Hátíð orðanna

Hvenær hefst þessi viðburður: 14. desember 2013 - 14:00
Staðsetning viðburðar: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðasalur

Hugvísindasvið Háskóla Íslands býður til orðahátíðar laugardaginn 14. desember næstkomandi kl. 14:00-15:30. Á Hátíð orðanna verða veitt verðlaun fyrir þær tillögur að fegursta orðinu sem hlutskarpastar urðu í kosningu á meðal almennings í síðasta mánuði. Flutt verða fimm stutt erindi um orðaleitina og sitthvað hnýsilegt sem þar kom fram. Rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir og Þórarinn Eldjárn segja einnig nokkur orð um tungumálið. Tónlist mun hljóma áður en tekið verður til máls: Gunnar Gunnarsson leikur á píanó.

Hátíð orðanna er öllum opin og fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Alls bárust tillögur um fegursta orðið frá um 8.500 einstaklingum og úr þeim valdi starfshópur Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og RÚV 30 orð, tíu í hverjum aldurshópi, bæði með hliðsjón af orðinu og ástæðu fyrir tilnefningunni. Almenningi gafst svo kostur á að kjósa á milli þessara orða og alls greiddu rúmlega þrettán þúsund manns atkvæði.

Í yngsta aldursflokknum reyndist tillaga um orðið spékoppar hlutskörpust með 1.962 atkvæði . Í hópi 16-25 ára var hugfanginn vinsælast með 3.984 atkvæði og í hópi 26 ára og eldri fékk ljósmóðir flest atkvæði, eða 4.258. Veitt verða bókaverðlaun fyrir efstu tillöguna í hverjum aldurshópi og ferðaverðlaun fyrir þær sem urðu í fyrsta sæti.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is