Fjölmiðlar, lýðræði og samfélagsumræða

Laugardaginn 15. mars kl. 10.00-12.00 í stofu 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Málstofan hverfist um samspil fjölmiðla og lýðræðis og birtingarmyndir þessa samspils í opinberri umræðu á Íslandi á síðari árum, bæði á landsvísu og á einstökum svæðum.

Rætt verður um breytingar á pólitískri boðmiðlun og áhrif netvæðingar og stafrænna tæknibreytinga þar á, en líka um nýmiðla og hlutverk þeirra í mótun lýðræðis. Fjallað verður um leiðir til að styrkja lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla, m.a. út frá hugmyndum um almannavettvang. Einnig verður vikið að áhrifum fjölmiðla á lýðræðisþróun og ímyndasköpun á afmörkuðu landsvæði og hvaða áhrif staðsetning fjölmiðla hefur í því sambandi. Eins verður fjallað um þá sýn á lýðræði í nærsamfélögum sem birtist í leiðurum héraðsfréttablaða.

Um er að ræða þverfaglega málstofu þar sem beitt er nálgunum félagsfræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og hagnýtrar siðfræði. Rannsóknirnar sem erindin byggja á eru nýjar og hafa ýmist lítið eða ekkert verið kynntar áður.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Birgir Guðmundsson, dósent við Hug- og félagsvísindasvið Háskólann á Akureyri: Fjölmiðlar  og sveitarstjórnarstjórnmál 
  • Grétar Júníus Guðmundsson, doktorsnemi í hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands: Lýðræðisleg hlutverk fjölmiðla
  • Hrafnkell Lárusson, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands: Viðfang eða virkt samfélag? Fjölmiðlun um og í dreifbýli
  • Ragnar Karlsson, aðjunkt við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur á Hagstofu Íslands: Í hlutverki klappstýru eða gleðispillis? Um leiðaraskrif staðar- og héraðsfréttablaða

Málstofustjóri: Björg Eva Erlendsdóttir, fjölmiðlakona og stjórnarmaður í RÚV ohf.

Útdrættir:

Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði Háskólanum á Akureyri: Fjölmiðlar  og sveitarstjórnarstjórnmál 

Almenn  pólitísk boðmiðlun hefur verið að breytast mikið  síðustu áratugi og strax um og upp úr síðust aldamótum voru fræðimenn farnir að tala um að nýtt tímabil væri að renna upp, svokallað „þriðja skeið pólitískrar boðmiðlunar“. Meðal einkenna hins nýja tíma er fagvæðing í samskiptum og samspili stjórnmála og fjölmiðla, bæði af hálfu stjórnmálanna og fjölmiðlanna. Annað einkenni tengist gjörbreyttu fjölmiðlaumhverfi og margföldun í miðlunarmöguleikum sem eru afsprengi netsvæðingar og stafrænu byltingarinnar almennt. Höfundur hefur áður fjallað um þessi áhrif á stjórnmál og fjölmiðlun á landsvísu á Íslandi en þessi breyting og samspil fjölmiðla og stjórnmála á sveitarstjórnarstigi hefur lítið sem ekkert verið skoðuð. Í þessu erindi verða fyrri rannsóknir höfundar um fjölmiðla og stjórnmál á landsvísu  og að hluta til á sveitarstjórnarstigi lagðar til grundvallar skoðunar á samspili stjórnmála og fjölmiðla í héraði. Líkindi og ólíkindi stjórnmálvettvangs á landsvísu og í héraði eru skoðuð auk þess sem tekist er á við spurningar eins og þá hver áhrif nýrra miðla geti verið á lýðræðisleg  skoðanaskipti á sveitarstjórnarstigi og hvert hlutverk hefðbundinna staðarmiðla sé í þeirri umræðu. 

Grétar Júníus Guðmundsson, doktorsnemi í hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands: Lýðræðisleg hlutverk fjölmiðla

Fjallað verður um skilgreiningu á lýðræðislegum hlutverkum fjölmiðla og greint frá því hvaða þættir eru lagðir til grundvallar við þá skilgreiningu. Um er að ræða afmarkaðan hluta af rannsókn á lýðræðislegum hlutverkum fjölmiðla í ljósi mismunandi fræðilegra lýðræðislíkana, með sérstakri áherslu á aðstæður á Íslandi. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að vinna að hugmyndum um hvernig hægt er að bæta vinnubrögð og auka sjáfstæði og trúverðugleika íslenskra fjölmiðlamanna, og fjölmiðlanna almennt, til að styrkja lýðræðið.

Skilgreining á lýðræðislegum hlutverkum fjölmiðla er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að leggja mat á frammistöðu fjölmiðla, með tilliti til mismunandi lýðræðislíkana, og jafnframt forsenda fyrir því að hægt sé meta framlag fjölmiðla til að styrkja lýðræðið.

Hrafnkell Lárusson, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands: Viðfang eða virkt samfélag? Fjölmiðlun um og í dreifbýli

Í erindinu verður gerð grein fyrir afmörkuðum þáttum í nýju rannsóknarverkefni (sem lýkur nú í febrúar). Meginmarkmið þess er að meta samfélagsleg áhrif svæðisbundinnar fjölmiðlunar á Austurlandi á árunum 1985-2010. Í erindinu verða forsendur rannsóknarinnar skýrðar en áhersla lögð á að draga fram samfélagslegan mismun þess fyrir Austurland að búa við þjónustu landsdekkandi fjölmiðla, sem eru með öfluga starfsemi á svæðinu, eða verða að reiða sig eingöngu á svæðisfjölmiðla. Leitað verður svara við eftirfarandi spurningum: Hver eru áhrif fjölmiðla á umræðu um samfélags- og hagsmunamál íbúa í dreifbýli og þar með á lýðræði á svæðinu? Má greina ólíkrar ímyndir svæða úr fjölmiðlaumfjöllun? Hvernig hefur RÚV staðið að þjónustu við Austurland á umræddu tímabili?
Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á efnistökum frétta- og þjóðlífsþáttarins Landans á RÚV. Að lokum verður velt vöngum yfir því hvað sé framundan í íslenskri fjölmiðlun, einkum svæðisbundinni.
Erindið byggir, auk eigin rannsóknar, á innlendum og erlendum fræðiheimildum sem og á spurningakönnun og viðtölum við austfirskt fjölmiðlafólk, sem framkvæmd voru sérstaklega vegna þessa rannsóknarverkefnis.

Ragnar Karlsson, aðjunkt við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur á Hagstofu Íslands: Í hlutverki klappstýru eða gleðispillis? Um leiðaraskrif staðar- og héraðsfréttablaða

Leiðarar hafa um langt skeið verið fastur liður í útgáfu fréttablaða. Í leiðaraskrifum eru fréttir gjarnan settar í stærra samhengi fyrir lesendur, áherslulínur blaðs um menn og málefni eru dregnar skýrari dráttum og mál reifuð með beinskeyttari hætti en í almennum fréttum. Í erindinu er gerð grein fyrir niðurstöðum úr megindlegri innihaldsgreiningu á umfjöllunarefni og afstöðu sem birtist í leiðurum þeirra átján staðar- og héraðsfréttablaða sem út komu hér á landi vikulega eða tíðar á s.l. ári. Sýnt er fram á hvernig ólíkar aðferðir við dreifingu, útbreiðsla og samkeppnisstaða blaða hefur áhrif á viðhorf útgefenda/ritstjóra til leiðara og leiðaraskrifa og hlutverks blaðs í samfélagslegri umræðu í héraði.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is