Fötlun, menning og samfélag

 

Í málstofunni verður dansað á mörkum þess líkamlega og áþreifanlega annars vegar og hins óáþreifanlega, trúarlega og upplifaða hins vegar þegar könnuð verða tengsl fötlunar og trúarhugmynda. Hanna Björg dregur fram dæmi um þversagnarkendar birtingarmyndir og hlutverk fatlaðs fólks í textum Biblíunnar. Eva Þórdís fjallar um hvernig heimsmynd og (þjóð)trúarlíf geymir og mótar skilning á skerðingum og viðbrögð við fötluðu fólki. Ingibjörgar Hildur kynnir doktorsrannsókn sína „Guð hið innra“ sem fjallar um trúarupplifun og trúarlega tjáningu fólks með þroskahömlun.

 

 

Málstofustjóri: Pétur Pétursson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 13.00-14.30 (stofa 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Hanna Björg Sigurjónsdóttir dósent: Birtingarmyndir fötlunar í trúarbrögðum   
  • Eva Þórdís Ebenezerdóttir þjóðfræðingur: Þjóðtrú, orsakavættir og skerðingar
  • Ingibjörg H. Stefánsdóttir doktorsnemi: Guð hið innra. Rannsókn á trúarviðhorfum og reynslu fólks með þroskahamlanir
Útdrættir:

Hanna Björg Sigurjónsdóttir dósent: Birtingarmyndir fötlunar í trúarbrögðum

Textar biblíunnar eru fullir af fötlun og fötluðu fólki sem gegnir þar mörgum og mikilvægum en afar þversagnakendum hlutverkum. Gamlar trúarlegar túlkanir á fötlun hafa mótað viðhorf til fatlaðs fólks um aldir og eru af mörgum talin ein megin orsök mismununar og aðgreiningar. Í erindinu verða dregnar fram svipmyndir af vel þekktum ímyndum fatlaðs fólks í textum biblíunnar og þær ræddar út frá sjónarhorni fötlunarguðfræði og túlkun hennar.

Eva Þórdís Ebenezerdóttir þjóðfræðingur: Þjóðtrú, orsakavættir og skerðingar

Í erindinu verður litið til heimsmyndar eða hugmyndheims Íslendinga á síðari hluta 19. aldar í gegnum það skráargat sem þjóðsagnir eru. Í sögnum má sjá glitta í skilning fólks á samfélagi sínu, umhverfi og samborgurum. Þar á meðal skilning á samborgurum sem skáru sig úr fjöldanum með líkamlegum eða andlegum skerðingum og hefur án efa haft áhrif á viðhorf í garð fólks með skerðingar. Það er þó ekki nóg með að þjóðtrúin og trúarlífið geymi gamlan skilning á skerðingum heldur hefur hún einnig mótað og viðhaldið hugmyndum fólks um skerðingar, ekki bara á 19. öld heldur allt fram á þá 21. Rýnt verður í valdar þjóðsögur og skoðað hvernig formæður okkar og feður útskýrðu skerðingar fatlaðs samferðarfólks síns í krafti þjóðtrúarinnar og yfirnáttúrunnar. Trúin á móra og skottur, galdramenn, huldufólk og tröll gátu haft mikil áhrif á líf raunverulegs fólks með skerðingar.

Ingibjörg H. Stefánsdóttir doktorsnemi: Guð hið innra. Rannsókn á trúarviðhorfum og reynslu fólks með þroskahamlanir

„Þau geta ekki skilið Guð“, heyrði ég eitt sinn sagt um samskipti einstaklinga með þroskahömlun og Guðs. Til að mæta slíkum viðhorfum er mikilvægt að rannsóknir séu stundaðar ásamt samfélagslegri vitundarvakningu varðandi málefni fatlaðs fólks, fræðslu sem og samtali við almenning.   

Markmið rannsóknarinnar er að heyra frá fyrstu hendi hvernig trúarleg upplifun og reynsla birtist í lífi einstaklinga með þroskahömlun. Áhersla verður á sjálfið og tengsl í stað vitsmunaþroska. Með þessari rannsókn er leitast við að öðlast aukna þekkingu sem og fá aukna innsýn í aðstæður einstaklinga með þroskahömlun.  

Rannsóknir hafa í auknum mæli beinst að einstaklingum með þroskahömlun og eru raddir þeirra farnar að heyrast. Slík nálgun í rannsóknum, það er, að tala við fólk en ekki um það, er ómetanlega heimild sem og partur af réttindabaráttu fatlaðra einstaklinga. Trú hefur lengi vel verið rannsóknarefni margra fræðimanna og rannsakenda. En fáar rannsóknir hafa beinst að þessum tveimur viðfangsefnum í einni og sömu rannsókn. Fræðilegan bakgrunn rannsóknarinnar má finna í kenningum Fowlers varðandi trúarþroskann, tengslakenningu Bowlbys sem og kenningu Jungs varðandi sjálfið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is