Ferðastyrkir

Hugvísindastofnun veitir doktorsnemum styrki til utanlandsferða sem tengjast náminu. Markmiðið með styrkjunum er einkum að gera þeim kleift að sækja fleiri ráðstefnur en ella, en einnig eru veittir styrkir vegna ýmiss konar námsdvala erlendis sem tengjast náminu, t.d. ferða á betur búin bókasöfn eða annarra ferða til heimildaöflunar, heimsókna til erlendra háskóla sem á einhvern hátt tengjast rannsókn, námskeiða, vinnustofa o.fl.

Doktorsnemar geta líka sótt um ferðastyrki frá Háskóla Íslands. Umsóknafrestur er 1. maí ár hvert. Vísindasvið sér alfarið um þessa styrki, sjá nánar hér.

Reglur um styrki Hugvísindastofnunar:

Hver styrkur er 75.000 kr.

Réttur til styrks

Doktorsnemar við Hugvísindasvið, búsettir á Íslandi, eiga rétt á ferðastyrkjum Hugvísindastofnunar. Skilyrði er að viðkomandi sé skráður og virkur í námi að mati leiðbeinanda þegar ferðin er farin og hafi einnig verið það misserið á undan skv. skráðum einingum. Nemendur á 1. misseri eiga rétt á styrk ef leiðbeinandi staðfestir að markviss vinna við námið sé hafin. Styrkir eru ekki veittir eftir að ritgerð hefur verið skilað til mats.

Fjöldi styrkja og dreifing
Hver doktorsnemi getur fengið þrjá styrki, hámark einn á hverju námsári.

Styrktar ferðir

Ferðir á ráðstefnur utan Íslands, sem tengjast doktorsverkefninu, eru styrktar hvort sem nemandi heldur erindi eða ekki. Skilyrði er að um opinbera og auglýsta ráðstefnu sé að ræða.

Umsóknir um aðrar ferðir en á ráðstefnur eru metnar hverju sinni, en sem dæmi um styrkhæfar ferðir má nefna  ferðir á betur búin bókasöfn (lágmarksdvöl 10 dagar) eða aðrar ferðir til heimildaöflunar (lágmarksdvöl 10 dagar), námskeið og vinnustofur. Einungis eru styrktar ferðir sem tengjast og nýtast í doktorsverkefni umsækjanda.

Að minnsta kosti tvær af þremur styrktum ferðum þurfa að vera á ráðstefnu.

Sem dæmi um ferðir sem ekki eru styrktar má nefna ferðir sem tengjast sameiginlegum prófgráðum, erlendum leiðbeinanda eða doktorsnefnd eða langtímadvöl doktorsnema erlendis án þess að doktorsverkefni krefjist þess. Nemandi sem dvelur erlendis vegna sameiginlegrar prófgráðu getur  þó fengið styrk til að koma til Íslands á mikilvæga ráðstefnu.

Styrkur er aðeins veittur ef um eiginlegt ferðalag frá dvalarstað og til baka er að ræða. Sýna þarf fram á að kostnaður við ferðalagið hafi verið a.m.k. 30% af styrkupphæðinni sé það ekki augljóst.

Ákvörðun um ferðir skal taka í samvinnu við leiðbeinanda.

Umsóknir og afgreiðsla
Sækja skal um styrk áður en ferð er farin á þar til gerðu eyðublaði á vefsíðu Hugvísindastofnunar. Hægt er að sækja um styrkina hvenær sem er ársins. Styrkur er greiddur að ferð lokinni þegar send hafa verið gögn sem sýna fram á að ferð hafi verið farin (a.m.k. afrit/mynd af farseðli og brottfararspjöldum). Styrkupphæðin er þá lögð inn á reikning umsækjanda. Athugið að styrkir af þessu tagi eru skattskyldir en hægt er að telja fram kostnað á móti þeim. Því er mikilvægt að halda upp á kvittanir.

UMSÓKNAREYÐUBLAÐ

Ath. reglum um styrki var breytt í ágúst 2017. Hver styrkur er 75.000 frá og með ferðum sem farnar eru eftir 10. ágúst 2017. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is