Ekki er öll vitleysan eins – Rýnt í málbrigði

Föstudaginn 14. mars kl. 13.00-17.00 og laugardaginn 15. mars kl. 10.00-12.00 í stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Fjallað verður um breytileika í íslensku frá ýmsum sjónarhornum í þessari þrískiptu málstofu sem hefst á föstudegi og verður fram haldið á laugardegi. Byrjað verður á nýjum tíðindum af tilbrigðum og haldið aftur til 19. aldar. Í síðustu lotunni víkur svo sögunni að viðhorfum til tilbrigða og málþróunar, bæði hjá almenningi og innan skóla.

Tveir fyrirlestrar í málstofunni verða á ensku en umræður geta verið á íslensku.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
 • Vanessa Isenmann, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Computer-mediated communication: a new variety? (Netsamskipti: Nýtt málsnið?)
 • Jóhannes Gísli Jónsson, lektor í málfræði: Breytileiki í fallstjórn með nýjum sögnum
 • Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í málfræði: Það var fyrst rannsakað þessa setningagerð um síðustu aldamót: Samanburður tveggja kannana
 • Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði og Kristín Lena Þorvaldsdóttir, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra: Gulur, rauður, grænn og blár. Breytileiki í litatáknum í ÍTM
 • Margrét Jónsdóttir, prófessor í málfræði: Um breytta og breytilega notkun sagnarinnar kvíða
 • Haraldur Bernharðsson, dósent í miðaldafræði: Fjaðraskipti fuglsins: Piltur og stúlka Jóns Thoroddsens (1818–1868) og málstöðlun á síðari hluta 19. aldar
 • Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent hjá Stofnun Árna Magnússonar: Reykvíska á 19. öld. Viðhorf og veruleiki
 • Hanna Óladóttir, aðjunkt og doktorsnemi í málfræði: Óbærileg tilbrigði málfræðinnar: Viðhorf grunnskólanemenda og kennara til málbreytinga
 • Höskuldur Þráinsson, prófessor í málfræði: Nei, íslenska er ekki útlenska
 • Kristján Árnason, prófessor í málfræði og Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í málfræði: Málbrigði og alþýðumálfræði: Þekking og mat einstaklinga á staðbundnum framburðareinkennum
 • Stefanie Bade, doktorsnemi í málfræði: Icelandic language policy and the assessment of immigrants' unconventional language use (Íslensk málstefna og viðhorf til óhefðbundinnar málnotkunar innflytjenda)

Málstofustjórar: Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í málfræði, Íris Edda Nowenstein, meistaranemi í málfræði og Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar

Útdrættir:

Vanessa Isenmann, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Computer-mediated communication: a new variety? (Netsamskipti: Nýtt málsnið?)

The Internet and its opportunities for communication increasingly influence the lives of Iceland’s inhabitants. The constantly growing prevalence of online communication is a new testing ground for the use of the Icelandic language.

This paper will outline a Ph.D. project reviewing Computer-mediated-communication (CMC) in Iceland, that is to say (interactive) communication through electronic devices.

CMC has been claimed to differ from standard writing norms as language adjusts to the new possibilities and limitations that arise through changing technologies. Hence, as a hybrid of written, oral, and sign language, Icelandic CMC includes elements associated with (informal) spoken language (e.g. English borrowings), compensation strategies for visual and prosodic elements of communication (e.g. emoticons), as well as spelling facilitations (e.g. writing without diacritics). However, communication on the Internet has not been studied in Icelandic linguistics.

Based on a corpus of forums, blogs, and online comments features and strategies of Icelandic CMC are analyzed on a qualitative and quantitative level. In so doing, their morphological peculiarities, semantic function, and pragmatic role are reviewed. This will help to assess whether CMC can be characterized as a new register or variety of Icelandic. 

Jóhannes Gísli Jónsson, lektor í málfræði: Breytileiki í fallstjórn með nýjum sögnum

Breytileiki í fallstjórn kemur ekki aðeins fram með sögnum sem hafa lengi verið til í málinu (sbr. Hana/Henni langar að fara eða Þau slitu samvistir/samvistum). Slíkur breytileiki er líka algengur með sögnum eru tiltölulega nýjar í málinu (sbr. Sigga gúgglaði þetta/þessu í gær eða Gummi blastaði gömlu jólalögin/jólalögunum). Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þennan breytileika í fallstjórn og reynt að varpa ljósi á eðli hans út frá ýmsum merkingarlegum þáttum. Einnig verður rætt hvað breytileikinn getur sagt okkur um íslenska fallakerfið almennt, þar á meðal þá mikilvægu staðreynd að langflestar sagnir málsins sýna alls engan breytileika í fallstjórn, hvort sem þær eru gamlar eða nýjar (sbr. Hann/*Honum fílaði þetta alls ekki eða Löggan böstaði þjófinn/*þjófnum). 

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði: Það var fyrst rannsakað þessa setningagerð um síðustu aldamót: Samanburður tveggja kannana

Í þessu erindi verða bornar saman niðurstöður könnunar Sigríðar Sigurjónsdóttur og Joan Maling og Tilbrigðaverkefnisins á völdum atriðum tengdum þessari nýju setningagerð. Könnun Sigríðar og Joan var gerð veturinn 1999-2000 og var fyrsta kerfisbundna rannsóknin á þessari nýjung í málinu. Kannanir á nýju setningagerðinni í Tilbrigðaverkefninu fóru fram á árunum 2006-2007 undir stjórn Höskuldar Þráinssonar prófessors. Rannsókn Sigríðar og Joan leiddi í ljós ýmis atriði sem höfðu áhrif á mat þátttakenda á setningagerðinni. Niðurstöður Tilbrigðaverkefnisins, sem fór fram sjö árum síðar, varpa enn skýrara ljósi á þessi tengsl, t.d. landfræðilega útbreiðslu nýju setningagerðarinnar. Þær staðfesta einnig þá niðurstöðu Sigríðar og Joan að félagslegir þættir, þ.e. aldur málnotenda, búseta þeirra og skólaganga, hafi áhrif á mat á nýju setningagerðinni. Niðurstöður þessara tveggja kannana eru hins vegar ólíkar að því leyti að í Tilbrigðaverkefninu kemur ekki fram munur á mati á nýju setningagerðinni með sögnum sem stýra þolfalli og sögnum sem taka andlag í þágufalli. Einnig samþykkja heldur færri unglingar þessa nýjung á árunum 2006-2007 en gerðu það veturinn 1999-2000. Rætt verður um mögulegar ástæður fyrir þessum mun, bæði ólíka aðferðafræði í þessum tveim könnunum og breytt viðhorf fólks til þessarar málbreytingar. 

Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði og Kristín Lena Þorvaldsdóttir, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra: Gulur, rauður, grænn og blár. Breytileiki í litatáknum í ÍTM

Uppruna íslensks táknmáls (ÍTM) má rekja til miðrar 19. aldar og er málið því um 150 ára gamalt. Tákn fyrir grunnlitaheiti (skv. Berlin og Kay 1969) hafa frá upphafi verið 11 talsins í ÍTM. Á 20. öld urðu þó breytingar á táknunum sjálfum vegna áhrifa frá öðrum norrænum táknmálum, einna helst danska táknmálinu. Í dag eru til tvenns konar litatákn fyrir 8 af þessum 11 grunnlitum og ræður aldur málhafa notkun þeirra. Málhafar fæddir um og fyrir miðja 20. öld nota 19. aldartáknin og málhafar fæddir eftir miðja 20. öld nota 20. aldartáknin. Einhver skörun verður þó á hópunum tveimur. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir öllum litatáknum í ÍTM og ástæður þessara breytinga á orðasafninu verða ræddar, en þær má m.a. rekja til vanþekkingar á táknmálum.

Margrét Jónsdóttir, prófessor í málfræði: Um breytta og breytilega notkun sagnarinnar kvíða

Allar eldri heimildir bera þess vitni að sögnin kvíða hafi verið persónuleg sögn, þ.e. með frumlagi í nefnifalli. Upp úr miðri 20. öld eru dæmi um ópersónulega notkun sagnarinnar. Frumlagið er þá ýmist í þolfalli eða þágufalli. Einu gildir hvort sögnin er sögn með forsetningarlið eða áhrifssögn. Sé sögnin áhrifssögn eru dæmi um andlag í þolfalli sé frumlagið í þolfalli. Persónulega notkunin er þó enn ráðandi.

Í fyrirlestrinum verður þessi hegðun skoðuð nánar og dæmi sýnd. Jafnframt verða aðrar sagnir skoðaðar til samanburðar.

Haraldur Bernharðsson, dósent í miðaldafræði: Fjaðraskipti fuglsins: Piltur og stúlka Jóns Thoroddsens (1818–1868) og málstöðlun á síðari hluta 19. aldar

Skáldsaga Jóns Thoroddsens (1818–1868) Piltur og stúlka kom fyrst út 1850 og naut mikilla vinsælda. Sautján árum síðar, 1867, var skáldsagan gefin út aftur endurskoðuð — eða „með nokkrum fjaðraskiptum“ eins og höfundur lýsir því í eftirmála. Í þessari síðari útgáfu hefur höfundur aukið inn tveimur köflum og gert smávægilegar orðalagsbreytingar hér og þar. Jafnframt hefur hann gert margvíslegar breytingar á bæði stafsetningu og málfari og fært nær þeim viðmiðum sem þá voru í mótun og síðar festust í sessi. Í fyrirlestrinum verður rætt um málfarsmun („fjaðraskiptin“) á þessum tveimur útgáfum Pilts og stúlku, frá 1850 og 1867, en hann gefur nokkuð góða mynd af tilurð þess málstaðals sem síðar varð ráðandi. Ekki er heldur efamál að þessi vinsæla skáldsaga hefur átt drjúgan þátt í að festa þennan málstaðal í sessi.

Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent hjá Stofnun Árna Magnússonar: Reykvíska á 19. öld: Viðhorf og veruleiki

Reykjavíkurmálið á 19. öld hefur notið takmarkaðrar virðingar og það er viðtekin skoðun að það hafi verið mjög dönskuskotið. Sem dæmi um það má minna á ummæli Rasmusar Rask snemma á öldinni og samtalskafla í skáldsögu Jóns Thoroddsens, Pilti og stúlku, frá miðri öldinni. Í erindinu verður fjallað um þetta viðhorf og til samanburðar litið á raunverulega málnotkun fólks sem var borið og barnfætt í Reykjavík á 19. öld. Stuðst verður við bréf nokkurra reykvískra kvenna og dæmi sótt í þau. Einkum verða skoðuð merki um erlend áhrif í orðaforða og setningagerð en jafnframt litið til annarra máleinkenna eftir því sem tilefni er til.

Hanna Óladóttir, aðjunkt og doktorsnemi í málfræði: Óbærileg tilbrigði málfræðinnar: Viðhorf grunnskólanemenda og kennara til málbreytinga

Ein þekktasta málvilla íslensks samtíma er án efa þágufallssýkin. Þágufallssýki, einnig kölluð þágufallshneigð, er yfirleitt notuð um þá tilhneigingu málhafa að nota þágufallsfrumlag með ópersónulegum sögnum sem lengst af hafa tekið þolfallsfrumlag, þekktasta dæmið um það er sögnin langa. Hér verður fjallað um aðra sögn sem oft hefur verið felld undir téða sýki þó að sjúkdómseinkennin felist ekki alltaf í þágufallshneigð heldur ekki síður í þolfallshneigð. Þetta er sögnin hlakka sem sögulega er persónuleg og ætti samkvæmt því að taka frumlag í nefnifalli en er orðin ópersónuleg í munni æ fleiri málhafa og þá ýmist með frumlagi í þolfalli eða þágufalli. Sjónarhornið hér eru viðhorf grunnskólanemenda og kennara til málbreytingarinnar, kennara sem stöðu sinnar vegna eiga að vinna gegn henni og nemenda sem eru í henni miðri og vita oft ekki sitt rjúkandi ráð. Markmiðið er að sýna hvernig málbreytingu reiðir af í meðförum forskriftarmálfræðinnar og hvernig viðhorf til hennar geta varpað ljósi á skoðanir nemenda og kennara á tungumálinu almennt.

Höskuldur Þráinsson, prófessor í málfræði: Nei, íslenska er ekki útlenska

Heitið á þessum fyrirlestri er svar við spurningu sem Guðmundur Andri Thorsson varpaði fram í grein í Fréttablaðinu 4. mars 2013. Þar hélt hann því m.a. fram að íslenskukennurum hætti til að einblína á mistök nemenda í kennslunni og afleiðingin væri sú að margir nemendur fengju það á tilfinninguna að íslenska væri erfið útlenska sem þeir kynnu lítið í og myndu jafnvel aldrei geta lært. Í því sambandi vitnaði Guðmundur Andri í líkingu sem Þorvaldur heitinn Þorsteinsson hafði sett fram um eðli málfræðikennslu í skólum. Í fyrirlestrinum mun ég annars vegar taka undir þá gagnrýni Guðmundar Andra að íslenskukennarar beiti oft gagnslausum og jafnvel skaðlegum aðferðum í máluppeldi en um leið færa rök að því að málfræðikennsla í grunnskóla geti verið og eigi að vera gagnleg og líking Þorvalds Þorsteinssonar hafi verið byggð á misskilningi. Í lokin mun ég svo benda á kennsluaðferð sem ég tel að muni efla máltilfinningu og málfærni nemenda og stórbæta árangur íslenskra nemenda á lesskilningsþætti Pisa-prófsins margumrædda.

Kristján Árnason, prófessor í málfræði og Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í málfræði: Málbrigði og alþýðumálfræði: Þekking og mat einstaklinga á staðbundnum framburðareinkennum

Vitað er að breytileiki máls er minni hér á landi en í mörgum nágrannalöndum. Hér eru ekki mállýskur til jafns við það sem þekkist t.d. í Noregi eða í Færeyjum. Samt er til breytileiki og mat á tilbrigðum í máli er misjafnt. Heyrst hefur til dæmis að hvergi sé íslenskan fegurri en á Norðurlandi. En hversu útbreitt er þetta viðhorf í raun og hverjir eru þessarar skoðunar? Hvað finnst Norðlendingum sjálfum og hvað finnst öðrum landsmönnum? Þessar spurningar verða til umfjöllunar í fyrirlestrinum þar sem sagt verður frá niðurstöðum úr athugun á því hvaða framburður fólki þyki fallegastur. Einnig segir frá viðtölum við aldna Íslendinga í þremur landshlutum sem spurðir voru um landshlutabundinn framburðarmun, þekkingu þeirra á honum og viðhorf. Í viðtölunum kom meðal annars fram skýr vísbending um að íslensk framburðarafbrigði séu misvel þekkt og að hugtök eins og sunnlenska og norðlenska hafi misjafnlega skýra - og ekki endilega mjög skýra - merkingu í huga almennings þegar grannt er skoðað. Þá kom og fram að þótt almenningur noti gjarna svipuð orð til að lýsa framburðarmun og málfræðingar er ekki þar með sagt að rætt sé um það sama.

Stefanie Bade, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Icelandic language policy and the assessment of immigrants' unconventional language use (Íslensk málstefna og viðhorf til óhefðbundinnar málnotkunar innflytjenda)

This Ph.D. project is concerned with social and sociolinguistic aspects of the newly emerged multicultural society in Iceland, focusing on how and by what means Icelanders assess immigrants' use of the Icelandic language. It thus engages primarily with Icelanders' reactions to unconventional language use and especially foreign-accented speech. In this regard, Icelanders' attitude towards the Icelandic language policy will be investigated through questions about whether concepts like originality and purity of the Icelandic language influence Icelanders' attitude towards their mother tongue, and if so, to what extent.

In the course of examining the aforementioned questions, audio material will be recorded with a group of immigrants to capture their foreign-accented speech when speaking Icelandic. That material will in turn be played for a group of Icelanders, who will discuss their views on their own language as well as the unconventional language use of immigrants in focus group discussions as well as in-depth interviews.

Embedded in this research is a five month project grant by Rannsóknasjóður Háskóla Íslands, which will be spent in investigating how Icelanders perceive and what their attitudes are towards proper and improper Icelandic. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is