Gargandi snilld: Dægurmenning sem iðkun, mótun og miðlun

 

Í þessari málstofu munu þrír fræðimenn fjalla um valda þætti í dægurmenningar samtímans með áherslu á iðkun hennar, mótun sjálfsmynda og áhrif nýrra miðlunarleiða.

Málstofustjóri: Davíð Ólafsson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 15.00-16.30 (stofa 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Gunnella Þorgeirsdóttir, lektor í japönskum fræðum: Leikurinn og sögnin: Af birtingamyndum áhangendamenningar á Íslandi
  • Björn Þór Vilhjálmsson, aðjunkt í almennri bókmenntfræði: Áfangar í kvikmyndafræðum
  • Davíð Ólafsson, aðjunkt í menningarfræði: Íslenskt rokk – þú veist hvaðan það kemur. Iðkun og framsetning goðsagnarinnar um íslenska tónlistarundrið
Útdrættir:

Gunnella Þorgeirsdóttir, lektor í japönskum fræðum: Leikurinn og sögnin: Af birtingamyndum áhangendamenningar á Íslandi

Hér verður sjónum beint að áhangendamenningu (fan culture) hérlendis og þá sérstaklega með tilliti til hinnar sívaxandi búningamenningar sem birtist æ oftar óháð öskudegi eða hrekkjavöku. Stórir hópar uppáklæddra ofurhetja streyma á forsýningar í kvikmyndahúsum, teiknimyndapersónur lifna við á CosPlay-keppnum og fólk klætt í stíl gufupönks flæðir á Bíldalíu í júní. Í erindinu skoðar höfundur þetta samfélag áhangenda hér á landi, sér í lagi hvernig textatengsl ýmissa birtingamynda sagna eru nýtt í búningahönnun. Einnig verður þeirri tilgátu velt fram að hér sé um að ræða birtingaform sagna upplifunnar (ostension/legend tripping).

Björn Þór Vilhjálmsson, aðjunkt í almennri bókmenntfræði: Áfangar í kvikmyndafræðum

Árið 1999 kom Heimur kvikmyndanna út í ritstjórn Guðna Elíssonar, safn frumsamdra greina sem spönnuðu vítt svið kvikmyndafræðanna. Fjórum árum síðar fylgdi Áfangar í kvikmyndafræðum, einnig undir ritstjórn Guðna. Segja má að saman séu þessi tvö rit „stóri hvellurinn“ í tilurð kvikmyndafræða á Íslandi, en árið 2005 var kvikmyndafræðin stofnuð sem grein innan námsbrautar Menningargreina við Háskóla Íslands. Áfangar í kvikmyndafræðum er safn fræðilegra greina sem hafa sett mark sitt á fræðilega hugsun um kvikmyndir all tuttugustu öldina, ekki síst eftir að kvikmyndafræðin varð að sjálfstæðri fræðigrein í evrópskum og bandarískum háskólum á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldarinnar. Elsti kaflinn í ritinu er frá miðjum þriðja áratug liðinnar aldar en nýjustu skrifin frá því laust fyrir árþúsundamótin. Í erindinu „Áfangar í kvikmyndafræðum“ verður skyggnst fram á bóginn, hugað að þeim fræðasviðum innan kvikmyndafræðanna sem þyngst hafa vegið undanfarin fimmtán ár og sjónum einkum beint að stafrænu byltingunni og þeim áhrifum sem hún hefur haft á skilning fræðimanna á kvikmyndinni sem miðli og listgrein. Markar koma hins stafræna dauða kvikmyndalistarinnar? Rof af einhverju tagi eða gagngera umbreytingu? Eða er um að ræða rökrétt næsta skref í sögu stöðugra tækniframfara sem ávallt hafa haft áhrif á kvikmyndamiðilinn og upplifun áhorfenda?

Davíð Ólafsson, aðjunkt í menningarfræði: Íslenskt rokk – þú veist hvaðan það kemur. Iðkun og framsetning goðsagnarinnar um íslenska tónlistarundrið

Síðastliðinn aldarfjórðung hefur goðsögnin um íslenska tónlistarundrið í vaxandi mæli orðið burðarás í ímynd og sjálfsmynd Íslendinga, jafnt innan lands sem utan. Listamenn eins og Björk, Sigurrós og Of Monsters and Men hafa – ásamt tónlistarhátíðum eins og Iceland Airwaves – byggt upp þá ný-þjóðernislegu goðsögn að landið og þjóðin séu ein ólgandi deigla sköpunar á sviði dægurtónlistar, knúin áfram af óblíðri en ægifagri náttúru, frumefnum af áður óþekktum hreinleika og kyngi (vatn, loft, eldur, jörð), ævafornri menningarsamfellu, og í einhverjum tilfellum genetískum arfi.

Allt frá útkomu heimildarmyndar Friðriks Þórs Friðrikssonar Rokk í Reykjavík árið 1982 hefur íslensk popp og rokktónlist verið viðfangsefni fjölmargra tónlistarheimildamynda. Þær sögur sem þar eru framsettar í myndum og hljóði, orðum og æði, birta í senn hugmyndir þjóðarinnar um sjálfa sig og umheiminn, sjálfsmyndir tónlistarmanna gagnvart þjóð sinni jafnframt því að endurvarpa sýn annarra á íslenskt samfélag og menningu. Í erindinu verður rýnt í framsetningu og samspil slíkra hugmynda í tónlistarmyndum og greint hvernig umræða um íslenska tónlist og tónlistarmenningu mótar og mótast af gagnvirkri samræðu/samningum milli aðila máls (e. agents).

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is