Enn nú um ýmislegt: Endalok nútímabókmenntafræði, klámsaga og misnotkun ómarkaða karlkynsins

Laugardagurinn 14. mars kl. 13.00-14.30.

Í erindi sem nefnist „Klámið og kommúnistarnir: Fyrsta íslenska dómsmálið um klám“ fjallar Kristín Svava Tómasdóttir um fyrsta þekkta dómsmálið sem fram fór á Íslandi vegna brots á 210. grein hegningarlaga um bann við framleiðslu og dreifingu á klámi, en málið flæktist á sérstæðan hátt í pólitískar deilur eftirstríðsáranna. „Endalok nútímabókmenntafræði á Íslandi“ er heiti á fyrirlestri Gunnars Þorra Péturssonar um upphaf, uppgang og upplausn nútímabókmenntafræði í akademískri umræðu á Íslandi — sögu sem rakin verður frá byrjun níunda áratugar og fram til táningsára 21. aldar. Katrín Harðardóttir slær botninn í málstofuna með „Tálmörkun: Pælingar um kynjafordóma tungumálsins og misnotkun ómarkaða karlkynsins“. Er ástæðu kynjafordóma tungumálsins að finna í ómarkaða karlkyninu? Spænska fræðikonan María Márquez vill ekki ganga svo langt, miklu heldur segir hún fordómana felast í misnotkun mörkunarinnar sem leiði til ónákvæmni og tvíræðni tilvísunarinnar í málnotkun; í erindi sínu setur Katrín þessar hugmyndir í íslenskt samhengi. Gauti Kristmannsson stjórnar umræðum en yfirskrift málstofunnar er sótt í sjálfsævisögu séra Friðriks Eggerz, prests á Ballará.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur: Klámið og kommúnistarnir: Fyrsta íslenska dómsmálið um klám
  • Gunnar Þorri Pétursson bókmenntafræðingur: Endalok nútímabókmenntafræði á Íslandi
  • Katrín Harðardóttir þýðingarfræðingur: Tálmörkun: Pælingar um kynjafordóma tungumálsins og misnotkun ómarkaða karlkynsins

Málstofustjóri: Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði

Útdrættir:

Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur: Klámið og kommúnistarnir: Fyrsta íslenska dómsmálið um klám

Birting, sala og dreifing á klámi hefur verið bönnuð í íslenskum lögum frá árinu 1869, en eftir því sem vitað er fór ekkert mál fyrir dóm á grundvelli þess lagaákvæðis fyrr en um miðja 20. öld. Í erindinu verður fjallað um fyrsta þekkta dómsmálið um klám sem fram fór hér á landi. Klámið sem um ræðir flæktist á óvæntan hátt í pólitísk átök kalda stríðsins, og má jafnvel segja að sú tilviljun hafi ráðið mestu um að málið endaði fyrir dómstólum.

Gunnar Þorri Pétursson bókmenntafræðingur: Endalok nútímabókmenntafræði á Íslandi

Í erindinu verður upphaf, uppgangur og upplausn íslenskrar nútímabókmenntafræði til umfjöllunar í fyrsta sinn. Á níunda áratugnum lagði Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands grunninn að bókmenntafræði og hugvísindunum eins og þau eru stunduð í dag. Í kjölfarið varð mikil gróska í fræðilegri umræðu hér á landi, fyrir tilstilli bókmenntafræðinnar festu póststrúktúralismi og póstmódernismi sig í sessi sem ríkjandi viðmið en grófu að sama skapi undan greininni: Laust fyrir árþúsundamót snerist bókmenntafræðin gegn bókmenntunum, fagið útvistaði aðferðafræði sinni til nýrra greina á borð við menningarfræði; glataði sérstöðu sinni í þverfaglegri umræðu, afmáningu skila á milli há- og lágmenningar. Á táningsárum 21. aldar virðist nútímabókmenntafræði í vondum málum nema til komi róttækt uppgjör við fortíðina og ríkjandi viðmið innan hugvísindanna. 

Katrín Harðardóttir þýðingarfræðingur: Tálmörkun: Pælingar um kynjafordóma tungumálsins og misnotkun ómarkaða karlkynsins

Heiti þessa erindis er þýðing á hugtakinu „pseudo-génerico“ sem kemur frá spænsku fræðikonunni Maríu Márquez og lýsir hugtakið misnotkun ómarkaða karlkynsins. Samkvæmt Márquez getur hagnýtt gildi mörkunar verið mikið við vissar aðstæður, eins og þegar vísað er í gjörvallt mannkynið, en hún bendir á að með misnotkun mörkunarinnar gegni tilvísunin ekki réttu hlutverki sem aftur á móti leiði til margræðni og ónákvæmni. Af þessu leiði að oft er ekki um raunverulega mörkun að ræða heldur tálmörkun,  þar sem hugtakið ,maður‘ tengist ekki aðeins ómörkuðu merkingunni ,mannkyn‘ heldur tilgreindri merkingu orðsins ,karlmaður‘. Við þær aðstæður er ómarkaða karlkynið notað í tilgreindu samhengi, vísunin er ákveðin því aðeins er vísað í karlkyn og þess vegna er það ekki ómarkað. Þessi misnotkun hefur gefið færi á samlíkingu karla við mannkynið og afleiðingin er útilokun kvenna frá merkingarbæru sviði framsetningarinnar. Í erindinu verða þessar hugmyndir viðraðar í íslensku samhengi.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is