Frá umsókn til útskriftar

Við Hugvísindasvið er boðið upp á 180 eininga skipulagt doktorsnám í Sagnfræði- og heimspekideild, Mála- og menningardeild og Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Doktorsnám í Íslensku- og menningardeild er hins vegar 240 einingar en þar af eru 60 einingar svonefndur almennur hluti náms sem nemandi lýkur með því m.a. að taka námskeið, halda fyrirlestra og birta greinar. 

Gert er ráð fyrir að nemendur í fullu námi ljúki 180 eininga námi á þremur árum og 240 eininga námi á fjórum árum. Í raun hefst ferlið þó strax þegar nemandi sækir um nám og því lýkur ekki fyrr en með doktorsvörn. Frá sjónarhóli nemandans eru helstu skrefin þessi. Lýsing á framvindu hér á eftir miðar við að nemendur í 180 eininga námi ljúki á þremur árum en nemendur í 240 eininga námi ljúki á 4 árum. Lýsingin miðast enn fremur við að nám hefjist á haustmisseri. Algengt er að nemendur þurfi lengri tíma til að ljúka og þarf þá að endurskoða áætlun um framvindu með tilliti til þess.

Umsókn

 1. Nemandi skoðar upplýsingar um doktorsnám á vefsíðu Hugvísindastofnunar (hugvis.hi.is/doktorsnemar), setur sig í samband við skrifstofu Hugvísindasviðs og/eða viðkomandi námsbraut og lýsir yfir áhuga á doktorsnámi. Á þessu stigi þarf nemandi að hafa allmótaða hugmynd um á hvaða rannsóknarsviði væntanlegt doktorsverkefni er.
 2. Nauðsynlegt er að kanna hvort innan sviðsins sé þekking á efninu og leiðbeinandi sem samþykkir að taka nemanda að sér áður en gengið er frá umsókn. Slíkt samþykki er forsenda þess að væntanleg umsókn um nám sé samþykkt. Stúdent getur snúið sér beint til formanns greinar eða námsbrautar óski hann aðstoðar við að finna leiðbeinanda.
 3. Nemandi fyllir út umsókn um doktorsnám. Umsóknarfrestur er 15. apríl fyrir haustmisseri og 15. október fyrir vormisseri hvert ár. Umsóknarfrestur fyrir erlenda umsækjendur utan Norðurlandanna er 1. febrúar ár hvert.
 4. Nemandi fær svar við umsókn frá skrifstofu Hugvísindasviðs eftir afgreiðslu námsbrautar/deildar og doktorsnámsnefndar, alla jafna innan sex vikna frá lokum umsóknarfrests.

Fyrsta misseri

 1. Nemandi  skráir sig sem nemanda við Háskóla Íslands og greiðir skrásetningargjald.
 2. Doktorsnemi og leiðbeinandi ganga frá skriflegri námsáætlun sem er send doktorsnámsnefnd til samþykkar.
 3. Leiðbeinandi gerir tillögu að doktorsnefnd og sendir doktorsnámsnefnd til samþykktar.
 4. Doktorsnemi í 180 eininga námi skilar leiðbeinanda rannsóknaráætlun og ver fyrir doktorsnefnd (sem þarf að vera skipuð á þessu stigi). Samþykkt áætlun er send doktorsnámsnefnd til samþykktar.

Annað misseri

 1. Doktorsnemi og leiðbeinandi ganga frá námsframvinduskýrslu á fyrsta námsári og skila til skrifstofu Hugvísindasviðs.
 2. Doktorsnemi í 240 eininga námi skilar leiðbeinanda rannsóknaráætlun og ver fyrir doktorsnefnd (sem þarf að vera skipuð á þessu stigi). Samþykkt áætlun er send doktorsnámsnefnd til samþykktar.

Þriðja misseri

 1. Nemandi  skráir sig sem nemanda við Háskóla Íslands og greiðir skrásetningargjald.

Fjórða misseri

 1. Doktorsnemi og leiðbeinandi ganga frá námsframvinduskýrslu á öðru námsári og skila til skrifstofu Hugvísindasviðs.

Fimmta misseri

 1. Nemandi  skráir sig sem nemanda við Háskóla Íslands og greiðir skrásetningargjald.

Sjötta misseri

 1. Doktorsnemi og leiðbeinandi ganga frá námsframvinduskýrslu á þriðja námsári og skila til skrifstofu Hugvísindasviðs. Nemandi í 180 eininga námi sem skilar ritgerð í lok sjötta misseris þarf ekki að skila námsframvinduskýrslu.

Sjöunda misseri (nemendur í 240 ein. námi)

 1. Nemandi  skráir sig sem nemanda við Háskóla Íslands og greiðir skrásetningargjald.

Áttunda misseri  (nemendur í 240 ein. námi)

 1. Doktorsnemi og leiðbeinandi ganga frá námsframvinduskýrslu á fjórða námsári og skila til skrifstofu Hugvísindasviðs. Skili nemandi ritgerð við lok áttunda misseris þarf hann ekki að skila námsframvinduskýrslu.

Doktorsvörn

 1. Doktorsnefnd leggur til, með skriflegum rökstuðningi, að ritgerð verði lögð fram til varnar. Leiðbeinandi skilar skjali þess efnis til skrifstofu Hugvísindasviðs og fær doktorsnámsnefnd hana til umfjöllunar.
 2. Doktorsnemi skilar þremur prentuðum eintökum ritgerðar, ásamt rafrænu eintaki, til ritara doktorsnámsnefndar. Upplýsingar um frágang doktorsritgerða eru á heimasíðu Hugvísindastofnunar: hugvis.hi.is/prentun_doktorsritgerda
 3. Doktorsnámsnefnd athugar hvort ritgerð uppfylli formkröfur og gerir, í samráði við deild, tillögur til Miðstöðvar framhaldsnáms um tvo andmælendur.
 4. Miðstöð framhaldsnáms metur hæfi andmælenda til að meta viðkomandi ritgerð.
 5. Doktorsnámsnefnd setur sig í samband við samþykkta andmælendur og sendir þeim, ef þeir fallast á að taka að sér verkefnið, formlegt skipunarbréf og ritgerðina til yfirlestrar.
 6. Andmælendur skila, eigi síðar en innan tveggja mánaða frá dagsetningu skipunarbréfs, rökstuddu áliti þar sem fram kemur hvort þeir telja ritgerðina tæka til varnar
 7. Ef andmælendur krefjast breytinga á ritgerð sendir doktorsnemi, innan sex vikna frá því hann fær kröfu andmælenda, doktorsnámsnefnd nýja útgáfu með greinargerð. Nefndin sendir andmælendum nýja útgáfu ritgerðar sem staðfesta (eða hafna) nýrri útgáfu ritgerðar innan tveggja vikna. Uni doktorsefni ekki niðurstöðu andmælenda getur hann skotið máli sínu til deildar, sbr. nánar 50. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands .
 8. Deildarforseti ákveður dagsetningu varnar í samráði við doktorsnema og andmælendur. Miðað er við að hún fari fram eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að andmælendur skila áliti sínu.
 9. Doktorsnemi annast prentun ritgerðar í samráði við Hugvísindastofnun.
 10. Doktorsvörn fer fram.
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is