Framúrstefnur — að fornu og nýju

Föstudaginn 14. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Á málstofunni er unnið með vísanir framúrstefnu í menningu og listum, bæði sögulega og í samhengi samtíðar. Bakgrunnur hugtaksins er til rannsóknar í tengslum við áherslur og markmið bókmenntum og listum á fyrri hluta 20. aldar auk þess sem fjallað verður um þau goðsagnakenndu minni sem hafa haft áhrif á viðtöku þessara hugmynda fram til vorra daga. Erindin spanna vítt svið, frá greiningu á sögulegu andartaki framúrstefnunnar í aðdraganda síðari heimstyrjaldar til skoðunar á því hvernig lykilhugmyndir framúrstefnu og söguleg virkni birtast í menningu og listum við lok aldarinnar.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Benedikt Hjartarson, lektor í menningarfræðum: Söguleg framúrstefna — söguleg orðræðugreining
  • Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku: Kvenfrelsi og undirokun. Sérkennileg þverstæða hjá þrem ítölskum kvenrithöfundum í lok 19. aldar
  • Hlynur Helgason, lektor í listfræði: Fjármörk og fundnir hlutir — Tengingar við framúrstefnu í verkum Níelsar Hafstein

Málstofustjóri: Hlynur Helgason, lektor í listfræði

Útdrættir:

Benedikt Hjartarson, lektor í menningarfræðum: Söguleg framúrstefna — söguleg orðræðugreining

Í erindinu mun ég kynna niðurstöður rannsóknar sem ég hef unnið að á síðustu árum og snýr að þekkingarlegu samhengi evrópskra framúrstefnuhreyfinga á fyrsta fjórðungi 20. aldar. Í forgrunni verður bókmenntagrein stefnuyfirlýsingarinnar eða manifestósins, sem lýsa má sem sjálfum drifkrafti þess menningarlega verkefnis sem oft er tengd starfsemi hreyfinganna. Varpað verður ljósi á hvernig aðferðafræði sögulegrar orðræðugreiningar getur nýst til að varpa ljósi á sögulegt andartak framúrstefnunnar og þær goðsagnir sem gjarnan hafa verið fyrirferðarmiklar í umræðu um hreyfingarnar. Sjónum verður einkum beint að þeim sérstæða samslætti framsækinnar fagurfræði, róttækrar pólitíkur, dulspekilegrar þekkingar og heimspekilegrar andrökhyggju sem liggur fagurfræðilegu verkefni framúrstefnunnar til grundvallar.

Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku: Kvenfrelsi og undirokun. Sérkennileg þverstæða hjá þrem ítölskum kvenrithöfundum í lok 19. aldar

Í erindi mínu mun ég fjalla um ævisögu ítölsku rithöfundanna Matilde Serao (1856-1927), Anna Radius Zuccari (öðru nafni Neera, 1846-1918) og Rina Faccio (öðru nafni Sibilla Aleramo, 1876-1960) og mun ég greina í stuttu máli nokkur ritverk þeirra sem nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Þessar þrjár konur eru tengdar femínisma sem á Ítalíu sameinaðist hreyfingu sósíalista í lok aldarinnar. Athyglisvert er að tvær af þeim (þ.e. Serao og Neera) eru sérlega mikið á móti femíniskum hugmyndum (menntun fyrir konur, kosningarétti kvenna  o.s.frv.), þó að þeirra líf sé til fyrirmyndar hvað varðar kvenfrelsi. Hins vegar er sú þriðja (þ.e. Aleramo) undirokuð og kúguð sem unglingur og ung kona en hugmyndir hennar eru svo þróaðar að hin stórkostlega sjálfsævisaga hennar, Una donna, er talin fyrsta femíniska í bókmenntaverkum Ítalíu.

Hlynur Helgason, lektor í listfræði: Fjármörk og fundnir hlutir — Tengingar við framúrstefnu í verkum Níelsar Hafstein

Á sýningu sinni á Parísartvíæringnum árið 1980 sýndi Níels Hafstein verk sem byggði á fjármörkun Íslenskra bænda. Þar tók hann hefðbundið kerfi aðgreiningar og yfirfærði yfir á listina þannig að um var að ræða verk sem byggði á kerfi sem skoða má sem fundinn hlut. Á sýningu í Nýlistasafninu árið 1994 minntist hann Benedikts Theódórssonar smiðs, eða Skíða-Bensa eins og hann var einatt kallaður, með sýningu á sérsmíðuðum handsmíðuðum verkfærum hans sem Níels hafði bjargað úr leifum trésmiðjunnar. Þar var sett upp formræn listsýning á fundnum hlutum. Í fyrirlestrinum eru þessir hlutir skoðaðir nánar og tengsl þeirra við framúrstefnuhugmyndir á fyrri hluta 20. aldar.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is