Dýr og menn í skáldskap

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 51 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Allt frá fornöld hefur dýrum og kynjaverum brugðið fyrir í skáldskap. Stundum taka dýrin á sig mannsmynd, stundum er það maðurinn sem breytist í dýr, stundum er það samband manns og dýrs sem verður skáldum að yrkisefni. Á miðöldum var táknræn merking dýra ýmist löguð að heiðni, kristni, hirðást eða mannlegri náttúru og í fjölmörgum Bestiarius eða dýratölum frá því tímabili má finna lýsingar á margvíslegum eiginleikum þeirra. Skáldsagnahöfundar þess tíma hikuðu heldur ekki við að nota dýr í stað manna sem sögupersónur verka sinna. Sú hefð lifir áfram eins og sjá má, til dæmis, í bókmenntum Rómönsku Ameríku. Í rússneskum bókmenntum hafa dýr einnig gegnt margvíslegum hlutverkum, en samband manna og dýra er eitt af viðfangsefnum rithöfundarins Ljúdmílu Úlitskaju. 

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku: Samband manna og dýra í nokkrum smásögum Ljúdmílu Úlitskaju
  • Kristín Guðrún Jónsdóttir, lektor í spænsku: Dýr og kynjaverur í örsögum frá Rómönsku Ameríku
  • Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum: Dýrin í skóginum eru ekki vinir: dýr í stað manna í frönskum ljóðsögum frá 12. öld

Málstofustjóri: Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku

Útdrættir:

Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússneskju: Samband manna og dýra í nokkrum smásögum Ljúdmílu Úlítskaju

Dýr hafa í gegnum tíðina skipað verðugan sess í rússneskum bókmenntum. Þau hafa birst með ýmsum hætti í dæmisögum, einnig sem hversdagslegur en áhrifaríkur og táknrænn hluti mannlegrar tilveru, eða sem furðuskepnur með yfirnáttúrulega og/eða mannlega eiginleika. Í nýlegu smásagnasafni Ljúdmílu Úlítskaju, Þegnar keisara vors, koma dýr talsvert við sögu, bæði sem aðal- og aukapersónur. Hvort sem dýr þessi eru lifandi verur eða eftirlíkingar af einhverju tagi þá eiga þau það öll sameiginlegt að hafa talsverð áhrif á örlög eða aðstæður annarra persóna í bráð eða lengd. Í erindinu verður skoðað hvernig samskiptum manna og dýra er háttað í þessum sögum og hvort dýrin eigi sér ættingja í verkum eldri höfunda.

Kristín Guðrún Jónsdóttir, lektor í spænsku: Dýr og kynjaverur í örsögum frá Rómönsku Ameríku

Þegar örsögur frá Rómönsku Ameríku eru skoðaðar kemur fljótt í ljós að dýr og ýmiss konar furðuverur skipa stóran sess í hugum höfunda álfunnar. Þennan áhuga má rekja allt til miðbiks tuttugustu aldar, en þá komu út tvö verk sem marka án efa þáttaskil í að glæða þennan áhuga: Manual de zoológica fantástica eftir Jorge Luis Borges og Bestiario eftir Juan José Arreola. Í þessum verkum gætir áhrifa frá dýratölum miðalda (bestiarium-hefðinni) en einnig krónikum landafundamanna. Í erindinu verður saga þessi rakin, rýnt í val dýra og furðuvera og hlutverk þeirra skoðað. Að lokum verður sjónum beint að verkum tveggja höfunda sem hafa nýlega gefið út verk í slíkum anda: Önu Maríu Shua og Luisu Valenzuela.

Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum: Dýrin í skóginum eru ekki vinir: dýr í stað manna í frönskum ljóðsögum  frá 12. öld.

Mörkin milli manns og dýrs eru oft óljós í frönskum ljóðsögum miðalda. Höfundar sóttu efnivið í dæmisögur, dýratöl og þjóðtrú en einnig í strauma og stefnur úr samtíma sínum. Í strengleikum (lais) Marie de France verða menn að varúlfum og fljúga inn um glugga í fugls líki á ástarfund. Í linnulausum erjum dýranna í skóginum í Sögunni um Renart (Roman de Renart) endurspeglast mannlífið á skoplegan hátt og þar er Renart, refurinn klóki, í aðalhlutverki. Hér verður skoðað hvernig höfundar nokkurra texta frá 12. öld nota þessi óljósu mörk í verkum sínum til að gera hið ómögulega mögulegt en einkum verður sjónum beint að því hvernig maður verður dýr og dýr maður.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is