Hebreskur kveðskapur úr Gamla testamentinu

Föstudagur 9. mars kl. 13-14.30
Stofa 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Mun stærri hluti Gamla testamentisins er í bundnu máli heldur en almennt er talið. Í þessari málstofu verður leitast við að varpa ljósi á hinn fjölbreytilega hebreska kveðskap eins og hann birtist í Gamla testamentinu, bæði í Davíðssálmum og annars staðar í hinum hebresku ritningum.  Sum einkenni hins hebreska kveðskapar skila sér vel í þýðingum en önnur síður eða ekki, eins og sýnt verður fram á í málstofunni.

Fyrirlesarar:

  • Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði: „Ég hef augu mín til fjallanna.“ 121. Sálmur Saltarans í samhengi helgigönguljóðanna (Slm 120-134)
  • Jón Ásgeir Sigurvinsson, doktornemi í guðfræði: „Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra  … Hallelúja.“ Um guðfræðilega ritstjórn Saltarans
  • Kristinn Ólason, stundakennari í guðfræði: "Vakna, vakna, syngdu söng" (Dóm. 5.12)

Útdrættir: 

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði
„Ég hef augu mín til fjallanna.“ 121. Sálmur Saltarans í samhengi helgigönguljóðanna (Slm 120-134)

Slm 121 er meðal vinsælustu sálma Saltarans og margt má af honum læra um einkenni hebresks kveðskapar. Hann er einstaklega skipulega uppbyggður og  með sterki áherslu á hebresku rótinni „sjmr“ sem kemur sex sinnum fyrir (vörður, vernda, varðveita) í sálminumog undirstrikar þannig rækilega hið sterka trúartraust sem öðru fremur einkennir sálminn. Í þessu erindi hvílir áherslan hins vegar á því að kanna sálminn í ljósi samhengis helgigönguljóðanna svonefndu (Slm 120-134) og spurt er hverju þetta samhengi breytir við túlkun sálmsins.

 

Jón Ásgeir Sigurvinsson, doktorsnemi í guðfræði
„Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra  … Hallelúja.“ Um
guðfræðilega ritstjórn Saltarans

Saltarinn, eða Davíðssálmar, er safn sálma af ólíku tagi og frá ólíkum
tímum. Síðustu áratugi hefur athygli ritskýrenda í auknum mæli beinst að
innbyrðis tengslum sálmanna í Saltaranum, bæði þeirra sem standa hver nærri
öðrum en einnig víðfeðmari tengslum, svo sem í þeim tilgangi að mynda ramma
utan um hverja einstaka af fimm bókum sálmasafnsins eða jafnvel utan um
Saltarann í heild. Í erindinu verður sjónum sér í lagi beint að fyrstu
tveim sálmum Saltarans annars vegar og síðustu tveim sálmunum hins vegar og
reynt að varpa ljósi á hvaða meðulum er beitt til að tengja sálmapörin
saman í þeim tilgangi að mynda ramma um sálmasafnið og hvaða skilaboð
felast mögulega í tengingunni.

 

Kristinn Ólason, stundakennari í guðfræði
"Vakna, vakna, syngdu söng" (Dóm. 5.12)

Dómarabókin 5 geymir eitt af mögnuðustu ljóðum Biblíunnar. Ljóðið er
skrifað í stíl lofsöngs, en það samanstendur af ólíkum hefðum og stefjum
sem raðað hefur verið saman á athyglisverðan hátt. Í erindi þessu verður
gerð grein fyrir uppbyggingu, merkingu og markmiði textans. Þá verður gerð tilraun til að leggja mat á forsögu textans og afmarka elstu einingar hans frá síðari tíma viðbótarefni. Hvaða ályktanir má draga um uppruna textans á grundvelli slíkra ályktana?

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is