Framtíð íslenskunnar: Kenningar og mælikvarðar

 

Í málstofunni verður fjallað um framtíð íslenskunnar á tímum stafrænna miðla og snjalltækja. Leitast verður við að varpa ljósi á þær kenningar og þá mælikvarða sem notaðir eru þegar áhrif eins tungumáls á annað eru metin og verður sjónum einkum beint að notkun ensku í íslensku málsamfélagi. Þannig verður m.a. rætt um ytri aðstæður íslenskunnar, náið sambýli íslensku og ensku, enskuáreiti og áhrif þess á íslenskunotkun bæði barna og fullorðinna, málbreytingar og tungumáladauða.

 

 

Málstofustjóri: Sigríður Sigurjónsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 13.15-14.45 (stofa 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði: Um utanaðkomandi aðstæður íslenskrar málþróunar
  • Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Sambýli íslensku og ensku í ljósi hugtakanna form og staða tungumáls
  • Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði: Mót tveggja heima: Máltaka íslenskra barna og snjalltækjavæðing nútímans

Föstudagur 11. mars kl. 15.15-16.15 (stofa 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Birna Arnbjörnsdóttir og Ásrún Jóhannsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum og doktorsnemi við Háskóla Íslands: Návígi ensku og íslensku í málumhverfi íslenskra barna
  • Anton Karl Ingason og Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi við University of Pennsylvania og nemi í talmeinafræði við Háskóla Íslands: Er hægt að lækna þágufallssýki? Máltökulíkön og málbreytingar

Fundarstjórar: Þóra Björk Hjartardóttir dósent og Stefanie Bade doktorsnemi

Útdrættir:

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði: Um utanaðkomandi aðstæður íslenskrar málþróunar

Í erindinu verður rætt um ýmsa utanaðkomandi þætti sem hafa gerbreytt umhverfi og aðstæðum íslenskunnar á örfáum árum, og munu halda því áfram á næstunni. Þar er m.a. um að ræða snjalltækjabyltinguna, YouTube- og Netflix-væðinguna, ferðamannastrauminn, fjölgun fólks með annað móðurmál, aukið háskólastarf á ensku, alþjóðavæðingu hugarfars, og talstýringu tækja. Fjallað verður um það hvort og þá hvernig þessir þættir geti haft áhrif á stöðu og þróun íslenskunnar, og sú umfjöllun sett í samhengi við rannsóknir á hnignun og dauða tungumála.

Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Sambýli íslensku og ensku í ljósi hugtakanna form og staða tungumáls

Í málræktarfræði (e. language policy and planning studies) er gerður greinarmunur á umfjöllun um form tungumáls/orðaforða (sbr. e. corpus (planning)) og stöðu þess (sbr. e. status (planning)) en vissulega eru þó mikil tengsl þar á milli. Í erindinu verða þessi hugtök og tengsl þeirra rædd nánar og rýnt í nytsemi slíkrar aðgreiningar við hönnun mælikvarða á málkerfislegar og málfélagslegar afleiðingar náins sambýlis íslensku og ensku. Því verður haldið fram að í því sambandi sé aðgreiningin gagnleg og jafnvel nauðsynleg. Vikið verður að áhrifum þátta eins og virðingar (e. prestige) og viðhorfa málnotenda. Varpað er fram þeirri hugmynd að lýsa megi sambandi íslensku og ensku í dag í hinni óopinberu/duldu málstefnu (e. covert language policy) sem „ástarhaturssambandi": „velvildin" kemur fram í mikilli notkun á ensku á mörgum sviðum samfélagsins (sbr. stöðu) og „óvildin" í sterkri tilhneigingu til að sneiða hjá enskum orðum í formlegum málsniðum (sbr. form).

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði: Mót tveggja heima: Máltaka íslenskra barna og snjalltækjavæðing nútímans

Í þessu erindi verður fjallað um máltöku íslenskra barna á tímum stafrænna miðla og snjalltækja. Rætt verður um hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi til að börn nái valdi á móðurmáli sínu og hvernig dæmigerð máltaka gengur fyrir sig. Meðal annars verður fjallað um það æviskeið sem menn eru næmastir fyrir máli og hvaða áhrif það hefur á málþroska barna á mismunandi aldri ef þau fá ekki nægilega málörvun á móðurmáli eða alast upp við tvö tungumál á máltökuskeiði. Í þessu sambandi verður sjónum einkum beint að aukinni notkun ensku í íslensku málsamfélagi og áhrifum hennar á orðaforða, málkunnáttu og málnotkun barna og ungmenna. Hvaða áhrif er líklegt að aukin enskunotkun barna hafi á þróun íslensku og framtíð hennar? Í þessu sambandi verða m.a. reifaðar kenningar um hvert hlutfall ílags á móðurmáli þarf að vera til að máltaka gangi eðlilega fyrir sig og hvernig virkt tvítyngi málnotenda getur verið fyrsta skrefið í tungumáladauða.

Birna Arnbjörnsdóttir og Ásrún Jóhannsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum og doktorsnemi við Háskóla Íslands: Návígi ensku og íslensku í málumhverfi íslenskra barna

Íslenskir grunnskólar og jafnvel leikskólar hafa tekið upp enskukennslu fyrr en í 4. bekk eins og mælst er til í námskrá. Þrátt fyrir það sýna rannsóknir að framför nemenda sem byrja enskunám snemma leiðir ekki til betri færni í ensku við upphaf 4. bekkjar. Enskunám virðist því eiga sér stað utan skólanna. Þó virðist sú enska ekki nýtast nemendum vel í námi á síðari skólastigum. Í þessu erindi verður lýst rannsóknum á málumhverfi íslenskra barna þar sem enskan virðist allt umlykjandi. Fjallað verður um enskunám innan og utan skóla, málhegðun og viðhorf barna til ensku og íslensku. Að lokum verður rætt mikilvægi þess að skoða tengsl milli ensku- og móðurmálsfærni íslenskra barna á fyrstu árum grunnskóla.

Anton Karl Ingason og Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi við University of Pennsylvania og nemi í talmeinafræði við Háskóla Íslands: Er hægt að lækna þágufallssýki? Máltökulíkön og málbreytingar

Kenningar um máltöku barna eru iðulega notaðar til að skýra gögn sem safnað hefur verið í umhverfi barna, án þess þó að ætlunin sé að rannsakandinn hafi áhrif á framgang máltökunnar. Þessar kenningar hafa samt sem áður forspárgildi um það hvers konar ílag mótar helst mál einstaklinga á tiltekinn hátt. Við ræðum fyrirbrigði þar sem eindreginn málpólitískur vilji hefur komið fram fyrir því að hafa áhrif á málnotkun. Í þessu samhengi munum við ræða um þágufallshneigð og erlend máláhrif og hugsanlegt samspil máltökukenninga og málstefnu. Samkvæmt sumum kenningum um máltöku er til dæmis ekki líklegt til árangurs að staglast á algengum þolfallsfrumlagssögnum eins og langa og vanta heldur væri meiri ástæða til að kynna málhafa fyrir fleiri og sjaldgæfari sögnum ef þeir eiga að geta komið sér upp virku málkerfi sem spornar gegn þágufallshneigð. Við veltum því enn fremur upp hvort fræðileg þekking á máltöku getur komið að notum í baráttunni við stafrænan dauða íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is