Dæmi um stjórnsýslu fyrr á öldum

Föstudaginn 14. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Fjallað verður um stjórnsýslu Danakonungs við gerð lénsreiknings á 17. öld, viðbrögð Íslendinga við stjórnsýslu konungs á 18. öld og stjórnsýslu sýslumanna á 19. öld.  Skoðaðar verða frumheimildir og leitast við að varpa ljósi á stjórnsýslu þessa tíma með ofangreindum dæmum.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði:  Lénsreikningur 1645-1648
  • Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, sérfræðingur á Þjóðskjalasafni Íslands:  Skagfirðingar skrifa Landsnefndinni fyrri 1770-1771
  • Helga Jóna Eiríksdóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands og MA-nemi:  Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld

Málstofustjóri: Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði.

Útdrættir:

Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði: Lénsreikningar 1645 til 1648

Fyrirlesturinn fjallar um íslenska lénsreikninga frá árunum 1645 til 1648. Á þeim tíma var landið svokallað reikningslén og fékk lénsmaður, sem þessi ár var kallaður konunglegur fógeti, föst laun frá konungi fyrir stjórn sína á landinu. Reikningarnir eru þannig upp byggðir að fyrst eru allir tekjuliðir konungs færðir, bæði í peningum og fríðu og samtala þeirra reiknuð. Síðan koma allir útgjaldaliðir, eða það sem dróst frá tekjunum með samtölu. Reikningarnir voru endurskoðaðir í rentukammeri og þar skrifaðar ýmsar athugasemdir við einstaka reikningsfærslur og er oft  vísað til kvittana. Reikningunum fylgja því kvittanir og t.d. sakeyrisskrár auk þess sem jarðabók yfir konungsjarðir í Gullbringusýslu er skrifuð inn í reikningana þessi ár.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, MA í sagnfræði, sérfræðingur á Þjóðskjalasafni Íslands: Skagfirðingar skrifa Landsnefndinni fyrri 1770–1771

Landsnefndin fyrri var nefnd þriggja manna sem send var hingað til lands á vegum konungs árið 1770 til þess að rannsaka hagi landsins. Nefndinni var ætlað að hafa samband við landsmenn bæði háa og lága. Með komu nefndarinnar gafst almenningi í landinu því gott tækifæri á að skrifa konungi eða embættismönnum hans í Danmörku milliliðalaust, þ.e. án aðkomu innlendra embættismanna, s.s. sýslumanna, og segja álit sitt á stjórnun landsins, viðreisn atvinnuveganna eða hverju sem þeim lá á hjarta. Ekki er hægt að segja annað en viðbrögðin hafi verið góð, yfir hundrað bréf bárust frá almenningi og prestum víðs vegar að af landinu auk fjölmargra greinargerða frá sýslumönnum og embættismönnum. Í erindinu verða bréf úr Skagafirði tekin til sérstakrar skoðunar en þaðan bárust alls 13 bréf. Fjallað verður um þjóðfélagsstöðu bréfritara og helstu umkvörtunarefni bréfanna. Hvernig brugðust Skagfirðingar við þessu tækifæri? Hvað höfðu þeir til málanna að leggja við Landsnefndina? Hverjir skrifuðu og um hvað?

Helga Jóna Eiríksdóttir, MA nemi í sagnfræði, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands: Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld

Þrátt fyrir að embætti sýslumanna megi rekja allt aftur á 13. öld eru litlar sem engar heimildir varðveittar frá fyrri tíð.  Það er ekki fyrr en undir lok 18. aldar og byrjun þeirra 19. sem skjöl sýslumanna hafa varðveist skipulega og má líklega rekja það til skipunarbréfa sýslumanna sem tekin voru upp á fyrri hluta 18. aldar.  Í slíkum erindisbréfum má sjá hlutverk sýslumanna og skyldur þeirra til að halda til haga skjölum og skrám yfir embættisfærslur sínar.  Í fyrirlestrinum verður fjallað um helstu embættisfærslur sýslumanna á 19. öld og skoðaðar verða færslur sýslumanna í Rangárvallasýslu, Snæfellsnessýslu og Ísafjarðarsýslu út frá dæmum og lagagrundvelli þeirra.  

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is