Erfðatækni, umhverfi og samfélag

Laugardaginn 15. mars kl. 10.30-16.30 í stofu 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Erfðatækni hefur verið í örri þróun síðustu ár og er nú orðið ómissandi tæki í margskonar grundvallarrannsóknum í lífvísindum. Hún hefur einnig verið hagnýtt í læknisfræði, landbúnaði og iðnaði. Mikil átök hafa orðið um hvort rétt sé að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið og nýta afurðir sem unnar hafa verið úr þeim. Settar hafa verið mjög strangar reglur víða um heim sem takmarka nýtingu þessara lífvera. Umræðan í samfélaginu er oft óvægin og mótast oftar en ekki af takmarkaðri þekkingu á málefninu. Í málstofunni verður farið yfir hvað felist í erfðatækni og hvernig megi nýta þessa tækni í grunnrannsóknum, læknisfræði, landbúnaði og matvælaiðnaði. Lögð verður áhersla á að fjalla um málið frá öllum hliðum og kynntir verða bæði möguleikar og takmarkanir við beitingu tækninnar, þ.m.t. hugsanlegar hættur fyrir heilsu manna og umhverfið.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Zophonías Oddur Jónsson, prófessor í líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ: Saga erfðatækninnar - í stuttu máli
  • Arnar Pálsson, dósent í líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ: Erfðatækni og umhverfi í ljósi vistfræði og þróunarfræði
  • Áslaug Helgadóttir, prófessor og aðstoðarrektor rannsóknamála, LbhÍ: Náttúran sér um sína – eða hvað? Erfðatæknin og kynbætur nytjaplantna
  • Jón Hallsteinn Hallsson, dósent í auðlindadeild, LbhÍ: Satt og logið í sveitinni – Sjálfsmorð smábænda og erfðabreyttar lífverur
  • Oddur Vilhelmsson, prófessor í auðlindadeild, HA: Er of gaman á rannsóknastofunni? – Hugleiðingar um óbærilegan léttleika erfðatækninnar
  • Magnús Karl Magnússon, prófessor í læknadeild, HÍ: Hvað segir reynslan af nýtingu erfðatækni í læknisfræði okkur um hugsanlega hættu af erfðabreytingum í landbúnaði fyrir heilsu fólks?
  • Eiríkur Steingrímsson, prófessor í lífefnafræði, HÍ: Vísvitandi blekkingar um áhrif erfðabreyttra matvæla á heilsu?
  • Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði, HÍ: Deilan um erfðabreytingar í almenningsrýminu

Málstofunni lýkur með almennum umræðum.

Málstofustjóri: Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst

Útdrættir:

Zophonías O. Jónsson, prófessor í líf- og umhverfisvísindadeild, : Saga erfðatækninnar - í stuttu máli

Rætur erfðatækninnar liggja í uppgötvunum á sviði erfðafræði, frumulíffræði og lífefnafræði sem leiddu til þess að hægt var að einangra erfðaefni, skeyta saman á nýjan hátt og koma aftur inn í lífverur.  Sagt verður í mjög stórum dráttum frá þessari vegferð og hvernig menn brugðust í fyrstu við þeim augljósu siðferðilegu álitamálum sem þetta leiddi af sér.

Arnar Pálsson, erfðafræðingur og dósent í Lífupplýsingafræði, HÍ: Erfðatækni og umhverfi í ljósi vistfræði og þróunarfræði

Því hefur verið haldið fram að erfðatækni sé hættuleg umhverfinu á nokkra vegu. Til dæmis er sagt að erfðabreytingar geti búið til ofurillgresi, geti leitt til þess að gen hoppi í framandi tegundir eða menn, eða að erfðabreyttar lífverur séu í eðli sínu hættulegar. Fjallað verður um þessi dæmi út frá aðferð vísinda, með skírskotun í lögmál vistkerfa og þróunar. Megin ályktunin er sú að ekki er hægt að dæma allar erfðabreytingar sem hættulegar, og flestar þær umhverfishættur sem talið er að stafi af erfðatækni eru ekki á rökum eða staðreyndum reistar.

Áslaug Helgadóttir, prófessor í jarðrækt og plöntukynbótum, LbhÍ: Náttúran sér um sína – eða hvað? Erfðatæknin og kynbætur nytjaplantna

Í umræðum um matvælaframleiðslu má oft heyra að best sé að láta sólina, regnið og moldina um ræktun nytjaplantna og halda skuli öllum tækninýjungum víðs fjarri. Þetta sé að stunda landbúnað í sátt við náttúruna. Spyrja má hvort þetta sjónarmið hefði dugað til þess að koma okkur öllum á þann stað sem við erum nú og hvort það eigi framtíð fyrir sér í heimi þar sem fólki fer enn fjölgandi, velmegun vex í þróunarlöndunum og loftslagsváin vofir yfir. Plöntukynbætur hafa leikið lykilhlutverk síðustu 200 árin við að tryggja fæðuöryggi jarðarbúa og hafa menn þar beitt ýmsum aðferðum við að ná markmiðum sínum. Síðasta aldarfjórðunginn hefur erfðatæknin bæst í verkfærakistu kynbótafræðanna. Fjallað verður um hvort erfðatækni geti leyst þau viðfangsefni sem við blasa og bætt þann skaða á umhverfinu sem hlotist hefur af athöfnum manna á jörðinni síðustu áratugi.

Jón Hallsteinn Hallsson, dósent í erfðafræði, LbhÍ: Satt og logið í sveitinni – Sjálfsmorð smábænda og erfðabreyttar lífverur

Í umræðum um erfðabreyttar lífverur í landbúnaði er því endurtekið haldið fram að erfðabreytt fræ skili aðeins stórum alþjóðlegum líftæknifyrirtækjum ágóða og kostnaður við tæknina sé til þess fallinn að leiða fátæka smábændur í skuldaánauð. Því er meðal annars haldið fram að tilkoma erfðabreyttra lífvera skýri háa tíðni sjálfsmorða meðal indverskra smábænda. Sú hugmynda fékk fyrst mikla athygli eftir ummæli sem Karl Bretaprins lét falla árið 2008 en síðan hefur hugmyndinni víða skotið upp, nú nýverið í grein Dr. Vandana Shiva „The Seeds Of Suicide: How Monsanto Destroys Farming“ sem lýkur á orðunum: „No GMO seeds, no debt, no suicides“. Fjallað verður um rannsóknir á áhrifum erfðatækni á hag smábænda í þróunarlöndunum og byggt á fyrirliggjandi gögnum.

Oddur Vilhelmsson, prófessor í líftækni, HA: Er of gaman á rannsóknastofunni? – Hugleiðingar um óbærilegan léttleika erfðatækninnar

Umræða um erfðatækni og erfðabreyttar lífverur er lífleg í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og ýmsum öðrum óritrýndum vettvangi um þessar mundir – jafnvel full lífleg að sumra mati. Leikir sem lærðir vaða elginn, stundum af meira kappi en forsjá, og hefur borið á því að mönnum hafi þótt skorta á aga og vandvirkni í vinnubrögðum. En skyldi hið meinta agaleysi einnig ná inn á rannsóknastofuna? Eru sameindalíffræðingar of léttúðugir? Eru erfðabreytt matvæli búin til einfaldlega af því að vísindamenn hafa gaman af því að leika dr. Frankenstein? Oddur Vilhelmsson ræðir vítt og breitt um þau tækifæri sem erfðatæknin skapar í matvælaiðnaðinum og veltir vöngum yfir því hvernig hægt sé að greina frá þeim á auðskilinn hátt, en þó án léttúðlegrar einföldunar.

Magnús Karl Magnússon, prófessor, Læknadeild, HÍ: Hvað segir reynslan af nýtingu erfðatækni í læknisfræði okkur um hugsanlega hættu af erfðabreytingum í landbúnaði fyrir heilsu fólks? 

Erfðatækni hefur verið notuð í áratugi til að auka öryggi og gæði ýmissa lyfja og í þróun nýrra meðferðarmöguleika, s.s. genalækningar. Mikil gögn liggja fyrir um öryggi og ávinning af nýtingu þessarar tækni í nútíma læknisfræði. Þrátt fyrir þessa miklu þekkingu og innsýn í notkunarmöguleika líftækninnar er mikil tortryggni gagnvart nýtingu hennar í landbúnaði þar sem því er meðal annars haldið fram að slíkri notkun fylgi mikil hætta fyrir heilsu fólks. Fjallað verður um hvort og þá hvernig landbúnaðarafurðir úr erfðabreyttum lífverum gætu skaðað heilsu fólks út frá þeirri reynslu sem nú er fyrirliggjandi.

Eiríkur Steingrímsson, prófessor, Læknadeild, HÍ: Vísvitandi blekkingar um áhrif erfðabreyttra matvæla á heilsu? 

Erfðabreyttar lífverur hafa verið ræktaðar sem fóður og matvæli um árabil og er að finna í mörgum matvælum. Ef marka má umræðuna í þjóðfélaginu mætti halda að erfðabreytt matvæli væru orsök allra sjúkdóma á Vesturlöndum.  Þeim hefur verið kennt um aukna tíðni ofnæmis og krabbameina auk eitrunaráhrifa. Auk þess hefur verið fullyrt að leifar slíkra matvæla megi finna í frumum neytenda. En fær þetta staðist? Fjallað verður um gögnin á bak við fullyrðingarnar og dæmi tekin um það hvernig röngum upplýsingum um áhrif erfðabreyttra lífvera er komið á framfæri við almenning.  

Guðni Elísson, prófessor, Íslensku- og menningardeild, HÍ: Deilan um erfðabreytingar í almenningsrýminu

Hvað einkennir umræðuna um erfðabreytingar í almenningsrýminu og hvernig geta leikmenn vegið og metið sannleiksgildi þeirra fullyrðinga sem settar eru fram? Fá svið vísinda eru jafn umdeild og líftækni-iðnaðurinn, en hann hefur mætt hatrammri andstöðu frá hægri jafnt sem vinstri þótt hinir ólíku þrýstihópar hafi mismunandi sýn og áherslur. Umræðan um líftækni-iðnaðinn og erfðabreytt matvæli verður skoðuð í samhengi loftslagsumræðunnar, en hún er annað vísindasvið þar sem myndast hefur gjá milli almennings og leiðandi vísindamanna.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is