Hálf-karlar eða fullgildir einstaklingar? Staða kvenna í kjölfar kosningaréttar

 

Málstofan tengist rannsóknarverkefninu Í kjölfar kosningaréttar, sem er félags- og menningarsöguleg rannsókn á því hvernig konur nýttu þau borgaralegu réttindi sem þær fengu í upphafi 20. aldar til að móta sér líf sem var í grundvallaratriðum frábrugðið lífi formæðra þeirra. Eitt af markmiðum rannsóknarinnar er að skoða þá þætti sem móta samfélagslegar hugmyndir um gerendahæfni kvenna og hugmyndir kvenna um sjálfar sig sem pólitíska þegna og gerendur.

Í málstofunni munu þrír fræðimenn ræða sögu kvenna á 20. öld út frá nýju sjónarhorni þar sem eldri frásagnir eru endurskoðaðar og ný hugtök og rannsóknaraðferðir prófaðar. Til umræðu eru tilraunir kvenna til þess að skrá sína eigin sögu og þannig skora á hólm hefðbunda karlasögu; rýnt er í orðræður um listsköpun kvenna út frá sjónarhorni kyngervis. Loks verður femínískum kenningum um samtvinnun (e. intersectionality) beitt til að skoða takmarkanir sigurgöngusögunar um kosningarétt kvenna árið 1915. 

 

 

Málstofustjóri: Erla Hulda Halldórsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 13.15-14.45 (stofa 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Erla Hulda Halldórsdóttir, sérfræðingur við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands: Merkiskonur. Tilraunir til þess að skrifa sögu kvenna
  • Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna: „Því miður eruð þér ekki á kjörskrá“. Takmarkanir kosningaréttarins 1915
  • Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði: Málaðu eins og maður, kona!

​Fundarstjóri: Ragnheiður Kristjánsdóttir, dósent í sagnfræði

Útdrættir:

Erla Hulda Halldórsdóttir, sérfræðingur við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands: Merkiskonur. Tilraunir til þess að skrifa sögu kvenna

Þegar íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis árið 1915 stóðu þær frammi fyrir nýjum áskorunum sem „löglegir borgarar þjóðfélagsins“. Í samræmi við hin nýfengnu réttindi þurftu þær að endurskilgreina stöðu sína og gerendahæfni. Það þýddi meðal annars að leita uppi og skrifa um afrek kvenna í fortíð og samtíð og á þann hátt byggja undir og styrkja sjálfsvitund kvenna sem lögmætir sögulegir (og þar með pólitískir) gerendur í samfélaginu. Í fyrirlestrinum verður rætt um tilraunir kvenna til þess að skrifa sína eigin menningar- og félagssögu í gegnum tímarit og blöð kvenna, endurminningar og sjálfsævisögur á fyrri hluta 20. aldar. Til hliðsjónar eru kenningar ítalska heimspekingsins Adriana Cavarero sem hefur í bók sinni Relating Narratives (2000) fjallað um þrá mannfólksins til að heyra sína eigin sögu sagða. Í gegnum slíka frásögn öðlast manneskjan sjálfsskilning, lærir að þekkja sjálfa sig. Þótt Cavarero ræði fyrst og fremst um einstaklinga í þessu samhengi og sjálfs/ævisögulegar frásagnir er áhugavert að yfirfæra þessa hugmynd yfir á konur og sögu þeirra. Án sögu ertu ekki til. 

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna: „Því miður eruð þér ekki á kjörskrá“. Takmarkanir kosningaréttarins 1915

Femínískum kenningum um samtvinnun (e. intersectionality) hefur að takmörkuðu leyti verið beitt í íslenskum sagnfræðirannsóknum. Í þessu erindi verður reynt að nýta slíkar kenningar til þess að rýna með gagnrýnum hætti, í ríkjandi sigurgöngusögu um kosningarétt kvenna 1915. Sjónum verður beint að persónulegum frásögnum sem og opinberum gögnum, sem vitna um takmörkun kosningaréttarins, og skoðað hvernig samtvinnun kyns, aldurs, stéttarstöðu, fötlunar eða veikinda gat takmarkað borgararéttindi fólks, og jafnvel svipt konur (og karla) hinum nýfengna kosningarétti og þannig hindrað að þær gætu stigið fram sem fullgildir pólitískir þegnar og gerendur í íslensku samfélagi.

Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði: Málaðu eins og maður, kona!

Þegar rýnt er í listsögulega orðræðu með kynjafræðilegri greiningu og stuðst við aðferðir og kenningar þar sem hugtakið kyngervi (e. gender) kemur fyrir, má greina viss leiðarstef. Í opinberri orðræðu frá síðari hluta 19. aldar fram á sjöunda áratug 20. aldar er fjallað á ólíkan hátt um verk karla og kvenna í myndlist. Þannig er oft dregin fram í orðræðunni viss eðlismunur kynjanna sem á að birtast í verkum þeirra. Hinir kvenlægu þættir öðlast neikvæða merkingu í myndlistinni en hinir karllægu endurspegla hugsun og atgervi frumherjans. Má greina svipað viðhorf allt tímabilið, að myndlistarkonur þyrftu í raun „að mála eins og menn“ til að gera sig gildandi og dugði þó ekki alltaf til. Í erindinu verður rýnt í nokkur dæmi sem renna stoðum undir tilvist slíks viðhorfs í listsögulegri orðræðu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is