Endurritanir

 

Í málstofunni verður fjallað um endurritanir í víðum skilningi. Skilgreining fræðimannsins André Lefevere á hugtakinu mun liggja til grundvallar fyrirlestrunum en samkvæmt henni þá flokkast undir endurritanir margs konar notkun á bókmenntatextum s.s. umfjöllun fræðimanna, ritstjóra og annarra sem fjalla um bókmenntir en líka þýðingar, aðlaganir, leikgerðir og markviss notkun rithöfunda á eldri verkum. Lefevere lagði einnig áherslu á mikilvægi endurritanana í þróun bókmennta, skáldskaparfræða og í viðtökusögu. Fyrirlestrarnir munu spanna vítt svið og fjalla um erlendar og íslenskar endurritanir bæði í fortíð og samtíð.

Málstofustjóri: Ásdís Sigmundsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl.13.15-14.45 (stofa 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Ásdís Sigmundsdóttir, aðjunkt í almennri bókmenntafræði: Hvað getum við lært af misheppnuðum endurritunum?
  • Kjartan Már Ómarsson, doktorsnemi í kvikmyndafræði: Shakespeare í verkum Baltasars Kormáks
  • Alda Björk Valdimarsdóttir, lektor í almennri bókmenntafræði: „Kennslin voru mér nánast um megn“. Jane Austen endurrituð sem sjálfshjálparhöfundur

Föstudagur 11. mars kl.15.15-16.15 (stofa 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Irma Erlingsdóttir, dósent í frönskum samtímabókmenntum: Endurdraumfarir í Sögunni (sem við munum aldrei þekkja) eftir Hélène Cixous
  • Auður Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og ritstjóri Hugrásar: Bókmenntagagnrýni sem endurritun
Útdrættir:

Ásdís Sigmundsdóttir, aðjunkt í almennri bókmenntafræði: Hvað getum við lært af misheppnuðum endurritunum?

Í grein André Lefevere „Hvers vegna að eyða tíma okkar í endurritanir?“ færir hann rök fyrir mikilvægi endurritana í bókmenntasögulegu og fagurfræðilegu samhengi. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um það hvað við getum lært af því að skoða misheppnaðar endurritanir. Sjónum verður beint að endurritunum á frægustu elskendum bókmenntasögunnar Rómeó og Júlíu og þá sérstaklega lítt þekktri endurritun á sögu þeirra eftir Bernard Garter, The tragicall and true historie which happened between two english lovers, frá 1563. Markmiðið er að sýna hvernig þessi endurritun dregur fram annars vegar hvað það var sem gerði það að verkum að þessi tiltekna saga var endurrituð a.m.k. þrisvar sinnum á stuttu tímabili og hins vegar hvernig þau hugmyndafræðilegu og fagurfræðilegu mörk sem endurritarar takast á við birtast í henni.

Kjartan Már Ómarsson, doktorsnemi í kvikmyndafræði: Shakespeare í verkum Baltasars Kormáks

Endurritanir Baltasars Kormáks á sígildum leikverkum William Shakespeare verða skoðaðar í menningarsögulegu samhengi. Kvikmyndin 101 Reykjavík er fyrirmyndardæmi um þá vinnu en hún byggir á samnefndri bók Hallgríms Helgasonar, sem byggir á leikriti Shakespeares, Hamlet (1599–1601), sem Baltasar setti á svið í Þjóðleikhúsinu (1997) og í Borgarleikhúsi Óðinsvéa (1999). Má nefna hvernig persóna Hamlets birtist í Hlyni Birni, aðalpersónu 101 Reykjavík. Hlynur er táknmynd rót- og ístöðuleysis nýrrar reykvískrar kynslóðar sem vex úr grasi á 10. áratug 20. aldar og er stundum lýst sem firrtri og ástríðulausri, mótaðri af fjöldamenningu og skjámiðlum. Eins verður kvikmynd Baltasars Hafið (2002) rakin til verks Shakespears, Lés Konungs (1606) og litið til þess hvernig samfélagsleg ábyrgð einstaklinga og félagslegar spurningar um erfða- og eignarrétt í Lé konungi eru yfirfærðar á kvótakerfi, fjölskyldulíf og eignarrétt í kvikmyndinni.

Alda Björk Valdimarsdóttir, lektor í almennri bókmenntafræði: „Kennslin voru mér nánast um megn“. Jane Austen endurrituð sem sjálfshjálparhöfundur

„Hún hét Jane Austen og hún átti eftir að kenna mér allt sem ég veit um allt sem skiptir máli“ segir bandaríski bókmenntafræðingurinn William Deresiewicz í fyrstu efnisgrein bókar sinnar A Jane Austen Education. Bók Deresiewicz dregur á skýran hátt upp margvísleg tengsl sjálfshjálparrita nútímans við klassískar umbreytingarsögur þar sem vegferð sálarinnar er lýst úr villum fortíðar til skyndilegs skilnings og hugljómunar. Líf Deresiewicz tekur gagngerum breytingum við lesturinn á verkum Jane Austen og er bók hans lýst af útgefendum sem „trúarjátningu eða vitnisburði um ummyndandi mátt bókmenntanna þar sem listrænir hæfileikar Austen eru vegsamaðir.“

Irma Erlingsdóttir, dósent í frönskum samtímabókmenntum: Endurdraumfarir í Sögunni (sem við munum aldrei þekkja) eftir Hélène Cixous

Í fyrirlestrinum verður fjallað um leikritið Sagan (sem við munum aldrei þekkja) eftir franska rithöfundinn Hélène Cixous. Leikritið fjallar um átök verksins (sem er Edda og er jafnframt persóna í leikritinu) og höfundar (Snorra Sturlusonar, sjálfs, sem einnig er persóna í leikritinu) og eru í stuttu máli lyktir þær að hvorugt hefur betur. Þessar tvær persónur eiga í mestum erfiðleikum með að fylgja sögunni eftir, ná tæpast að hafa tærnar þar sem hún hefur hælana. Edda og Snorri þvælast inn í atburðarásina og verða þátttakendur af líkama og sál og glata þannig upprunalegri stöðu sinni sem upphaf og uppspretta merkingar. Í hita leiksins losnar atburðarrásin skyndilega úr viðjum endurtekningarinnar og tekur óvænta stefnu. Leikritið er skáldskaparfræðileg greining á endurskrifum og bókmenntafræðilegri, heimspekilegri og pólitískri þýðingu þeirra.

Auður Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og ritstjóri Hugrásar: Bókmenntagagnrýni sem endurritun

Ritdómar eru ein tegund endurritana í skilningi Andrés Lefevere, ein af þeim aðferðum sem við notum til að ýmist staðfesta eða ganga gegn ríkjandi skáldskaparfræðum eða hugmyndafræði á hverjum tíma og jafnvel breyta bókmenntakerfinu. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um ritdóma nokkurra kvenna á 20. öld sem viðleitni til að taka þátt í mótun bókmenntakerfis með endurritunum. Tekin verða dæmi frá Torfhildi Hólm, Jarþrúði Jónsdóttur, Drífu Viðar og fleiri, m.a. með þá spurningu að leiðarljósi hvort samfélagsstaða þeirra sem kvenna hafi áhrif á það hvers konar endurritun fer fram í ritdómum þeirra.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is