Fátækt á Íslandi á 19. öld og fram á þá 20.

 

Fátækt á Íslandi hefur verið viðfangsefni fjölmargra íslenskra ráðamanna sem og menntamanna um langa hríð, eiginlega öldum saman. Í þessari málstofu verður staða þessara mála skoðuð sérstaklega á 19. öld og á fyrstu áratugum hinnar 20. Í málstofunni verður efni sem tengist fátækt rætt sem og hugmyndir fólks um málaflokkinn skoðaðar frá ýmsum hliðum; hinni opinberru umræðu, skoðanaskiptum alþingismanna, reynslu alþýðufólks af fátækrabasli, stöðu utangarðsfólks og flakkara í samfélaginu og loks lagaumhverfinu sjálfu og þróun þess.

 

 

Málstofustjóri: Sigurður Gylfi Magnússon

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 15.15-16.45 (stofa 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Sagnfræði- og heimspekideild: Fátækt og fúlga – Þurfalingar á Íslandi
  • Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, sérfræðingur við handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns: Fátæklingar á jaðri samfélagsins
  • Halldóra Kristinsdóttir, sérfræðingur við handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns: Jaðarinn í heimildum
  • Finnur Jónasson sagnfræðingur: Fátækraframfærsla í Reykjavík á árunum 1907 til 1935 - FELLUR NIÐUR

​Fundarstjóri: Davíð Ólafsson, aðjunkt í menningarfræðum

Útdrættir:

Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Sagnfræði- og heimspekideild: Fátækt og fúlga – Þurfalingar á Íslandi

Ísland var fátækt land á 19. öld og fram á þá 20. Mjög stór hópur fólk þurfti einhvern tíman á ævi sinni að sækja um sveitastyrk sér og sínum til bjargar. Sá gjörningur þýddi óhjákvæmilega bein réttindamissi auk þess sem viðhorf samfélagins til slíkrar beiðni voru ekki jákvæð. Í fyrirlestrinum verða skoðuð ólík viðbrögð fólks til þessara mála, bæði þeirra sem þurftu á styrk að halda og svo hinna sem stjórnuðu úthlutun þeirra. Hagsmunir beggja hópa voru skýrir og verða málefni fátæktar skoðuð út frá sjónarhóli þeirra.    

Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, sérfræðingur við handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns: Fátæklingar á jaðri samfélagsins

Fátækraframfærsla hélst að mestu óbreytt frá gildistöku Jónsbókarlaga 1280 og fram til ársins 1834 þegar ný reglugerð um fátækramálefni tók gildi. Framfærsla þurfalinga var á herðum fjölskyldu þeirra eða annarra bænda í sveitinni. Oft var byrðin af fátæklingum mikil og lentu margir þeirra fyrir vikið á jaðri samfélagins, flakkandi milli bæja og sveita.

Í erindinu verður sagt frá aðstæðum utangarðsfólks á 19. öld og dæmi tekin af nokkrum flökkurum og öðrum sem um lengri eða skemmri tíma þurftu að reiða sig á samfélag sitt.

Halldóra Kristinsdóttir, sérfræðingur við handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns: Jaðarinn í heimildum

Oft er látið í veðri vaka að nær ómögulegt sé að komast að sögu einstaklinga sem lifðu á jaðrinum og ólíkt stórmennunum skilji þau lítil sem engin spor eftir sig í heimildum. Um þetta fólk séu fáar sem engar prentaðar heimildir og lítið af bréfum og öðrum frumheimildum sem það skilur eftir sig. Sé þó leitað eftir því má finna margar og dýrmætar heimildir sem brugðið geta nýju ljósi á líf fátæklinga á 19. öld.

Finnur Jónasson sagnfræðingur: Fátækraframfærsla í Reykjavík á árunum 1907 til 1935 - FELLUR NIÐUR

Í fyrirlestrinum verður fjallað um fátækralöggjöfina á Íslandi frá árinu 1907 til ársins 1935 og framkvæmd hennar í Reykjavík. Einnig verður fjallað um líf þurfamanna í Reykjavík á tímabilinu. Árið 1905 voru sett ný fátækralög sem tóku gildi árið 1907 og giltu til ársins 1935. Litlar breytingar urðu á lögunum á gildistíma þeirra en framkvæmd fátækralaga í Reykjavík tók hins vegar talsverðum breytingum á lokaárum þriðja áratugarins og aukin harka færðist í meðferð þeirra þurfamanna sem taldir voru eiga sök á eigin vanda. Í fyrirlestrinum verður einnig fjallað um aðstæður þurfamanna í Reykjavík og viðhorf til eigin stöðu. Fjallað verður um hvernig viðhorf þeirra féllu að skoðunum ráðamanna á þeim og hvort ráða megi breytingar á skoðunum þurfamanna til stöðu sinnar þegar líða tekur á tímabilið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is