Framtíð íslenska þjóðkirkjufyrirkomulagsins

Laugardaginn 15. mars kl. 10.30-12.00 í stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Í íslensku stjórnarskránni hefur frá upphafi (1874) verið ákvæði um að  Evangelísk-lúthersk kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkið skuli styðja hana og vernda. Þetta ákvæði byggir á sambærilegu ákvæði í dönsku stjórnarskránni frá 1849. Um leið og ákvæðin um þjóðkirkju voru sett í þessar stjórnarskrár var einnig kveðið á um trúfrelsi. Spurning er hvort í þessu sé fólgin mótsögn.

Löngum hefur ríkt samstaða um þjóðlegt og menningarlegt gildi kristinnar trúar á Íslandi og hefur verið talað um að þjóðkirkjan eigi sérstök ítök í íslensku samfélagi vegna sögu sinnar og félagslegs hlutverks. Ýmsir hafa þó gagnrýnt þetta fyrirkomulag og mælt með aðskilnaði ríkis og kirkju og bent á að alþjóðasáttmálar um mannréttindi, trúfrelsi og jafnrétti samrýmist ekki þeim forréttindum sem þjóðkirkjan nýtur og þeim stuðningi sem hún fær frá ríkinu. Skoðanakannanir hafa bent til þess að þegar þjóðkirkjufyrirkomulagið er vegið og metið með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi að þá vilji meiri hluti þjóðarinnar aðskilja ríki og kirkju, en í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 kom fram að meiri hluti þjóðarinnar vill halda í ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá. Þetta hefur verið túlkað á ólíkan hátt og fólk vegur og metur stöðu og hlutverk kristni og kirkju út frá mismunandi forsendum. Hvað er átt við með hugtakinu þjóðkirkja? Samrýmist það fjölmenningu?  Hver er sérstaða þjóðkirkjunnar nú um stundir? Er æskulegt að viðhalda nútverandi fyrirkomulagi og á hvaða forsendum?

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Auður Eir, prestur: Nú er tími til siðbótar – eins og alltaf
  • Gunnar Kristjánsson, prófastur: Frjálslynd guðfræði og þjóðkirkjuhugtakið

Málstofustjóri: Pétur Pétursson prófessor

Útdrættir:

Auður Eir, prestur: Nú er tími til siðbótar – eins og alltaf

Lútersk kirkja á að vera siðbótarkirkja á öllum tímum. Hún á að fylgja þeirri lútersku guðfræði að við séum öll prestar hvaða starf sem við höfum.  Hún þarf að horfast í augu við tilhneigingu sína til kaþólskra messusiða. Og hún þarf að breyta ýmsu í grundvallarskipulaginu, í fyrsta lagi að breyta ráðningu prestanna. Svo að prestar verði ekki keppinautar heldur samheldinn hópur í boðun fagnaðarerindisins. Það þarf að ræða málin og gefa langan tíma til að tala vandlega saman.

Gunnar Kristjánsson, prófastur: Frjálslynd guðfræði og þjóðkirkjuhugtakið

Í erindinu verður fjallað um breytingar á trúarlífi, kirkjuskilningi og guðfræði undanfarnar tvær aldir. Þar verður staðnæmst við kenningar þýska guðfræðinginsins Friedrichs Schleiermachers sem fyrstur manna setti þjóðkirkjuhugtakið á dagskrá. Skoðað verður hvers eðlis það er og hvernig þær hugmyndir bárust til Íslands. Í síðari hlutanum verður horft til þeirra breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðkirkjunni undanfarna áratugi þar sem áhersla á helgisiðatengda guðfræði og trúfræði hefur sett svip sinn á þróun sem hefur ekki orðið þjóðkirkjunni í hag. Spurt verður hvert þjóðkirkjan virðist stefna í skipulagi sínu og hvers eðlis sú guðfræði sé sem móti þróunina á líðandi stund. Jafnframt verður spurt hvort lútherskar megináherslur á frelsi mannsins, almennan „prestsdóm“ leikra sem lærðra og á huglægni hafi látið undan síga. Velt verður upp hugmyndum um breyttar guðfræðilegar áherslur sem miða að því að skýra að nýju hefðbundin þjóðkirkjueinkenni íslensku þjóðkirkjunnar.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is