Doktorsritgerðin

Doktorsnemi á Hugvísindasviði gerir grein fyrir rannsóknum sínum og niðurstöðum í ritgerð sem skal alla jafna vera 75.000-100.000 orð. Doktorsnámsnefnd má þó veita undanþágu frá þessum lengdarmörkum í sérstökum tilvikum. Til doktorsritgerða eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð og sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu.

Doktorsritgerð á Hugvísindasviði er eitt heildstætt og samfellt verk eða safn ritgerða. Við frágang og meðferð heimilda skal doktorsefni fylgja viðurkenndum reglum um vísindalegar ritsmíðar.

Ef um safn ritgerða er að ræða skulu þær hafa birst eða staðfest skal að þær hafi verið samþykktar til birtingar á viðurkenndum ritrýndum vettvangi. Þær skulu varða sama rannsóknarsvið og mynda heild. Semja skal sérstaka yfirlitsgrein eða inngangskafla þar sem farið er yfir aðferðafræði og kenningagrunn heildarverksins, dregið saman efni hinna einstöku ritgerða, settar fram heildarályktanir eða efni þeirra tengt með öðrum fræðilegum hætti. Hinar birtu ritgerðir, jafnan 3–5, skulu lagðar fram efnislega óbreyttar frá birtri/samþykktri útgáfu.

Sjá nánar í 11. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið.
 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is