Doktorsvörn

Doktorsritgerð við Háskóla Íslands er varin og metin í samræmi við reglur háskólans um doktorsgráður. Ritgerðin er varin við athöfn sem er opin almenningi og hefur verið auglýst með að minnsta kosti viku fyrirvara. Einkunn er ekki gefin fyrir doktorsvörn eða doktorsritgerð.

Deildarforseti eða fulltrúi hans stýrir athöfninni. Þeir sem taka virkan þátt í athöfninni skulu ganga til varnar í þeirri röð að forseti viðkomandi deildar gengur fremstur með doktorsefni sér við hlið, síðan koma andmælendur, þá forseti fræðasviðs og doktorsnefnd fylgir þar á eftir.

Deildarforseti setur jafnan athöfnina og stjórnar henni. Deildarforseti kynnir sjálfan sig, doktorsefni og andmælendur stuttlega og skýrir frá heiti ritgerðarinnar. Síðan greinir hann frá því hvernig doktorsvörnin fer fram.

Vörnin hefst á fyrirlestri doktorsefnis sem kynnir rannsóknarverkefni sitt og hefur til þess að hámarki 30 mínútur.

Andmælendur taka til máls hvor á eftir öðrum og geta hagað yfirferð yfir rannsóknarefni og ritgerð doktorsefnis að vild. Þeir gera grein fyrir styrkleikum og veikleikum ritgerðarinnar og leggja fram afmarkaðar spurningar sem doktorsefni bregst jafnharðan við þannig að eðlileg rökræða og skoðanaskipti skapist milli andmælenda og doktorsefnis. Gert er ráð fyrir því að hvor andmælandi hafi um 45 til 60 mínútur til að fjalla um ritgerðina og ræða við doktorsefni.

Deildarforseti tilkynnir síðan að hann muni ásamt andmælendum yfirgefa salinn til að ákveða hvort ritgerðin og vörnin skuli dæmd gild. Doktorsefni bíður í sæti sínu á meðan.

Deildarforseti og andmælendur koma aftur í salinn og deildarforseti tilkynnir hvort ritgerð og vörn hafi verið dæmd gild. Ef svo er les hann upp prófabók sviðsins, afhendir hinum nýja doktor doktorsskjal og færir fram heillaóskir sínar áður en hann slítur vörninni. Nýdoktorinn og föruneyti hans ganga því næst út og ganga áheyrendur úr sal í kjölfar þeirra.

Að loknu doktorsprófi býður sviðsforseti nýdoktornum og nánustu fjölskyldu hans (maka, foreldrum, börnum), andmælendum, deildarforseta og doktorsnefnd til stutts samsætis í doktorsherbergi.

Sjá nánar í 12. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is