Bókmenntir, læknisfræði, samlíðan

 

Í málstofunni koma saman ólíkar fræðigreinar sem með samstarfi geta leitt til dýpri skilnings á mannskepnunni. Fyrri hluti málstofunnar er á sviði frásagnarlæknisfræði  (e. narrative medicine) eða læknahugvísinda (e. medical humanities) - fræðasviði sem hefur rutt sér til rúms erlendis allra síðustu áratugi. Bryndís Benediktsdóttir læknir, Ásdís Egilsdóttir, prófessor í miðaldabókmenntum og Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í nútímabókmenntum, hafa ekki síst komið að uppbyggingu sviðsins hérlendis.

Þær hafa lagt áherslu á að læknanemar lærðu að hugsa um sjúklinga frá sjónarhóli hugvísinda ekki síður en læknavísinda – og þar með um manneskjurnar í heilu lagi í öllu sínu samhengi. Í seinni hluta málstofunnar verður fjallað um samlíðan (e. empathy) og skyld fyrirbæri ekki síst frá sjónarhorni hugrænna fræða enda tengjast nokkrir fyrirlesaranna  rannsóknarverkefninu Samlíðan: mál, bókmenntir, samfélag sem stutt er af RANNÍS og Bergljót S. Kristjánsdótti stýrir.

 

 

Málstofustjóri: Bergljót Soffía Kristjánsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 13.00-14.30 (stofa 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Dagný Kristjánsdóttir prófessor: „Skáldaveikin.“ Um berkla og bókmenntir
  • Hlynur N. Grímsson læknir: „Agi verður að vera í hernum“. Ímyndir hermennsku og átaka í læknisfræði
  • Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Að missa og sakna: Um sorg, sársauka og samlíðan í Þrenningunni eftir Vigdísi Grímsdóttur

Laugardagur 12. mars kl. 15.00-16.30 (stofa 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Bergljót Soffía Kristjánsdóttir prófessor: „í dimmum helli“: Um skitsófreníu, ævisögu Bjarna Bernharðs, Hin hálu þrep, og hugsanleg viðbrögð lesenda
  • Guðrún Lára Pétursdóttir bókmenntafræðingur: Leikur að hjörtum. Um óáreiðanleika og samlíðan í Hvítfeld – fjölskyldusaga eftir Kristínu Eiríksdóttur
  •  Sigurbjörg Erla Egilsdóttir og Hulda Þórisdóttir, lektor og doktorsnemi í sálfræði: Samlíðan, félagsfærni og lesblinda – Árangur á RME prófinu og þáttur sjónrænnar úrvinnslu

​Fundarstjóri: Bryndís Benediktsdóttir

Útdrættir:

Dagný Kristjánsdóttir prófessor: „Skáldaveikin.“ Um berkla og bókmenntir

Engar farsóttir hafa kallað á jafn öfgafullar og ólíkar túlkanir í listum og bókmenntum og berklarnir.  Rómantískar hugmyndir um sjúkdóminn gengu út frá því að hinn sjúki listamaður væri útvalinn og einstakur. Harmræn örlög hans réðust af því að eldurinn í brjósti hans nærðist á súrefninu sem lungunum væru ætluð. Sjúkdómurinn var eins og skjár sem varpað var á hvers konar túlkunum og tilfinningum í nafni vísindanna. Læknar töldu ekki aðeins að „harmrænar þrár“ væru orsök tæringarinnar heldur „óhollar kynlífsvenjur“ (sjálfsfróun og lauslæti) og meðferðarformin einkenndust því frá upphafi af hreinsunum og ögun. Síðar fékk sjúkdómurinn raunsærri birtingarmyndir í bókmenntunum og í fyrirlestrinum verður fjallað um þær. 

Hlynur N. Grímsson læknir: „Agi verður að vera í hernum“. Ímyndir hermennsku og átaka í læknisfræði

Í erindinu verða skoðuð tengsl læknisfræði við hernað og hvernig ímyndir hernaðarátaka hafa iðulega tengst lækningum og líkn. Rakin verða söguleg dæmi og einnig skoðuð tengsl viðfangsefnisins við bókmenntir tengdar læknisfræði. Einnig verða athuguð líðan og afdrif lækna sem starfa í eldlínu hversdagsins, og þá sérstaklega í samfélagi nútímans þar sem allt og allir eru til sýnis í fjölmiðlum og á Netinu.

Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Að missa og sakna: Um sorg, sársauka og samlíðan í Þrenningunni eftir Vigdísi Grímsdóttur

Í fyrirlestrinum verður fjallað um Þrenninguna eftir Vigdísi Grímsdóttur. Þrenningin er tríólógía sem samanstendur af verkunum Frá ljósi til ljóss (2001), Hjarta, tungl og bláir fuglar (2002) og Þegar stjarna hrapar (2003). Tvær af aðalpersónum verkanna eru mæðginin Rósa og Lenni yngri en þau eiga sameiginlegt að alast upp hjá einu foreldri og missa í bernsku persónu sér nákomna. Þau bregðast misjafnlega við missi; Rósa felur sársaukann sem hún upplifir með umburðarlyndi en Lenni skapar einkaheim þar sem önnur lögmál gilda en í raunheimi sögunnar. Í erindinu verður kannað hvernig sorg og sársauka Rósu og Lenna er lýst og hvernig þau bregðast við söknuði. Þá verður einnig hugað að því hvort og hvernig aðrar persónur sýna mæðginunum samlíðan.

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir prófessor: „í dimmum helli“: Um skitsófreníu, ævisögu Bjarna Bernharðs, Hin hálu þrep, og hugsanleg viðbrögð lesenda

Ævisögur rithöfunda síðustu áratugi hafa m.a. verið túlkaðar sem tilraun til að endurnýja skáldsöguna. Í  þeim horfist menn í augu við að sjálf mannskepnunnar séu fleiri en eitt og sjálfsmyndir hennar sömuleiðis, svo ekki sé talað um að samspil vitsmunalífs hennar og veruleikans utan líkama hennar vitni um allt annað en skýr mörk milli hins innra og ytra. En hvað einkennir ævisögur þeirra sem strítt hafa við alvarlegar geðraskanir eins og geðklofa er hafa áhrif á sjálf og sjálfsmyndir? Vikið verður að mýtunni um tengsl galskapar og listsköpunar en einkum fjallað um skitsófreníu og sögu Bjarna Bernharðs „Hin hálu þrep“. Hugað verður að einkennum sögunnar markmiði hennar og hugsanlegum viðbrögðum lesenda við henni, ekki síst samlíðan og skyldum fyrirbærum.

Guðrún Lára Pétursdóttir bókmenntafræðingur: Leikur að hjörtum. Um óáreiðanleika og samlíðan í Hvítfeld – fjölskyldusaga eftir Kristínu Eiríksdóttur

Í skáldsögu Kristínar Eiríksdóttur, Hvítfeld – fjölskyldusaga, sem kom út árið 2012 er að finna einn óáreiðanlegasta – ef ekki óheiðarlegasta – sögumann íslenskra bókmennta. Jenna Hvítfeld dregur lesendur hvað eftir annað inn í æsilegar frásagnir af lífi sínu en afturkallar þær jafnharðan með því að játa að þær hafi verið uppspuni frá rótum. Við hina fölsuðu ævisögu Jennu fléttast svo frásagnir af fjölskyldu hennar og svo virðist sem tilgangur þeirra sé fyrst og fremst að gera grein fyrir jarðveginum sem söguhetjan er sprottin úr og skapa þannig ákveðna samúð með Jennu þrátt fyrir augljósa bresti hennar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um samspil þessara ólíku frásagna Hvítfeld í ljósi hugmynda um óáreiðanleika og sjónum beint að því hvernig þær leika sér með samlíðan lesenda. Í kjölfarið verða sjálfsögulegir eiginleikar skáldsögunnar skoðaðir, ekki síst hvernig hún fjallar um órjúfanlegt samband skáldskapar og samlíðunar og tengsl þess við söngkonuna Birtney Spears.

Hulda Þórisdóttir og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir: lektor og doktorsnemi í sálfræði: Samlíðan, félagsfærni og lesblinda – Árangur á RME prófinu og þáttur sjónrænnar úrvinnslu

Í gegnum tíðina hefur verið nokkuð ósamræmi í skilgreiningum á samlíðan og þar með reynst erfitt að mæla hana með áreiðanlegum og réttmætum hætti. Lengst af hafa mælingar einkum byggt á sjálfsmati en því fylgja óhjákvæmilegir annmarkar, til dæmis þóknunaráhrif. Reading the mind in the eyes (RME) prófið (Baron-Cohen, Wheelwright, Raste & Plumb, 2001) var hannað til þess að meta vitsmunalega samlíðan, það er getu fólks til að lesa í tilfinningu, hugsun eða ætlun út frá augnsvip fólks. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt fram á tengsl Asperger heilkennis við slakari árangur á prófinu. Í ljósi nýlegrar rannsóknar sem leiddi í ljós skerta andlitsskynjun á meðal lesblindra var tilgáta okkar sú að þeim hópi gengi einnig verr á RME prófinu. Í þessarri rannsókn var árangur 639 einstaklinga metinn á lesblinduskimunarlista, RME prófinu og skimunarlistafyrir félagsfærnivanda. Niðurstaðan er sú að því meiri lesblindueinkenni sem fólk hefur, því verr gengur því á RME prófinu ásamt því að mælast með lakari félagsfærni.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is