Erlend tungumál: Tileinkun og kennsla

 

Málstofan, sem skipulögð er af Rannsóknastofu í máltileinkun (RÍM), fjallar um tileinkun erlendra tungumála á Íslandi. Annars vegar talþjálfun í frönsku í HÍ og hins vegar rannsóknir á norðurlandamálum í efstu bekkjum grunnskóla.

 

 

Málstofustjóri: Þórhildur Oddsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 13.00-14.30 (stofa 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku: „JE est un autre“, eða ég er annar; leiklist í tungumálakennslu
  • Brynhildur Ragnarsdóttir, forstöðumaður Tungumálavers Reykjavíkurborgar: Norræn tungumál í skólakerfinu
  • Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku: Dönskukennsla á tímamótum

Fundarstjóri: Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar

Útdrættir:

Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku: „JE est un autre“, eða ég er annar; leiklist í tungumálakennslu

Í tungumálanámi tekst nemandinn á við alls kyns verkefni, miserfið og miskrefjandi. Málfræði getur verið býsna flókin, uppbygging orðræðu á ákveðinn hátt og eftir nýjum reglum krefst mikils af nemendum.

Nemendur takast einnig á við nýjan hugsanaheim/tjáningarheim og það er einmitt þessi nýi heimur sem er áhugaverður á svo margan hátt því hann tengist nemandanum beint í hans sjálfsímynd. Þetta á sérstaklega við þegar við skoðum tjáningu á töluðu máli. Þegar við tölum á tungumáli sem við höfum ekki fullkomið vald á erum við að setja okkur í vissa „hættu“, við erum að minnsta kosti að taka vissa áhættu. Við höfum byggt upp sjálfsímynd okkar í gegnum móðurmálið og þar höfum við okkar kennileiti. Sjálfsímyndin getur verið í „hættu“ þegar við viljum tjá okkur á erlenda tungumálinu; það að þora ekki að tala hefur ekkert með færni í tungumálinu sjálfu að gera, heldur hvernig við sjáum okkur sjálf, hvernig við dæmum okkur sjálf. Hér getur leiklistin nýst sem aðferð við að vinna með sjálfsímyndina í erlenda tungumálinu og á sama tíma í móðurmálinu.

Brynhildur Ragnarsdóttir, forstöðumaður Tungumálavers Reykjavíkurborgar: Norræn tungumál í skólakerfinu

Gengið er út frá gögnum sem fengist hafa úr könnunum sem lagðar hafa verið fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla og kennara þeirra, annars vegar árið 2015 og hins vegar 2016.

Í erindinu verður fjallað um stöðu norrænna tungumála í íslensku skólakerfi. Gengið verður út frá opinberum samþykktum og reglugerðum og reynt verður að varpa ljósi á hvernig þær birtast í daglegu starfi skólanna.

Komið verður inn á umgjörð og forsendur fyrir kennslu í norrænum tungumálum sem skyldunámsgrein, norrænar samþykktir sem íslensk stjórnvöld hafa undirritað, hvernig reglugerðum, s.s. námskrám, hefur verið fylgt eftir af hálfu yfirvalda skóla og hvaða áhrif það hefur á stöðu kennara.

Jafnframt verður ræddur sá munur sem í kerfinu er á stöðu nemenda í dönsku annars vegar og norsku og sænsku hins vegar og vaxandi áhyggjur af kennslu í greinunum á framhaldsskólastigi með tilliti til úrskurðar mennta- og menningarmálaráðuneytis um kröfur til hæfni í tungumálum við lok grunnskóla annars vegar og framhaldsskóla hins vegar.

Einnig verða kynntar upplýsingar frá nemendum í 10. bekk um norræn mál í nærumhverfi þeirra, hvaða augum þeir líta á notagildi norrænna mála þegar til lengri tíma er litið, muninn á afstöðu þeirra til tungumálsins sem námsgreinar og sem tungumálsins sem slíks og áhuga þeirra á að kynnast jafnöldrum á Norðurlöndum. 

Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku: Dönskukennsla á tímamótum

Gengið er út frá gögnum sem fengist hafa úr könnunum sem lagðar hafa verið fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla og kennara þeirra, annars vegar árið 2015 og hins vegar 2016.

Í upphafi verður fjallað um nokkrar staðreyndir um dönsku sem námsgrein í íslenskum skólum, stöðu kennara gagnvart námskrá og útfærslu stjórnenda á henni. Komið verður inn á atriði sem styðja og standa í veginum fyrir framgangi greinarinnar í skólakerfinu.

Jákvætt er hve íslenskir skólar eru vel útbúnir hvað tækni varðar, en þó er umhugsunarefni að í nýlegri skýrslu frá OECD eru leiddar að því líkur að tæknivæðing skóla víða um heim hafi orðið á kostnað námsefnisgerðar og faglegrar þróunar. Þeir sem veljast til kennslu í dönsku eru langt frá því einsleitur hópur hvað varðar aldur, menntun og viðhorf til greinarinnar. Framboð til endur-/símenntunar er í formi stuttra smiðja, málstofa og fræðslufunda tvisvar til þrisvar á vetri og vikulangs námskeiðs erlendis annað hvert ár. Fram hefur komið að óskir kennara beinast að bitastæðara námi en í boði er og er oft vísað til viðbótarnáms sem var boðið upp á eftir útgáfu námskrár 2007.

Fjallað verður um metnað kennara fyrir hönd nemenda við lok grunnskóla og viðhorf nemenda til fagsins og óskir kennara um meiri skilning á mikilvægi greinarinnar frá samfélaginu í heild. Mesta ögrunin í starfinu sé ekki að finna í viðhorfum nemenda heldur í úreltum draugasögum um að enginn vilji eða þurfi á dönsku að halda. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is