Fjórtánda öldin: Textinn og valdið

Á Hugvísindaþingi 2010 var haldin málstofan Fjórtánda öldin. Hnignun eða nýsköpun, þar sem fjallað var um handrit, sagnfræðilegar heimildir og bókmenntir þessa tímabils. Að þessu sinni var sjónum beint að margbreytileika valdsins í textum fjórtándu aldar.

Fyrirlesarar: 

  • Gunnvör S. Karlsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Ölmusur í hringiðu valdabaráttu
  • Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, nýdoktor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Þróun Hrólfs sögu Gautrekssonar: ný gerð – ný hugmyndafræði?
  • Sif Ríkharðsdóttir, stundakennari við Íslensku- og menningardeild: Sviptingar í meykóngahefðinni: Kvennaofbeldi, valdatafl og innra líf

Málstofustjóri: Ásdís Egilsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útdrættir:

Gunnvör S. Karlsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Ölmusur í hringiðu valdabaráttu
Í Guðmundar sögum Arasonar greinir frá því að fátækir hafi dáð hann fyrir ölmusugæði en valdastéttin sett þau fyrir sig. Á prestsárunum framfleytti Guðmundur að jafnaði sjö manns. Það þótti fásinna og hlutast var til um að skipt væri þingum við hann „og skyldi hann þau hafa, er féminnst voru. En enginn fékk hnekkt örlæti hans.“ Í prestssöguhluta A-gerðarinnar frá 14. öld eru þó engar frekari frásagnir af ölmusum og aðeins ein jarteinasaga sem fallið getur undir ölmusujarteinir. Þær koma fyrst fram að marki eftir að Guðmundur hefur tekið við biskupsembætti. Ölmusuhugtakið hefur djúpa guðfræðilega merkingu en í sögum Guðmundar leikur það á jaðri trúarhugsjóna og stjórnmála. Dýrlingshelgi fylgdi himneskt vald til kraftaverka en fékk það annað hlutverk á biskupsferli Guðmundar í höndum sagnaritaranna.

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, nýdoktor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Þróun Hrólfs sögu Gautrekssonar: ný gerð – ný hugmyndafræði?
Hrólfs saga Gautrekssonar er margslungið bókmenntaverk sem er flokkað sem fornaldarsaga; hún var vinsæl og áhrifamikil á síðmiðöldum en hefur ekki hlotið mikinn áhuga fræðimanna. Styttri gerð sögunnar hefur varðveist í handritum frá lokum 13. aldar en önnur lengri og töluvert breytt gerð birtist fyrst í handriti um öld síðar. Erindið mun varpa ljósi á handrita- og bókmenningu á Íslandi á síðmiðöldum og kanna hvernig bókmenntatexti breytist í handritum á tímabilinu. Markmiðið er að staðsetja Hrólfs sögu innan fjölþættrar bókmenntahefðar og tengja hana við menningarstrauma á Íslandi á síðmiðöldum, einkum áhrif riddarabókmennta og þeirrar hugmyndafræði sem þær boðuðu, t.d. varðandi konungsvald, hlutverk kynjanna, félagsleg samskipti (einkum milli karla) og æskilega samfélagslega hegðun. Sagan og umbreyting hennar verður skoðuð sem hluti af orðræðu valdastéttar á síðmiðöldum á Íslandi þar sem ný hirðleg hugmyndafræði og nýtt valdakerfi ruddu sér til rúms.

Sif Ríkharðsdóttir, stundakennari við Íslensku- og menningardeild
Sviptingar í meykóngahefðinni: Kvennaofbeldi, valdatafl og innra líf
Meykóngasögurnar markast jafnan af valdatafli milli kvenpersónanna (meykónganna) og karlpersónanna (biðlanna) sem einkennast gjarnan af ofbeldi, þá bæði af hálfu kvenna og gegn konum. Erfitt er að meta hvort um ákveðna bókmenntahefð var að ræða eða einangrað minni sem verður vinsælt á fjórtándu öldinni og hvaða tilgangi það hefur þá þjónað fyrir höfunda og lesendur (eða áheyrendur). Í fyrirlestri þessum verður fjallað um hlutverk ofbeldis í sögunum, þá sérstaklega hvað varðar kynbundið ofbeldi, og tengsl þess við hugmyndir um kvenleika, karlmennsku og mótun sjálfsvitundar innan sagnanna.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is