Chan / zen-búddismi: tóm (,) tákn og trú

Föstudaginn 14. mars kl. 15.00-17.00 í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Búddismi barst frá Indlandi til Kína á fyrstu öld e.Kr. og náði varanlegri fótfestu fáeinum öldum síðar þegar fyrstu kínversku búddaskólarnir tóku að mótast. Sumir þessara skóla voru undir sterkum áhrifum frá kínverskri menningarhefð, ekki síst daoisma og jafnvel konfúsíanisma, og reyndust þeir lífseigustu stefnurnar í Austur-Asíu. „Kínverskasti“ skólinn var án nokkurs vafa chan, eða „hugleiðsluskólinn“, sem skv. hefðinni tók að mótast í Kína á sjöttu öld, barst til Kóreu á hinni áttundu og til Japans líklega ekki fyrr en á tólftu öld. Þar hélt hann áfram mótun sinni á menningarlegum forsendum beggja þjóða og blómstraði einkum í Japan sem zen. Undir lok nítjándu aldar barst zen frá Japan til Bandaríkjanna og hefur síðan náð talsverðri útbreiðslu á Vesturlöndum og tekið inn vestræn áhrif, ekki síst í kjölfar þeirrar athygli sem „beat“ kynslóðin veitti henni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar.

Erindin í málstofunni veita innsýn í hugmyndaheim, sérkenni og birtingarform chan/zen frá ólíkum sjónarhornum. Meðal annars verður grafist fyrir um þau daoísku áhrif sem öðru fremur hafa markað sérstöðu skólans frá upphafi, hugað að tengslum hans við shinto í Japan og skyggnst í myndmál hans, stöðu og hlutverk í japönskum samtíma, einkum í listum og manga.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Orðin tóm: chan og daoismi
  • Jónas Elíasson, prófessor í verkfræði: Shinto, andarnir vísa veginn
  • Gunnella Þorgeirsdóttir, aðjunkt í japönsku máli og menningu: Tómarúmið: birtingarmyndir zen í japönsku myndmáli og hönnun
  • Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði: Ummyndanir í tóminu: nokkur stef í japanskri fagurfræði og hliðstæður þeirra í vestrænum nútímalistum

Málstofustjóri: Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræði

Útdrættir:

Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Orðin tóm: chan og daoismi

Í Kína er tilurð búddíska hugleiðsluskólans chan rakin til komu Bodhidharma frá Indlandi á 6. öld sem boðaði miðlun kenninga Gautama Búdda utan orða, ritninga og texta, þ.e. beint frá hug til hugar. Þessi nálgun er svo rakin alla leið aftur til lærisveins Búdda, Mahakasyapa, sem mun hafa tjáð skilning sinn á orðlausum gjörningi meistarans með brosi einu. Sagan af hinum ólæsa Huineng sem verður sjötti patríarki chan skólans á 7. öld undirstrikar möguleikann á að öðlast skilning og hugljómun án þess að hafa tileinkað sér ritmál. Sögur þessar og réttlætingar eru þó ekki hafnar yfir vafa og líklegra er að áhrif frá daoisma og efahyggju hennar um tengsl veruleika og tungumáls, í bland við almennt ólæsi almennings, hafið valdið mestu um mótun chan hvað þetta varðar. Í erindinu verður fjallað um þessi daoísku áhrif  og samsvarandi hugmyndir daoisma og chan um eðli og eiginleika tungumálsins.

Jónas Elíasson, prófessor í verkfræði: Shinto, andarnir vísa veginn

Náttúran, þjóðin og hreinleikinn, trúin landið og andarnir. Nokkur dæmi um anda - kami -. Hofið og hofsiðir, lífið eftir dauðann Ríkistrúin, hermannalistir - bushido og þríhendan - haiku -. Nokkrar birtingarmyndir Shinto. 

Gunnella Þorgeirsdóttir, aðjunkt í japönsku máli og menningu: Tómarúmið: birtingarmyndir zen í japönsku myndmáli og hönnun

Fjallað verður um ýmsa þætti japanskrar menningar og tengingar þeirra við zen hugmyndafræðina.  Flestir þekkja til japanskra hugleiðslu garða, te athafnarinnar og blómakreytinga, en hvernig birtist hugmyndafræðin hinsvegar í menningu nútímans? Er hún enn gild eða einungis dregin fram þegar auglýsa á land og þjóð? Skoðaðar verða birtingamyndir zen úr hefðbundinni myndlist og áhrif þeirra á nútíma teiknimyndasögugerð. Einnig verður einfaldleikanum, minimalismanum gefinn gaumur sem og þeir árekstrar sem verða þegar eldri hugmyndafræði mætir nýrri tækni, líkt og við hönnun vefsíðna. 

Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði: Ummyndanir í tóminu: nokkur stef í japanskri fagurfræði og hliðstæður þeirra í vestrænum nútímalistum

Fjallað verður um „ma“ (millibilið) og  „ku“  (tómið) í japanskri fagurfræði og tengsl hennar við kínverskar listir og trúarbrögð (zen og dao). Komið verður inn á landslagsmyndir, kalligrafíu og listigarða í þessu samhengi og vísbendingar um það hvernig þessi fagurfræði  endurnærði nýsköpun í listum  Vesturlanda á 20. öld svo sem dada og fluxushreyfinguna. Tekin verða dæmi úr íslenskri ljóðlist og myndlist.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is