Eyrún Eyþórsdóttir og Kristín Loftsdóttir: Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 14. árangur - 2014

Eyrún Eyþórsdóttir og Kristín Loftsdóttir: „Við viljum bara vita hvaðan við erum og hver við erum“. Brasilíufararnir og afkomendur þeirra

Árin 1863 og 1873 settust 37 Íslendingar að í suðurhluta Brasilíu. Ætlun þeirra var að setja á fót íslenska nýlendu í anda þýskra nýlendna sem voru algengar í suðurhluta Brasilíu á þessum tíma. Ekkert varð þó úr að slík nýlenda væri sett á stofn né fylgdu fleiri Íslendingar í kjölfarið. Þrátt fyrir bréfaskipti á milli Brasilíufaranna og ættingja þeirra á Íslandi fyrstu áratugina duttu þau einnig fljótt niður og ekki er mikið vitað um afdrif afkomendanna eftir það. Ljóst er að íslenskt tungumál og siðir hafa tapast að fullu meðal afkomendanna enda eru fáar heimildir til sem sýna samskipti á milli Brasilíufaranna og afkomenda þeirra við Ísland frá fyrri hluta 20. aldar þar til fyrir um 20 árum síðan. Það er því ekki fyrr en árið 1996 sem afkomendur Brasilíufaranna komu upp félagsskap sín á milli með skipulögðum hætti þegar undirbúningur að Félaginu Ísland Brasilía hófst en félagið var síðan stofnað með formlegum hætti árið 1999. Tilgangur félagsstarfsins er að varðveita íslenska menningu meðal afkomendanna og styrkja vináttu, samstarf og góðvilja milli Brasilíu og Íslands.

Markmið greinarinnar er að skoða nýlegan áhuga afkomenda Brasilíufaranna á íslenskum uppruna sínum og þá merkingu sem hann hefur í samtímanum. Gerð er grein fyrir sögu þessara búferlaflutninga í stuttu máli og áhuga núlifandi afkomenda þessa hóps á að rækta íslenskar rætur sínar. Fjallað er um sjálfsmyndarsköpun í hnattrænum heimi og tekið mið af kenningum feminísta um skörun (e. intersectionality) þar sem lögð er áhersla á ólíka þætti sjálfsmynda eins og stétt, litarhátt og þjóðernislegan uppruna. Nálgun greinarinnar undirstrikar mikilvægi þess að skoða merkingu íslensks uppruna í samhengi við kynþáttahyggju og stéttaskiptingu í brasilísku samfélagi og í tengslum við hugmyndir um „hvítleika“. Fræðimenn hafa lengi bent á mikilvægi sameiginlegrar fortíðar til að skapa þjóðir eða þjóðernishópa og við leggjum í því samhengi áherslu á hugtakið félagslegt minni (e. social memory) og hvernig það dregur athygli að samspili fortíðar og samtíðar.

Gögn byggja á yfirstandandi doktorsverkefni sem m.a. felur í sér vettvangsrannsókn í Brasilíu og viðtöl við afkomendur.

Lykilorð: Félagslegt minni, hvítleiki, skörun, Brasilía, Ísland.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is