Forkröfur

Nemandi sem hefur lokið meistaraprófi með fyrstu einkunn (7,25) eða samsvarandi prófi getur sótt um aðgang að doktorsnámi í meistaraprófsgreininni.

Nemandi sem hefur lokið meistaraprófi eða öðru samsvarandi prófi í annarri grein en sótt er um doktorsnám í, frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla, með jafngildi fyrstu einkunnar, getur einnig sótt um aðgang að doktorsnámi. Í slíkum tilvikum skal doktorsnámsnefnd, í samráði við námsbraut og væntanlegan leiðbeinanda, meta gögn um fyrra nám nemanda og rannsóknir. Heimilt er að gera kröfur um frekara nám (námskeið eða einstaklingsbundin verkefni) eftir atvikum. Slíkar viðbótar- eða forkröfur skal skrá í nemendakerfi Háskólans. Leiðbeinandi metur hvenær doktorsefni hefur uppfyllt þessar forkröfur og lætur skrá upplýsingar þar um í nemendakerfið.

Ef nemandi hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi, ef fyrir liggur yfirlýsing viðkomandi háskóladeildar um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri við lok yfirstandandi misseris. Sé umsókn samþykkt með þessum fyrirvara er hægt að hefja doktorsnámið en hafi fyrirvari ekki verið uppfylltur eftir eins misseris doktorsnám fellur samþykkið úr gildi. Námsferli viðkomandi í nemendakerfi Háskólans er þá lokað án skráðra eininga og nemandi þarf að sækja um að nýju, óski hann þess.

Samþykki fyrirhugaðs leiðbeinanda er forsenda fyrir staðfestingu umsóknar. Umsækjandi getur, við undirbúning umsóknar, haft beint samband við akademískan starfsmann á Hugvísindasviði og óskað þess að viðkomandi verði leiðbeinandi sinn. Nemandi getur líka snúið sér til formanns greinar eða námsbrautar óski hann aðstoðar við að finna leiðbeinanda.

Sjá nánar í 3. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is