-1904). Þeir keyptu bækur af fornsölum, á uppboðum og af einstaklingum. Á síðasta áratug 19. aldar leigði Fiske aðstöðu við Hovedvagtsgade 2 og þar unnu þrír til fjórir námsmenn samtímis meðfram námi sínu. Að Hovedvagtsgade 2 barst efni frá Danmörku, Íslandi og Kanada. Piltarnir stefndu að því að komast í vinnu til Fiskes í Flórens og gáfu hver öðrum meðmæli. Í bréfum til Fiskes sögðu þeir frá ýmsu sem á dagana dreif í Kaupmannahöfn.

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði: Jón Thoroddsen á Garði

Sagt verður frá nýfundnum upplýsingum um slaka frammistöðu Jóns Thoroddsens (1818-1868), síðar skálds og sýslumanns, á fyrsta vetri í námi við Hafnarháskóla veturinn 1841-42 og því hvernig hann freistaði þess að klóra sig út úr vandræðunum með því að skrifa bréf. Einnig verður greint frá grun um að Jón hafi eitt kvöldið eftir lokun komið inn um glugga á herbergi sínu á Garði og því hvernig hann fékk afstýrt hegningu með því að látast ekki kannast neitt við neitt.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is