Doktorsnefnd

Doktorsnámsnefnd skal skipa doktorsnefnd að tillögu leiðbeinanda og með samþykki námsbrautar eða deildar eigi síðar en við lok fyrsta misseris. Doktorsnefnd skal skipuð tveimur til þremur sérfróðum einstaklingum auk leiðbeinanda og skal að minnsta kosti einn þeirra ekki vera fastráðinn starfsmaður viðkomandi deildar. Leiðbeinandi er formaður nefndar. Sé umsjónarkennari annar en leiðbeinandi skal hann taka sæti í doktorsnefnd.

Doktorsnemi þarf að verja rannsóknaráætlun sína fyrir doktorsnefnd fyrir lok fyrsta misseris í 180 eininga námi en fyrir lok annars misseris í 240 eininga námi. Leiðbeinandi fylgist grannt með vinnu doktorsnema í aðdraganda þessa og veitir svo áfram leiðsögn þangað til hann telur að doktorsritgerð sé tilbúin til varnar. Aðrir nefndarmenn leggja mat á framvindu, gera athugasemdir við drög að doktorsritgerð og/eða einstökum köflum og taka þátt í leiðsögn þegar ástæða þykir til.

Þegar doktorsnefnd telur ritgerð tilbúna til varnar skilar hún rökstuddu áliti, sem allir nefndarmenn staðfesta, til deildar um að doktorsnemi geti lagt ritgerð fram til doktorsvarnar. Sé doktorsnefnd ekki sammála skal meirihluti ráða og er atkvæði formanns oddaatkvæði.

Sjá nánar í 10. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is