Bragur og saga

Föstudaginn 14. mars kl. 15.00-17.00 í stofu 51 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Í málstofunni verða flutt fjögur erindi á sviði íslenskrar málsögu en öll tengjast þau brag eða bragfræðilegum hugtökum. Fyrsta erindið fjallar um nokkur óregluleg rím sem tíðkuðust ekki í forníslensku en verða algeng (misjafnlega þó) á 14. öld. Öll hafa þau verið skýrð sem skáldaleyfi en færð verða rök fyrir öðrum skýringum, m.a. þeirri að breyting á hljóðdvöl hafi átt hlut að máli. Í öðru erindinu verður kynnt og opnuð málheild með sýnishornum úr 138 rímnaflokkum frá tímabilinu 1350–1950. Rædd verða álitamál um frágang og framsetningu, framtíðarmöguleikar reifaðir og notkunardæmi sýnd. Í þriðja erindinu verður fjallað um tónkvæði, en það hefur að undanförnu verið talsvert til umfjöllunar í skrifum um íslenska málsögu. Fjórða erindið fjallar um ýmsar gerðir áhrifsbreytinga sem voru að verki, eða kunna að hafa verið að verki, í beygingarþróun íslenskra fornafna. Einkum verður sjónum beint að einni gerðinni, rímmyndun, en hún tengist rími eins og heitið ber með sér. Þetta er sjaldgæf tegund áhrifsbreytinga en um hana hefur ekki verið fjallað áður í tengslum við íslenskt efni.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Aðalsteinn Hákonarson, doktorsnemi: Ný rím og hljóðdvöl í miðíslensku
  • Haukur Þorgeirsson, nýdoktor: Sex hundruð sumur: Rímnamálheild kynnt
  • Jón Axel Harðarson, prófessor: Tilgátur um aðgreinandi tónkvæði í eldri íslenzku
  • Katrín Axelsdóttir, aðjunkt: Rímmyndun og aðrar gerðir áhrifsbreytinga

Málstofustjóri: Katrín Axelsdóttir, aðjunkt

Útdrættir:

Aðalsteinn Hákonarson, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Ný rím og hljóðdvöl í miðíslensku

Þegar komið var fram undir 1300 höfðu átt sér stað talsverðar breytingar á hljóðgildi sérhljóða (tvíhljóðun langra sérhljóða og lækkun stuttra sérhljóða). Við þetta fjarlægðust löng og stutt sérhljóð að hljóðgildi þannig að þegar lengd hætti að vera aðgreinandi urðu almennt ekki samföll í sérhljóðakerfinu. En þó háttaði þannig til að eftir höfðu orðið tvö löng ónálæg einhljóð sem bundin voru við eitt hljóðaumhverfi, þ.e. einhljóðin í hljóðasamböndunum é (= ) og . Við hljóðdvalarbreytinguna féllu þau saman við stuttu sérhljóðin e og o. Á 14. öld er tekin upp sú nýlunda að ríma saman é : e og : o en þó hefur þetta ekki verið talið til marks um lengdarsamfall. Ástæðan er að öllum líkindum sú að hljóðdvalarbreytingin er venjulega talin gerast á 16. öld. Þessi aldursgreining er byggð á heimildum um lengingu stuttra sérhljóða í opnum atkvæðum en ljóst er að fleiri breytingar búa að baki nýrri skipun hljóðdvalar.  Í erindinu verða færð rök fyrir því að rímin é : e og : o endurspegli tvenns konar lengdarbreytingar á 14. öld, annars vegar styttingu langra sérhljóða á undan löngum samhljóðum og samhljóðaklösum og hins vegar póst-lexíkalska lengingu stuttra sérhljóða í einkvæðum stuttstofna orðum í ákveðnu umhverfi.

Haukur Þorgeirsson, nýdoktor: Sex hundruð sumur: Rímnamálheild kynnt

Kynnt verður málheild með sýnishornum úr 138 rímnaflokkum frá tímabilinu 1350–1950. Málheildin skiptist í tvennt og er annar hlutinn heildarsafn rímna fyrir siðaskipti. Hinn hlutinn er úrval þar sem aðeins eru teknar með rímur undir ferskeyttum hætti. Að hafa textana undir sama bragarhætti gerir allan samanburð auðveldari og marktækari. Rædd verða álitamál í frágangi og framsetningu. Framtíðarmöguleikar verða reifaðir og notkunardæmi sýnd. Loks verður sýnd stílmælingarleg athugun á höfundareinkennum miðaldarímna sem rennir stoðum undir kenningar Björns Karels Þórólfssonar um höfundarverk Sigurðar blinds.

Jón Axel Harðarson, prófessor: Tilgátur um aðgreinandi tónkvæði í eldri íslenzku

Í grein sem birtist árið 1926 túlkar Jón Helgason vitnisburð kveðskapar frá 15. öld á þá lund að íslenzkt mál hafi á þeim tíma haft tónkvæði sem gerði skáldum kleift að greina á milli upphaflegra einkvæðra og tvíkvæðra orðmynda. Þetta þýðir að eftir að einkvæðar orðmyndir eins og ræðr (af so. ráða) höfðu fengið stoðhljóðið u og þar með breytzt í tvíkvæðar myndir hafi tónkvæði þeirra haldið þeim aðgreindum frá upprunalega tvíkvæðum myndum eins og ræður (af no. ræða). Þessa hugmynd tók Stefán Karlsson upp í grein frá 1964 þar sem hann fjallar um Egils rímur Skallagrímssonar eftir Jón Guðmundsson í Rauðseyjum (Dalasýslu). Stefán telur rímurnar, sem voru ortar árið 1643, geyma vitnisburð um aðgreinandi tónkvæði sem hafi komið í veg fyrir að upphaflegum einkvæðum og tvíkvæðum orðmyndum hafi verið ruglað saman. Síðar hafa aðrir fræðimenn tínt til fleiri heimildir um tónkvæði í eldri íslenzku. Þar á meðal er Þriðja málfræðiritgerðin svokallaða eftir Ólaf hvítaskáld Þórðarson. Í fyrirlestrinum verða heimildir um meint tónkvæði í íslenzku athugaðar og leitað svars við þeirri spurningu hvort ekki sé unnt að skýra þær á annan hátt.

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt: Rímmyndun og aðrar gerðir áhrifsbreytinga

Áhrifsbreytingar má greina í ýmsa flokka og undirflokka. Meginflokkarnir tveir hafa stundum verið kallaðir kerfisbundnar áhrifsbreytingar (e. systematic analogy) og óreglulegar áhrifsbreytingar (e. sporadic analogy). Í erindinu verður fjallað um þær gerðir sem hafa verið að verki, eða kunna að hafa verið að verki í beygingarþróun nokkurra fornafna í íslensku. Þessum gerðum verður lýst, sýnd verða dæmi um þær og rætt um hversu algengar þær eru hlutfallslega. Þá verður fjallað um ýmiss konar vanda: vanda við flokkun og skilgreiningu áhrifsbreytinga og vanda við að skipa einstökum málbreytingum í flokka. Þar verður sjónum einkum beint að einum undirflokki óreglulegra áhrifsbreytinga, rímmyndun (e. rhyming formation). Um þessa gerð hefur ekki mikið verið fjallað en hún tengist rími eins og heitið ber með sér.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is