Forsendur og tilgangur þýðinga

Föstudaginn 14. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Í málstofunni verður sjónum beint að fjölbreytilegum forsendum og tilgangi þýðinga. Velt er upp spurningum sem lúta að hlutverki þýðinga, þætti þeirra í ímyndasköpun og miðlun menningar og þekkingar, auk umfangs þeirra í miðlun fagurfræðilegra álitamála.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði: Hvaða erindi á Edgar Allan Poe við íslenska lesendur?
  • Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku: Upplýsingamiðlun eða áróður: Þýðingar „baráttuljóða“ frá Rómönsku Ameríku
  • Marion Lerner, lektor í þýðingafræði: Hver er ábyrgð þýðandans þegar um ófrágenginn frumtexta er að ræða? Hugleiðingar í tilefni af þýðingu á Ferðabók Tómasar Sæmundssonar

Málstofustjóri: Marion Lerner, lektor í þýðingafræði

Útdrættir:

Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði: Hvaða erindi á Edgar Allan Poe við íslenska lesendur?

Spurt verður, með vísun til höfundarverks bandaríska skáldsins Edgars Allans Poe, hvernig erlendir höfundar komi inn í íslenskt bókmenntalíf, hvaða spor þeir skilji eftir sig og hver staða þeirra sé í menningarkerfi annars tungumáls. Höfundar á borð við Poe koma ekki aðeins á vettvang sem skapendur einstakra verka, heldur einnig sem höfundar eða jafnvel holdgervingar ákveðinna hugmyndaheima. Hver hefur Poe verið á Íslandi: Leynilögregluhöfundur? Hrollberi? Fagurkeri? 

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku: Upplýsingamiðlun eða áróður: Þýðingar „baráttuljóða“ frá Rómönsku Ameríku

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að þýðingum „baráttuljóða“ frá spænskumælandi löndum Rómönsku Ameríku. Ljóðin, sem flest voru íslenskuð á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, eru ágeng og hverfast gjarnan um ofsóknir, kúgun og ofbeldi. Spurt er hvaða mynd þessar þýðingar draga upp af samfélagþróun álfunnar og hvort sú félagslega útlistun sögulegra atburða og aðstæðna sem gjarnan birtist í kvæðunum sé farvegur upplýsingar, uppgjörs, dóma eða áróðurs.

Marion Lerner, lektor í þýðingafræði: Hver er ábyrgð þýðandans þegar um ófrágenginn frumtexta er að ræða? Hugleiðingar í tilefni af þýðingu á Ferðabók Tómasar Sæmundssonar

Á árunum 1832-34 ferðaðist Tómas Sæmundsson um Evrópu og víðar. Eftir heimkomuna til Íslands samdi hann drög að Ferðabók sem hann hins vegar lauk aldrei við. Drögin komu svo út sem Ferðabók Tómasar Sæmundssonar árið 1947. Í erindinu verður stuttlega farið yfir sögu textans og sérkenni hans. Síðan verður velt upp spurningum í sambandi við hugsanlega þýðingarstefnu. Augljóslega er þessi sögulegi texti afar menningar- og tímabundinn. Höfundur miðaði að því að upplýsa íslenska lesendur sína um það sem var nýtt og gagnlegt í evrópskri menningu samtímans. Til að lýsa þessum framandi veruleika þurfti hann að tileinka sér orð og hugtök úr erlendum málum og lagðist í umfangsmikla nýyrðasmíð. Einnig fyrirfinnast slettur og önnur sérstök blæbrigði 19. aldar íslensku. Hvernig getur þýðandi komið þessum einkennum textans til skila? Er það yfirleitt æskilegt þegar um ófrágengin og óyfirlesin drög er að ræða sem höfundur kvaðst sjálfur vera óánægður með? Hvernig ákveður þýðandi stefnu sína?

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is