Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 15. árgangur - 2015

Bergljót Kristjánsdóttir: „vegir sem stefna […] beint út í hafsauga“. Um húmor og íroníu og þrjú ljóð Sigfúsar Daðasonar

Í greininni eru kynntar ýmsar hugmyndir – einkum hugfræðinga – um húmor og íróníu og lögð áhersla á að þetta tvennt séu vitsmunaferli sem marki jafnt daglegt mál sem skáldskap. Mælt er fyrir þeim skilningi að þegar menn bregði fyrir sig húmor og íróníu, hverfi þeir frá tengdum hugmyndum sem eru viðteknar í ákveðnum hópi eða samfélagi til annarra sem rekast á þær fyrri, rífa þær niður, láta þær orka hlægilegar eða sýna í hverju þeim er áfátt. Því næst er gerð grein fyrir húmor og íroníu í þremur ljóðum eftir Sigfús Daðason, tveimur úr ljóðabókinni Höndum og orðum (III og XVI) en hinu þriðja úr bókinni Og hugleiða steina (I í öðrum hluta). Skýrt er að hverju húmor Sigfúsar og íronía beinist og rætt jafnt um kunnar hugtakslíkingar, hið háleita og blöndun. Þá koma m.a. við sögu skrif Sigfúsar og annarra um nýlendumál, yfirlýsingar súrrealista, hugmyndir síðustu áratuga um samlíðan og Prelúdía Wordsworths. Loks er rætt um merkimiðann módernisti sem oft var settur á Sigfús og afstöðu hans sjálfs til hans en í framhaldi af því er vikið stuttlega að húmor og raunsæi.
 
Lykilorð: Húmor – íronía – hugræn fræði – ljóð – Sigfús Daðason
 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is