Fréttir frá Yoknapatawpha

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 50 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

William Faulkner (1897–1962) var lítt þekktur höfundur þar til hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1949.  Hann er nú almennt talinn með merkustu höfundum Bandaríkjanna á 20. öld og þykir mestur suðurríkjahöfunda þarlendra, stundum kallaður Dostójevskí suðursins vegna þess hve margradda bækur hans eru. Hann þykir hafa haft áhrif á ótal rithöfunda, t.d. hafa suður-amerísku töfraraunsæishöfundarnir sótt mikið til hans. Þó einbeitti hann sér öðru fremur að því að skrifa um heimahaga sína í Mississippi, þar sem hann bjó lungann úr ævinni, og skapaði í verkum sínum sýsluna Yoknapatawpha sem svipar mjög til heimahéraðs hans. Í málstofunni verður sjónum einkum beint að tengslum Faulkners við Ísland; fjallað verður um Íslandsheimsókn hans árið 1955, tengsl hans við norrænar bókmenntir og um þýðingar á verkum hans. 

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Haukur Ingvarsson, rithöfundur og útvarpsmaður: Faulkner á Íslandi
  • Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Háskólasetur HÍ á Hornafirði: Hetjur og hyski: Rætur Snopes fjölskyldunnar
  • Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist: Að þýðast Faulkner

Málstofustjóri: Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist

Útdrættir:

Haukur Ingvarsson, rithöfundur og útvarpsmaður: Faulkner á Íslandi

Árið 1955 gerði rithöfundurinn William Faulkner víðreist um heiminn á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins. Meðal viðkomustaða hans var Ísland en hér dvaldi hann 12.-19. október. Á ferðalaginu lagði Faulkner sig sérstaklega eftir því að ná til ungs fólks og hér flutti hann m.a. hugvekju í útvarp þar sem hann beindi máli sínu að því sérstaklega, einnig fundaði hann með ungum höfundum og tók þátt í dagskrá í Hátíðarsal Háskóla Íslands á vegum Stúdentafélags Reykjavíkur sem haldin var honum til heiðurs. Íslenskir fjölmiðlar sýndu heimsókninni mikinn áhuga og um hana má finna ýmis konar heimildir sem varpa áhugaverðu ljósi á höfundarnafn Williams Faulkner og íslenskan bókmenntavettvang.

Í erindinu verður staldrað við nokkur stef sem birtast í umræðu um Faulkner og verk hans í tengslum við Íslandsheimsóknina. Einnig verður leitast við að leggja mat á áhrif Faulkners í íslenskum bókmenntum en meðal þeirra höfunda sem hafa gengist við áhrifum frá honum og verkum hans eru Thor Vilhjálmsson og Guðbergur Bergsson. 

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Háskólasetur HÍ á Hornafirði: Hetjur og hyski: Rætur Snopes fjölskyldunnar

Í mörgum verkum Williams Faulkners koma fyrir persónur af Snopes ættinni en það er heldur vafasamt lið; sannkallað hyski í augum margra. Í skáldsagnaþrennu Faulkners: The Hamlet (1940), The Town (1957) og The Mansion (1959) er sögð sagan af því hvernig nokkrir meðlimir þessarar alræmdu fjölskyldu hreiðra um sig, fyrst í sveitaþorpinu Frenchman‘s Bend, í SuðausturYoknapatawpha héraði, og síðar í borginni Jefferson sem er miðja héraðsins. Lýst er hvernig Snápunum tekst smám saman, með ýmsum óhreinum meðölum, að komast til auðs og valda á kostnað gamalgróinna og virta ætta sem áður réðu ríkjum í Yoknapatawpha.

Margir líta á söguna af uppgangi Snápanna sem táknsögu um þær breytingar sem urðu í Suðurríkjum Bandaríkjanna þegar Norðurríkjamenn tóku að flytja sig suður á bóginn og umbylta Suðurríkjamenningu. En í erindi mínu mun ég líta enn norðar og draga fram líkindi sem sjá má með persónum þríleiksins og frægum hetjum norrænna sagna, nánar tiltekið af ætt Niflunga. Skoðuð verða einnig atvik úr frásögn þríleiksins sem eiga óvæntar samsvaranir við hinar norrænu sagnir.

Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist: Að þýðast Faulkner

Verk bandaríska Nóbelsskáldsins Williams Faulkner hafa löngum verið talin illþýðanleg sökum stílbragðanna sem hann beitir. Orðaforði er gjarnan sérstæður sem og setningagerð og ekki gera módernísk tiltæki hans heldur þýðanda auðveldara fyrir. Nú hafa þó nánast öll verk hans verið þýdd á aðrar tungur og svo skemmtilega vill til að Norðmenn urðu fyrstir til að þýða verk eftir hann. Á íslensku var hann fyrst þýddur af Kristjáni Karlssyni árið 1956; það var bókin Smásögur. Árið 1969 kom út þýðing Guðrúnar Helgadóttur á Sanctuary undir heitinu Griðastaður. Á síðustu árum hefur Rúnar Helgi Vignisson svo þýtt tvær af hans þekktustu bókum, Light in August (Ljós í ágúst) og nú síðast As I Lay Dying (Sem ég lá fyrir dauðanum). Í fyrirlestri sínum mun Rúnar Helgi fjalla um aðferðafræði sína við þýðingarvinnuna og skoða nálgun sænskra, danskra og þýskra þýðenda. Hann spyr líka um vinnuskilyrði íslenskra þýðenda og hvort þeir hafi nægt svigrúm til að koma framandleika verks á borð við Sem ég lá fyrir dauðanum til íslenskra lesenda.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is