Bækur og handrit á 19. öld

Prentun bóka færðist mjög í vöxt á Íslandi á 19. öld og virðist sem aukin útbreiðsla slíks ritmáls hafi fremur styrkt en veikt þá handritamenningu sem fyrir var í landinu. Í þessari málstofu verður litið á þessa þróun frá ýmsum hliðum og tilraun gerð til þess að sýna og helst útskýra fjölbreyttar birtingarmyndir íslenskrar bókmenningar á tímabilinu.
Fyrirlesarar skipta með sér fundarstjórn.

Fyrirlesarar:
Kristín Bragadóttir, doktorsnemi í sagnfræði: Söfnun Willards Fiskes á íslenskum ritum
Bragi Þorgrímur Ólafsson, doktorsnemi í sagnfræði: Dýrgripur Ragnheiðar Finnsdóttur. Sagan á bak við JS 251 4to
Davíð Ólafsson, sagnfræðingur: Heimsmenning í handritum. Af óprentuðum þýðingum á nítjándu öld
Már Jónsson, prófessor í sagnfræði: Bókaeign alþýðu 1820-1860

Útdrættir:
Kristín Bragadóttir, doktorsnemi í sagnfræði
Söfnun Willards Fiskes á íslenskum ritum
Cornell-háskóli í Íþöku í Bandaríkjunum hýsir merkilegt safn íslenskra rita, hið næststærsta utan Íslands. Þar liggur ævistarf Bandaríkjamannsins Willards Fiskes. Hann kom til Íslands 1879 og kynntist þá fjölmörgum Íslendingum sem síðar reyndust óþreytandi við að útvega honum íslenskan ritakost. Það voru einkum skólapiltar Lærða skólans sem lögðu hönd þar á plóg, bæði hér heima og í Kaupmannahöfn. Í safninu eru margar fágætar og dýrmætar bækur en einnig hvers konar smáprent eins og boðsbréf og grafskriftir því Fiske stundaði þaulsöfnun. Örlög íslensku bókanna voru að ferðast frá Íslandi eða Kaupmannahöfn til Ítalíu og þaðan til Bandaríkja Norður-Ameríku þar sem safnið er vel varðveitt og til gagns og gamans fyrir fræðimenn í norrænum fræðum.

Bragi Þorgrímur Ólafsson, doktorsnemi í sagnfræði
Dýrgripur Ragnheiðar Finnsdóttur. Sagan á bak við JS 251 4to
Í handritasafni Landsbókasafns Íslands eru varðveitt um fimmtán þúsund handrit. Stærstur hluti þeirra er frá síðari öldum og hafa þau mörg hver verið í fórum fjölda manns áður en þau komust í eigu Landsbókasafns. Meðal fyrri eigenda er alþýðufólk sem hefur skilið eftir sig takmarkaðar heimildir á opinberum vettvangi. Í erindinu verður varpað fram nokkrum spurningum um það hvernig handritin gætu nýst við að varpa félagssögulegu ljósi á bókmenningu þessa hóps og tekið dæmi af handritinu JS 251 4to, en þar má finna örstutt textabrot sem gæti nýst við slíkar rannsóknir.

Davíð Ólafsson, sagnfræðingur
Heimsmenning í handritum. Af óprentuðum þýðingum á nítjándu öld
Um jólaleytið árið 1870 sat kotbóndi norður í Bjarnafirði fast við með pennastöng, blek og pappír og skrifaði upp íslenska þýðingu á einu af lykilritum trúarbragðasögunnar, Gyðingasögu Flavius Josephus. Þessi frásögn og ýmis önnur dæmi frá nítjándu öld sýna að þýðingar af ýmsu tagi voru hluti af þeirri heild sem kalla má textaheim íslenskrar alþýðu, ekkert síður en Íslendingasögur og rímur. Í erindinu verður vikið að nokkrum slíkum dæmum og fjallað um hvaða áhrif það hefur á mynd okkar af íslenskri hugmynda- og bókmenntasögu að gefa þeim aukinn gaum.

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði
Bókaeign alþýðu 1820-1860

Eftirlátnar eigur fólks voru samviskusamlega færðar til bókar alla nítjándu öldina, fyrst við skráningu dánarbúa og eftir það ýmist í skiptabækur eða uppboðsbækur. Fjallað verður um þær upplýsingar sem þessi gögn veita um prentaðar bækur á heimilum landsmanna og gaumgæft hvort mikill munur var á konum og körlum, jafnt meðal húsbænda sem vinnufólks. Einnig verður spurt hvort niðurstöðurnar leyfi ályktanir um menningarsöguleg atriði á borð við læsi, hugarfar og þekkingu eða skilning á umheiminum.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is