Grafið úr gleymsku: Minnisrannsóknir í bókmenntum og sagnfræði

Í þessari málstofu fjölluðu bókmenntafræðingar og sagnfræðingar um ýmsar hliðar minnis og gleymsku í ljósi bókmennta, kvikmynda, sjálfsævisögulegra verka og vitnisburða. Minnisrannsóknir standa með miklum blóma um þessar mundir og er hér ætlunin að gefa innsýn í þær margvíslegu myndir sem slíkar rannsóknir taka á sig, enda er þeim fátt mannlegt óviðkomandi.

Fyrirlesarar:

  • Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði: Gleymskan í minninu: um sérstakt hugtakasamband
  • Daisy Neijmann, dósent í íslensku, University College London: Skilningslaus, hlutlaus, getulaus. Gluggað í minningar Páls Jónssonar blaðamanns
  • Sigrún Sigurðardóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði: Afgerandi augnablik

Málstofustjóri: Ásdís Sigmundsdóttir, doktorsnemi 

Christina Folke Ax, sjálfstætt starfandi fræðimaður, og Íris Ellenberger, doktorsnemi í sagnfræði: Aðlögun að íslensku samfélagi 6.-8. áratugar 20. aldar í minni danskra innflytjenda í samtímanum
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum: Barn að eilífu
Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði: Mín „fyrsta“ minning ...

 

Útdrættir:

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði
Gleymskan í minninu: um sérstakt hugtakasamband

Í erindinu verður rætt um tengsl hugtakanna minnis og gleymsku. Oft hefur verið bent á að gleymska er ekki andheiti eða andstæða minnis, heldur einmitt að samband þessara fyrirbæra sé mun nánara en svo; gleymska sé alltaf þáttur í hverri minningu. Fræðimenn hafa stungið upp á öðrum hugtökum til að lýsa andstæðu minnisins, eins og ‚þögn‘ eða ‚desmemoria‘. Orðin ‚óminni‘ og ‚algleymi‘ geta einnig varpað ljósi á þetta sérstaka samband. Hér verður skoðað hvernig þessi hugtakanotkun varpar ljósi á margar hliðar minnis og gleymsku, til dæmis varðandi heilastarfsemi, pólitík minnisins, viljandi gleymsku, bældar minningar og tráma. 

Daisy Neijmann, dósent í íslensku, University College London

Skilningslaus, hlutlaus, getulaus. Gluggað í minningar Páls Jónssonar blaðamanns

Í þessu erindi verður kannað hvernig skáldsögurnar Gangvirkið og Seiður og hélog(Páls saga) eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson fjalla um afleiðingar sektarkenndar og tráma í kjölfar þeirra djúptæku breytinga sem áttu sér stað í íslensku samfélagi á árum síðari heimsstyrjaldar. Sérstaklega verður athugað, út frá kenningum minnisfræða, hvort túlka mætti persónuleika Páls sem tákn um ‚fjarveru‘ frá sögulegum atburðum og endurminningaformið sem tilraun til að fást við beyg, sektarkennd og ‚minniskreppuna‘ svokölluðu, sem minnisfræðingar telja fylgifisk nútímans.

Sigrún Sigurðardóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði

Afgerandi augnablik

Í erindi sínu mun Sigrún Sigurðardóttir fjalla um hugmyndina um afgerandi augnablik í ljósi skrifa fræðimanna um trámatískar minningar og úrvinnslu þeirra. Fjallað verður um sjónrænar birtingarmyndir hins trámatíska, hugmyndina um hið afmarkaða augnablik í flæði tímans og samruna fortíðar og nútíðar í ljósi skrifa fræðimanna (m.a. Walters Benjamin, Pauls Ricoeur og Cathy Caruth) og verka listamanna sem unnið hafa með minningar í verkum sínum. KvikmyndinAntíkristur eftir danska leikstjórann Lars von Trier verður skoðuð sérstaklega í þessu samhengi.

Christina Folke Ax, sjálfstætt starfandi fræðimaður, og Íris Ellenberger, doktorsnemi í sagnfræði
Aðlögun að íslensku samfélagi 6.-8. áratugar 20. aldar í minni danskra innflytjenda í samtímanum

Í erindinu verður fjallað um viðtalsrannsókn sem framkvæmd var á rúmlega 30 Dönum af elstu kynslóð þeirra sem nú eru lifandi. Þar kemur fram hvernig viðmælendur tala um aðlögun sína að íslensku samfélagi, hvaða þættir liggi að baki aðlöguninni og hvaða skilyrði þeir þurfi að uppfylla til að teljast gjaldgengir í íslensku samfélagi. Fjallað verður um þá möguleika og annmarka á að reiða sig á minni viðmælenda við sagnfræðilegar rannsóknir á aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi fyrr á tímum. Ein af þeim spurningum sem tekist verður á við í erindinu lýtur að því hvort vitnisburður viðmælendanna um aðlögun sé lýsandi fyrir 6.-8. áratug 20. aldar eða hvort hann endurspegli fyrst og fremst umræðuna um innflytjendur í samtímanum.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum
Barn að eilífu

Eitt eigum við öll sameiginlegt: við munum ekkert frá fyrstu árum ævinnar. Fyrstu bernskuárin eru ekki skrásett í minningunum (segjum við) og þó vitum við oft hvað ætti að vera þar. „Bernska okkar“ er fyllt af tungumáli, tilfinningum og sögum sem gjarna eru sagðar í barnabókunum sem haldið er að okkur. Frægasta barnabók allra tíma er sagan af barninu eilífa, Pétri Pan. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig upprunagoðsagnir um sakleysi, sannleika og gleði bernskunnar byggjast á harðhentri ritskoðun og gleymsku.

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði
Mín „fyrsta“ minning ...

Margir höfundar sjálfsæviskrifa hefja frásögn af ævi sinni með því að lýsa sinni fyrstu minningu. Stundum reynist þeim reyndar erfitt að negla „fyrstu“ minninguna niður og nefna til sögunnar fleiri en eina „fyrstu“ minningu. Í erindinu verða rædd nokkur dæmi úr íslenskum og erlendum bókmenntum sem snúast um lýsingu á „fyrstu“ minningu og velt vöngum yfir þeim vanda sem menn standa frammi fyrir þegar þeir reyna að nálgast minningar sem eiga rætur að rekja til upphafsára ævinnar.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is