Eldur, fagurfræði og sígarettur: menningaráhrif á Íslandi

Föstudagurinn 13. mars kl. 13.15-14.45.

Í málstofunni verða menningaráhrif á Íslandi á tímabilinu 1930-50 brennidepli; tilraunir verða gerðar til að grafast fyrir um uppruna hugmynda sem bárust hingað til lands erlendis frá, raktar verða leiðir sem þeim var miðlað eftir og kannað verður hvernig tókst til við að aðlaga þær að íslenskum aðstæðum og samfélagi. Í fyrirlestrunum verður m.a. horft á lítil menningartímarit sem áttu sinn þátt í því að kynna módernisma fyrir Íslendingum og festa hann í sessi, skoðað verður hvernig búnar voru til íslenskar stjörnur þegar farið var að dreifa myndum af leikurum með sígarettupökkum og hvernig sagnaheimur bandaríska rithöfundarins William Faulkners var heimfærður upp á íslenska sveit.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Magnús Þór Þorbergsson, doktorsnemi og lektor í leiklistarfræði við Listaháskóla Íslands: Íslensk leikaramynd í hverjum pakka
  • Haukur Ingvarsson doktorsnemi: Eldur og Ljós í ágúst: Guðmundur Daníelsson og William Faulkner
  • Þröstur Helgason, doktorsnemi og dagskrárstjóri Rásar 1: Smáheimar karla og smátímarit kvenna

Málstofustjóri: Jón Karl Helgason prófessor

Útdrættir:

Magnús Þór Þorbergsson, doktorsnemi og lektor í leiklistarfræði við Listaháskóla Íslands: Íslensk leikaramynd í hverjum pakka

Haustið 1930 auglýsti fyrirtækið Þórður Sveinsson & co. að hverjum pakka af Teofani sígarettum fylgdi mynd, annað hvort af íslenskri stúlku eða leikurum Leikfélags Reykjavíkur. Við lok þriðja áratugarins stóð Leikfélagið á tímamótum. Árin á undan höfðu einkennst annars vegar af hatrömmum deilum um forystu félagins en hins vegar af von um þjóðleikhús sem var að rísa. Í erindinu verða þessar leikaramyndir skoðaðar og velt upp hvers konar mynd af leikhóp þær drógu upp á tímum þar sem Leikfélag Reykjavíkur leitaðist við að sanna sig sem staðgengill þjóðleikhúss á Íslandi.

Haukur Ingvarsson doktorsnemi: Eldur og Ljós í ágúst: Guðmundur Daníelsson og William Faulkner

Árið 1941 kom út skáldsaga eftir Guðmund Daníelsson sem nefnist Af jörðu ertu komin: Eldur. Þar er á ferðinni fyrsta bindið í þríleik sem leit dagsins ljós á næstu árum; annað bindið Sandur kom 1942 og það þriðja og síðasta Landið handan landsins 1944. Rithöfundurinn Guðmundur G. Hagalín skrifaði ritdóma um öll bindin þrjú og þar vekur hann máls á áhrifum bandaríska rithöfundurins William Faulkners á Guðmund Daníelsson, áhrifum sem sá síðarnefndi gekkst fúslega við þegar þríleikurinn var endurútgefinn. Í fyrirlestrinum verður greint í hverju þessu áhrif gætu fólgist og enn fremur rakið eftir hvaða leiðum verk William Faulkners rötuðu til Íslands á fjórða áratug síðustu aldar.

Þröstur Helgason, doktorsnemi og dagskrárstjóri Rásar 1: Smáheimar karla og smátímarit kvenna

Um miðjan fimmta áratuginn hófst blómaskeið módernískra tímarita á Íslandi. Tímarit af þessu tagi eru stundum kölluð lítil enda koma þau flest út í fáum eintökum, hafa lítinn lesendahóp, koma út í stuttan tíma og eru ekki gefin út með hagnaðarvon í huga. En þau gegndu – og gegna jafnvel enn –  mikilvægu hlutverki í menningarsögunni, voru iðulega farvegur fyrir nýjungar, tilraunir og róttæk skoðanaskrif eftir höfunda sem höfðu margir hverjir ekki birt verk sín annars staðar, fáir þekktu eða voru óvinsælir. Víða erlendis og þó sérstaklega í engilsaxneskum menningarheimi gegndu konur mikilvægu hlutverki við stofnun og ritstjórn þessara tímarita. Hér á landi komu fáar konur aftur á móti að þessari starfsemi. Konur stofnuðu þó tvö tímarit á fimmta áratugnum sem kalla má módernísk eða lítil, Melkorku (1944-1962) og Emblu (1945-1949). Í erindinu verður rýnt í þessi tvö tímarit og þátt kvenna í heimi litlu tímaritanna á Íslandi.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is