Hagnýtt siðfræði

Laugardaginn 15. mars kl. 10.00-16.30 í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Á undanförnum áratugum hefur siðfræði í ríkum mæli verið beitt til greiningar á raunhæfum úrlausnarefnum samtímans. Á málstofunni verður fjallað um hagnýtingu siðfræðinnar út frá margvíslegum sjónarhornum, en áherslurnar eru einkum þrenns konar. Í fyrsta lagi verður fjallað um tilefni, einkenni og viðfangsefni hagnýttrar siðfræði, hún skoðuð í sögulegu ljósi og hugað að aðferðafræðilegum þáttum. Í öðru lagi er hagnýtt siðfræði tekin til gagnrýninnar skoðunar, hugað að takmörkunum hennar og þeim forsendum sem hún byggir á um viðfangsefni sín og efnistök. Í þriðja lagi verður leitast við að sýna með dæmum hvernig siðfræðin er hagnýtt á ólíkum sviðum samfélagsins.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Hvernig er hagnýtt siðfræði?
  • Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Hugleiðing um hagnýta siðfræði í ljósi sögunnar
  • Ástríður Stefánsdóttir, dósent í siðfræði: Hagnýt siðfræði: Aðferðarfræðileg tilraun
  • Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki: Siðveran í flækju veruleikans: Femínísk og pósthúmanísk siðfræði
  • Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræði:  Þú skalt ekki stela! Hagnýting siðfræði í viðbrögðum við kynferðisofbeldi innan trúarstofnana
  • Guðmundur H. Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri: Geta börn haft rétt til opinnar framtíðar?
  • Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri: Virðing fyrir sjálfræði án ígrundunar
  • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Heila- og taugarannsóknir: Siðfræðileg álitamál
  • Henry A. Henrysson, verkefnisstjóri á Siðfræðistofnun: Skotveiðar á spendýrum
  • Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Ætti viðskiptasiðferði að vera ókristilegt?

Málstofustjóri: Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki

Útdrættir:

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Hvernig er hagnýtt siðfræði?

Í erindinu verður leitast við að sýna hvernig siðfræði er hagnýtt og varpað ljósi á helstu spurningar sem vakna við það. Tekið er fyrir tilvik eða stutt saga úr raunveruleikanum sem kallar á siðfræðilega greiningu. Tilvikinu er lýst og dregin saman þau siðfræðilegu úrlausnarefni sem það felur í sér. Sýnt verður hvernig greining á aðstæðum, þar sem þýðingarmiklar staðreyndir málsins þurfa að liggja fyrir, spilar saman við siðalögmál á borð við sjálfræði, velferð og réttlæti. Bent verður á helstu fræðilegu álitaefni sem rísa við slíka greiningu og pytti sem forðast þarf að falla í. Spurt verður um mikilvægi siðfræðikenninga við greiningu af þessu tagi og hugað að muninum á hagnýttri og kennilegri siðfræði.

Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Hugleiðing um hagnýta siðfræði í ljósi sögunnar

Heimspekingum fornaldar þótti mikilvægt að spyrja hvernig lífinu skyldi lifað. Spurningin var mikilvæg vegna þess að svarið átti að ráða því hvernig þeir höguðu lífi sínu. Þessi sýn á samband fræða og lífs hefur heillað. En siðfræði hefur ekki alltaf verið beintengd lífinu á þennan hátt (þótt hagnýt siðfræði samtímans fáist vissulega við afmörkuð vandamál, hvort heldur hún geri það á grundvelli siðfræðikenninga eða ekki). Innan samtímans hefur slíkt samband jafnvel talist gild réttlæting siðfræðinnar. Hverjar voru forsendur heimspekinga fornaldar sem beintengdu fræðin og lífið?

Ástríður Stefánsdóttir, dósent í siðfræði: Hagnýt siðfræði: Aðferðarfræðileg tilraun

Í þessu erindi lýsi ég aðferðarfræðilegri tilraun þar sem hugtökum er beitt til að fá dýpri þekkingu og skilning á siðferðilegum álitamálum í íslensku samfélagi. Siðferðileg markmið eru notuð til að taka gildishlaðna afstöðu til álitamálanna. Jafnframt er gerð tilraun til að greina stöðu og hlutverk fagstéttar í samfélaginu. Vettvangur umfjöllunarinnar er læknisfræði í íslensku samfélagi. Spurningin sem er til umfjöllunar snertir hlutverk og þróun heilbrigðisþjónustu og þróun fagstéttar lækna  í samfélaginu. Greiningin fer fram í gegnum umfjöllun um siðferðileg álitamál. Þau tengjast öll heilbrigðisþjónustu og starfi lækna og hafa verið í opinberri umræðu síðastliðin ár. Spurt er hvort álitamálin séu raunverulega réttmæt viðfangsefni læknisþjónustu. Með því að beina kastljósinu að dæmum sem vekja upp þá spurningu er gerð tilraun til að fá hugmynd um mörk þjónustunnar annars vegar og fagstéttarinnar hins vegar. Unnið er út frá greiningu þar sem færð eru rök fyrir því að læknisfræði í samfélaginu mótist af tveimur þáttum. Annars vegar sé kjarni hennar leiddur áfram af innra markmiði eða telosi sem sé sammannlegt og hafið yfir tíma og rúm. Á hinn bóginn hafa verið greindir hugmyndafræðilegir áhrifavaldar í samfélagi okkar sem móta læknisfræðina og þá jafnframt starf  lækna.

Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki: Siðveran í flækju veruleikans: Femínísk og pósthúmanísk siðfræði

Femínísk siðfræði hefur komið fram með öfluga gagnrýni á húmanisma siðfræðihefðarinnar að því leyti sem hugmyndir heimspekilegrar siðfræði fela í sér hugsjón um mennsku sem hefur ekki hvað síst birst í getu siðverunnar til að fella sjálfráða, algildiskræfa siðadóma. Gagnrýni femínískrar siðfræði á einhliða áherslu á sjálfræði einstaklinga byggir á hugmyndum um siðveruna sem tengslaveru sem er skilyrt á ýmsan hátt af aðstæðum. Þessari gagnrýni liggur til grundvallar sá hugmynd að maðurinn sé líkamsvera og þ.a.l. tilfinningavera. Af því við erum líkamar fæðumst við inn í tengsl við aðra menn, samfélag/menningu og erum í tilteknu ástandi, aldri, kyni, o.s.frv. Í hugvísindum kenndum við pósthúmanisma er að finna nánari útfærslu á mannverunni sem tengslaveru. Mannhverf sýn heimspekilegrar siðfræði víkur þar fyrir póstmannhverfri sýn á manninn sem staðsettur er í tengslum við mennsk og ómennsk dýr, í tæknikerfum og í flækju veruleikans. Hvaða gagn er að þessari sýn fyrir siðfræði samtímans? Sú spurning hlýtur að fela í sér einhverjar vísbendingar um hvers konar siðfræði gæti verið gagnleg og í hvaða tilgangi.

eftir hádegi á laugardegi:

Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræði: Þú skalt ekki stela! Hagnýting siðfræði í viðbrögðum við kynferðisofbeldi innan trúarstofnana

Fjöldi kirkjudeilda víða um heim hefur um lengri tíma staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að meðal vígðra þjóna kirknanna eru kynferðisafbrotamenn sem brjóta gegn sóknarbörnum sínum. Í fyrirlestrinum verður rýnt í guðfræðilega og siðfræðilega greiningu og túlkun Dr. Marie M. Fortune á þessu vandamáli. Fortune segir kynferðislegt ofbeldi vera synd og til að fordæma hana lítur hún til boðorðanna tíu. Það er þó ekki sjöunda boðorðið, „Þú skalt ekki drýgja hór“ sem hún tengir syndina við, heldur áttunda boðorðið, „ Þú skalt ekki stela“. Guðfræðileg og siðfræðileg túlkun Fortune á áttunda boðorðinu í tengslum við kynferðislegt ofbeldi er rædd jafnframt því sem leitast er við að skýra skilning Fortune á kynverund manneskjunnar sem liggur til grundvallar fyrrnefndri túlkun hennar.

Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri: Geta börn haft rétt til opinnar framtíðar?

Börn hafa hagsmuni eins og aðrar manneskjur. Sumir hagsmunir þeirra stafa af því að þau þarfnast umönnunar og forsjár fullorðinna en aðrir af því að þau verða á endanum fullveðja sjálfráðir einstaklingar. Sjálfráðir einstaklingar geta mótað líf sitt að einhverju leyti, kannski flestu leyti. En hvernig á að haga uppeldi og menntun barna og unglinga svo að þau ráði við það verkefni að móta og stýra eigin lífi? Er hægt að ala börn og unglinga þannig upp að framtíð þeirra sé opin þegar þau verða fullveðja og ráða eigin gerðum? Hvað merkir það að framtíð þeirra sé opin? Iðulega er það þannig að fullveðja manneskju líkar tilteknir lífshættir einmitt vegna þess að hún hefur alist upp við þá. En þá er hinni fullveðja manneskju ekki fyllilega sjálfrátt við að móta og stjórna eigin lífi. Leitað verður svara við því hvort og hugsanlega hvernig gera má ráð fyrir því að framtíð barna og unglinga geti verið opin í þeim skilningi að þau verði fær um að stjórna eigin lífi þegar þau eru fullveðja. Sömuleiðis verður leitast við að svara því hvernig uppeldi barna og unglinga gæti verið svo að þau verði fær um að leysa þetta verkefni þegar þau verða fullorðin.

Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri: Virðing fyrir sjálfræði án ígrundunar

Í hagnýttri siðfræði er oft vísað til þeirrar mikilvægu siðareglu að virða skuli sjálfræði einstaklinga, sem m.a. er talin leiða af sér kröfur um upplýst samþykki í tengslum við heilbrigðisþjónustu og rannsóknir. Þessi tengsl virðingar og upplýsts samþykkis virðast augljós þegar um er að ræða einstaklinga sem hafa áhuga og hæfni til að vega og meta upplýsingar og taka ákvarðanir sem varða eigin hag í ljósi þeirra. Hagnýtt siðfræði hefur hins vegar vanrækt þá spurningu hvað virðing fyrir persónu/manneskju feli í sér í því tilviki þegar hún er fjarri því að falla að þessari staðalímynd hins upplýsta nútímamanns, t.d. vegna skorts á hæfni, löngun eða vilja, eða vegna þess að skynsamleg yfirvegun ákvarðana samræmist illa lífsgildum eða lífsmynstri einstaklingsins. Í erindinu verður leitað svara við þessari spurningu út frá sjónarhorni kantískrar siðfræði annars vegar og afleiðingahyggju hins vegar. Færð verða rök fyrir því að kantíska nálgunin eigi betur við og að sé hún valin leiði það til ákveðinna svara við því hvernig bregðast ætti við aðkallandi vanda og hvernig starfsreglur og siðareglur ættu að leiðbeina um slíkar aðstæður.

eftir síðdegiskaffi á laugardegi:

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Heila- og taugarannsóknir: Siðfræðileg álitamál

Markmið rannsókna á heila- og taugakerfi miða flestar að því að auka færni og getu manneskjunnar. Í sumum tilfellum er verið að bæta skaða sem sjúkdómar valda, eins og Parkinson, eða draga úr einkennum taugaþroskaröskun eins og ADHD, en í öðrum tilfellum er stefnt að því að efla getu heilbrigðra einstaklinga, líkt og þegar nemendur sækja í lyf til að efla minni. Í þessum fyrirlestri verða reifuð þau siðferðilegu álitaefni sem tengjast þessum rannsóknum og þeirri spurningu velt upp hversu langt megi ganga í að bæta heila- og taugastarfsemi.

Henry A. Henrysson, verkefnisstjóri á Siðfræðistofnun: Skotveiðar á spendýrum

Siðfræði er meðal annars rökleg greining á þeim gildum og viðhorfum sem eru til staðar í samfélaginu. Slík rökleg greining á skoðunum fólks hugar meðal annars að samræmi og bendir á mögulegar mótsagnir. Fá viðhorf virðast í fljótu bragði vera eins ruglingsleg og viðhorf okkar til dýra, ekki síst til spendýra. Okkur þykir eðlilegt að ein tegund sé borðuð en önnur ekki, að gerðar séu tilraunir á vissum tegundum og að sum dýr séu flokkuð sem meindýr og því réttdræp með hvaða aðferð sem er. Í erindinu verður sjónum beint að siðferðilegum álitamálum varðandi skotveiðar á spendýrum og skoðað hvers konar afstaða til þeirra sé líklegust til að forða okkur frá því að leiðast inn í mótsagnakenndan hugmyndaheim.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Ætti viðskiptasiðferði að vera ókristilegt?

Í fyrirlestrinum verður leitast við að sýna hvernig forsendur sem kristnir menn gefa sér iðulega um siðferði og siðferðilega verðleika falla illa að viðskiptasiðferði (e. business ethics). Þetta birtist t.d. í hugmyndum kristinna um vægi hugarfars og hjartalags, áherslu þeirra á tilfinningar, fórnfýsi og biðlund. Kristnir menn hafa því oft átt erfitt með að koma auga á siðferði í viðskiptum en formælendur viðskiptalífsins hafa líka margir hafnað mikilvægi siðferðis fyrir viðskipti á kristnum forsendum, jafnvel þótt þeir leggi áherslu á samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þá segja þeir gjarnan að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja hafi ekkert með siðferði (kristið siðferði?) að gera.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is